KALT MAT ER MANNÚÐLEGT.

Í nýlegri kosningabaráttu þrýstu frambjóðendur í kjördæmunum sunnan- og vestanlands mjög á um lagningu tvöfaldaðra vega austur fyrir fjall og upp í Borgarnes. Um þetta myndaðist samkeppni sem byggðist ekki á ítarlegum rannsóknum á því hvaða lausn skilaði mestum árangri fyrir þjóðina sem heild heldur meira á hagsmunum á takmörkuðum svæðum.

Fyrir liggja tölur frá útlöndum um árangur og kostnað af vegabótum sem virðast benda til þess að með því að láta dýra tvöföldun veganna austur og norður frá höfuðborgarsvæðinu hafa forgang, muni seinka svo mjög brýnum vegabótum annars staðar að heildarútkoman verði fleiri alvarleg slys og banaslys en ef 2 plús 1 lausnin væri notuð til Selfoss og Borgarness að öllu eða einhverju leyti.

Miklu skiptir að gerð sé áætlun langt fram í tímann, nógu langt til þess að sjá fyrir hvenær hvort eð er þurfi síðar 2 plús 2 veg til Borgarness og Selfoss, þótt ekki sé nema umferðarþungans vegna. Þá þarf að liggja á borðinu fyrirfram hve mikill viðbótarkostnaður fælist í því og reikna það með í heildardæminu. 

Enn hafa ekki sést nein svör við spurningum Rögnvalds Jónssonar um þetta efni og því miður er líklegt að ekki hafi verið kafað ofan í þetta mál af þeirri alvöru og metnaði sem spurningin um mannslíf og örkuml krefst.

Útkoman úr slíkri alvöru rannsókn fæli í sér það sem er kallað "kalt mat", blákaldar tölur um dauða, örorku, meiðsl og tjón. Orðin kalt mat eru oft notuð sem andstæða við mannúð og tilfinningar. Í þessu tilfelli er í raun ekki til meiri mannúð og tilfinning en felst í því að sjá á hvaða hátt er best hægt að varðveita líf og limi vegfaranda og minnka þjáningar og tjón.

Hér má ekki láta atkvæðakapphlaup í kjördæmum villa okkur sýn heldur hagsmuni þjóðarinnar sem heildar, þjóðar sem býr í einu landi en ekki mörgum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég á reyndar erfitt með að skilja af hverju þetta getur ekki farið saman...

Hver segir að 2+2 vegur þurfi endilega að vera í tveimur veglínum?

Ég veit ekki til þess að það standi til að byggja hraðbrautir með 110-130 km/klst hámarkshraða hér á landi, veðuraðstæður hér á landi tel ég að leyfi það ekki. Því væri réttara að byrja á 2+1 vegi sem hægt sé að breikka í 2+2 veg seinna, þegar umferðin krefst þess.

Gestur Guðjónsson, 16.12.2007 kl. 20:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stærsta röksemdin fyrir 2 plús 1 vegum er sú að 2 plús 2 vegir eru miklu dýrari, plássfrekari og tímafrekari í byggingu enda þarf mat á umhverfisáhrifum. Báðar tegundir veganna fækka þó slysum álíka mikið.

Ómar Ragnarsson, 16.12.2007 kl. 20:27

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég á eftir að sjá vitræn rök sem slá út skynsamlegt og rökstutt mat Jóns Rögnvaldssonar. Burtséð frá afköstum (sem ég held raunar að séu meiri á 1+1 en 1+2) er meira öryggi á 1+2 og minni möguleikar á sjálfsvígsárekstrum, ekki síst ef í upphafi er gengið út frá möguleikanum á 2+2 síðarmeir.

Sigurður Hreiðar, 16.12.2007 kl. 22:58

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Gunnar Þór. Ég er ekki að tala um 2+2 með eyju á milli, eins og Reykjanesbrautin er og ávallt hefur verið rætt um þegar menn tala um 2+2, heldur 2+2 veg í einum fleti, með girðingu á milli, eins og 2+1 vegurinn er gerður.

Gestur Guðjónsson, 16.12.2007 kl. 23:14

5 identicon

Sú tillaga sem Sjóvá hefur lagt fram og boðið ríkinu lán til 25 ára fyrir gengur út á 2+2 með vegriði á milli. Það er allt allt annað en það sem Rögnvaldur er að tala um þessa dagana. Hann er enn að vísa í fyrstu hugmyndir samkvæmt kröfum sem komu upphaflega frá Vegagerðini, að mig minnir.

Sá 2+2 vegur sem Sjóvá er að leggja til er mun ódýrari en upphaflegar hugmyndir sem eru í ætt við Reykjanesbrautina. Það hlýtur að vera kostur að hafa 2+2 veg sem anna MUN meiri umferð en 2+1 vegur þegar fyrirsjáanlegt er að aukning verður á umferð á næstu árum. 2+1 vegur annar engu meira en 1+1.

Þá finnst mér undarlegt að verið sé að tala um að taka fé frá öðrum verkefnum. Í dag er ekki til peningur í verkefnið heldur er Sjóvá að bjóðast til að lána hann. Þeir eru þar að tala um að lána fyrir 2+2 vegi, ekki að lána andvirði 2+1 og nota svo mismuninn í eitthvað annað. Það er einfaldlega ekki í boði.

Ég heyrði á förnum vegi að eftir 5-10 ár yrði orðin þörf fyrir 2+2 veg. Af hverju eru menn þá svo skammsýnir að ætla að byggja nýjan veg sem verður fyrirsjáanlega sprunginn eftir svo skamman tíma? Það væri léleg fjárfesting finnst mér.

Guðmundur Karl Einarsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 07:39

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er góð umræða og einmitt það sem ég er að tala um, að skoða málið frá A til Ö og velta öllum hliðum þess upp.

Ómar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 08:35

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sá umfjöllun um einmitt þetta efni í blöðunum, ekki alls fyrir löngu.  ÞAr kom fram sú skoðun sænskra yfirvalda, að þeir legðu EKKI meira af 2+1 vegum, þar sem þeir eru ekki eins öruggir og af stað vvar farið með.  Slysin verri og ljótari en jafnvel á 1+1 og að ,,flutningsgeta" þeirra litlu meiri en 1+1.

Ef rétter, er ekkert annað en peningasóun, að leggja 2+1 veg.

Ég ek mjög oft austur fyrir Selfoss þar sem við erum með kofa þar sem við nýtum mjög mikið sem helgarafdrep.  Ég sé ekki neina bót af 2+1 vegaspottunum, þar sem flutningsgeta vegarins ræðst af þeim köflum sem eru einfaldir.

Auk þess virðast ökumenn taka afar mikla áhættu við framúrakstur rétt við lok tvöföldunarinnar og hef ég ´seð afar stórkarlalega tilburði við akstur þar og ekkert annað en heppni afstýrði stórslysum.

Nei 2+2 er eina lausnin á umferðarmálunum þarna. Svo er ekkert annað en fyndið, að 2+2 þurfi að fara í umhverfismat en 2+1 ekki.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 17.12.2007 kl. 09:19

8 Smámynd: Steini Bjarna

Jón Rögnvaldsson hefur komið með mjög sannfærandi rök fyrir 2+1 vegi.  2+2 er ekkert annað en gleiðgosalegur flottræfilsháttur þjóðar sem getur ekki rekið heilbrigðisþjónustu almennilega.  Jón slær þarna hárréttan tón í umræðunni enda gjörþekkir hann málið.

Steini Bjarna, 17.12.2007 kl. 12:07

9 identicon

Já en Steini Bjarna, hann er að tala um hugmyndir að 2+2 vegi sem eru alls ekki uppi á borðinu lengur. Menn eru alls ekkert að tala um að legga 2+2 veg eins og Rögnvaldur er að halda fram, heldur einfaldari útgáfu eins og ég lýsti hér að ofan. Sú leið er mun ódýrari og ef eitthvað er, öruggari en Reykjanesbrautarleiðin. Af hverju? Jú: Það er vegrið á milli en það er ekki á Reykjanesbrautinni.

Guðmundur Karl Einarsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 13:14

10 identicon

Augljósasta leiðin til þess að fækka slysum er að minnka akstur, það segir sig sjálft að sá sem þarf að keyra 100 kílómetra er tvisvar sinnum líklegri til þess að lenda í slysi en sá sem keyrir 50 kílómetra að því gefnu að aðstæður á þessum leiðum séu svipaðar. Áhugamenn um umferðaröryggi á Íslandi hljóta þá að líta til þess að hvergi í neinu vestrænu ríki eru meiri möguleikar á því að minnka akstursfjarlægðir á milli fjarstaða en Íslandi. Leiðirnir Reykjavík-Akureyri og Reykjavík-Egilsstaðir má stytta verulega með vegalagningu yfir hálendið og með metnaði í jarðgangagerð og þverun fjarða fyrir vestan má stytta leiðina Reykjavík-Ísafjörður umtalsvert. Með þessum styttingum er hægt að fækka eknum kílómetrum á Íslandi um tugi milljóna á ári og draga úr slysum, eldsneytiseyðslu og útblæstri sem því nemur. Raunar má alveg reikna með meiri fækkun slysa en sem nemur hlutfallslegri lækkun á akstri vegna þess að nýjir hálendisvegir sem byggðir verða upp frá grunni í samræmi við nútíma öryggisstaðla verða án efa mun öruggari per ekinn km. heldur en þjóðvegur 1 á láglendi er í dag en sá vegur er víðast of mjór og útsettur blindhæðum, hættulegum beygjum og einbreiðum brúm. Það að hluti umferðarþungans færist á styttri hálendisleiðir þýðir einnig meira öryggi fyrir þá sem áfram nota gömlu leiðirnar þar sem minni umferð leiðir af sér færri árekstra. Það segir sig sjálft að ef „kalt mat“ myndi ráða för í vegagerð á Íslandi þá hefði verið ákveðið fyrir löngu að leggjast í þessar styttingar. Einhverjar tilfinningar virðast því ráða för þegar kemur að þessum möguleikum, en það er augljóslega ekki umhyggja fyrir mannslífum.

Bjarki S (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband