GULLFOSS NÆST - SIGRÍÐUR HVAÐ ?

Sýslumaðurinn á Selfossi viðraði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld hugmynd, sem virðist eiga vaxandi fylgi að fagna, sem sé að virkja Gullfoss. Hann orðaði það að vísu svona: "...að virkja fyrir ofan Gullfoss." Það þýðir auðvita virkjun fossins, því að að ekki er hægt að taka vatnið í Hvítá fyrir ofan fossinn og leiða það í göng niður í stöðvarhús nema að taka það vatn af fossinum. Framtíðarsýnin virðist vera sú að báðar árnar, Hvítá og Þjórsá, verði fullvirkjaðar og hægt að hafa hemil á flóðum í þeim.

Jakob Björnsson hefur bent á það að hægt verði að láta vera "ferðamannarennsli" í Gullfossi á ákveðnum tímum ársins, einkum síðsumars eftir að miðlunarlónið Hvítárvatn yrði orðið fullt sem og hugsanlegt nýtt, tilbúið lón ofan við Gullfoss. Þessir ágætu herramann, Ólafur Helgi og Jakob, tala að vísu lítið um það hvaða áhrif það myndi hafa á umhverfi Hvítárvatns að hleypa því upp og niður með tilheyrandi leirbornum og þurrum fjörum þegar minnst yrði í vatninu.

Tilbúið lón fyrir ofan Gullfoss getur verið í hvarfi frá fossinum og því leynt fyrir ferðamönnum sem koma í Sigríðarstofu til að dást að baráttu hennar gegn virkjun fossins.

Einnig er auðvitað í lófa lagið að endurhanna Sigríðarstofu og breyta um nafn á henni og fjarlægja allt sem minnir á það að barist hafi verið gegn virkjuninni. Annað eins er nú gert.

Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" var það niðurstaða mín að virkjun bæði Geysis og Gullfoss myndi valda minni óafturkræfum neikvæðum umhverfisáhrifum en Kárahnjúkavirkjun.

Nú verður vafalaust hægt að henda þessa niðurstöðu mína á lofti sem röksemd fyrir að virkja bæði Geysi og Gullfoss. Geysir er hvort eð er hættur að gjósa og hægt yrði að skábora í nágrenni hverasvæðisins. Framtíðardraumurinn er greinilega sá að hvergi á öllu svæðinu frá Reykjanesi um Suðurlandsundirlendið og hálendið allt til norðurstrandarinnar verði þverfótað fyrir virkjunum, stíflum, lónum, háspennulínum, borholum, stöðvarhúsum og gufuleiðslum.

Rökin fyrir því að virkja Neðri-Þjórsá eru þau að margar aðrar virkjanir valdi meiri umhverfisspjöllum. Þetta er það sem ég óttaðist allan tímann þegar deilt var um Kárahnjúkavirkjun, - að eftir að svo hrikaleg umhverfisspjöll fengju framgang teldu virkjanasinnar að allir vegir væru færir, - fordæmið væri fyrir hendi, - stærsta virki umhverfisverndarfólks fallið.

Halli og Laddi áttu á sínum tíma hina skemmtilegu setningu: Jóla- hvað? Nú er hægt að bæta við: Sigríður í Brattholti hvað? Og líka: Gullfossvirkjun, Geysisvirkjun og álver í Þorlákshöfn, stærsta jólagjöfin til þjóðarinnar árið 2012 !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halli og Laddi sungu líka: "Við erum tvær úr Tungunum og til í hvað sem er, ... vergjarnar og veðurbitnar valkyrjur í spreng!"

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 04:05

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Við skulum nú vona að ekki verði farið í að virkja Gullfoss. 

Gleðileg jól

Þórður Ingi Bjarnason, 22.12.2007 kl. 10:27

3 Smámynd: J. Trausti Magnússon

Ómar. Málflutningur þinn minnir á það sem mest er skrifað um hér á blogginu þessa dagana, þ e öfgafeminista. Öfgarnar eru svo miklar að þær snúast upp í andhverfu sína.

Auðvitað vill enginn virkja Gullfoss, hvorki Ólagur Helgi Kjartansson né nokkur annar Íslendingur. Að snúa svona útúr orðum hans er þér ekki sæmandi.  

J. Trausti Magnússon, 22.12.2007 kl. 14:17

4 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þetta er auðvitað frábær hugmynd þessi að virkja Gullfoss. Það mundi skapa mööörg störf hjá embættinu að henda mótmælendum í ánna og keyra jeppa og njósna um Ómar Ragnarsson og Gústa Mortens sem eru alltaf að flækjast kringum ár og vötn, röflandi um fegurð landsins og allt það. Ég held að hann sé að sigta sig inn á framhaldið og það er að stífla Ölfusá fyrir neðan Sláturhúsið, þannig að að þegar lónið er orðið fullt, getur hann (Sýssli) bara opnað gluggann á skrifstofunni og rennt fyrir lax í kaffitímanum án þess að borga þessi fjandans veiðleifi. Að vísu mundi bara sjást í skorsteininn á Tryggvaskála, en hann en nú svo ljótur að það gerir ekkert til og jólasveinninn (einn af 1750 jólasveinum í bænum) getur bara róið þangað með pakkana eða bjórinn og hent niður. Svo geta Selfyssingar sett Vanadísina á flot aftur og sýnt túristum nýju piparkökuhúsin sem bráðum rísa í miðbænum (hvar er miðbærinn?). Einnig má virkja Volalæk og hafa stífluna í Gaulverjabæjarfjöru þannig að allur Flóinn verði einn spegilsléttur vatnsflötur til mikillar gleði fyrir Ingólf Bárðarson og Gústa Mortens sem getur þá selt veiðileifi  og maðka  fyrir mörg hundruð krónur. Stór orð? já  þeir eru svona  Selfissingar.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 22.12.2007 kl. 14:49

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Ég hélt að þetta snérist um að stífla Hagavatn, þannig að sand/leir fokið úr því sem er að koma í veg fyrir gróðurmyndun á svæðinu, yrði stöðvað. Greiða fyrir stífluna með lítilli virkjun.

Þá hagnast allir, náttúran og gróðurinn mest.

Júlíus Sigurþórsson, 22.12.2007 kl. 14:57

6 Smámynd: Sævar Helgason

Dettur þetta einhverjum í hug í alvöru, að virkja Hvítá ofan Gullfoss og síðan og með að smeygja borholum undir Geysissvæðið ?

Með virkjun Hvítá ofan Gullfoss þá eru" menn" væntanlega með í huga að nota Hvítárvatn sem miðlunargeymir- hvað þýðir það ? Á að drekkja Hvítárnesi  allt að Hrefnubúðum og öllum Fróðárdal og stórum hluta Tjarnheiði alltað að Kjalveg núverandi ?

Og með að smeygja sér með borholur undir Geysir- þá er öll sú hvera og gosvirkni (Strokkur) úr sögunni nema á myndum um horfna tíð...

Verði þetta að veruleikahugmynd - þá held ég að bræður berjist.

En þangað til - Gleðilega hátíð. 

Sævar Helgason, 22.12.2007 kl. 17:08

7 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

það að virkja Gullfoss væri mesta vitleysa sem hægt væri að ráðast í .Gullfoss og Geysir trekkja að ferðamenn og held ég að sú verðmætasköpun sem á sér stað þarna í söluvöru til ferðamanna er og verður töluvert meiri en sem nemur virkjunn.

Hvað varðar skáborunn á Geysissvæðinu getur það leit til meiri virkni eins og gerðist við Gunnuhver á Reykjanesi en ekkert er öruggt í þessum efnum . 

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 22.12.2007 kl. 17:19

8 Smámynd: Guðjón Guðvarðarson

Vil vekja upp þá hugmynd,  hvort ekki sé rétt að beita fleiri aðferðum en eingöngu náttúruvernd til etv. vænlegri árangurs í þessari baráttu?

Svolítið fastur í þessu:   http://kri-tikin.blog.is/blog/kri-tikin/entry/394643/

Guðjón Guðvarðarson, 22.12.2007 kl. 18:52

9 identicon

Mér líst ekki vel á tilhugsunina með allt morandi virkjunum, stíflum, lónum, háspennulínum, borholum, stöðvarhúsum og gufuleiðslum. Sama hvað kapitalistaapar eru að kommenta á þig að þetta muni skapa peninga og atvinnu, bara ekki gefast upp að koma skoðunum þínum á framfæri! Ef gullfoss, geysir eða þjórsá verður virkjað þá má guð vita hvað ég geri. Ég elska Ísland jafnmikið og sjálfann mig, þetta land er hluti af mér og með því að spilla náttúruprelum er eins og að skjóta mig. Ég tek svona vitleystu sem frú Sigríður er að stinga uppá mjög nærri mér.  Vona að menn fari að sjá útfyrir rammann og hætti virkjanahugleiðingum.

Ómar, takk fyrir bókina þína, og takk fyrir að þora. 

Hlöðver Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 22:05

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Náttúra Íslands þarf á málsvara að halda. Sá málsvari sem hefur verið fyrirferðarmestur á Íslandi undanfarin ár, þ.e. Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd, Sólar-klúbbarnir allir, Árni Finnsson, Ómar Ragnarsson, Hjörleifur Guttormsson ..... þessir aðilar koma óorði á náttúruvernd.

Flestir þessara aðila meina vel og er þar fremstur í flokki hann Ómar, en sumir eru að spila sína taktík á annarlegum pólitískum forsendum. Öfgar í auðlindanýtingu og öfgar í náttúruvernd eru aldrei af hinu góða. Að lokum mun þetta alltaf snúast um pólitíska ákvarðanatöku og þar verður seint á vísan að róa.

V-grænir eiga um helming atkvæða sinna, öfganáttúruvernd að þakka. Hætt er við að afsláttarmiðarnir streymi frá þeim, komist þeir einhverntíma í ríkisstjórn. Það var a.m.k. athyglisverð örvæntingin sem greip Steingrím J. Sigfússon, þegar hann sá að það það var að renna honum úr greipum að koma Sjálfstæðisflokknum frá í vor. Þá sagðist hann kjökrandi vera tilbúinn að skoða nánast hvað sem er í virkjanamálum, ef bara hann fengi að vera með í nýrri ríkisstjórn undir forsæti Ingibjargar Sólrúnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.12.2007 kl. 22:26

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eru þessir menn ekki með öllum mjalla?

What about the "golden triangle", one of our main tourist attractions?

 - Þó ég sé engan veginn á þeirri skoðun að Gullfoss sé bara fyrir túrista, því fer víðsfjarri. Gullfoss er náttúruperla sem einfaldlega væri glæpur að skemma!

Nóg er komið fyrir af svo "góðu". 

Greta Björg Úlfsdóttir, 23.12.2007 kl. 00:31

12 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Það ER öflugur málsvari í virkjanamálum í dag og er búinn að vera það lengi og væntanlega verður hann mörg, mörg á í viðbót í forsvari og málsvari  fyrir okkur hin sem ekki hafa þessa ofsalegu orku og viljaþrek sem Ómar Ragnarsson hefur. það má vel vera  að ég geri stundum grín að þessu öllu saman, en það er þó skömminni skárra en að hallmæla eða andskotast út í hann fyrir það eina að hafa tekið upp hanskann fyrir okkur og slegið í andlitið á þeim sem fara offorsi í virkjunarmálum. Þessi andskoti er ekki afturkræfur og mín silungaveiði, hestamanna og fífilbrekkusál með kríuþúfu fær þá tilfinningu að þetta séu lokin og allt fari í drullu og depurð. Leiðinleg orð þetta og skemmtilegra væri nú að skrifa um þegar pabbi festi sig í sandinum í Varmá, en hún er víst ónýt núna eftir að hún var klórhreinsuð, öll eins og hún lagði sig. Það er á svona dögum sem ég fæ heimþrá, en svo man ég allt í einu eftir rokinu og rigningunni og þá minkar sú þrá aðeins.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 23.12.2007 kl. 00:58

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef ég tryði því að sú framtíðarsýn sem þessir aðilar draga upp og verið væri að fara offorsi í virkjunarmálum, þá gengi ég í lið með Ómari. En því miður er andvirkjunaráróðurinn mest ýkjur og bull. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2007 kl. 02:01

14 identicon

Það verður að minnsta kosti eitthvað sett upp á næstu dögum.. það er alveg á hreinu eitthvað þarf að covera yfir þessa aðför að lýðræðinu þarna fyrir norðan.. Það verður erfitt setja af stað hvalveiðar núna þannig að hver veit nema virkjun Gullfoss verði nýjasta yfirbreiðslan. 

Krummi (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 05:49

15 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Það að virkja á vatnasvæði Gullfoss þ.e. fyrir ofan hann, hefur auðvitað áhrif á fossinn og það er því engin útúrsnúningu á orðum sýslumannsins á Selfossi, J.Trausti. Það hefur einkennt röksemdir virkjunarsinna eins og þín og Gunnars Th. að kalla þá sem gagnrýnt hafa Kárahnjúkavirkjun, stækkun álversins í Starumsvík og óþarfar virkjanir í neðri hluta Þjórsár og á Hengilsvæðinu öfgamenn. Þarna er notuð hin þekkta aðferð ef að þú hefur engin rök gegn andstæðingnum kallaðu hann þá bara öfgamann við hvert tækifæri, þá trúir engin rökum þeirra.

Aðalatriðið í málinu er að það er nóg komið af virkjunum til stóriðju. Virkjanir okkar á næstu árum og áratugum eiga að taka mið af því að fullnýta núverandi virkjanir til að mæta almennri orkuþörf og að náttúruverndarsjónarmið eigi að ráða þegar ráðist er í nýjar. 

Lárus Vilhjálmsson, 23.12.2007 kl. 10:56

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Lárus: Hvernig er hægt að kalla þá sem hvergi vilja virkja annað en öfgamenn? Ekki vil ég virkja hvar sem er en fæ þó stimpilinn "virkjanafíkill".

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2007 kl. 17:41

17 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ég ætla að mæta með mótmælaspjöld við Volalækjarbrú þegar framkvæmdir byrja. Hlöðver Sigurðsson lýsir framtíðinni ansi vel með allt morandi í stíflum, háspennulínum, stöðvahúsum og....... Einnig verður mér að mæta þegar litla nafnlausa sprænan í Kömbunum verður stífluð. Ég ætla að standa þar þó að erfitt verði að fóta sig í hallanum og hálkunni. Stíflan verður nú ekki svo agalega stór, sennilega á stærð við stífluna fyrir kaldavatnið sem var keyrt í gegnum gamla stofuofna í hverabirgi niður við Skíðaskálann sem bara virkaði ansi vel. Það voru að vísu 3 kerfi í skálanum, öll skrúfuð saman af Ásgeiri Eyjólfs með tilheyrandi veislum og söng. Þannið mætti nú virkja í dag líka, með söng og tralli ef rétt er að farið. En ekki svo. þessar litlu sprænur sem hinir vilja ekki koma nálægt, geta Gísli og Trausti boðið í og haldið áfram leiknum með Pólsk fyrirtæki sem í raun eru úr Laugarnesinu, en ekki koma með rútuna frægu þangað, það er of mikill halli fyrir bremsulausar rútur í kömbunum.

Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 24.12.2007 kl. 15:26

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður svarað þeirri ásökun að ég vilji hvergi virkja með langri upptalningu á virkjunum sem ég hef annað hvort verið samþykkur eða verði samþykkur og nenni ekki að endurtaka það, það er það löng runa.

Ómar Ragnarsson, 26.12.2007 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband