18.11.2007 | 20:17
BJART ER YFIR BETLEHEM, AFSAKIÐ, GLATT YFIR GARÐHEIMUM.
Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að blogga verð ég að taka pistil til endurskoðunar vegna misheyrnar. Í fyrrakvöld heyrðist mér að sagt væri í sjónvarpsauglýsingu: Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna. Í kvöld heyrði ég þessa auglýsingu aftur og uppgötvaði að þetta var misheyrn hjá mér í fyrrakvöld. Nú hljómar þetta svona: "Glatt er yfir Garðheimum / glitrar jólastjarna." Þetta er þó skárra en það sem mér heyrðist í fyrrakvköld vegna þess að ljóðstafasetningin er rétt og því falla dauð niður ummæli mín um ranga ljóðstafasetningu og biðst ég afsökunar á því.
Að öðru leyti er eðli málsins hið sama, - að taka jólasálm sem allir þekkja og er fólki tamur á tungu og afbaka hann í gróðaskyni án þess að hafa samband við afkomendur höfundar sálmsins vegna höfundarréttar sem meðal annars felst í svonefndum sæmdarrétti.
Hvað myndi fólk segja ef þessi auglýsing færi að dynja: "Í Bónusi er barn vort klætt / barn vort klætt." Mér skilst að hægt sé að kaupa sokkaplögg í Bónusverslunum svo að þetta er ekki útilokað.
Eða ef versluninn Örninn auglýsti: "Heims um ból / helg eru hjól"...?
Ég veit það bara að mér yrði ekki sama ef auglýst væri: "Úr og klukkur klingja / kalda vetrarnótt" og síðan nefnt nafn úrsmiðsins sem auglýsti svona.
Ég verð að segja að mér finnst það ekki lýsa frumleika þegar seljendur varnings finna ekkert annað til að auglýsa varning sinn með en afbakanir á þekktum sálmum eða jólalögum. Þvert á móti finnst mér það lýsa hugmyndafátækt að ekki sé talað um smekkleysi og tillitsleysi gagnvart höfundum og rétti þeirra.
Næsta skref hjá Garðheimum gæti verið að láta syngja og spila í auglýsingu: "Allt eins og blómstrið eina / upp vex í Garðheimum."
Kannski hefði ég átt að sleppa þessu með útfararsálminn vegna þess að Hallgrímur Pétursson er svo löngu dauður að ekki er hætta á afskiptum höfundar eða erfingja hans og ég er kannski að benda eigendum Garðheima auðvelda leið til að nota sálma til að auka söluna hjá sér.
Öðru máli gildir hins vegar um Ingólf heitinn Jónsson frá Prestbakka, höfund jólasálmsins "Bjart er yfir Betlehem" sem var samtíðarmaður meirihluta Íslendinga og á nána að til að leita réttar í þessu máli ef til þess kemur.
Þar rennur mér meira að segja blóðið til skyldunnar.
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála þér, Ómar. Það er í hæsta máta ósmekklegt að afbaka jólasálma með þessum hætti í auglýsingaskyni.
Þorsteinn Siglaugsson, 19.11.2007 kl. 11:38
"Heims um ból / helg eru hjól", góð hugmynd
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 12:45
"Er lágt er á lofti sólin / þú kemst ekki í kjólinn"....
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 13:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.