BETUR MÁ EF DUGA SKAL.

Hún er góð fréttin um að losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði í Bandaríkjunum hafi minnkað. En betur má ef duga skal hjá þjóð sem stendur fyrir fjórðungi allrar losunar í heiminum. Síðustu tíu ár hefur sigið mjög á ógæfuhlið hjá þeim hvað snertir bílaflotann. Þeir voru komnir vel á veg með að minnka eyðslu venjulegra fólksbíla.

Sem dæmi get ég nefnt að í hátt á annan tug þúsunda kílómetra akstri milli þjóðgarða og virkjana sem við hjónin ókum hér um árið, vorum við á 1600 kílóa bíl með sex strokka tæplega 200 hestafla vél og allan tímann í tímakapphlaupi og ókum á löngum köflum upp og niður í Klettafjöllunum, allt upp í rúmlega 4000 metra hæð yfir sjávarmál. Þrátt fyrir þetta var meðaleyðslan um 8,5 lítrar á hundraðið. Bensínið var svo ódýrt að kostnaðurinn samsvaraði 3,5 lítra eyðslu á Íslandi. 

Þessir bílar höfðu og hafa litla loftmótstöðu og afar háan efsta gír.  

Síðan þetta gerðist hefur "hinn ameríski lífsstíll" hins vegar fætt af sér jafn hastarlegt hestaflakapphlaup og ríkti á árunum 1955-60. Stórir fjórhjóladrifnir drekar komust í tísku og hinn dæmigerði bandaríski pallbíll, tákn frelsisins í víðáttum vestursins, rauk upp í um og yfir þrjú tonn með allt að 400 hestafla vélum, jafnvel 500 hestafla rokkum.

Á árunum eftir orkukreppuna í kringum 1980 voru settar strangar reglur í Bandaríkjunum sem þvinguðu bílaframleiðendur til að framleiða sparneytna fólksbíla.

Síðari árin hafa bílaframleiðendurnir hins vegar komist fram hjá þessu með því breyta bandaríska vinnubílnum, pallbílnum, sem var undanþeginn sparneytnisreglunni, í lúxusfarartæki með palli, jafnvel af gerðinni Cadillac.

Í útliti þessara bíla er fyrst og fremst hugsað um að gera þá verklega og hernaðarlega, með köntuðu lagi sem skapar mikla loftmótstöðu. Þetta hefur verið "karlmannatíska í stáli."

Hestaflakapphlaupið hefur hins vegar séð fyrir því að þetta kemur ekki að sök hvað snertir hraða þessara bíla, en fyrir bragðið eyða þeir tvöfalt og jafnvel þrefalt meira en fólksbílar með jafn mörg sæti gera.

Í Bandaríkjunum kostar bensínið allt að þrefalt minna en hér á landi þannig að flestum Bandaríkjamönnum er slétt sama um eyðsluna.

Ég sé engin merki um að Bandaríkjamenn ætli að hreyfa við þessu óeðlilega ástandi enda er ekki að sjá að losunin hafi minnkað þar hjá bílaflotanum.

En okkur ferst svo sem að tala um kanann. Sjálf aukum við losunina ár frá ári og bandaríski pallbílsdrekinn er að verða okkar þjóðartákn. Við nálgumst óðfluga Norður-Ameríkumenn í losuninni og samt njótum við góðs af því að geta hitað upp hús okkar að mestu leyti með mengunarlausum hitaveitum.

Betur má ef duga skal fyrir vestan, hvað þá hér heima.  

 

 

 

 

 


mbl.is Minni losun í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Blessað álið gerir nú þessa dreka heldur léttari en áður og það er strax til einhverra bóta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.11.2007 kl. 01:40

2 Smámynd: Egill

mæli með The Inconvenient Truth , myndinni eftir Al Gore um umhverfismál í heiminum.

áhugaverð mynd svo um munar, og eftir að hafa lesið það eina sem er ekki þeim gögnum sem koma fram í myndinni sammála, sem er aukin virkni yfirborðar sólarinn, þá er ég viss um að boðskapur myndarinnar sem slíkur er eitthvað sem allir þurfa að taka til sín. bæði í bandaríkjunum sem og hér !

Egill, 29.11.2007 kl. 10:48

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vissulega er margt umhugsanarvert sem fram kemur í þeirri mynd, en hún hefur samt yfir sér mjög sterkt yfirbragð áróðursmyndar, komandi frá stjórnmálamanni sem tapaði og er að reyna að fá uppreisn æru. Til þess að myndin standi undir nafni sem fræðslu og heimildarmynd þarf að leiðrétta í henni margar rangfærslur, ýkjur og bull.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.11.2007 kl. 11:21

4 identicon

Til gamans má geta þess, að gárungarnir þarna fyrir vestan kalla þessi reðurtákn (ofurpallabíla) fyrir "Viagra on Four Wheels"

Einar Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 12:00

5 Smámynd: Sævar Helgason

Þessir risastóru pallbílar eru hannaðir og smíðaðir fyrir innanlandsmarkað í BNA og henta vel við þeirra aðstæður- þó orkubruðlið sé yfirgengilegt.

Síðan fer Íslandsmann  að flytja gripina inn til nota ,fyrst og fremst í borgarumferðinni, þá fer málið að verða nokkuð  broslegt svo ekki sé nú meira sagt. Að sjá einn mann (konu) inni í þessum ferlíkjum í borgatraffíkinni og að reyna að koma sjálfum sér og kagganum í bílastæði - er svona hálf aumkunarvert.  3 tonn af stáli/áli í snattið

Eyðslan á diesel knúnum pallbíl er um 26 l/100 km þannig að ferð milli Akureyrar og Reykjavíkur fram og til baka kostar um 26 þús kr. 

Á notalegum smábíl er kostnaðurinn svona um 7 þús. kr.- erum við ekki komin dálítið langt framúr sjálfum okkur ?

Sævar Helgason, 29.11.2007 kl. 15:53

6 identicon

Ég gerði nú fyrir stuttu ritgerð um loftlagsbreytingar í heiminum og þar kemur fram eins og þú bendir á að Bandaríkin losa lang mest af co2 út í andrúmsloftið á hvern íbúa. Rétt eins og þú bendir á þá þarf að gera betur til að draga úr slíkri efnalosun. Það sem meira er að stefna Bandaríkjanna er bágborin í þessum efnum. Þeir eru til að mynda ekki partur af Kyoto samningnum og virðast vera að gera lítið til að stöðva þessa þróun. 

Ég er því ánægður með að þú vekjir máls á þessu Ómar og vona að sem flestir sem þetta lesa hugsi sig um og átti sig á því hversu alvarlegt þetta er. Helstu punktar úr ritgerð minni, sem reyndar er á ensku, má lesa á olimar.blog.is

Ólafur Már Þórisson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 17:23

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Blessað álið" getur lítið bætt um þetta ástand, einfaldlega vegna þess hve það er dýrt. Sárlítið er notað af því í pallbílana og þær tvær tilraunir sem gerðar hafa verið í bílasögunni til að fjöldaframleiða bíla úr áli fyrir fjöldann hafa mistekist.

Fyrst var það Panhard Dyna 1954-58 og síðan Audi 2, sem var á stærð við Volkswagen Polo en verksmiðjurnar gáfust upp á að framleiða fyrir tveimur árum.

Ómar Ragnarsson, 29.11.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband