20.12.2007 | 21:46
ÁRATUGIR Í ÞVÍ AÐ "KOMA XX ÚT AF MARKAÐNUM."
Í upphafi var Eimskipafélag Íslands kallað "Óskabarn þjóðarinnar." Smám saman olli markaðsráðandi staða fyrirtækisins hinu óhjákvæmilega, að sveigja það í að viðhalda þessari stöðu og helst einokun með öllum ráðum. Ég segi "óhjákvæmilega" því að þetta er bara mannlegt og ef "kerfið" býður upp á það verður það þannig á endanum. Kannski kemst ein stjórn eða stjórnandi hjá þessu en síðan tekur annar við og lætur freistast til að nýta sér aðstöðu sína.
Þessi tilhneiging mannlegs eðlis var aðalástæðan fyrir því að ríkiseinokunin í Sovétríkjunum mistókst, - það var engin samkeppni sem gat veitt aðhald.
Ég veit um aldarfjórðungs gamalt dæmi þess að Eimskip gerðu það sem hægt var til að ryðja af markaðnum keppinaut í þjónustu eftir að varningurinn var kominn til landsins. Á þessum tíma lét fyrirtækið sér ekki nægja að stunda skipaflutninga heldur setti á fót þjónustu alls óskylda flutningunum og reyndi það sem það gat til að nýta aðstöðu sína sem eini flytjandi varnings til landsins til að klekkja á þeim sem var fyrir með þessa þjónustu.
Í krafti stærðar og einokunar var hægt að undirbjóða og nota allt það sem þjóðin heyrir nú að hafi verið sett á blað á minnisblöðum.
Það var aðeins vegna seiglu og baráttuþreks þess sem átti að "koma út af markaðnum" að honum tókst að halda velli. Úrstitum réði þó að Eimskip ofmátu getu sína hvað snerti gæði í þessari þjónustu og smám saman sáu viðskiptavinirnir hvernig í pottinn var búið og sneru viðskiptum sínum hægt og bítandi til hins eldra fyrirtækis.
Mér er mætavel kunnugt um að þessi aðferð Eimskipa olli keppinautnum miklu tjóni.
Óþarfi er að fjölyrða um Hafskipsmálið. Sem betur fer skilst mér að verið sé að athuga það að nýju hvers vegna og hvernig Hafskipum var hrundið í gjaldþrot án þess að vera gjaldþrota. En auðvitað högnuðust Eimskip á því að helsta keppinautnum "var komið út af markaðnum", hvort sem um beina aðild að aðförinni var að ræða eða ekki.
Athyglisvert var hvernig SÍS var síðar bjargað frá gjaldþroti í verri stöðu en Hafskip en vonandi getur ný rannsókn á þessum málum leitt betur í ljós hið sanna.
Á þessum tíma var talað um "Kolkrabbann" og veldi hans eða þeirra fjórtán fjölskyldna sem rætt var um að ættu allt á Íslandi.
Eitthvert stærsta hagsmunamál okkar tíma er að efla samkeppniseftirlit og möguleika á þeirri samkeppni í verslun og þjónustu sem getur komið Íslendingum ofan úr því vafasama hásæti að vera dýrasta land í heimi.
Með þessum pistli er ég alls ekki að leggja dóm á einstök fyrirtæki, þau er nú starfa, og það þarf ekki að vera sjálfgefið að öflug fyrirtæki nýti sér um of sterka stöðu á markaði, fremur en að allir einvaldar í Evrópu hafi verið slæmir. Sumir heinna "menntuðu einvalda" átjándu aldar reyndu að taka hlutverk sitt hátíðlega, litu á konungdóm sinn sem gjöf frá Guði og sjálfa sig sem þjóna Drottins með umboð frá honum.
Þessi pistill er um Eimskip fortíðarinnar. Nú er vonandi runninn upp betri tíð þar sem framangreind vinnubrögð þekkjast ekki lengur.
En við erum öll mannleg og höfum lært að forðast fákeppni og einokun vegna þess að of mörg dæmi eru um að það hafi reynst varasamt að koma mönnum og fyrirtækjum í þá aðstöðu.
Athugasemdir
Sæll
það er etv fróðlegur vinkill á þetta, að Eimskip er með þjónustusamning við grænlenska skipafélagið - sem er með formlegan einkasamning um alla skipafrakt til Grænlands.
Eimskip kemur reglulega við hér, á leið frá Norður Ameríku, með gáma undir merkjum grænlenska skipafélagsins - sem svo aftur á heimahöfn í Álaborg, Danmörku. Allt í hreinni, klárri og formlegri einokun frá danmörku, með íslenskri þátttöku.
Það var margur maðkurinn í einokunarmjöli dananna áður fyrr, hálfskrítið til þess að hugsa að þetta eigi sér enn stað.
með kveðju úr landnámi Eiríks
Baldvin Kristjánsson, 20.12.2007 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.