25.12.2007 | 15:06
GRÆNLANDSJÖKULL - HVÍT JÓL.
Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól. Eftir óralanga rigningartíð er logndrífa af hvítum snjó og hún leiðir hugann að Grænlandsjökli, hinu ógnarstóra, óhaggalega hvíta víðerni aðeins tæplega þrjú hundruð kílómetra undan Hornströndum og ræður svo miklu um veðurfarið á Íslandi. Á korti sem ég sá nýlega af þeim mikla ís sem hefur þegar bráðnað norður af Kanada, stakk í augun hve lítill hluti þessa auða sjávar lá við norður- og norðausturhorn Grænlands.
Muhammad Ali var eitt sinn beðinn að spá fyrir um úrslit væntanlegs bardaga hans við einn skæðasta andstæðing hans. Ali svaraði með spurningu: Hve lengi getur ísklumpur í sjóðheitum ofni staðist hitann?
Samlíkingin var fullkomin hvað snerti hinn komandi bardaga og á hverju vori má á flugi yfir Ísland sjá dæmi um það hve tregða kuldans í ísnum á íslenskum fjallavötnum heldur ísnum lengi við þótt landið allt um kring sé fyrir löngu orðið marautt.
Það má sjá það fyrir sér að allur ís verði horfinn af norðurskautinu löngu áður en Grænlandsjökull verður bráðnaður niður í botn, hinn meira en 3000 metra þykki ísklumpur í ofni hlýnandi loftslags gróðurhúsaáhrifanna af útblæstri mannsins.
Um langa framtíð verður þessi gríðarlegi kuldaskjöldur aðeins 300 km frá Íslandsströndum og hefur meiri áhrif á veðurfar á Íslandi en flest annað, býr til andstæðu við hlýju loftbylgjurnar sem koma norður með austurströnd Ameríku og sunnan úr Atlantshafinu, sem knýr krappar og djúpar lægðirnar, kenndar við Ísland í nágrannalöndum okkar í Evrópu.
Á sumrin má stundum sjá hliðstæðu í Vesturbyggð þegar mjög hlýtt er á Barðaströnd. Þá stígur loft þar upp og til verður hringrás sem dregur kalt loft utan af Grænlandshafi inn í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð. Innlögn er þetta kallað á Patreksfirði og hún byrjar því fyrr og er því öflugri sem hlýrra er á Barðaströnd.
Ég hef farið einu sinni yfir Grænlandsjökul og hreifst af mikilleik hans, - reynt að lýsa honum í bókinni "Ljósið yfir landinu", og leyfi mér stundum í hálfkæringi að kalla Vatnajökul "skaflinn" í samburði við stærsta ísjöfur norðurhvelsins sem allt of fáir Íslendingar hafa kynnst.
Við getum kannski þakkað Grænlandsjökli það að fá hvít jól nú og um ókomin ár á meðan "ísklumpurinn stenst hitann í ofninum" eins og Ali orðaði það. Og einnig bölvað honum fyrir það hve seinlega það gengur fyrir hann að beygja sig fyrir afleiðingunum af gerðum okkar mannanna.
Enn og aftur: Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól.
Athugasemdir
Við verðum að vona að smám saman fjölgi þeim eitthvað sem finnst vænt um þetta land okkar Ómar. Ennþá eru þeir of margir sem er fyrirmunað að skilja að til þess að geta þótt vænt um fólk þarf líka þykja vænt um það umhverfi sem fóstrar mannlífið.
Það er raunaleg þversögn að það skuli vera frumbyggjaþjóðirnar sem skilja þessi einföldu vísindi sem eru vísindasamfélögunum svo framandi.
Kannski verður næsta árs minnst sem árs vaknandi umhverfisvitundar.
Gleðileg jól!
Árni Gunnarsson, 25.12.2007 kl. 15:46
Er borgarbúinn , sem alið hefur allan sinn aldur innan borgarmarka, ekki slitinn verulega frá náttúrunni og skilningi sínum á þeim lögmálum sem lífið á jörðinni útheimtir að beri að virða.
Þetta lögmál skilja frumstæðar þjóðir sem lifa í jafnvægi við umhverfið-- það eru ekki svo mörg ár síðan við vorum í þeirri stöðu.
Tækniveröldin er í raun náttúrulaus... hún gengur skefjalaust á umhverfið og eirir engu sé peningavon í ráðslaginu, þar gilda lögmál hagvaxtar sem eru tilbúin mannana verk.
Sævar Helgason, 25.12.2007 kl. 16:32
En skemmtilegt jóla spjall,,,,sendu þetta til Al Gore hann mun hlusta
eru ekki líka jólin að bráðna líka ?
valur (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 16:43
Ég læt mig barnaleg háðsyrði þín litlu skipta valur.
Hitt er alveg ljóst að jólin hafa bráðnað vegna mengandi andrúmslofts.
Árni Gunnarsson, 25.12.2007 kl. 21:48
Gleðileg jól Ómar minn og takk fyrir alla pistlana
Ása Hildur Guðjónsdóttir, 25.12.2007 kl. 23:45
sæll ómar fynst að nú þyrfti að gera útekt af almenningi í landinu hvernig sé staðið að virkjun háhita á hellisheiði og krefjast að allar lagnir og borholuhús séu grafin í jörðu svo að sá sem ætlar að skoða landið þurfi ekki að klaungrast yfir pípur og drasl .
er alveg hægt að ganga svo frá holum og lögnum að sæist ekki eftir svona 10 ár eftir að framkvæmdum væri lokið mosi væri búin að jafna sig að mestuleiti skoðaði þar sem ég var að plæja niður kapal í kárahnjúkum og var að loka plógfarinu að guli dýjamosin var alveg búin að jafna sig eftir 4 ár er með myndir af því til sönnunar
væri gaman að ræða við þig um stefnu mörkun til framtýðar í sambandi við umgengni og frágang á framkvæmdum er búin að átta mig á að það sem þú segir í sambandi við virkjanir háhita svæða er ekki eins öfgakent eins og raunveruleikin yrði hann ert miklu verri skoðum hellisheiðina og margföldum hana svo með það sem þeir ætla sér er skelfilegt rör út um allt og lokað af sem kemur ekki til mála að mínu áliti fynst að sá sem fengi að virkja yrði að ganga frá öllu neðan jarðar og líkja eftir landin eins ag það var borholuhús yrðu að vera grafin niður og sjást ekkert af þeim eins með lagnir grafnar niður og land mótað eins og var fyrir framkvæmd kæliturnar yrðu eins og náttúru legir hverir hannaðir þannig og nýttu uppstreymi af landhæð til að mynda trekk eins og að hola upp um fjall 200m hár strompur myndi mynda mikinn trekk sem gæti kælt gufuna niður og væri hækt að nýta þá orku til orkuframleiðslu serm er hennt upp á hellisheiði þar mætti byggja stromp upp úr fjallinu sem skíðalyftan er upp á toppnum á fjallinu ef gufan kæmi þar uppo myndi vera minni mengun í reykjavík og ekki ísingar hætta í skíðadskálabrekkunni og fengist orka út úr strompinum vegna trekkmyndunar .af uppstreyminu upp úr svo háum stromp
kveðja bjarni p magnússon s8978056
Barni P Magnússon (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 00:39
Í dag eru Alaska, Grænland og Færeyjar nær manni en Ísland. Ég hef miklar taugar til Grænlands og fólksins þar. Ísland er orðið skemmt á sál og líkama, við sjálf erum ekki náttúrubörn lengur. Við slepptum afkvæmum okkar lausum til þess að geta tekið virkan þátt í velmegnun sem byrjaði fyrir nokkrum tugum árum. Í dag er Reykjavík stressaðri en New York.
Kannski er von á að heimskauta vetur kæmi okkur niður á jörnina aftur. Þessi hlýnun er ekkert annað en fyrirboði þess og ættu menn frekar að búa sig undir kuldaskeið en hlýskeið. Við þurfum ekki að kvíða hér á Ísalandinu nema við missum það. Kannski búnir að því. Gleðilega rest.?
Valdimar Samúelsson, 26.12.2007 kl. 12:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.