20.12.2007 | 23:42
ÞRJÁR KRAKATÁR Á ÍSLANDI ?
Fyrri hluti leikinnar heimildarmyndar um gosið mikla í Krakatá 1883 og mynd sem hefur áður verið sýnd í Sjónvarpinu um Pompei minnir okkur á þrjú hættulegustu eldfjöll Íslands, Snæfellsjökul, Heklu og Öræfajökul.
Snæfellsjökull og Öræfajökull eiga það sameiginlegt með Vesúvíusi, St. Helenu í Bandaríkjunum og St. Pierre á Martinique að geta gosið á þann hátt að flóð af sjóheitri, öskublandaðri gufu æði langa vegalengd niður fjallið og drepi allt sem á vegi þess verður.
Í eimyrjuflóðinu frá St. Pierre fórust 40 þúsund manns á ca 1-2 mínútum 1904 og hugsanlega hefur svipað gerst þótt í minna mæli væri í eldgosinu í Öræfajökli 1362.
Snæfellsjökull hefur verið óvirkur lengi en menn segja ekkert ósvipað um hann og sagt var um Vestmannaeyjar fyrir 1963 að þær væru óvirkar. Annað kom á daginn.
Snæfellsjökull er líklegast hættulegasta fjall á Íslandi ef á annað borð gýs þar, því að nálægt honum er þéttbýli, einkum við norðanvert fjallið.
Eftir Heklugosið 1990 settu jarðfræðingar það fram að eðli fjallsins væri að breytast á þann hátt að í stað eins til tveggja gosa á öld gysi nú með tíu ára millibili. Það kynni að vera byrjun á ferli sem gæti endað með því að fjallið spryngi líkt og Krakatá.
Það er merkileg tilviljun að nákvæmlega ein öld leið á milli gosanna í Lakagígum og Krakatá og bæði gosin sendu svo mikið af gosefnum upp í lofthjúpinn að það varnaði geislum sólar leið til jarðar og afleiðingin var kólnun sem stóð í nokkur ár.
Lakagígagosið 1783 kann að hafa átt þátt í frönsku stjórnarbyltingunni að því leyti að vegna slæms og kalds árferðis dróst uppskera saman í Frakklandi og ýtti undir óánægju alþýðunnar.
Aðstaðan er önnur nú en 1883 og 1904 hvað snertir þekkingu manna á eðli eldsumbrota jafnt neðan jarðar sem ofar.
Þess vegna var hægt að rjúfa útsendingu útvarpsins 2000 og tilkynna, að gos myndi hefjast í Heklu innan hálftíma.
Enn verður þó að hafa varann á og umgangast hin miklu reginöfl af þeirri virðingu sem þeim ber, hvort sem það eru "Kverkfjallavættir reiðar" í ljóði Jóns Helgasonar eða Hekla, frægasta og illræmdasta eldfjall landsins.
Athugasemdir
Í dag er talið að séu á milli 50 til 55 virk eldfjöll eða eldfjallasvæði á Íslandi!
Svo það eru margir staðir sem koma til greina hvað eldgos varðar.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.12.2007 kl. 05:04
Til viðbótar við það sem Jón Frímann segir hér að ofan; Kvikuhólf Eyjafjallajökuls er líklega fullt af hlutbráðnu súru bergi, sem er með miklu lægra bræðslumark en basíska bergið undir Mýrdalsjökli, enda Eyjafjallajökull í jarðsögulegu tilliti miklu eldri og öðruvísi eldstöð. Það er eins og Jón Frímann bendir á verulega hættulegt, ef kvikuhlaup frá megineldstöðinni undir Mýrdalsjökli, sem er nær helmingi heitara en bræðslumark kvikunnar undir Eyjafjallajökli hlypi í þá síðarnefndu því þá er hætta á hvellsuðu með tilheyrandi öskugosi og miklum líkum á sambærilegu eldflóði og varð úr Mt. St. Helens 1980.
Ellismellur (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 09:31
Sæll Ómar
Ég verð að bæta við enn einu eldfjalli en það er Tindfjallajökull. Það eru að vísu 10.000 ár síðan þar gaus síðast en þá kom einmitt svona sprengigos með flóði sem enn má finna ummerki um í Þórsmörk og nágrenni.
Ég skrifaði ritgerð um samanburð á Krakatá og Tindfjallajökli í jarðfræði í HÍ þegar ég var þar, með heimildum í einhverja sem höfðu rannsakað þetta. Kvikuhlaupið sem átti sér stað þá skildi eftir sig eitthvað sem mig minnir að heitir flykruberg.
Eftir þetta gos í Tindfjallajökli féll eldkeilan saman þannig að eftir stendur gígur sem sést ágætlega á myndum frá ákveðnum sjónarhornum.
Anna Runólfsdóttir, 21.12.2007 kl. 12:23
Einn mjög þekktur staður þar sem hægt er að skoða flikruberg er yst í Berufirði að norðanverðu. Þar er mjög þægilegt að stoppa og ganga niður í fjöru og skoða þessi ummerki sem sjá má á eftirfarandi mynd:
http://www.photo.is/skoli/ferd/pages/kps05041823.html
Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.12.2007 kl. 14:47
Þetta er nú ekkert. Vatnajökull bráðnar ört, landið undir honum lyftist því mikið og eldvirknin eykst þar gríðarlega. Gamlárskvöld árið um kring. Jökullinn, sá þriðji stærsti í heimi og sá síðasti hér, horfinn eftir tvær aldir. Allt á floti í Austurstrætinu. Gleðileg jól!
Steini Briem (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 14:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.