EKKI SEINNA VÆNNA.

Það er ekki seinna vænna að fólk á suðuvesturhorni landsins ranki við sér hvað varðar þá leið virkjanahraðlestarinnar sem liggur um Reykjanesskagann. Ályktun Hvergerðinga gegn Bitruvirkjun er því fagnaðarefni. Fyrir tæpum áratug uggðu þeir ekki að sér og leyfðu lagningu háspennulínu að óþörfu nánast yfir fallega hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Nú hafa þeir vaknað og er það vel. Ekki skal erfa mistök fortíðar og kannski kemur sá tími sem menn muni geta fært háspennulínuna til.

Ég tel viðleitni náttúruverndarfólks til að andæfa Bitruvirkjun ekki geta talist öfgar í ljósi þess að þetta virkjunarsvæði er landfræðilega aðeins eitt af sex slíkum svæðum á Hengilssvæðinu.

Á sínum tíma voru sunnlenskar mýrar ræstar fram og framræsla hverrar einustu mýrar var þá talið þjóðþrifaverk. Svo vöknuðu menn upp við það að búið var að eyða 97% votlendis á Suðurlandi, langt umfram eðlilegar þarfir, og sjá eftir því í dag að hafa gengið svo langt fram.

Rétt eins og við, sem andæfum Bitruvirkjun, erum kölluð öfgafólk, var það sama sagt um Nóbelskáldið og aðra sem vöruðu við allsherjar útrýmingu votlendis í stórum landsfjórðungum.

Þeir sem heimta að allt virkjanlegt sé virkjað kalla sig hins vegar hófsemdar- og skynsemdarfólk.

Ég býð Hvergerðinga velkomna í hóp hins svokallaða "öfgafólks." Mæli þeir manna heilastir. Dilkadráttur virkjanasinna á fólki í hópa öfgafólks eða hófsemdarfólks dæmir sig sjálfur.  


mbl.is Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek ofan fyrir Hvergerðingum fyrir að standa vörð um þessa náttúruperlu, en austasti hluti svæðisins er bókstaflega alveg við bakdyrnar hjá þeim. Bendi á bloggið mitt um Bitruvirkjunarmálin hér. Þar kemur margt fram um þessa vafasömu aðgerð og vinnubrögð henni tengdri.

Oft er talað um fólk sem andæfir náttúruspjöllum sem öfgafólk eða hreinlega hryðjuverkamenn og fyrirtækin sem um ræðir hafa fólk á launum við að afskræma umræðuna. Ég held að nú sé tímabært að snúa þessum orðum yfir á þá sem vilja engu eira og æða um með dollaraglampa í augum, ólmir í að reisa virkjanir hvar sem er - sama hvað það kostar umhverfið, okkur sem nú lifum og komandi kynslóðir.

 

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.11.2007 kl. 14:58

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég rakst á skondna umræðu hér - ef umræðu skal kalla. Ég afritaði þetta og ætla að halda því til haga upp á seinni tíma. Og ég man ekki betur en að í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar í vor hafi sprottið fram umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum svo eftir var tekið. Þeir eru búnir að steingleyma því, þessir félagar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.11.2007 kl. 16:18

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta er nú afar einfalt Ómar. Þetta skiptist í þrjá hópa.

Öfga virkjunarsinna sem vilja virkja hverja sprænu og hvern hver.

Hófsemdarfólk sem vill virkja eftir þörfum á skynsaman hátt.

Öfga umhverfisverndarsinna sem vilja ekkert virkja framar.

Það skondna er síðan að allflestir úr síðastnefnda hópnum eru ekki umhverfisverndarsinnar nema að nafninu til því að það þarf fleira til en að vera á móti virkjunum til að geta kallað sig það. Sannaðist einna best á flokks-(útblásturs)þingi VG þar sem aðeins enn nennti að ganga eða hjóla á staðinn þrátt fyrir að skammt væri að fara fyrir flesta.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 19.11.2007 kl. 17:21

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég bið minn góða Guðmund Ragnar að hafa í huga dæmisöguna um ugluna sem tók að sér að skipta ostbita og byrjaði skiptinguna aftur og aftur á núlli þangað til ekkert var eftir.

Nú þegar hefur verið virkjað það mikið af vatnsafli á Íslandi að meira óvirkjað vatnsafl er að magni til eftir í Noregi en hér á landi. Í Noregi hefur verið ákveðið að virkja ekkert vatnsafl framar og enginn þar í landi talar um "öfgar" í því sambandi.

Ég tel það ekki hófsemd né "að virkja eftir þörfum á skynsaman hátt" að kreista 600 megavatta orku út úr Hengilssvæðinu sem afkastar ekki til frambúðar meira en 300 megavöttum.

En menn telja það greinilega bæði skynsemi og hófsemd að ganga þannig í orkuna þarna að hún verður uppurin eftir 40 ár og þá þurfa afkomendur okkar að fást við það að finna 600 megavatta virkjunarmöguleika í staðinn.

Ég veit ekki til þess að umhverfisverndarfólk hafi sett sig upp á móti virkjunum eins og Hvestuvirkjun í Arnarfirði eða ýmsum slíkum rennslisvirkjunum að ekki sé nú talað um alltar hitaveiturnar sem eru auðvitað virkjun á jarðvarma. Og listinn yfir virkjanir sem runnið hafa í gegn hér á landi án nokkurrar umtalsverðrar andstöðu er mjög langur.  

Ef aldrei má koma að þeim tímapunkti að "ekkert verði virkjað framar" þýðir það einfaldlega að allt verður virkjað á endanum.

Á þessu gamla ostbitatrikki byggist áætlun virkjunarsinna í hernaðinum gegn landinu.  

Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 18:07

5 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta er gott hjá Hvergerðingum.  Þetta svæði þeirra náttúruperla sem standa þarf vörð um. 

Þórður Ingi Bjarnason, 19.11.2007 kl. 18:40

6 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Það er gott að vita að Hvergerðingar eru vakandi um þær perlur sem næst á að herja á. Þessum mönnum er bara ekki sjálfrátt, það er ekki annað hægt að segja. Það er ekki að undra þó þeir kalli okkur öfgafólk ha,ha. öllum ferst nú. Ef það eru ekki öfgar sem eru að baki öllu þessu virkjanabrjálæði þá veit ég ekki hvað eru öfgar. það er satt að segja sorglegt þegar komið er akandi að borginni okkar að þurfa að horfa upp á þá víggirðingu raflína og svo viðbótina sem þessar jarðvarmavirkjanir eru. Það var nú ekki til að bæta það þegar almenningi var selt það að þær virkjanir væru umhverfisvænar. Meira bölvaða bullið, en því miður er það stór hópur fólks sem gleypti við þessari snjöllu sölumennsku. Mér er það hulið  hvað brýst um í höfði þeirra sem engu vilja eira og ana áfram í græðgi og taumlausri gróðahyggju. Ég ætla líka að vona að ég eigi aldrei eftir að skilja þá. En ef það er að vera öfgasinni að vilja landið sitt óspillt, þá er ég stolt af því að vera "öfgasinni"
 

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 19.11.2007 kl. 21:05

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekki rétt hjá þér Ómar, að það séu ekki kallaðar öfgar, vatnsaflsvirkjanastoppið þar. Vaxandi óánægju gætir í Noregi með þessa stefnu.

Eflaust eigið þið öfgasinnar eftir að finna meirihluta fólks á bak við ykkur. Bara ef þið mótmælið nógu oft.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 01:12

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þeir sem heimta að allt virkjanlegt sé virkjað kalla sig hins vegar hófsemdar- og skynsemdarfólk".

Finnst þér þetta virkilega vænlegt til árangurs Ómar? Er ekki rétt að slaka aðeins á og leyfa "virkjunarsinnum" að njóta vafans. Hver heimtar að allt sé virkjað sem virkjanlegt er?

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 01:49

9 identicon

Er ekki mál til komið, að menn skylji það, að Ísland er ekki "hornótt" !! - Hvers vegna tala  menn sí og æ um "suður-austur- norður-eða vesturhornið !! -Væri ekki réttara að tala um suður-austur-norður- eða vesturshluta landsins. ! Þetta er sérlega áberandi í veðurfréttum Sjónvarpsins. - Bara datt þetta svona í hug !!  B.B.Sveinss.

Bjorn B.Sveinsson (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 06:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband