4.12.2007 | 00:18
TRÖLLIÐ STAL JÓLUNUM, - FINNAR HIRTU JÓLASVEININN.
Blogg Marínós G. Njálssonar um Rovaniemi kveikir í mér. Eftir tvær ferðir um Lappland allt frá syðstu mörkum þess í Svíþjóð um Finnland og til Alta í Noregi sáum við hjónin, Helga og ég, hvílíkir aular við Íslendingar höfum verið að átta okkur ekki á verðmætunum sem land okkar býr yfir. Fleiri ferðamenn koma nú til Lapplands á veturna en allt árið til Íslands og um það gerði ég sjónvarpspistil fyrir þremur árum. Þarna eru seld ferns konar verðmæti: 1. Kuldi. 2. Myrkur. 3. Þögn. 4. Ósnortin náttúra. Allt eru þetta atriði sem við Íslendingar höfum talið dragbíta á okkar möguleika.
Í Rovaniemi er mikill ferðamannastraumur á þessum árstíma vegna þess að með markvissri markaðssetningu hafa Finnar auglýst þennan höfuðstað Lapplands upp sem heimkynni jólasveinsins. Einnig eru þeir með frábærar vélsleðaferðir og norðar í Lapplandi eru fjölsóttir skíðastaðir í fjöllum, sem við Íslendingar myndum kalla hóla.
Fyrstu áratugina eftir stríð steymdu bréf til Íslands frá evrópskum börnum, einkum breskum, með utanáskriftinni: "Jólasveinninn, Íslandi. Þetta var talin hin mesta plága og skapaði vandæði hjá póstinum. Reynt var að svara einhverju af þessum bréfum en allir önduðu léttara þegar álagið minnkaði við það að smám saman hættu börnin að skrifa þessi bréf.
Í stað þess að sjá verðmætin í þessu létum við Finna hirða jólasveininn af okkur. Á jólunum er stundum sýnd myndin "þegar tröllið stal jólunum" en kannski mætti gera mynd sem héti "þegar Íslendingar stálu jólunum og jólasveininum frá sjálfum sér".
Nú segja einhverjir að gott sé að markaðshyggjan hafi ekki náð svo langt að laða útlendinga til landsins sem spilli hér friði. Þeir hinir sömu ættu að íhuga hvort við séum ekki fyrir löngu búin sjálf að spilla þessum friði með streitu og örtröð desembermánaðar.
Við heimskautsbaug rétt norðan við Rovaniemi hafa Finnar reist heimkynni jólasveinsins, hugvitssamlegt mannvirki hliðstætt Disneyland þótt ekki sé það eins stórt.
Í Jukkasjaarvi er frægasta íshótelið, annað við Kemi við botn Kirjálabotns.
Lapparnir selja norðurljósin svo vel að "skýjaglópurinn" Einar Ben hefði roðnað við að sjá það.
Hér heima héldu þeir í Hveragerði fyrir nokkrum árum að hægt væri að reisa heimkynni jólasveinsins.
Það ævintýri rigndi niður.
Aðeins tveir staðir á Íslandi koma til greina að mínum dómi til að keppa við Lappland: Mývatnssveit eða Egilsstaðir. Af þessum tveimur eiga Egilsstaðir meiri möguleika vegna þess að þar er alþjóðaflugvöllur eins og í Roveaniemi, og uppi á Fljótsdalsheiði, aðeins fáa kílómetra frá flugvellinum er tryggt að finna þau atriði sem geta keppt við Finnana.
Í Finnlandi hafa þeir þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, jólasvein.
Á Fljóstdalsheiði hafa Austfirðingar þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, eldfjall (Snæfell) þrettán jólasveina, Grýlu, Leppalúða og öll tröllin. (Engin fjöll eru nálægt Rovaniemi)
En það er þýðingarlaust að tala um þetta hér. Við sjáum bara álver og í þau er óhætt að fjárfesta svo hundruðum milljarða skiptir jafnvel þótt arðurinn sé fyrir neðan lægstu arðsemismörk.
Við segjum að það sé allt of langt hingað frá Evrópu. Jæja, það er nú samt lengra frá Spáni, Portúgal, Frakklandi og Bretlandi til Rovaniemi en til Egilsstaða.
Við höldum að Spánverjar, Portúgalir, Ítalir, Frakkar og Bretar sækist eftir heiðríkju, hita og sól.
Við hjónin fórum um Írland fyrir 15 árum. Til vesturstrandarinnar flykktust Grikkir, Ítalir og Spánverjar til þess að upplifa kalda og hvassa vestanáttina sem bar saltkenndan úða yfir ströndina svo að allar hríslur voru lauflausar þeim megin sem sneri að Atlantshafinu. Þetta var markhópur Íranna, fólk sem var að deyja úr leiðindum yfir hita og sól og vildi upplifa eitthvað allt annað, stóð við ströndina og fannst það vera að fá allt Atlantshafið framan í sig.
Aldrei upplifað neitt slíkt, - algerlega ný lífsreynsla!
Hingað kom þekktur bandarískur ferðamálaprófessor fyrir sjö árum og sagði okkur að sá markhópur ferðamanna sem stækkaði mest í heiminum væri það fólk sem hefði að kjörorði: "Get your hands dirty and your feet wet." Ég tók viðtal við þessa konu og næstu ár á eftir urðu "survival" og "raunveruleikasjónvarp það vinsælasta.
Írar auglýsa stærsta fuglabjarg Evrópu og draga þangað ferðamenn. Þegar ég sagði við þá að á Vestfjörðum á Íslandi stæðu tvö af þremur langstærstu fuglabjörgum Evrópu sitt hvorum megin við vík eina, og hið þriðja af stærstu fuglabjörgunum væri sunnar á fjörðunum, sögðu þeir: "Já en Ísland er jú eyja."
"Er Írland þá ekki lengur eyja, eyjan græna?" spurði ég og fékk ekkert svar.
Finnar eiga saunaböð en enga hveri eða náttúrugerðar laugar til að leggjast í. Fyrir tíu árum kom hingað blaðamaður frá Sunday Times og var hér yfir jól og áramót. Hvað fannst honum merkilegast? Jú, það var skafrenningurinn! Þessi ótrúlegi skafrenningur!
Og síðan var það auðvitað hin almenna flugeldasýning, brennurnar og álfarnir á áramótunum.
Í fyrra var viðtal við erlenda ferðamenn í sjónvarpi og þeir spurðir hvort leiðinlegt veður og kuldi hefði ekki gert þeim lífið leitt. Spurningin virtist vekja þeim furðu. Þeir sögðust einmitt hafa komið hingað til að upplifa slíkt.
Þetta skiljum við Íslendingar ekki og þaðan af síður það að það þurfi umtalsvert fjármagn, hugvit og vinnu til að ná til þeirra markhópa sem Írar og Finnar hafa náð til. Jólasveinsgarðurinn við Rovaniemi kostaði peninga, svo og öll önnur ferðamannaaðstaða, hótel og markaðsherferðir. Samt er um að ræða margfalt minna fjármagn en hér er eytt í álver og virkjanir.
NIðurstaðan hér á Íslandi verður auðvitað áfram hin sama og hingað til: Lofum Írum að hirða af okkur ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndum og Finnum að hirða af okkur jólasveininn, norðurljósin og náttúru sem engan veginn jafnast á við þá íslensku og nýta það sér til frægðar og fjár.
Finnar vita að til framtíðar vinnst hálfur sigur við það eitt að koma börnunum á bragðið. Þau eiga eftir að verða fullorðnir og vel stæðir ferðamenn. Japnanir unnu sigra sína á bandaríska bílamarkaðnum með því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum smábíla og stækka bílana jafnóðum og þetta fólk óx upp og fór að hafa efni á dýrari, og stærri bílum.
1976 tók ég upp í bíl puttaferðalang, einn af svonefndum erlendum bakpokalýð sem rætt var um að við ættum að forðast að fá til landsins. Nú kemur þessi maður árlega með tugi nemenda sinna til Íslands.
Nei, annars, það er vonlaust að blogga í þessum stíl. Það verður að halda áfram að reisa hér álver og eyða í það hundruðum milljarða króna. Annars verður hér kreppa og atvinnuleysi.
Athugasemdir
Við eigum heilmikil verðmæti í jólasveinasögunum okkar eins og öðrum hulduverusögum. Algjörlega ónýtt verðmæti. Það er með ekki miklum (eða miklum, eftir áhuga) tilkostnaði hægt að gera hér algjöra ævintýraveröld bara uppúr sögum, gömlum og nýjum af samskiptum okkar við okkar hulduveröld. Ég á vini víða um heim sem sækja í að heyra fleiri og fleiri sögur um þessa undarlegu veröld sem býr með okkur hérna. Sögur af 13 jólasveinum er eins og dýrindis fjársjóður fyrir börn sem hafa aðeins heyrt um einn
Algjörlega ónýttur fjársjóður sem við eigum. Allavega mjög lítið nýttur. Ertu með Ómar, eigum við að setja upp ævintýragarð?
Ragnhildur Jónsdóttir, 4.12.2007 kl. 00:26
"Er Írland þá ekki lengur eyja, eyjan græna?" spurði ég og fékk ekkert svar.
Það er kannski ekkert skrítið að þú hafir ekki fengið svar, þeir hafa séð að úr því ekki er búið að gera Ísland nú þegar að ferðamannaparadís, þá hljóti einhverjir fakrtorar að gera það erfitt.
Þút talar um að í Lapplandi séu seld ferns konar verðmæti: 1. Kuldi. 2. Myrkur. 3. Þögn. 4. Ósnortin náttúra. Þú gleymir að í kaupbæti færðu rokið, bylinn, regnið, þokuna = umhleypinga, sem gerir allar ferðaáætlanir nánast vonlausa, því ekki gengur að bjóða ferðamönnum að það séu 25% líkur á að þeir fái ekkert fyrir peningana sína ef þeir koma hingað.
Það þýðir ekkert að virða fyrir sér póstkortamyndir sem teknar eru við bestu skilyrði og segja "Þetta höfum við að bjóða!". Raunveruleikinn er annar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 01:15
Hér á Reyðarfirði hef ég komist í ágæt kynni við fólk frá fjölmörgum þjóðum, s.s. frá Póllandi, Ungverjalandi, Rússlandi, Litháen, Lettlandi, Portúgal, Spáni, Kanada, Ástralíu, Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð...ah, gæti haldið lengi áfram en við þetta fólk hef ég spjallað um heima og geyma. Allt þetta fólk hefur orð á því hve náttúran hér er stórkostleg en undantekningalaust nefnir það "fjandans rokið" sem neikvæða upplifun hér. Margir þeirra Ástrala sem hér eru, eru að koma í fyrsta sinn út fyrir heimaland sitt og upplifa snjó og kulda í fyrsta skiptið á ævinni. Þeim finnst það frábært! En ekki rokið.
Ef þú ætlar að selja rokið Ómar, keyptu þér þá vindmyllu til rafmagnsframleiðslu. Þú getur valið hverjir fá að kaupa orkuna þína og mér segir svo hugur að það verði ekki álframleiðendur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 01:25
Sá sem er í ferðamannabransanum í Lapplandi, sendir út bækling með myndum sem sýna sólina lágt á lofti, það stirnir á hjarnbreiðurnar, hreindýr í bakgrunni og fólk á vélsleða eða jafnvel hreindýrasleða í forgrunni, glaðlegt á svip í stillunni.
Það eru 99% líkur á ferðaþjónustuaðilinn geti staðið við þá mynd sem hann dregur upp og sú mynd er söluvænleg.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 01:35
Sæll Ómar, takk fyrir að vekja máls á jólasveininum! Hér í Þingeyjarsýslum eru heimamenn í Mývatnssveit þegar komir lengra en þú nefnir í þínum pistli og þar eru íslensku jólasveinarnir markaðssettir til "innflutnings" í Dimmuborgum.
Ég var svo heppinn að fá að koma til Rovaniemi í febrúar s.l. og það er allt rétt sem þú segir okkur um ferðamennskuna þar. En til viðbótar er ágætt að nefna það að í ánni sem rennur í gegnum borgina eru ein 12! já 12 vatnsafls orkuver og svo ekki sé minnst á kjarnorkuverin í Finnlandi. Mengunin í borginni af völdum snjósleða er svo mikil út af stillum að fjöldi snjósleða er takmarkaður innan borgarmarkana við 400 stk.
Við Þingeyingar erum á fullu að markaðssetja okkur sem ferðamannastað og góður stuðningur er alltaf vel þegin. Það á hinsvegar ekki að koma í veg fyrir það að við eflum okkar undirstöður s.s. með álveri á Bakka!
Friðrik Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 09:33
Blaðamaðurinn sem setti skafrenninginn efst á blað í Sunday Times gerði það af því að hann hafði aldfrei getað ímyndað sér að þetta fyrirbæri væri til. Hann hafði aldrei séð mynd af skafrenningi á póstkorti frá Íslandi. Þótt það séu umhleypingar er sjaldgæft að heil vika líði hér á landi að það sé ekki hlé á milli lægða einhverja daga eða dagparta.
Við getum vel auglýst landið eins og það er, sýnt stjörnuhimininn og norðurljósin sem birtast þegar styttir upp. Veðurfarið í Mývatnssveit eða á Héraði er allt annað en á Reykjavíkursvæðinu eða á Austfjörðum.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 09:39
Góð umfjöllun, Ómar. Það er gott að geta verið mönnum innblástur (sjá bloggið Rovaniemi og jólasveinninn - glatað tækifæri fyrir Íslendinga?).
Ég sagði í blaðagrein fyrir mörgum, mörgum árum að ef við fengjum skipulagssnilinga Landsvirkjunar (því í gegnum tíðina hafa fá fyrirtæki staðist kostnaðaráætlanir jafnvel og þeir) til að skipuleggja ferðaþjónustu fyrir brot af þeim peningum sem áttu að fara í þá Eyjabakkavirkjun, þá myndu fleiri fá vinnu við það en stóriðju og árlegur vöxtur yrði góður til langframa. Þetta var á þeim tíma þegar Austfirðingar höfðu beðið í áraraðir eftir að eitthvað gerðist í stóriðjumálum. Nú menn héldu áfram að bíða. Ekki það, að fjölmargir aðilar hafa byggt upp ferðamennsku í kringum vetrarferðamennsku hér á landi, en við hefðum getað verið komin mun lengra.
Gunnar, þegar ég kom til Rovaniemi fyrir rétt um ári, þá var að mestu snjólaust. Það var ekki hægt að fara í sleðaferð, þoka lá yfir svæðinu, á götum var slabb og heldur lítil vetrarstemmning. Fyrir mig frá Íslandi var þetta ekki eins spennandi og ég átti von á, eiginlega óttaleg fýluferð (fyrir utan að ráðstefnan var góð). Ég var búinn að búa mig undir það versta, þ.e. með vetrarklæðnað í töskunni, þykkar peysur, skíðabuxur og alvöru vetrarskó. (Veðurspár höfðu verið misvísandi.) Fyrir Spánverjana, Bandaríkjamennina, Bretana og hvaðan fólkið var nú að koma, var þetta mikil upplifun. Skíðaferð á einhvern hól, var svo mögnuð upplifun að fólkið mun muna þetta alla ævi. Snjófölin sem var þarna varð til þess að fólk dróg fram allan vetrarklæðnaðinn sinn og upplifði sig eins og á Norðurpólnum. Við megum ekki setja samasemmerki milli þess hvað okkur finnst áhugavert og hvað öðrum finnst áhugavert. Ísland í vetrarbúningi er söluvara, en þar sem við getum ekki tryggt "rétt" veður, þá er gott að hengja eitthvað sem er óháð veðrinu við varninginn. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir 13 eru dæmi um slíkt.
Marinó G. Njálsson, 4.12.2007 kl. 10:42
Já Ómar þetta hér var líka plága árið 1995. Eftir að þátturinn var sýndur á BBC í ársbyrjun árið 1995 var hringt stanslaust í sendiráðið og spurst fyrir um ferðir. Það var plága.
Birgir Þór Bragason, 4.12.2007 kl. 10:46
Mér finnst þið gera lítið úr þeim aðilum sem nú þegar eru að róa á ferðamannamiðin. Eru það þeir sem ekki eru að standa sig? Eða eru þeir að "bíða" eftir opinberri aðstoð? Hvar eru plönin? Ekki ætlist þið til að ríkið búi til plönin líka, er það?
Hefurðu tölur um það Ómar, hvernig ferðamannaiðnaðurinn í Lapplandi náði sér svona á strik? Hverju var varið í markaðskynningu og áætlanir? Hver hlutur finnska ríkisins var?
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 11:38
Frábær mynd sem þú bendir á Birgir Þór. Þeir segja að Ísland sé eins og Skotland á sterum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 11:49
Vatnsaflsvirkjanirnar í Finnlandi eru eilífðarvélar, knúnar hreinu vatni. Í lok virkjanaskeiðsins var ætlunin að virkja sem svarar langleiðina í Kárahnjúkavirkjun en hætt var við það allt vegna þá nýrrar umhverfisstefnu og nú reisa Finnar frekar kjarnorkuver.
Gunnar hittir naglann á höfuðið varðandi aðstöðuna til eflingar atvinnu á landsbyggðinni. 1995 hófu íslensk stjórnvöld dýra og harða herferð til að fá hingað álver og sendu meðal annars hinn fræga bækling til erlendu stóriðjufyrirtækjanna "Lowest energie prizes."
Til að liðka fyrir álverunum er langur listi fríðinda sem þau njóta. Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er svo lág að hún fékkst aðeins í gegn með ríkisábyrgð og Landsvirkjun skuldsetti sig svo stórlega að afkoma fyrirtækisins er langt frá því að vera viðunandi.
Ég sat eitt sinn fund viðskiptaráðs Íslands þar sem forstjóri Marels upplýsti að þegar hann hefði tekið stöðu Landsvirkjunar á nokkurra ára tímabili milli þess sem dollarinn var jafnhátt skráður hefði komið í ljós að þetta fyrirtæki sem ætti að mala gull, hefði verið rekið með tapi.
Hann spurði fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar sem var líka á fundinum, hverju þetta sætti, en fékk engin svör.
Aðstöðumunur þeirra sem vilja stóriðju og þeirra sem hafa aðrar hugmyndir hefur verið himinhrópandi, - það er málið.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 11:55
Gunnar, ég er alls ekki að gera lítið úr þeim sem róa á ferðamannamiðin núna. Þar hefur margt fólk lyft Grettistaki og ber ég mikla virðingu fyrir starfi þess, en ég er viss um að það hefði alveg þegið jákvæðara umhverfi að vinna í. T.d. betri flugstöð á Egilsstöðum, alvöru flugvöll í Aðaldal, meiri uppbyggingu aðstöðu, hagstæð lán o.s.frv.
Marinó G. Njálsson, 4.12.2007 kl. 12:27
Eitt sinn fyrir mörgum árum fékk ég þrjá Íra í heimsókn. Þetta var í byrjun febrúar. Mér fannst sem lítið væri hægt fyrir þá að gera þá einu dagstund sem við höfðum aflögu til að skemmta okkur. Hveragerði varð þrautalendingin, nánar tiltekið EDEN. Ég taldi að gróðurhús á Íslandi gætu komið þeim á óvart.
Úti var hörkufrost og bálhvasst. Skafrenningur. Á leið austur stoppaði ég bílinn á Kambabrún og bauð gestunum að stíga út og viðra sig augnablik. Tveir létu sig hafa það en einn afþakkaði. Allir voru í léttum vetrarflíkum gerðum fyrir labb í borgum. Þeir sem stigu út höfðu ekki áður fundið slíkan kulda og veltu því mjög fyrir sér hvað það tæki langan tíma fyrir mann að krókna við þessar aðstæður.
Þegar við komum til Hveragerðis byrjaði ég á því að sýna gestunum hvar heitt vatn seytlaði upp úr jörðinni. Síðan ókum við í EDEN, sem reyndist vera lokuð. Mér fannst sem túrinn hefði orðið endasleppur, en kom þá í hug sundlaugin í Laugaskarði. Við enduðum sem sagt með því að fara í sund.
Það er skemmst frá því að segja, að Írarnir ætluðu hreinlega ekki að jafna sig á þessu (hversdagslega) ævintýri. Þeim fannst óviðjafnanlegt að finna frosinn lubbann á sér ofan í heitapottinum, að vera á sundskýlu einni fata í fimbulkulda en þó notalegri hlýju. Þeir helltu enn úr eyrunum yfir þessu tveim dögum síðar, þegar þeir yfirgáfu landið. Gleyma þessu ekki meðan þeir lifa.
Ómar hefur unnið þrekvirki og mikið gagn með því að leiða okkur fyrir sjónir töfra landsins sem við byggjum.
Rómverji (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 15:16
Marinó: Nýstækkuð og endurbætt flugstöð verður tekin í notkunn upp úr miðjum desember, þökk sé stórkostlegri aukningu flugfarþega vegna framkvæmdanna fyrir austan. Ekki það að gamla flugstöðin hafi staðið þróun ferðamannaiðnaðarins fyrir þrifum, það var einfaldlega ekki þörf á stærri flugstöð fyrir Kárahnjúka.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 16:50
Ég er sammála þér Ómar góður pistill hjá þér. Við Íslendingar eigum hér margar perlur sem við getum selt og laða að ferðamenn. Jólasveinninn eins og Finar gerður var tilvalið að gera hér. Við höfum allt sem góður ferðamannastaður þarf að hafa. Við höfum sérstöðuna. Breytilegt veður, og flotta náttúru. Nú er það hjá okkur sem eru að útskrifast sem ferðamálafræðingar að nýta þessi tækifæri sem landið hefur að bjóða fyrir ferðamenn.
Þórður Ingi Bjarnason, 4.12.2007 kl. 18:34
Fyrir mína parta þá lít ég einmitt á sumt hér að ofan sem helstu hindrun fyrir því að ég geti skilið Íslendinga - þeas þessi dauðans ótti við að vera öðruvísi Í RAUN og svo þessi leiði aumingjaskapur frammi fyrir rokinu og letin og óttinn gagnvart tungumálinu. Hvað á ég við? Jú, að menn skuli alltaf finna allt til foráttu sé það öðruvísi hér en annars staðar. Stundum held ég að Íslendingar vilji ekkert frekar en að fá að raða saman nokkrum brotum af heiminum, búa til Ísland óskabrunnsins - þeas Ísland sem er með landslag og veðráttu einsog hún er annarsstaðar og að íslenskan hafi sömu frávik og eitthvert annað tungumál (og helst aðeins eitt fall). Það er einsog við séum dæmd til að vera smáborgarar hérna á eyjunni og þrá að vera einsog bara einhver útlendingurinn (tískuástin) eða eitthvert útlandið (bláa lónið, ylströndin) eða tala einhveja útlenskuna (sbr. sletturnar). Við njótum aldrei þess sem VIÐ Í ALVÖRU HÖFUM HÉRNA. Og til hvers í askotanum er íslenskt hjarta eða ímyndunaraflið ef við getum aldrei LITIÐ Á LAND OKKAR, TUNGU OG VEÐURFAR SJÁLF og séð að þetta er yfirmáta töfrandi? Íslandi mætti kannski helst líkja við fáráðlingaskip, því ekki vantar hrokann og belginginn erlendis, en heima fyrir hötum við allt sem við sögðumst unna í víking. Ergó hrokinn. Rokið, rokið - sá sem getur ekki selt rok hefur ekki snefil af ímyndunarafli - hvað þá frumlegt viðskiptavit.
Ergó (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 18:45
Að sjálfsögðu eigum við heilmikla möguleika í ferðamannaiðnaðinum og rokið hentar eflaust einhverjum, en ég efast um að ferðamaður sem kemur hingað til að kaupa rokið komi endilega aftur. Við höfum nefnilega ekkert veður hér, bara sýnishorn. Ef ferðamaður kaupir rokið, fær hann logn eða andvara, ef hann kaupir frost og stillur, fær hann rok....osfrv. Það er erfitt að markaðsetja íslenska veðrið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.12.2007 kl. 19:00
Ketill Larssen hafði á sínum tíma uppi miklar hugmyndir um jólasveinabyggð á Íslandi. En enginn hlustar á snillinga. Ketill var um árabil fulltrúi fyrir það besta í íslenskri jólasveinamenningu. Eiginlega finnst mér að Ketill eigi skilið Fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu Íslenska jólasveinsins.
Vilhelmina af Ugglas, 4.12.2007 kl. 21:02
Ég starfaði hér áður á vettvangi tveggja "jólasveina", Ketils Larsens og Hjálmars Gíslasonar. Ég gerði það sem ég gat til að skapa persónuna Gáttaþef.
Þeir Ketill og Hjálmar virtust hins vegar ekki þurfa að hafa fyrir því að skapa neitt. Um leið og þeir voru komnir í búningana voru þeir ekki lendgur Ketill og Hjálmar.
Fyrir framan mig stóðu þeir Askasleikir og Gluggagægir holdi klæddir og voru þeir sjálfir. Það var ógleymanlegt að kynnast þeim bræðrum svona vel.
Þvílíkir karakterar !
Ómar Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 00:35
Stefán H. Valsson setti bloggið þitt á heimasíðu Félags leiðsögumanna. Þetta eru orð í tíma töluð.
Ég er svona rétt að þorna á bak við eyrun í leiðsögumannsstarfinu, en hef haft þá ánægju frá í því í fyrra að fara með ferðamenn að vetrarlagi um suður- og suðvesturland, mest til Þingvalla, Gullfoss og Geysis, eins að skoða norðurljós í frosti og gjólu. Farþegarnir koma víðsvegar að, lengst frá Eyjaálfu, og eru hvað hrifnastir ef þeir ganga út úr póstkortaímyndinni, þ.e. fá hressilegt íslenskt vetrarveður, jafnvel líka góða dembu. Eitt sinn þegar við vorum stödd við Strokk og sveitir og fjöll voru hvítgrá af hélu, spurði einn ástrali hvort sveitirnar væru grónar og grænar að sumarlagi. Ég varð nokkuð kotroskinn og hvað já við - þá sagði hann: "Ég er feginn að ég kom á þessum árstíma, þetta er mikil upplifun, við eigum nóg af grænu allt árið heima." Margir fleiri hafa nefnt hversu mögnuð upplifun íslensku veturnir eru - sólina sjá þeir heima.
Styður það sem þú segir.
Með bestu kveðju til beggja frúnna (lágt og hægt)
Jón Lár
Jón Lárusson (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.