GUÐLAUGUR ÞÓR, - SKOÐAÐU HÚSIN Í NOREGI !

Í Noregsferð fyrir tveimur árum skoðaði ég tvö "hátæknisjúkrahús", - annað í Þrándheimi og hitt í Osló og sýndi þau stuttlega í sjónvarpsfréttum. Húsið í Þrándheimi töldu Norðmenn gersamlega misheppnað en hins vegar sérlega vel heppnað í Osló. Munurinn fólst í forsendunum fyrir húsunum. Í Þrándheimi voru hús, sem fyrir voru, tengd með tengiálmum, jarðgöngum og nýjum húsum. Sem sé: Þetta var bútasaumur. Flestir sem ég talaði við töldu útkomuna hörmulega og líktu þessu við skrímsli.

Þrándheimur og Þrændalög er það svæði í heiminum sem er sambærilegast við höfuðborgarsvæðið hér. Sama breiddargráða, veðurfar, mannfjöldi, þjóðfélagsaðstæður og lífskjör.

Stóra, nýja sjúkrahúsið í Osló, var hins vegar stolt Norðmanna. Í stað "bútasaums" var byrjað með autt blað á auðu svæði og hannað sjúkrahús sem virðist hreint út sagt vera snilldarlausn á verkefninu.

Það var upplifun að koma inn í þetta hús þar sem af mikilli útsjónarsemi var öllu svo fyrirkomið að boðleiðir væru greiðar og umgerðin þannig öll innan dyra og utan að umhverfi sjúklinganna væri sem líkast umhverfi "heilbrigðra".

Þannig minntu spítalagangarnir mest á götur í þorpi og sjúkrahúsið var sett upp sem lítið þorp þar sem rólfærir sjúklingar gátu farið út að gluggum og svölum og horft yfir þorpsgötuna, spítalaganginn.

Ég ræddi við íslenskan lækni sem þarna vinnur og hældi þessum vinnustað í hástert. Hann sagði uppsetningu spítalans svo einfalda að varla tæki nema dagstund að verða þar hagvanur og átta sig á öllum boðleiðum.

Til samanburðar má nefna að ég hef talað við starfsfólk við Landsspítalann í Reykjavík sem hefur unnið þar árum saman og hefur varla enn lært að rata um alla afkima þeirrar stofnunar.

Sjónvarpsfrétt mín var í tilefni af komu bandarísks sérfræðings hingað til lands sem taldi mögulegt að útbúa gott risasjúkrahús á Landspítalalóðinni.

Ferð mín til Þrándheims og Osló fær mig til að efast um það og raunar grunar mig að það verði miklu dýrara að "bútasauma" nýjar og gamlar byggingar á Landsspítalalreitnum með tilheyrandi tengiálmum og jarðgöngum heldur en að byrja frá grunni á auðri lóð eins og gert var í Osló.

Mér finnst sporin frá Þrándheimi hræða.  

Ég skil ekki af hverju það er talið hagkvæmara að sauma saman margar byggingar, gamlar og nýjar á Landspítalareitnum en til dæmis að prjóna við Borgarspítalann, að ekki sé nú talað um sjúkrahús á nýjum reit, til dæmis við Vífilsstaði eða við innanverðan Grafarvog.

Líka má spyrja hvers vegna ekki sé dokað við þangað til vitað er hvar Reykjavíkurflugvöllur verður endanlega hafður, en það hlýtur að koma í ljós innan fárra ára.

Ef hann verður á Hólmsheiði er fallin sú forsenda Landspítalalausnarinnar að gott sé að hafa sjúkrahúsið sem næst flugvelli.

Sjúkrahús færir ekkert líf inn í umhverfi sitt. Engir eiga þangað erindi nema til og frá á bíl. Starfsfólkið kemur og fer í vinnu sem skjótast og sama er að segja um þá sem koma í heimsókn, þeir flýta sér báðar leiðir.

Ég held að aðrir möguleikar en risasjúkrahús séu betri til að hleypa fjölbreyttu lífi í þetta mikilvæga svæði nálægt gömlu miðborginni. Hvað um þekkingarþorpið eða blandaða byggð?

Krossgötur höfuðborgarsvæðisins eru í Elliðaárdal og ef flugvöllurinn verður á Hólmsheiði er Landspítalareiturinn kominn áleiðis út í úthverfi.

Ef flugvöllur verður áfram þar sem hann er (sem ég er persónulega hlynntur) , sýnist mér stækkun borgarspítalans vera einfaldari lausn, enda lendir hátæknisjúkrahúsið þá mitt á milli krossgatnanna og flugvallarins og verður því sem næst við þungamiðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu. 

Í Fossvogi yrði nýja byggingin prjónuð út frá einni byggingu en ekki verið að bútasauma saman margar misgamlar og mishentugar byggingar.

Ég hef spurt borgarfulltrúa að því af hverju Landspítalareiturinn varð fyrir valinu og þeir sem ég talaði við virtust vera búnir að gleyma því, - það er svo langt síðan.

Nú höfum við fengið nýjan heilbrigðisráðherra og við hann segi ég: Guðlaugur Þór, farðu til Oslóar og Þrándheims og skoðaðu sjúkrahúsin þar.

Láttu síðan endanlega lausn sjúkrahúsmálsins ráðast af heildarlausn samgöngumála í Reykjavík í lofti og á landi, sem enn liggur ekki fyrir, en er væntanleg innan fárra ára.

Orðið "hátæknisjúkrahús" er hvort eð er bull, - öll bitastæð sjúkrahús eru hátæknisjúkrahús.

Ég fór í fyrra í kynnisferð um sjúkrahúsið á Akranesi og sá ekki betur en það væri hátæknisjúkrahús sem gæti jafnvel keppt við Landsspítalann á ýmsum sviðum en á erfitt með það vegna niðurnjörvunar í stirðu opinberu kerfi.

Guðlaugur Þór, - er það ekki kjörið verkefni fyrir þig að hleypa nýjum straumum í þessi mál, ferskri sýn?  

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Vonandi tekur Guðlaugur Þór áskorun þinni Ómar. Það er að mínu mati mjög alvarlegt skipulagsslys að ætla að byggja fyrirhugað hátæknisjúkrahús á þessum stað. Borgarspítalinn og nágrenni væri allavega betri kostur en líklega væri best að skoða þetta í sínu víðasta samhengi með tilliti til byggðar á höfuðborgarsvæðinu, framtíðarstaðsetningar flugvallarins og samgöngukerfisins í heild.

En látum Landspítalann áfram þjóna íbúum gamla bæjarins. 

Sigurður Hrellir, 27.11.2007 kl. 16:57

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Nýr spítali kæmist aldrei fyrir í Fossvoginum.  Geirsnefið gæti hugsanlega verið málið, það er drjúgt stórt. 

Ef maður skoðar heimasíðu verkefnisins www.haskolasjukrahus.is er nýi spítalinn í Osló einmitt í forgrunni sem einn af nýjum sjúkrahúsum á Norðurlöndum.  Hér er áherslan á nýtt hús frá grunni en ekki endurnýtingu gömlu húsanna.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 27.11.2007 kl. 18:16

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Eitt af rökunum fyrir því að flugvöllurinn fari er að  fá land undir byggð.  Ef sjúkrahúsið fer í Fossvoginn eða annað, þá er hægt að nota þær byggingarnar  undir byggð, nú´eða byggja nýjar bygginar á þeirri lóð.  Annað eins virðist brotið niður til að byggja.  Þá væri búið að ná sömu markmiðum að fjölga í byggð á svæðinu og trúlega betra en að  láta byggja í Vatnsmýrinni.

Gísli Gíslason, 28.11.2007 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband