KRISTINN OG JÓNAS - EINFÖLD SNILLD.

Sperrti strax eyrun þegar síðasta lag fyrir fréttir hljómaði í útvarpinu áðan. Ekki aðeins var söngurinn afbragð heldur ekki síður undirleikurinn í laginu Hamraborginni. Píanóleikarinn sló nóturnar við kaflaskil lagsins svo ofurseint og hægt og veikt að svona nokkuð hef ég ekki áður heyrt píanóleikara voga sér að gera svona afdráttarlaust. Fyrir bragðið mynduðust dramatískar þagnir og hljóð spenna.

Eftir hendinguna "...er blundað á rósum"... komu næstu þrjár nótur ótrúlega hægt og lágt. Það lá greinilega ekkert á. Manni datt í hug að hugsun píanóleikarans væri svipuð eins og hjá manninum, sem átti að hengja, lét bíða eftir sér og rökstuddi töfina með því að það gerðist ekkert fyrr en hann kæmi. 

Og hvers vegna ekki að dotta nánast við píanóið? "Blundað á rósum" táknar jú algera kyrrð.  

Stemningin sem myndast við það að þessar þrjár nótur eru slegnar svona ofurhægt og hljótt gerir það að verkum að lokakaflann verður enn magnaðri og áhrifameiri: "...nóttin logar af norðurljósum!" Er hægt að biðja um betri túlkun á því að í þessu hálfmeðvitundarlausa ástandi er logandi himinninn í algerri mótsögn við hina æpandi þögn. 

Það eru venjulega tenórar sem syngja Hamraborgina og einkum er það orðið "logar" í hendingunni "nóttin logar af norðurljósum" sem gefur þeim tækifæri til að þenja röddina og hálfsprengja á þann hátt sem bassar og baritónar geta ekki gert.

Söngvarinn í síðasta laginu fyrir fréttir í dag var ekki tenór en samt greip flutningur hans mann heljartökum og píanóleikarinn sýndi hvað hægt er að gera með samstilltri snilld söngvara og undirleikara. 

Síðan sagði þulurinn: "Kristinn Sigmundsson söng. Jónas Ingimundarson lék á píanóið." Það hlaut að vera. Tveir snillingar leggja sama, gefa margsungnu lagi nýja vídd og frægustu tenórum langt nef.

Nú er Kvik að gera heimildarmynd um Kristin Sigmundsson og á Páll Steingrímsson miklar þakkir skildar fyrir það. Þetta hefði að vísu átt að gera strax fyrir áratug á vegum sjónvarpsstöðvanna en hinn mikli og hógværi ljúflingur Kristinn hefur aldrei kunnað að trana sér fram.

Það má aldrei gerast að dagskrárliðurinn "síðasta lag fyrir fréttir" verði lagður niður hjá Rás 1. Eftir að fréttastefinu góða var hent er þetta orðið það eina sem skapar þessum mínútum í dagskránni þá sérstöðu sem á að vera ófrávíkanleg að mínum dómi í dagskrá bestu útvarpsrásar á Íslandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll aftur,

Nú er ég innilega sammála þér, þetta var yndislegur flutningur þeirra félaga, miklir listamenn.

Takk fyrir að vekja athygli þjóðarinnar á þessu.

kveðja - örn

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 14:05

2 identicon

„Síðasta lag fyrir fréttir" er að líkindum elsti fasti dagsskrárliður hljóðvarps, og hann má aldrei leggja niður. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég bréf til eins af fyrrverandi útvarpsstjórum, þar sem ég stakk upp á því að útfæra þennan lið yfir á sjónvarp. Þá yrði safnað saman upptökum frá kórum og sönghópum landsins (hljóð og mynd), og eitt lag sýnt fyrir hvern kvöldfréttatíma.

Ég bíð enn eftir svari.

Hörður

Hörður (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 10:34

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka Herði fyrir hugmynd sem reyndar er ekki ný en hugsanlega víðfeðmari en sú sem ég skal nefna hér:

Fyrir tæpum áratug safnaði ég saman og myndskreytti ein þrjátíu íslensk lög og setti á spólu sem ég kallaði "Íslandslög Sjónvarpsins." Þau voru höfð í útsendingarherbergi Sjónvarpsins en svo illa vildi til að spólan týndist eftir að búið var að nota þetta í nokkur skipti. 

Eitt af verkefnunum,sem ég hef á lista til að vinna hjá Sjónvarpinu á svipaðan hátt og ég hef búið til tvo nýja Stikluþætti nú haust, er að endurgera þessa spólu með Íslandslögunum. 

Hvort hægt væri að útfæra þetta frekar er annað mál. Hér spila réttindi höfunda og flytjenda inn í en á móti kemur skylda RUV í menningarefnum.

Ómar Ragnarsson, 29.11.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband