19.11.2007 | 23:02
GRETTIR OKKAR TÍMA.
Sitt er hvað, gæfa og gjörvileiki. Illt er að eggja óbilgjarnan. Setningarnar úr Grettlu spretta fram í hvert sinn sem heyrast fréttir af Mike Tyson, alltaf slæmar. Grettir synti frækið sund úr skipi í land eftir eldi í náttmyrkri og vetrarhörku í Noregi og var dæmdur fyrir að hafa orðið mönnum að bana í kofa, sem hann fór inn í klakabrynjaður og ógurlegur og náði eldinum en dauðhræddir menn í kofanum börðu á honum með eldibröndum og við það kviknaði í kofanum og þeir brunnu inni.
Ég kom á þennan stað fyrir níu árum og einnig á kirkjustaðinn í Þrándheimi þar sem skapbræðin eyðilagði eiðstaf Grettis í sérstakri kirkjuathöfn þegar strákstauli gekk að honum og "gaf honum fingur" eins og segir í sögunni. Voru kannski "fuck-merkin" komin þá?
"Tyson óðan telja má.
Þó tel ég líklegt vera
að bullur þær er bíta og slá
brúki flestar stera "
orti Pétur Pétursson læknir á Akureyri um það þegar Tyson beit eyrað af Holyfield.
Hnefaleikasérfræðingar erlendir auka á niðurlægingu Tysons með því að skipa honum að mínum dómi alltof neðarlega á lista yfir bestu þungaviktarhnefaleikara allra tíma, - jafnvel aftarlega á lista yfir þá sem réðu yfir bestu höggunum (best puncher). Þeir hafa í huga allan feril hans en ég vil meta hann eins og hann var bestur á milli 1985 og 1988.
Ali var langhraðastur allra og hefði á hátindi sinnar getu sigrað Tyson á hátindi sinnar getu. En mér finnst óhugsandi að raða upp bestu þungaviktarhnefaleikurum allra tíma og hafa Tyson ekki meðal tólf efstu.
Enginn þungviktarmaður hefur ráðið samtímis yfir jafn miklu afli og hraða, - og Tyson var í sérflokki með það að rota menn með upphöggum. Raunar var það afar fjölbreytileg flóra af krókum og yfirhandar höggum sem hann rotaði með þessi fáu misseri sem hann var uppá sitt besta.
Síðan 1989 hefur leiðin legið niður á við og þegar hann lagði sér til munns eyrað af hinum dökka mótstöðumanni sínum óskaði ég þess að við Íslendingar gætum tekið á móti fleiri flóttamönnum en við gerum:
Ef Tyson til Íslands náum við nú í vetur, -
því norpandi í fangelsinu er ævi hans ill, -
á þorrablótum hér gæti hann bætt um betur
og borðað eins marga svarta hausa´og hann vill.
Athugasemdir
Ja hérna!
Nú segi ég mig úr öllum lögum við þig Ómar Þorfinnur Ragnarsson og það undir vitni.
Ég krefst þess að fá að hafa mína sviðahausa í friði fyrir þessum mannætuhákarli.
Það yrði ekki ósóminn að því á þorrablótunum í vetur að hafa þá urrandi hvorn í sínu horni Fisher og Tyson?
Ég segi nú ekki annað.
Árni Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 23:19
Elsku Árni minn, hélst virkilega að ég meinti eitthvað með þessu glensi?
Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 23:24
Ha, ha, karlinn!
Þarna náði ég þér líka!
Árni Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 00:10
Góður, Árni!
Ómar Ragnarsson, 20.11.2007 kl. 00:16
Sammála þér Ómar, Tyson er oft metinn neðarlega á svona listum, menn verða líka að hafa í huga að eftir 4 ára fangelsisvist, kom hann til baka og vann titilinn, þrátt fyrir að stórir hlutar af bardagatækni hans hafi tapast. Menn gleyma líka að sá stíl sem Tyson hafði og neyddist vegna hæðar sinnar, krefst mikils úthalds og snerpu sem tapast með aldrinum, þó höggþyngdin tapist seint þá var úthaldið og snerpan ekki sú sama.
Mike Tyson hafði á svipaðan hátt og Sonni Liston, hæfileika til að hræða menn svo mikið áður en bardagin hófst að þeir voru búnir að tapa andlega áður en þeir komu inn á. Ali hafði þetta , braut menn niður en ekki á sama hátt.
Svo má ekki gleyma þegar Ali tók 3 ára hlé frá boxi út af stríðinu þá kom hann til baka og tapaði fyrir Joe Frazier. En Ali er reyndar sá boxari sem þrátt fyrir að vera sá allra frægasti hef ég stúderað lítið, var ekki uppi á þeim tíma sem hann var og þekki ekki svo vel til.
Sá samt magnað myndband þar sem Þjálfari Tyson Cus D.amato segir við Ali fyrir Frazier I að hann sé búinn að vera of lengi frá og þurfi lengri tíma, til að ná af sér "the ring rust" áður en hann fari í heimsmeistarann.
Þessu svaraði Ali að ef hann væri aðeins heimskari gæti hann notið samræðna sinna við hann Cus.
Joe Frazier og Lennox Lewis eiga það líka til að vera metnir of neðarlega að mínu mati.
Ólafur Jónsson, 20.11.2007 kl. 12:10
Ali á það sammerkt með Joe Louis að þegar hann barðist aftur við þá sem hann tapaði fyrir í fyrsta bardaga, þá vann hann þá. Þannig tók hann bæði Frazier og Ken Norton í bakaríið tvívegis eftir að hafa tapað fyrsta bardaganum fyrir þeim.
Ómar Ragnarsson, 20.11.2007 kl. 13:25
Já, það sýnir mikinn styrk, að vísu hafa Ken Norton bardagarnir verið nokkuð umdeildir menn eru ekki á eitt sammála um að Ali hafi unnið þá, voru mjög tæpir. En engu síður mjög sterkur punktur, að koma aftur og sigra þá menn sem hafa unnið þig sýnir mikinn karakter.
Ólafur Jónsson, 20.11.2007 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.