ORÐUM ÞURFA AÐ FYLGJA EFNDIR.

"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið og það er góðra gjalda vert að ríkisstjórnin hafi sett okkur takmörk. En það þarf efndir og þess vegna er málið ónýtt meðan ekki er gripið til aðgerða. Hvað bílaflotann snertir má nefna eftirfarandi og er því raðað í röð með tilliti til þess hvað virkar fljótast og einfaldast.

1. Lækka þarf verð á dísilolíu miðað við bensín vegna þess að dísilbílar eru mun ódýrari og fljótlegri lausn til að minnka eldsneytiseyðlu og útblástur en t. d. tvinnbílar.
2. Setja þarf lengdargjald á bíla til að smækka bílaflotann og minnka eyðslu og útblástur en jafnframt því losnar ótrúlega mikið og dýrt rými í samgöngukerfinu. Að fjðlga sem mest styttri bíluml liðkar fyrir umferð og gerir hana skilvirkari, eyðsluminni og ódýrari. Auk þess getur það sparað vegaframkvæmdir.
3. Leggja af tollfríðindi á pallbíla.
4. Frítt í strætó, efling almenningssamgangna.
5. Stuðla að meiri notkun etanólbíla, methanbíla og rafbíla.
6. Hraða uppsetningu kerfa fyrir vetnisbíla, rafbíla og etanól og metanbíla.

En fyrst og fremst þarf breytt hugarfar og ég hygg að ég finni andrúmsloftið betur en flestir aðrir á viðbrögðum fólks við bílunum sem ég ek að jafnaði. Það er litið á mann sem sérvitring eða hálfgerðan asna fyrir það hve litlir og ódýrir þeir eru. Á meðan svo er og stóru, dýrum og eyðslufreku bílunum hampað á alla lund gerist ekki neitt, fyrr en kannski svo seint að miklu verra verður fyrir þjóðina að fást við þessi úrlausnarefni þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Sæll Ómar. Fyrir um 8 árum var því skotið að „vetnisnefnd“ að vetnisvæða íslensku torfæruna. Þá var hún sýnd í sjónvarpi um allan heim, í 79 löndum, og ákjósanlegt að halda á lofti hreinu Íslandi. Það var nú ekki tekið vel í það verð ég að segja. Hugsaðu þér forskotið, ef Hjálmar og co hefðu þorað. Þora menn núna???

Birgir Þór Bragason, 4.12.2007 kl. 23:14

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

http://www.ns.is/bref%5Ffra%5Fneytendum/2005/?ew_news_onlyarea=content1&ew_news_onlyposition=3&cat_id=22480&ew_3_a_id=128553

Theódór Norðkvist, 5.12.2007 kl. 00:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frábær athugasemd, Birgir. Bílarnir sem keppa í torfærunni eru það fáir að þetta hefði verið og gæti orðið vel mögulegt.

Ég hef stundum fært að því rök að sumt af því sem gert er megi telja til þess að gera sér dagamun og sé svo lítill hluti af heildarútblæstrinum að nær sé að taka á þessum hversdagslega akstri sem yfir 90 prósent útblástursins kemur frá.

Hugmynd mín að hleypa nýju lífi í rúntinn byggðist á þessum röksemdum, - um væri að ræða örlítið brotabrot af heildarakstrinum.

Formúlu 1 bílarnir eru fáir og útblástur þeirra er því örlítið brot af heildarútblæstrinum. Menn gera sér dagamun.

En það má líka líta á þá frá hinni hliðinni. Af því að þeir eru svo fáir ætti það ekki að vera svo dýrt að knýja þá á umhverfisvænni hátt þótt það kosti mikið á hvern bíl.

Ómar Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 00:26

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Flest gott í þessum tillögum þínum, Ómar. Þó set ég spurningarmerki við vetnisvæðinguna -- og ykkar Birgis Þórs -- er hún svo langt komin að duga myndi í torfærutækin?

-- Eins og er mun metan-nýtingin vera raunhæfasti kosturinn fyrir okkur og sá sem ganga mætti að með litlum fyrirvara. Ef t.d. Eyfirðingar settu upp Metannýtingu eins og þá sem er hér í Álfsnesi áynnist mikið. Þó metanbíll skili um 80% af þeim koltvísýringi sem sambærilegur bensínbíll gerir er það samt ávinningur því þetta metan fer út í andrúmsloftið hvort sem er -- með þessu er það þó tvínýtt. -- Etanólið er vafasamara einkum með tilliti til framleiðsluhátta þess sem ekki eru allir jafn heppilegir og yrðu því vafasamari sem eftirspurn eftir því yrði meiri. Og rafmagnið? Enn er drægni rafbíla of lítil til að vera virkilega raunhæfur kostur nema fyrir þá sem hafa efni á að eiga bíl annars vegar en innanbæjarskutlu hins vegar.

Sigurður Hreiðar, 5.12.2007 kl. 13:23

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Sigurður Hreiðar, - þú ert ekki einn um það að setja spurningarmerki við vetnisvæðinguna. Mikill kostnaður og lélegt nýting er meðal þess sem nefnt er í því sambandi.

Og erlendis er í raun víðast um það að ræða að færa útblásturinn til, þ. e. frá bílunum í orkuverin sjálf því vetnið er ekki orkugjafi heldur orkugeymsla, milliliður.

Rafbíll kemur ekki til greina fyrir meðaljón nema hann eigi annan venjulegan bíl líka sem hann getur komist á í einum rykk til Hveragerðis og aftur til baka.

Meðaljóninn á erfitt með að réttlæta fjárfestingu upp á 1,5 milljónir í bíl sem hugsanlega fellur svo í endursöluverði að peningalegur sparnaður af akstrinum verður enginn og endar kannski með meiri útlögðum kostnaði.

Þess vegna set ég efst á blað það liggur beinast við, smærri og sparneytnari bíla í kerfi þar sem sá borgar sem mengar eða nýtir dýrt rými á götunum.

Ómar Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 13:56

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Fyrst og fremst þarf að gera sparneytnari bíla hagkvæmari fyrir þá sem eru að kaupa bílana nýja. Þeir sem kaupa nýja bíla ætla sér sjaldnast að keyra þá það lengi að eldsneytishagkvæmnin nái að koma díselbílum, að maður tali ekki um tvinnbílum almennilega til góða. Málið er að breyta aðflutningsgjöldunum.

Gestur Guðjónsson, 5.12.2007 kl. 14:13

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gestur -- gæti ekki fyrsta skrefið verið að laga gjöldin sem felld eru inn í dísilolíuna þannig að hún væri sá hagkvæmi kostur sem við neytendur vonuðum, þegar dísilskatturinn var færður inn í lítraverðið?

Sigurður Hreiðar, 5.12.2007 kl. 14:33

8 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Gasolíuverðið (gasolía er íslenska orðið fyrir díselolíu) er ekkert á leiðinni niður. Það er vegna þess að hreinsistöðvarnar hafa ekki undan að framleiða gasolíu sem uppfyllir þær ströngu kröfur sem nýlega voru gerðar til brennisteinsinnihalds auk almennrar hækkunar á hráefninu.

Ef mismuna ætti þessum tveimur eldsneytistegundum á þann hátt að sá sem er að kaupa nýjan bíl og ætlar sér að eiga hann í 2-4 ár sjái sér hag í því að kaupa dýrari bíl til að ná þeim hagnaði, þarf að lækka álögurnar á gasolíu verulega og hækka bensínverðið að sama skapi, til að halda tekjustofninum. Myndi það hafa þau aukaáhrif að flutningar myndu lækka í verði, sem er gott byggðalega séð, en slæmt umhverfislega séð.

Skattlagningin á eldsneyti hefur þann megintilgang að afla fjár til Vegagerðarinnar. Ég vill gjalda verulegan varhug við því að hrófla við því grundvallaratriði. Vegagerðin verður að hafa markaðan tekjustofn, sem er nokkuð óháður þingmönnunum okkar, blessuðum. Nóg hringla þeir í Vegagerðinni samt. Þess vegna er óráð að lækka gjöld á eldsneyti, sem þyrfti til að breyta þessu, heldur einbeita sér að aðflutningsgjöldunum.

Gestur Guðjónsson, 5.12.2007 kl. 15:03

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

HÉR er tengillinn sem ég vísaði á, ekki víst að þetta hafi skilist.

Theódór Norðkvist, 5.12.2007 kl. 15:56

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ónefnd er ein ástæða til þess að innheimta skatta fyrst og fremst af eldsneytinu sjálfu. Hún er sú að skattheimta á eldsneytiseyðsluna sjálfa og útblásturinn er réttlátasta aðferðin. Þeir sem eyða og menga borga í réttu hlutfalli við not sín og þessi skattlagning skilar sér einna best inn í ríkissjóð, beina leið og strax.

Á sínum tíma bað fjármálaráðuneytið mig um að gera uppkast að mismunandi gjöldum á bíla með því að skipa þeim í mismunandi gjaldflokka, en búið var að taka ákvörðun um að fara þessa leið. Niðurstaða mín var að fara eftir tvennu, rúmtaki vélar og þyngd bíls, ekki bara rúmtaki vélar.

Auk þess lagði ég til að margfalda rúmtakið með 1,4 þegar um forþöppu væri að ræða líkt og þá var gert í bílaíþróttum.

Að miða við rúmtakið eitt fannst mér ekki rétt því að léttur bíll með kraftmikilli vél getur oft eytt meira eldsneyti en þungur bíll með minni vél. Allar tölur um þetta mátti fá úr alþjóðlegum bílahandbókum og skoðunarvottorðum (sem reyndar eru ekki alltaf rétt)

Þetta kerfi hefur þann augljósa galla að reynt er að spila á það og niðurstaðan er oft ósanngjörn.

Ég tók að mér að hjálpa til við þetta regluverk þótt ég hallaðist frekar að því að ná inn sanngjörnum álögum í gegnum eldsneytisverðið.

Ef menn vilja minnka álögur á bílaeigendur tel ég að finna eigi aðrar leiðir til þess en að lækka eldsneytisverðið og þess vegna mætti vel taka allt kerfið til gagngerðrar endurskoðunar.

Ómar Ragnarsson, 5.12.2007 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband