26.11.2007 | 19:14
DRAUGAR ÓTTA OG TORTRYGGNI.
Sagan geymir dæmi um skaðsemi útþenslustefnu stórvelda og ótta og tortryggni þjóða gagnvart henni. Síðustu mánuði fyrir innrásina í Sovétríkin mynduðu Þjóðverjar svonefnt Tripartíbandalag nágrannaþjóða Sovétríkjanna og í kjölfarið fór mesta innrás sögunnar sem á endanum kostaði yfir 20 milljónir lífið í Sovétríkjunum. Þetta situr áreiðanlega í Rússum nú þegar Bandaríkjamenn "hnykla vöðvana" í nágrannaríkjum Rússa eins og Pútín orðar það.
Stjórnarfarið í Rússlandi er ekki gott en ekkert hentar betur þeim sem þar vilja auka völd sín en að geta bent á aðsteðjandi ögrun og þjappað þjóðinni saman gegn ímynduðum óvini.
Þegar NATÓ var myndað á sínum tíma var það gert á grundvelli útþenslustefnu Stalíns sem talin var ógna Vestur-Evrópu. Stalín "hnyklaði vöðvana". Vesturveldið voru þá minnug útþenslustefnu Hitlers á sínum tíma bæði í vestur, austur, norður og suður rétt eins og útþenslan til austurs það situr vafalaust enn í Rússum.
Að sjálfsögðu var sú ógnarstjórn sem Stalín kom á í leppríkjum sínum í Austur-Evrópu á engan veg sambærileg við það lýðræðisfyrirkomulag sem nú hefur breiðst út með frelsisbylgju sem skellur úr vestri á landamæri Rússlands.
Það breytir ekki því að þegar þjóðum finnst aðrar þjóðir "hnykla vöðvana" gagnvart sér á ögrandi hátt er ekki spurt um hvort þjóðskipulag útþensluþjóðanna sé gott eða lélegt.
Við getum kallað þetta þjóðasálfræði sem er að mörgu leyti lík sálfræði einstaklinga.
Einar Þveræingur lagði ekki illt til ríkjandi Noregskonungs sem vildi frá Grímsey til yfirráða heldur benti á þá óvissu sem ríkti um það hvort eftirmenn hans létu það eitt nægja að "hnykla vöðvana" án þess að nýta sér aðstöðuna sem þeir hefðu fengið.
Einar benti á að frá Grímsey gæti konungur farið með langskipum í leiðangra í hugsanlegu valdabrölti og yrði þá hætt við að "mörgun búandkarli þætti þröngt fyrir dyrum."
Nú hnykla Rússar vöðvana með flugvélum og kafbátum á Norður-Atlantshafi og afsaka það með því að það sé andsvar við hernaðaruppbyggingu NATÓ við túnfót Rússlands.
Á morgun verður málþing á Hótel Sögu um utanríkismál og fróðlegt verður að sjá hvaða sýn og stefnu íslensk stjórnvöld hafa í þessum efnum.
Athugasemdir
Það er eins og núverandi bandaríkjastjórn sé að gera þetta viljandi. Ég efast um að nokkur "lýðræðislega kjörin" stjórn hafi hagað sér eins og BNA hafa gert síðustu árin. Það bendir, því miður, allt til þess að BNA sé að breytast í gamla óvininn í austri.
Villi Asgeirsson, 27.11.2007 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.