MOZART ÍSLENSKRA SÖNGVARA.

Var að hlusta á þátt einhverrar bestu útvarpskonu okkar, Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, þar sem raddir systkinanna Ellýjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar, hljómuðu. Á einkennilegan hátt lágu leiðir okkar og örlög saman um 15 ára skeið, allt frá því að ég gerði texta á fyrstu plötunni, sem hann söng á, þar til hann fórst í bílslysi sem grípur mig ævinlega heljartökum þegar ég hugsa til þess af því að ég finn til einkennilegrar ábyrgðar í sambandi við það. Kem að því síðar.

Við kynntumst mjög vel þegar við ferðuðumst saman um landið með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar til að skemmta á héraðsmótum og þá uppgötvaði ég hve óhemju vel þessi maður var af Guði gerður.

Við gátum spjallað saman langt fram á nótt og fram á morgun um allt milli himins og jarðar því Vilhjálmur hafði fádæma fjölbreytt og mörg áhugasvið. Til dæmis var hann líklega mesti áhugamaður og viskubrunnur um vísindaskáldsögur sem þá var á Íslandi, - og allur geimurinn og óræðar víddir hans hófu hann til flugs.

Einnig var hann mikill áhugamaður um mannshugann, las um það erlendar bækur og hætti ekki fyrr en hann hafði lokið prófi og fengið réttindi erlendis með tilheyrandi skírteini til dáleiðslu !

Vilhjálmur var svo músíkalskur að ég minnist vart annars eins. Þetta skilaði sér í söngnums svo af bar. Að heyra það til dæmis hvernig hann syngur lagið "Lítill fugl".

Þau systkinin voru í sérflokki við það að syngja hárfínt örlítið til hliðar við taktinn, líkt og gert er í Suður-Amerískri "latin" tónlist. Fyrir vikið verður túlkunin og tónlistin svo mennsk, - maður finnur að það er hin sveigjanlega túlkun mannsins en ekki vélrænn taktur sem ræður ríkjum.

Það var synd að Ellý söng ekki meira af latin-músík inn á plötur. Mér er það ógleymanlegt þegar ég heyrði hana, sárveika, syngja lagið Suður um höfin á þann veg sem engin önnur söngkona eða söngvari hefði getað gert.

Vilhjálmur hafði svo fullkomið vald á þessari einstöku rödd sinni, sem engri annarri líktist, að allt virtist leika í höndunum á honum. Hann hafði líka mesta raddsvið sem ég hef kynnst, - komst jafn djúpt og bassar en síðan langt upp fyrir hæstu tenóra og meira að segja hærra en söngkonurnar.

Mér er enn í minni hái tónninn í laginu "Silence is golden" sem var vinsælt á þessum tíma og hin erlenda hljómsveit fór með upp í gríðarlega tónhæð, þá hæstu sem heyrðist á þeim tíma. Ég man svo vel hvernig Villi lék sér að því að syngja nokkrum tóntegundum hærra eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Hann náði svo hátt að það var óhugnanlegt.

Samstarf okkar var oft fullt af mótsögnum. Ég gerði til dæmis marga texta sem hann söng en síðar kom í ljós á síðustu plötum hans að hann hefði ekki þurft að leita til mín, - á síðustu plötunni voru allir textarnir eftir hann sjálfan og ljóst var að á því sviði gæti hann gert stóra hluti. Og hann sem var rétt að byrja þegar allt endaði.

Við göntuðumst mikið með hitt og þetta og á þessum árum varð til orðið "þúfnapex" sem þýddi texta um landslag og sveitarómantík, svo sem "...lindin, lækurinn, litli kofinn minn..."

Við gerð einnar plötu kom Villi til mín með lagið "Green, green grass of home" og sagði: "Þetta er nú þúfnapex í lagi. Hvernig væri að þú gerðir íslenskan texta sem væri mesta þúfnapex allra tíma?" Ég fór í málið og niðurstaðan var textinn "Heimkoma," gerður í hálfkæringi en það var bara leyndarmál okkar Villa. Í óskalagaþáttunum varð þetta lag nánast að plágu á tímabili, svo oft var það spilað, enda lagði Villi sig allan fram í túlka það með sem innilegastri tilfinningu hins deyjandi manns í sjúkrastofunni.

Á þessum árum var ég eins oft fljúgandi á flugvél og ég gat í ferðalögunum um landið og hljómsveitarmeðlimir flugu stundum með mér. Í einu af slíkum skiptum fór Villi einn með mér frá Ísafirði og varð strax mjög forvitinn um farkostinn.

Ég ákvað í ljósi geimferðaáhuga hans að láta hann upplifa þyngdarleysi. Vélin var létt og kraftmikil og ég dýfði henni niður á mesta leyfilegan hraða og reif hana svo lóðrétt upp á fullu afli. Þegar hraðinn upp á við hafði minnkað svo mikið að flugvélin fór að falla fram fyrir sig í ofrisi, líku því sem kennt er í kennsluflugi en bara í miklu lengri tíma, - lyftust allir munir í henni upp í þyngdarleysi í nokkrar sekúndur, þar á meðal við tveir.

Lítil reglustika sem hafði leynst í gróp við framrúðuna lyftist upp og sveif þennan tíma lárétt í þyngdarleysinu beint fyrir framan Villa. Hann horfði sem dáleiddur á hana, greip hana, og þegar við vorum aftur komnir í eðlilegt flug leit hann á mig með ógleymanlegan glampa í augunum og sagði: "Þetta verð ég að taka fyrir."

Aðeins rúmu ári síðar, á mettíma, hafði hann flogið slíka hraðferð í gegnum námsefni og æfingaflug að hann hafði áunnið sér réttindi til að fljúga Fokker! Eggið var farið að kenna hænunni.

Ef Villi fékk áhuga á einhverju sáu hinar óvenjulegu gáfur hans til þess að hann kæmist hraðast og lengst af öllum þangað sem hann vildi fara. Það var dásamlegur eiginleiki en gat líka verið varasamur vegna þess að boheminn, lífskúnstnerinn og lífsgleðimaðurinn var einn þátturinn í ógleymanlegum persónuleika Villa og ég þekkti hann orðið það vel í gegnum tónlistina og flugið að ég hafði svipaðar áhyggjur af honum og faðir af ungum, ærslafengnum og lífsþyrstum syni sínum.

Að fara á kostum á hesti, bifreið eða flugvél getur verið vandmeðfarið og ég hafði leitt hann á braut æsilegra ævintýra knapans við stýrið. Svífandi reglustikan í fluginu yfir Ísafjarðardjúpi varð að örlagavaldi í lífi hans og leiddi hann til þess staðar þar sem hann fórst í bíslysi aðeins 33ja ára eftir einungis 12 ára feril sem listamanns.

Ég, sem vissi svo vel hve óhemju mikið hann hefði getað afrekað ef hann hefði lifað, finn ævinlega til djúprar tilfinningar þegar ég hugsa til þess að hafa orðið óbeint örlagavaldur hans að þessu leyti. Þessi örlagaferill leiddi okkur báða einnig á vit Jóns Heiðbergs þyrluflugmanns, sem Vilhjálmur gerði um hinn ódauðlega texta Söknuð sem síðar varð höfuðstefið í útför hans sjálfs. Á þessum tíma kynntist Vilhjálmur þeirri tilfinningu að missa vini sem voru með okkur í fluginu og sú upplifun varð til þess að hann, líkt og Mozart, endaði feril síns sjálfs á nokkurs konar sálumessu. 

Þannig háttaði til að daginn, sem Villi var jarðaður, var ég veðurtepptur á flugvél í Vesturvíkinni í Aðalvík. Mig langaði mjög til að fljúga suður og kveðja vin minn. Ég ákvað því að láta slag standa og ók flugvélinni til flugtaks á stuttri sandfjörunni, en við enda hennar er þverhníptur Hvarfnúpurinn.

Þegar ég sneri vélinni í flugtaksátt fannst mér Villi kalla á mig að koma á dáleiðandi hátt. Vindurinn stóð ofan af landi, þvert á brautina, sem hallaði auk þess til sjávar- þetta gat orðið erfitt og tæpt.

En það virtist samt gerlegt þessa stundina, og mér fannst Villi kalla áfram á mig, - ég var sem dáleiddur.

Svo bráði af mér, - á síðustu stundu hætti ég við og nokkrum andartökum síðar kom mikil vindhviða þvert á brautina, sem þyrlaði upp sandinum á miðri fjörunni. Þá varð mér ljóst að ef ég hefði reynt þetta hefði það orðið mitt síðasta flugtak, beint í faðm Vilhjálms í eillífðinni.

Í framhaldi af þess varð mér hugsað til hins opna, flugskarpa og víðsýna hugar hans og minntist ágústnótta þegar við tveir ungir menn horfðum hugfangnir í myrkri dreifbýlisins upp í stjörnuhimininn, leikvöll hugar hans, óravíddir hins dökka geims. Þá urðu til þessar fátæklegu línur til við lagið "Three coins in the fountain og með þeim vil ég enda þennan saknaðarpistil um Mozart íslenskra dægurlagasöngvara:

 

FLJÚGUM ÞÁ.

 

Óræð hugann hrífur

himintungla fögur sýn.

Andinn eilífi svífur

og hann kallar mig til þín.

Í honum og yfir

öllu svífur ásýnd þín

frjáls þar líður og lifir

og löngum kallar mig til sín.

 

Kaldlynd örlög ráða því

hvenær finnumst við á ný, -

föðmumst við á ný.

 

Er að því svo dregur

óravíddir kanna má.

Andans vængjaði vegur

vini ber um hvolfin blá.

 

Fljúgum þá! Fljúgum þá! Fljúgum þá!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Skemmtilegur pistill Ómar, og einstaklega fallegt ljóð um mætan dreng.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.12.2007 kl. 00:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir. Er búinn að breyta og bæta (vonandi) aðeins pistilinn síðan þú last hann.

Ómar Ragnarsson, 15.12.2007 kl. 00:48

3 Smámynd: Jóhann H.

Ég man hvar ég var staddur þegar ég frétti af andláti hans.  Vilhjálmur stendur mér ofar í minninguni en sjálfur J. Lennon. 

Kannski vegna söknuðar. 

Vilhjálmur hafði náð flugtaki í huga mínum.  Hann hafði klifrað upp fyrir sína samferðamenn og átti einungis eftir að ná skotvindunum sem hefðu borið hann fram til frekari afreka í músik og manngæsku.  Þeir vindar báru hann bara lengra enn okkur óraði fyrir.  Ég er fæddur '65 og ég sakna hans.

Jóhann H., 15.12.2007 kl. 02:28

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kæri Ómar!

Bestu þakkir fyrir þennan góða pistil. Einlæg vinátta þín og væntumþykja skín hér glögglega í gegn.

vil svo nota tækifærið til að þakka þér sömuleiðis innilega fyrir ótal ánægjustundir sem þú hefur veitt á öldum ljósvakans í gegnum árin! þar á ég ekki hvað síst við hafyrðingamót þar sem þú hefur komið við sögu og þá verið beggja vegna borðsins ef svo má segja, stjórnandi og/eða í hagyrðingahópnum!

Magnús Geir Guðmundsson, 15.12.2007 kl. 02:56

5 identicon

Fróðlegt og skemmtileg blogg.......jólakveðja

Res (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 10:06

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Frábær minning um mann sem var alnafni föður míns (Reyndar hét Vilhjálmur söngvari líka Hólmar). Vinsældir Vilhjálms söngvara fóru ekki fram hjá mér þegar ég var barn. Sími heimilisins var við hliðina á herbergi mínu, þar sem áður hafði búið Björgvin Halldórsson (hjá ættingjum sínum áður en foreldrar mínir keyptu húsið af þeim). Oft gerðist það að drukknar konur hringdi um miðja nótt og heimtuðu að fá að tala við Vilhjálm Vilhjálmsson. Ég tók upp á því á tímabili að stríða nokkrum þeirra til að heyra hvað konurnar vildu croonernum og er það er ekki í frásögur færandi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.12.2007 kl. 10:14

7 identicon

Komdu sæll Ómar,

bestu þakkir fyrir frábærlega fallegan og vel skrifaðan pistil. 

Ég gæti ekki verið meira smmála þér um tónlistargáfu Vilhjálms og Ellýjar, þau höfðu þetta "eitthvað" sem enginn getur skilgreint, en heyrist greinilega þegar hlustað er á snillinga á borð við Frank Sinatra og Eddu Fitztgerald.  Heimurinn þarf á slíku fólki að halda á þessum síðustu og verstu efnishyggjutímum.

Kærar Kveðjur

Kristinn Sigmundsson

Kristinn Sigmundsson (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 11:43

8 identicon

Eftirminnileg eftirmæli fádæma söngvara og snillings sem átti sér margar hliðar. Maður heyrir enn sögur af Villa Vill þó sjálfur hafi ég enga tengingu inn í tónlistarbransann. 

Söngur þeirra systkina er algjörlega einstakur  og alveg  hefur sig lóðbeint uppyfir eitthvert  tímabil eða rúm.   Vinsælt var að íslenska engilsaxnesku dægurlögin á þessum árum og þú átt þar mörg gulltextakornin Ómar.    Þeir voru ekki margir sem toppuðu "orginalinn" í flutningi.  Það gerðu þau systkin tvímælalaust að mínu mati. Annað dæmi um slíkt var þegar Þorvaldur fór "á sjó"...inn.    Þetta hefur verið mögnuð samsetning þessi tími eða vetur hjá Ingimar Eydal með þá tvo innanborðs.

Hvílíkur missir.  Svo fljótt, svo fljótt.

Kveðja, Valdimar Guðjónsson

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 12:35

9 identicon

Einkar hugljúfur pistill. 

Ég átti því láni að fagna ,að kynnast Villa, vestur á Ísafirði þegar hann stundaði Menntaskólanám, í frumburðardeild Menntaskólans á Ísafirði  (Ein stofa í Gagnfræðaskóanum þar).

Seinna lék Villi á Röðli Ég lék í Þórskaffi.Og röbbuðum stundum.

Hann var einstakur .Það segir þú satt.

Og söngur þeirra, systkininna saman, var einstækt fyrirbæri,í tónlistartúlkun.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 17:28

10 identicon

Sæll Ómar og hafðu þakkir fyrir hugljúfan en jafnframt nokkuð fyndinn pistil. Þrátt fyrir að langt sé um liðið og margt komið út síðan að þá er jólaplata þeirra systkina en á toppi íslenskrar jólalagaútgáfu. Synd bara að Guðs kristni í heimi sé ekki þar inn á og ég hef reyndar aldrei skilið það fullkomnlega. Ég heyrði það fyrst á Pottþétt Jól 3.

Sigurbjörn Arnar Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 15:21

11 Smámynd: Ingimar Eydal

Kærar þakkir Ómar fyrir einlægan og skemmtilegan pistil.  Það er svo dýrmætt að lesa frásögn þeirra sem voru samferða þessu fólki sem gerði svo mikið fyrir tónlistarlíf okkar íslendinga.  Íslensk tónlistarsaga væri svo sannarlega fátækari ef Vilhjálms hefði ekki notið við, tónlist hans er ódauðleg og sífellt nýjar kynslóðir njóta hennar.

Og ekki síður takk fyrir allt sem þú hefur sjálfur gert fyrir tónlistina hér (svo ekki sé minnst á allt hitt).  En það er efni í heila háskólaritgerð og miklu meira en ég eða aðrir gera sér grein fyrir.

Flaug einu sinni með þér (Akureyri-Laugar-Akureyri) en man ekki eftir þyngdarleysisæfingum, líklega hefur þyngd farþegana ekki boðið upp á "þyngdarleysi"  :)   Einn undirleikari þinn norðan heiða lærði amk. ekki að fljúga, þrátt fyrir að hafa flogið oft með þér.

Með bestu kveðju að norðan

Ingimar E.

Ingimar Eydal, 17.12.2007 kl. 10:25

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Ingimar Eydal heitinn hafði mikinn áhuga á flugi en breytti samt oft um ferðamáta á síðustu stundu þegar til stóð að hann flygi með mér og sagðist í staðinn ætla að fara í "fjölskylduferðalag á Skódanum". Ógleymanlegar minningar hrannast upp þegar ég minnist hans og okkar yndislegu samskipta og hann lést, eins og Villi, um aldur fram.

Ómar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband