20.12.2007 | 11:15
EITT Í EINU, - BETRI AKSTUR.
Það hefur verið gantast með það að karlmenn geti bara gert eitt í einu. Nokkurt sannleikskorn er í þessu hvað varðar allt fólk og ekki hægt að neita því að krefjandi símtal eða tilfinningaþrungið samtal bílstjóra dregur úr einbeitingu hans. Mismunandi mikil þörf er á einbeitingu við akstur. Á beinum veginum á Mýrdalssandi er lítið um að vera en eitt helsta vandamál umferðar í borg er það að ökumenn gera ekkert til að liðka til fyrir akstrinum heldur böðlast áfram tillitslaust.
Ég held að það væri til bóta fyrir umferðina að við tökum upp þá reglu að tala ekki í síma nema stöðva bílinn á meðan. Yfirleitt sést á birti símans úr hvaða númeri er hringt og þá hægt að hringja til baka síðar, og einnig er hægt að fletta númerinu upp í símanum eftir að bílnum hefur verið lagt til þess tala í símann.
Sé hringt úr skiptiborði sést oft ekki númer á birtinum eða þá að svo margir eru tengdir við skiptiborðið að ómögulegt er að finna út eftir á hver hafi hringt. Þá er hugsanlegt að svara stutt í símann og biðja viðkomandi að hringja aftur eftir ákveðinn tíma þegar betur stendur á.
Gott væri ef stór fyrirtæki með skiptiborð gætu útbúið það þannig að númer starfsmannsins sæist ávallt þegar hann hringir út. Þannig er það til dæmis á Fréttablaðinu.
Af framansögðu má ráða að það er vel hægt að útrýma símtölum bílstjóra í akstri ef vilji er fyrir hendi. Það þarf engar kannanir til þess að komast að því að akstur og símtöl fara ekki saman, - aksturinn er meira krefjandi en svo og öryggið á að vera fyrir öllu.
Hve oft sjáum við ekki ökumenn sem gefa ekki stefnuljós og haga sér undarlega í umferðinni vegna þess að þeir eru uppteknir við að tala í símann? Lítum nú hvert í eigin barm og gerum bragarbót. Ég sé ekki annað en að hægt sé að nýta sér þessa samskiptatækni með ofangreindum ráðum og viðhalda jafnframt eins öruggum og góðum og tillitssömum akstri og unnt er, - án símtala.
Handfrjálsir farsímar hættulegir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll. ég er fyrir löngu hætt að tala í síma í bíl - hvort sem ég er með handfrjálsan búnað eða ekki. Tvisvar hef ég orðið fyrir þeirri lífsreynslu að aka yfir dýr; í annað skiptið á lamb í Dýrafirði og í hitt skiptið á kött á Háaleitisbrautinni í Reykjavík. Bæði dýrin drápust samstundis. Ég var að tala í símann með handfrjálsum búnaði í þessi tvö skipti og er sannfærð um að þetta hefði ekki gerst ef ég hefði verið með fulla athygli við aksturinn. Eftir þetta hef passað mig á að ansa ekki í símann nema á ferð, nema í neyð og á er ég auðvitað alltaf með handfrjálsan búnað.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 20.12.2007 kl. 11:23
Heill og sæll,
Hefurðu tekið eftir því að því dýrari sem bíllinn er, því líklegra er að ökumaður sé að blaðra í símann og sé ekki með hugann við aksturinn og þessvegna stórhættulegur.
Það mundi greiða fyrir umferð , ef ökumenn gæfu stefnuljós, þegar ekið er út úr hringtorgi. Það heyrir til undantekninga að ökumenn geri þetta.
Eiður (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 17:51
Þarf ekki hringtorg til. Þetta er algengt á T-gatnamótum þar sem það kemur sér oft mjög illa fyrir fjölda ökumanna að vera ekki látir vita af fyrirætlunum þeirra sem ætla að beygja út á T-legginn.
Gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla eru einn versti staðurinn. Þeir sem koma niður Fellsmúlann telja það sitt einkamál hvort þeir ætla að beygja til hægri eftir Grensásveg í átt að Miklubraut. Fyrir bragði ræna þeir fjölda ökumanna sem koma neðan úr Skeifunni tækifæri til þess að beygja til vinstri í átt að Miklubraut.
Ekki nóg með það. Sumir ökumenn sem koma niður Fellsmúlann þröngva sér strax yfir á vinstri akreinina í átt að Miklubraut og loka þar með endanlega fyrir bílum sem koma neðan úr Skeifu.
Ómar Ragnarsson, 20.12.2007 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.