EKKI KENNA GEMSANUM UM GAMLAN ÓSIÐ.

Sigurður Þór Guðjónsson bloggar um vandræðagemsann í dag og finnur honum allt til foráttu. Þetta er ekki rétt nálgun að mínu viti og vandamálið er miklu eldra og víðtækara og snýst um kurteisi og tillitssemi,- um rétta forgangsröðun viðmælenda. Röð viðmæland okkar á að vera þessi: 1. Sá sem er að tala við þig augliti til auglitis. Klára viðtalið við hann. 2. Næsti viðmælandi þinn á vettvangi á sama hátt.. 3. Sá sem er fyrstur í röð þeirra sem vilja ná tali af þér í síma.

Það eru margir áratugir síðan sá ósiður var tekinn upp hér á landi að ef síminn hringdi var svarað umsvifalaust í hann og snúið baki við viðmælanda eða viðmælendum á staðnum. Upphaflega réði sennilega nýjbrumið á símanum.

Þetta er enn gert miskunnarlaust og er argasti dónaskapur og heldur ekki skynsamlegt. Sá sem hefur haft fyrir því að koma á manns fund og stendur augliti til augliti við mann á auðvitað að hafa forgang yfir einhvern sem situr á rassgatinu ein hvers staðar úti í bæ og hringir.

Á nýjum símum sést langoftast á skjánum hver er að hringja. Ef svo er, þarf ekki að svara strax ef einhver er hjá manni, heldur er hægt að hringja til baka við fyrsta tækifæri. Ef mjög mikið liggur við og hætta er á að missa af mikilvægu símtali af því að ekki sést númer á skjánum (t.d. hringt úr skiptiborði) , má svara örstutt og segja: "Ég er upptekinn, - hringdu aftur eftir x...mínútur.

Ef fólk er statt á stað þar sem símhringingar valda ónæði er auðvelt að stilla símann þannig að hvorki heyrist í honum né hann titri. Ef alveg óskaplega mikilvægt símtal kynni að vera að detta inn má hafa augun á símanum án þess að aðrir verði þess varir og fylgjast með því hvort ljós kvikni á skjáborði hans við hringingu.

En grundvallaratriði hlýtur að vera að síminn valdi ekki truflun.

Við erum líklega öll búin að margbrjóta ofangreindar reglur sem smám saman hafa lokist upp fyrir mér.

Eigum við ekki að reyna að taka okkur taki og kippa þessu í lag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég er mikið sammála þér Ómar, en ég kann eina góða/slæma gemsa/nmt sögu :)

Sagan gerðist á Reykjavíkurflugvelli fyrir mörgum árum síðan.

En þar var fréttamaður á ferð og var eitthvað að flýta sér. Hann lagði þennan fína nýja NMT Nokia Cityman síma frá sér á húddið á bílnum sínum. Skyndilega virtist eitthvað koma upp á hjá honum og þurfti hann að flýta sér af vetfangi, stökk upp í bílinn og rauk af stað.

Ég sá mér til mikillar furðu hvar síminn, sem að hann hafði skilið eftir, rúllaði af húddinu og lenti á malbikinu og fór þar í 1000 mola.

Uppákoman var frekar ótrúleg, en þar sem að ég kannaðist aðeins við fréttamanninn, þá hringdi ég á fréttastofuna og lét vita að ég hefði fundið símann hans.

Því miður, þá kom upp smá púki í mér, en fréttamaðurinn kom hálftíma síðar til að ná í símann sinn og þá varð mér á að rétta honum símann minn sem var af sömu tegund, en leiðrétti málið fljótt og sýndi honum hans síma, því miður mölbrotin.

Hver er maðurinn?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.12.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki þarf að spyrja að því hver átti símann en sagan er góð því hún sýnir að ekki var það símanum að kenna að hann mölbrotnaði fremur en það hefði verið bílnum að kenna ef honum hefði verið ekið á staur.

Ómar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 21:27

3 identicon

"[...] einhvern sem situr á rassgatinu ein hvers staðar úti í bæ og hringir."

Það er aldeilis að þú hefur álit á þeim sem nota síma til þess að ná í þig

Rómverji (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 22:52

4 Smámynd: Ragnheiður

Fín færsla eins og töluð úr mínu hjarta, ég er líka með krónískt ofnæmi fyrir símum og svara helst ekki í þá takist mér að komast hjá því.

Ragnheiður , 3.12.2007 kl. 00:52

5 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Ómar.

Ég tek undir með þér ég myndi gera það sama og bendir réttilega á. Það mættu fleirri hugsað sviðað og þú gerir. Mér finnst oft gleymast þegar menn eru í samtölum við aðra í ökutæki á ferð og eru með aðra hönd á stýri. þessu þarf að breyta.

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 3.12.2007 kl. 07:53

6 identicon

Símablaður undir  stýri er auðvitað stórhættulegt. Því  dýrari sem  bíllinn (jeppinn) er  því meiri líkur á að  ökumaður sé að tala  símann.

EG (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 08:49

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðalagið "einhvern sem situr á rassgatinu úti í bæ" má alveg eins herma upp á mig sjálfan. Geri ég það ekki oftast líka þegar ég er að reyna að ná í fólk?

Ég velti pínulítið vöngum yfir þessu orðalagi, - kannski svolítið glannalegt, - en ákvað að láta það gossa til þess að krydda svolítið textann.

Það hefur greinilega tekist að hrista svolítið upp í Rómverjanum með þessu orðalagi.

Það hljóta allir að sjá að með pistli mínum vildi ég koma "vandaræðagemsanum" til hjálpar. Allt frá upphafi farsíma á Íslandi hefur mér fundist þessi uppfinning ein hinna merkustu til þess að færa fólk saman um víða veröld, nú síðast í vaxandi tengslum við vefinn.

Gemsinn á hins vegar á hættu að verða óvinsæll ef notkun hans skemmir fyrir mannlegum samskiptum.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband