3.12.2007 | 12:12
SEINT Í RASSINN GRIPIÐ.
Það er góðra gjalda vert að vaxandi skilningur sé á hinum ýmsu hliðum umhverfismála og náttúruverndarmála. Vonandi gefur hin almenni vilji til þess að stóriðja greiði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vísbendingu um að skilningur á fleiri atriðum og staðreyndum umhverfismála muni vaxa nógu hratt til að halda í við hraðferðina sem stóriðjulestin virðist enn á ef marka má öll þau virkjanaáform sem enn eru uppi á borðinu.
Að sjálfsögðu hefði verið best ef hægt hefði verið að koma því svo fyrir strax eftir Kyoto-bókunina að álverin greiddu á einhvern hátt fyrir losunarheimildir sínar þótt það hefði ekki verið á beinan hátt.
Því miður gengur enn of hægt að breyta þeim hugsunarhætti sem áratuga einhliða síbylja um dásemdir hins orkufreka iðnaðar hefur innleitt hjá svo mörgum. Betur má ef duga skal.
Sem dæmi um það má nefna það að Hallur Magnússon telur í bloggpistil sínum í dag að álverin hér á landi noti "endurnýjanlega og hreina orku." Hann er ekki sá fyrsti sem lepur þessa alhæfingu gagnrýnislaust upp.
Það er rétt að margar íslenskar virkjanir geta talist endurnýjanlegar og áletrun í Ljósafossvirkjun þess efnis að Sogsvirkjanirnar séu eilífðarvélar getur alveg staðist.
Enga slíka áletrun er að sjá í Kárahnjúkavirkjun enda stæðist hún ekki. Sú virkjun hefur í för með sér að 25 km langur dalur verður fylltur upp af aurseti og að því loknu verður virkjunin ónothæf meirihlutann af ári hverju vegna vatnsleysis og afkomendur okkar fá þá það verkefni að útvega orku annars staðar frá.
Spurning er líka hve "hrein" sú virkjun er sem hefur þar að auki í för með sér nýja sandstorma úr lónstæðinu þegar það er að mestu leyti þurrar leirur snemmsumars.
Búrfellsvirkjun og virkjanirnar fyrir ofan hana geta talist endurnýjanlegar að miklu leyti en þó ekki öllu. Þannig er til dæmis þegar farið að sjást hvernig Sultartangalón fyllist hratt upp af auri.
Hitaveitur til húshitunar eru endurnýjanlegar, hreinar og með góða varmanýtingu þegar ekki er gengið of nærri afkastagetu virkjunarsvæðanna til frambúðar.
Nýjustu virkjanirnar á Hellisheiði eru það hins vegar ekki ef litið er ca 40 ár fram í tímann. Kreista á 600 megavött út úr svæðinu í stað þess að láta helminginn nægja svo að orkan endist til frambúðar. Eftir ca 40 ár verður orkan uppurin og þá mun það koma í hlut barnabarna okkar að útvega 600 megavatta orku annars staðar frá.
Hvað myndum við segja um þá Ólaf Thors, Bjarna Ben, Emil Jónsson og Gylfa Þ. ef þeir hefðu gert svipað fyrir 40 árum og við sypum af því seyðið í dag?
Frá Hellisheiðarvirkjununum mum streyma margfalt meira af brennsteinsvetni út í loftið en frá öllum álverum landsins til samans og lyktarmengun í Reykjavík fer þegar 40 daga á ári fram úr hámarki þess sem leyft er í Kaliforníu.
Nýtingin er léleg, aðeins 12 prósent af beislaðri orku nýtist en 88 prósent fer ónýtt út í loftið.
Við eigum að kafa dýpra ofan í hlutina og hampa þeim virkjunum sem sannanlega mun standast kröfur um "hreina og endurnýjanlega orku" en nefna hinar réttu nafni eða að minnsta kosti með réttum fyrirvara. Annars stundum við laumuspil og lygar og það er ekki gott fyrir þjóð sem vill vera í fararbroddi á umhverfis- og upplýsingaöld.
Það er hart að þurfa að vera að margblogga um ofangreindar staðreyndir og virðist vera eins og klappa í vegg því alhæfingarsíbyljan um hina "hreinu og endurnýjanlegu orku" heldur stanslaust áfram.
En rétt skal vera rétt og alhæfing Halls Magnússsonar sýnir hve langt er í land með að fólk geri sér grein fyrir hlutunum eins og þeir eru í raun og sann.
95% telja að stóriðja eigi að greiða fyrir mengun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll. Ómar hér eru smá upplýsinga úr Stern-skýrsluni.
Í STERN-skýrslunni um gróðurhúsaáhrifin er lögð áhersla á nauðsyn þess að "gera strax það sem hægt er að gera strax" til að vinna á móti þeim. Meðal þess sem hægt er að gera strax er að auka álvinnslu á Íslandi með virkjun vatnsorku og jarðhita í stað rafmagns úr eldsneyti. Hvert áltonn á Íslandi sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af CO2. Það liggur því á að virkja hér samkvæmt þeirri skýrslu.
Í Morgunblaðinu föstudaginn 23. febrúar sl. er það haft eftir fyrrverandi umhverfisráðherra að "ekkert lægi á í virkjana- og stóriðjumálum". Og núverandi umhverfisráðherra hefur látið svipuð sjónarmið í ljós. Lítum á hvort þau eigi rétt á sér.
Í blaðagrein í Morgunblaðinu blog.is 4. apríl sl. gat ég þess að losun koltvísýrings frá raforkuframleiðslu úr eldsneyti til álvinnslu nemur nú rúmlega 100 milljón tonnum af CO2 á ári og hefur aukist um 3,28 milljón tonn á ári að meðaltali 1994 til og með 2005. Árleg aukning ein saman nam þannig um 90% af allri innanlandslosun á Íslandi 2004. Hvert tonn af áli, framleitt á Íslandi með raforku úr vatnsorku eða jarðhita í stað eldsneytis, sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af koltvísýringi.
Ég gat þess einnig að orkulindir okkar Íslendinga réðu vel við 2,5 milljóna tonna álframleiðslu á ári eftir svo sem aldarfjórðung sem sparaði andrúmsloftinu 31 milljón tonna af CO2 á ári miðað við framleiðslu með rafmagni úr eldsneyti. 8,5-falda núverandi innanlandslosun á Íslandi og 30% af núverandi heimslosun frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu! Til þess þyrfti nálægt 40 TWh/a (terawattstundir á ári) í orkuveri, t.d. 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita. Með engu öðru móti gætu Íslendingar lagt jafnmikið af mörkum til að vinna gegn gróður-húsavandanum og með því að hýsa hér á landi allan þann áliðnað sem þeir mættu. Spurningin væri um viljann til þess.
Á bls. 261 í Stern-skýrslunni segir svo: "Fyrirtæki þurfa að taka ákvarðanir til langs tíma þegar ákveða skal fjárfestingar í verksmiðjum og tækjum sem ætlað er að starfa áratugum saman. Eitt dæmi um þetta er vöxtur áliðnaðarins á Íslandi. Ísland hefur dregið til sín álframleiðendur bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum, að hluta til vegna þess að með því að reiða sig í miklu ríkari mæli en áður á raforku úr endurnýjanlegum orkulindum draga þeir úr áhættunni af kostnaðarhækkunum vegna strangari reglna í framtíðinni um losun gróðurhúsa-lofttegunda." Við þetta mætti bæta að álfyrirtækjum er nú orðið annt um ímynd sína. Ennfremur segir svo um íslenskan áliðnað í rammagrein á sömu blaðsíðu:
"Á síðustu sex árum hefur Ísland orðið mesta framleiðsluland hrááls í heimi, reiknað á hvern íbúa. Búist er við að álframleiðsla á Íslandi vaxi í um milljón tonn á ári, en með því væri Ísland orðið mesta álframleiðsluland í Vestur-Evrópu. Ísland á aðgang að álmarkaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en meginkostur landsins er aðgangur að vatni og mengunarlausum orkulindum. Losun á CO2 á mann frá raforkuvinnslu á Íslandi er hin minnsta í OECD-löndunum. 70% af frumorkunotkun landsins kemur frá haldbærum orkulindum í landinu sjálfu. Á Íslandi er líka verið að gera ráðstafanir til að draga úr losun flúorsambanda frá álvinnslu. Væntingar um ráðstafanir á heimsvísu í framtíðinni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru nú þegar orðnar einn aðaldrifkrafturinn í að draga orkufreka starfsemi burt frá svæðum þar sem mikil slík losun fylgir orkuvinnslunni til landa með endurnýjanlegar orkulindir."
Í Stern-skýrslunni er lögð megináhersla á að það verði margfalt dýrara og erfiðara fyrir mannkynið að bíða með að gera ráðstafanir til að hemja gróðurhúsavandann en að byrja á því strax. En jafnframt að hér sé um langtímaverkefni að ræða sem taki marga áratugi. Þess er m.a. getið að "afkola" þurfi raforkuvinnsluiðnaðinn (sem að langstærstum hluta byggist nú á kolum) um 60% fyrir 2050 ef stöðva eigi koltvísýringsinnihald andrúmsloftsins við 550 milljónustu hluta (ppm). Byrjum strax á því sem við getum gert strax!
Eitt af því sem hægt er að gera strax er að hægja á, og helst stöðva, áðurnefndan árlegan vöxt á losun koltvísýrings frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu um 3,28 milljón tonn á ári. Til þess þarf að flytja hana þangað sem framleiða má raforkuna úr öðru en kolum, svo sem kjarnorku, vatnsorku, jarðhita og fylgigasi með olíuvinnslu. Tæknin til þess er þegar fyrir hendi. Meðal annars til Íslands. Við getum, ef við viljum, hýst hér áliðnað sem framleiðir árlega 2,5 milljón tonn af áli milli 2030 og 2040; löngu fyrir 2050. Það væri í samræmi við hvatningar Stern-skýrslunnar og öllu mannkyni í hag.
En þá liggur á að virkja. Og þá þurfa umhverfisráðherrar okkar að endurskoða fyrrnefnd ummæli og leggja áhersluna á það sem nú skiptir allt mannkyn langmestu í umhverfismálum: Baráttuna við gróðurhúsavána. Það er alls engin hætta á að við og gestir okkar munum ekki eiga kost á umgengni við ósnerta náttúru þótt við virkjum. Ísland er stórt og mjög strjálbýlt land.
Það hefur lítið verið minnst á Stern-skýrsluna í íslenskum blöðum síðan hún kom út. Þá birti Morgunblaðið ítarlega frásögn af henni og skrifaði leiðara um hana. Síðan hefur lítið heyrst um hana. Er hún komin upp í hillu? Sú skýrsla á ekki heima uppi í hillu en ætti að liggja opin á borðum ráðherra í öllum iðnvæddum ríkjum á hverjum morgni með miða sem á stæði "Urgent" (aðkallandi).
Ísland er í sérstöðu á heimsmælikvarða hvað orkulindir varðar. Með 100 sinnum meiri efnahagslega vatnsorku á hvern íbúa en jarðarbúar hafa að meðaltali, sem aðeins er nýtt að 29% (eftir Kárahnjúkavirkjun) og ríflegan jarðhita að auki; með eina mestu notkun á raforku á mann í landinu til almennra þarfa sem þekkist í veröldinni, og þannig staðsett, úti í reginhafi, að ekki er unnt að selja raforku þaðan til almennra nota í öðrum löndum vegna flutningskostnaðar. Breytingar á því eru ekki í sjónmáli.
Útflutningur á orkunni í formi raforkufrekra afurða eins og áls er eina færa leið okkar til að nýta okkar miklu orkulindir efnahagslega. Svo vel vill til að sú leið er jafnframt æskileg frá sjónarmiði baráttunnar við gróðurhúsavandann. Áhrif virkjana á Íslandi á náttúruna eru nákvæmlega hin sömu til hvers sem rafmagnið frá þeim er notað.
Kv, Sigurjón
Rauða Ljónið, 3.12.2007 kl. 14:55
Ég skrifaði færslu um Stern-skýrsluna þann 7. maí sl. sem sjá má HÉR
Þú talar oft um að þessi dalur fyllist af auri á 100 árum Ómar. Kannski verður þessi dalfylli auðlind í fyllingu tímans. Verðmæt náma af leir sem hægt verður að tæma og nota svo dalinn að nýju sem uppistöðulón. Tæma hana svo aftur 100 árum þar á eftir. Þessi kenning er ekkert verri en þær fabúleringar sem ég hef séð frá þér sjálfum koma og skoðanabræðrum og systrum þínum.
Afsannið þetta! og hana nú!!
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.12.2007 kl. 18:18
Ef þið skoðið grein Tryggva Felixsonar í Mbl í dag sjáið þið að það verður að horfa lengra fram í tímann því þetta er framtíðarmál. Þá stoðar lítt að hafa klárað orkuna í íslenskum háhitasvæðum á 40 árum og ekki heldur að halda fram endurnýjanlegum og hreinum orkulindum sem eru það ekki. Öll vatnsorka veraldar nægir aðeins til að framleiða 6% af orkuþörf heimsins og öll orka Íslands nálgast að vera einn þúsundasti af orkuþörfinni.
Á hundrað árum verða þúsund milljón tonn af sandi og leir komin ofan í Hálslón og ég spyr bara:Til hvers ætla menn að nota þetta hrikalega magn? Af hverju ekki eins og taka svipað efni niðri á láglendinu nær byggð og höfnum landsins? Hvers vegna dettur mönnum ekki í hug að nota leirurnar sem fýikur af við Hagavatn í efnistöku á dýrmætu efni og leysa um leið fokvandamálið þar?
Af því að efnið í þessum leirum og söndum sem íslenskar jökulár og jökulvötn bera fram eru gersamlega ónothæf og algerlega verðlaus. Annars væri þegar búið að nýta sér þær.
Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 22:39
2vær milljónir tonna af áli framleidd á Íslandi á ári með raforku frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum í stað framleiðslu sama magns með raforku sem fæst með kolakyndingu sparar a.m.k. 25 milljón tonn af CO2.
Ef við deilum þessu á 300 þúsund íslendinga er sparnaðurinn 83,3 tonn af CO2 á hvert mannsbarn á Íslandi.
Gott veganesti á ráðstefnuna í Balí.
Tryggvi L. Skjaldarson, 3.12.2007 kl. 23:41
Góður punktur Tryggvi.
Eftir hundrað ár verður búið að finna not fyrir hinn einstaka íslenska jökulleir sem eftirsóttur verður um heim allan. Efnasamsetning hans á sér enga líka í veröld allri og verður hann okkar verðmætasta útflutningsafurð. Búin verður til steypa úr leirnum sem slær öllu öðru byggingarefni við og einnig verður búinn til úr honum svokallaður "leir-marmari" sem listaspírur og myndhöggvarar munu slást um. Svo verður hægt að búa til örþunnar hlífðarplötur úr jökulleirnum sem blandaður verður sérstöku hersluefni, fyrir geimför ofl. farartæki.
Möguleikarnir eru ótakmarkaðir!
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 00:59
Er þetta ekki heldur mikill leirburður hjá þér Gunnar ?
Sævar Helgason, 4.12.2007 kl. 08:07
Gunnar svarar á sama hátt og svo margir af hans skoðanabræðrum hefa gert. Þeir afsaka hvað eina sem gert er í dag með því að kynslóðir framtíðarinnar muni finna upp tækni til að bæta fyrir brot okkar. Með svona röksemdafærslu er hægt að réttlæta hvað sem er.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 12:28
Sæll, Ómar.
Þú svarar ekki Tryggva eða Gunnari né mér um þessi mál.
Kv, Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 4.12.2007 kl. 15:26
Ómar, þetta átti nú að vera kaldhæðnislegt grín á fullyrðingar andstæðinga framkvæmdanna fyrir austan um ýmislegt sem "hefði og mundi" ef ekki væri farið í þetta verkefni. T.d vitnaði Landvernd í skýrslu sinni um framkvæmdirnar, í "sérfræðinga" í ferðaiðnaðinum sem fullyrtu að ferðamannastraumurinn til Austurlands myndi minnka um 70% ef af framkvæmdunum yrði og 50% á landinu öllu. Ýmsar fleiri dómsdagsspár hafa komið frá ykkur um ómetanlegt tjón á lífríkinu, gæsum, hreindýrum, selum, lóum og spóum, jafnvel fiskistofnum á Austfjarðamiðum. Svo ætlist þið til að þið séuð tekin alvarlega!
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 17:01
ef ekki væri farið í þetta verkefni.... átti að vera ef farið yrði í verkefnið
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 17:12
Ómar!! Orka háhitasvæða uppurin á 40 árum. Það væri saga til
næsta bæjar ef Helvíti væri frosið eftir 40 ár. Hvað með að
framleða nóg af CO2 til að forða heiminum frá glötun.
Leifur Þorsteinsson, 5.12.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.