HINN ÓÞÆGILEGI ÍSLENSKI SANNLEIKUR.

Skoðum undir yfirborðið á eftirfarandi staðhæfingum, sem haldið er á lofti á Íslandi: 1. Íslendingar eru í fararbroddi, til fyrirmyndar og vekja aðdáun um víða veröld fyrir að útrýma orkugjöfum sem stuðla að útblæstri gróðurhúsalofttegunda. 2. Til þessa nota Íslendingar hreina og endurnýjanlega orku. 3. Íslendingar eru í fremstu röð í tæknilega hvað þetta snertir.

Af framangreindu mætti ætla að við Íslendingar séum fágætt hugsjónafólk sem er tilbúið til að fórna meiru en nokkur önnur þjóð fyrir hugsjónir sínar. Þetta stenst ekki skoðun, því miður.

1. Hvers vegna höfum við þá komist lengra en aðrir við að minnka notkun mengandi orkugjafa?

Svar: Eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Hugsjónir vegna mengunar andrúmsloftsins hafa aldrei ráðið för. Við byrjuðum á því að virkja hveravatn í Mosfellsbæ í kringum 1940 eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Þetta var skref byggt á framsýni og nauðsyn. Í kreppunni var skortur á gjaldeyri og notkun heita vatnsins sparaði okkur útgjöld til kolakaupa.

Ég man þá tíð þegar það var kolageymsla við húsið og þurfti bras og vesen við að moka kolum ofan hana og úr henni í kolavélina til að hita upp. Heita vatnið var bylting hagkvæmninnar og hreinna loft var bónus.

Áfram héldu gjaldeyrisskortur og hagkvæmnissjónarmið að ráða för og í kringum 1980 var gert kröftugt lokaátak í þessum efnum í ljósi stórhækkandi olíuverðs. Enn réðu hagkvæmnisástæður öllu, - innlenda orkan var einfaldlega ódýrari en sú erlenda. Það var ekki flóknara en það.

2. Hrein og endurnýjanleg orka? Lengi vel var þetta svona.

Orkan úr Sogsvirkjunum er hrein og endurnýjanleg, - ekkert set myndast þar í miðlunarlónum sem fyllir þau upp og eyðleggur miðlunina.

Hitaveiturnar til húshitunar eru með hátt hlutfall nýtingar jarðvarmaorkunnar og enginn útblástur fylgir þeim. Þó verður að fara þar að með gát til að ganga ekki of mikið á jarðvarmann, - annars kólna svæðin og orkan getur því ekki talist endurnýjanleg. En sé þessa gætt eru hitaveitur frábært dæmi um hreina, hagkvæma og mengunarlausa orkunýtingu og aðeins af hinu góða að við montum okkur af þeim og förum í útrás með þær.

En öðru máli gildir um jarðvarmavirkjanirnar, einkum þær nýjustu og að þessu leyti er ekki rétt að blanda þeim saman við húshitaveiturnar.  

Í upphafi var Nesjavallavirkjun að vísu með hátt nýtingarhlutfall vegna þess að vatnið var notað til húshitunar. Í því formi sem nú er stefnt að með virkjanir á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu er nýtingarhlutfallið hins vegar aðeins 12%, - 88% fara ónotuð út í loftið.

Orkan þar er ekki lengur endurnýjanleg, - svæðið verður orðið kalt eftir 40 ár vegna þess að allt of hart er gengið í því að kreista út úr því hámarksorku sem miðast við skammtímasjónarmið. Hvar á að fá orku í staðinn eftir 40 ár? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Barnabörn okkar eiga að glíma við það. Þokkaleg hugsjónaþjóð sem hugsar svona.

Mengun af völdum brennisteinsvetnis verður mun meiri hjá þessum nýju jarðvarmavirkjunum en hjá öllum álverunum til samans. Það er að vísu sennilega skárra en að kolaorkuver sendi mengandi lofttegundir út í loftið, -  en óbeisluð vatnsorka í öðrum löndum heims er meira en hundrað sinnum meiri en öll orka Íslands og er bæði hreinni og endurnýjanlegri en orka nýjustu virkjanna á Íslandi.

Nýjasta stórvirkjun okkar á austurhálendinu stenst ekki einu sinni lágmarkskröfur um arðsemi og gefur ekki endurnýjalega orku heldur hefur í för með sér mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif hér á landi.  

Ofan á þetta bætist að Íslendingar sýna engin raunveruleg merki um að vera fyrirmynd í orkunýtingarmálum. Þriggja tonna 300 hestafla 6,5 metra langi ameríski pallbíllinn er enn meira áberandi tákn Íslands nútímans en í nokkru ríki í Bandaríkjunum.

Við gefum sérstök tolllfríðindi á svona bíla og erum í fremstu röð við að auka útblástur.

Það væri kannski hægt að reyna að afsaka það ef við værum hrein og bein græðgisþjóð með alls kyns útskýringum á því.

Verra er að í ljósi hins óþægilega ofangreinda sannnleika erum við einstök hræsnis- og undanbragðaþjóð og flöggum hálfsannleika um virkjanir okkar.  Stundum hefur verið sagt að hálfsannleikur sé verri en hrein lygi.

3. Tæknilega forystan. Jú, loksins kemur það sem við getum þó verið stolt af. Við erum tæknilega í fararbroddi og þróunaraðstoð okkar og mikilsvert framlag okkar til orkubeislunar erlendis til þess að hjálpa öðrum þjóðum getur eflt heiður okkar og orðið fyrirmynd öðrum.

Og jafnt heima fyrir sem erlendis eigum við að leggja áherslu á þann þátt nýtingar orkunnar sem sannanlega er hrein og endurnýjanleg og hætta að ljúga að okkur sjálfum og öðrum hvað varðar orkuframkvæmdir sem standast ekki þessar kröfur. 

Þá gætum við sagt hinn þægilega íslenska sannleika og verið stolt af honum.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigum við sem sagt að vera eitthvað skömmustuleg yfir því að hitaveiturnar séu óvart líka efnahagslega hagkvæmar, en ekki bara umhverfisvænar? Hefði haldið að þetta væri bara glæsilegur kokteill. Óskiljanleg gagnrýni.

Og merkilegt að það sé frábært að við getum hjálpað öðrum löndum tæknilega við að gera það sem er sem sagt alveg skelfilegt að gert sé hér á landi.

Loks þetta með brennisteinsvetnið og álverin (úha, ein jarðvarmavirkjun losar meira af þessu efni en öll álverin á Íslandi til samans), annað betra dæmi: Hver einn og einasti hver á Íslandi, hvað þá jarðvarmavirkjun, losar meira brennisteinsvetni út í umhverfið en öll heimsins kjarnorkuver til samans! Hljómar kannski hræðilega, nema hvað kjarnorkuverin losa óvart ekkert brennisteinsvetni, sem álverin gera einmitt mjög lítið af og því er þessi klisja með samanburðinn við þau um losun brennisteinsvetnis bara tóm samhengisleysa - eða eigum við að segja "hálfsannleikur sem er verri en hrein lygi"?

Fossvoxari (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 17:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það kemur fram í pistli mínum að við eigum að halda hitaveitunum til húshitunar á lofti vegna þess að þær séu "glæsilegur kokkteill", hagkvæmar og umhverfisvænar ef þess er gætt að ganga ekki of nærri framhaldsgetu svæðisins.

Gagnrýni mín beinist að því að við höldum því líka fram að allar jarðvarmavirkjanirnar séu hrein og endurnýjanleg orka og teljum útlendingum trú um að þær hafi sömu kosti og hitaveiturnar.  Ég sé ekkert óskiljanlegt við það að segja allan sannleikann í þessu efni. 

Ómar Ragnarsson, 25.11.2007 kl. 23:51

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sérðu engann ljósan punkt við rekstur álvera hér á landi Ómar?

Tryggvi L. Skjaldarson, 26.11.2007 kl. 08:37

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var hlynntur álverinu í Straumsvík á sínum tíma þótt það kæmi ekki fram opinberlega.

Þar með var ég ekki á móti virkjununum fimm, Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun og Vatnsfellsverikjun. Heldur ekki á móti hóflegri Nesjavallavirkjun og vestasta hluta Hellisheiðarvirkjunar né heldur Svartsengisvirkjun.

Ég keypti röksemdirnar fyrir Blönduvirkjun (utan eldvirka svæðisins) en var sammála Páli Péturssyni um það að lónið væri of stórt.

Um allar þessar virkjanir fjallaði ég sem sjónvarpsmaður eins vel og ég gat á þann hátt að þessar skoðanir mínar höfðu þar ekki áhrif á.

Upptalningin hér að framan sýnir að það eru bara býsna miklar virkjanaframkvæmdir sem ég get talist bera þá ábyrgð á að hafa með hlutleysi í raun samþykkt þær og þar með viðurkennt að álverin í Straumsvík og í Hvalfirði hafi átt rétt á sér. 

Ég keypti þá röksemd að álverið í Straumsvík myndi verða til þess að í kringum það sprytti upp mikill úrvinnslu-áliðnaður og lét glepjast þar af augljósum falsrökum. Ég segi "augljós" vegna þess að úrvinnslan er svo stórkarlaleg að hún er hagkvæmari nær markaðnum. 

Til dæmis ætlaði vinur minn að fá sér álþakplötur og spurði hvers vegna þær væru ekki framleiddar hér á landi. Svarið var að erlenda verksmiðjan, sem plöturnar kæmu frá, væri svo stór að hún léki sér að því að fullnægja íslenska markaðnum tvisvar á dag allt árið.  

Ég viðurkenndi í raun á sínum tíma að með því að virkja stórt við Þjórsá myndi fást bráðnauðsynlegt rafmagn fyrir okkur sjálf á lægra verði en ef virkjað væri smátt.

Við bjuggum á þessum tíma í landi malarvega og afar fábreytts atvinnulífs og ég samsinnti þeim sem sögðu að við yrðum að beisla þessa orkulind í samvinnu við öfluga erlenda kaupendur, annars gætum við það ekki óstudd sjálf. 

Ég er því meðábyrgur fyrir þeirri umhverfisröskun sem þessar virkjanir hafa haft svo sem uppþurrkun Tröllkonuhlaups og Hrauneyjafoss og stíflur og lón allt frá Búrfelli og inn fyrir Þórisvatn.

Aðrar röksemdir fyrir því að samþykkja þetta voru einnig þær að Þórisvatn sem aðalmiðlunarlón væri náttúrugert og þess vegna væri ekki hægt að ná fram annars staðar virkjun jökulfljóta með eins litlum óafturkræfum neikvæðum umhverfisáhrifum.

Ég tel hins vegar að ég og fleiri hafi verið plataðir þegar í ljós kemur að svo hart er gengið að jarðvarmaorkunni á Hengilssvæðinu að hún er ekki endurnýjanleg heldur klárast á 40 árum.

Fyrstu aðvörunarorðin sem ég sá voru í grein eða viðtali við Jóhannes Zoega fyrrverandi hitaveitustjóra en þau lentu í svipaðri þöggun og svo margt hefur lent í þessum málum.

Aðstæður hafa gjörbreyst frá því að ofantaldar virkjanir og álver voru reist. Orkuverð er á uppleið og fráleitt að selja orkuna á útsöluprís.

Ferðalög mín um 25 þjóðgarða og 18 virkjunarsvæði í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi opnuðu mér nýja sýn á okkar eigið land. 

Ég tel að við eigum að standa við núverandi samninga vegna þeirra álvera sem komin eru. 

Hins vegar eru nú komnir til skjalanna mun hentugri kaupendur að orku en álver. 

Ljósi punkturinn við álver felst í því að þau geta verið hluti af þeirri fjölbreytni sem nauðsynleg er í þjóðarbúskapnum, - að eggin séu ekki öll í sömu körfu. 

Hins vegar finnst mér fráleitt að gera álverin af slíkum yfirþyrmandi hluta þjóðarbúskaparins að eggin verði að lokum flest komin í sömu körfuna að ekki sé talað um hve gríðarlegum og óþörfum umhverfisspjöllum þessi orkufrekasta starfsemi,. sem til er, veldur. 

Ómar Ragnarsson, 26.11.2007 kl. 12:17

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Góður pistill

Dofri Hermannsson, 27.11.2007 kl. 09:05

6 identicon

Fínn skrif Ómar varðandi stóru pallbílana þá vil ég bara benda einnig á þá jákvæðu punkta sem hafa verið í gangi undanfarið varðandi orkugjafa fyrir slíkar bifreiðar að fólk á fleiri kosti í það minnsta kosti sumstaðar í heimi hér. 

Það er til orðatiltæki sem hljjómar eitthvað á þessa leið tímarnir breytast og mennirnir með, ég er að hugsa um að snúa þessu við og segja mennirnir breytast og tímarnir með!

Fyrstu vetnisfólksbílarnir voru afhentir Landsvirkjun þann 11.07.2007 frá Daimler  Chrysler)   Einnig eru mættir fólksbílar sem eru knúnir með metanól. 

Svo er Brimborg (Volvo) farnir að flytja inn etanól fólksbíla, mér skilst að þeir séu búnir að keyra á þeim í heil 6 ár í Svíþjóð.

Nú slagorð eins og vistvæf skref með Brimborg, ekki er forsetabifreiðin frá Toyota af verri endanum.  

10 nýir vetnisbílar væntanlegir  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item164404/

Jaguar & Land Rover Ltd. eru komnir með stefnu sem er hægt að lesa hér http://www.landrover.com/gb/en/Company/Sustainability/overview.htm?route=_gb_en_Vehicles_overview@__link__GraphicPromo_2
Chevrolet býður uppá hina ýmsu kosti og kalla þeir það Gas-friendly to gas free: (Fuel solutions, Chevy is focused on offering fuel officiency with a choice) http://www.chevrolet.com/fuelsolutions/

þeir hjá Chevy segja  (Do more, use less)

Kveðja / Gísli Jónsson

Gísli Jónsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband