KÆRKOMIÐ FRÉTTALEYSI ?

Fréttafíklar geta átt bágt um jólin. Í gær voru helstu fréttirnar það sem allir vissu, hvernig veður var úti, - að guðsþjónustur voru haldnar, að reynt var að gera útigangsfólki jólin bærilegri o.s.frv. Í erlendu máli er norðið "nýtt" notað um fréttir, "nyheder og news", þ. e. að frétt sé aðeins það sem öðruvísi en það sem fyrir er. Ég hef oft á starfsferli mínum þurft að rökstyðja það að eitthvað sé "ekkifrétt" með því að vísa í orðaval nágrannaþjóðanna um þetta fyrirbæri.

Einu sinni var gerð tilraun á Stöð tvö að mig minnir að hafa engar fréttir á jóladag í sparnaðarskyni. Ekki man ég til þess að nein sérstök frétt hafi verið á ferðinni á þessum degi en það var allra manna mál að svona lagað mætti aldrei gerast aftur.

Ég held að það sé ákaflega gott að ekkert gerist fréttnæmt um jólin. Það ætti að geta hjálpað okkur til að færa okkur út úr streitunni, hraðanum og óþolinu sem þjóðlíf okkar einkennist af í vaxandi mæli. Mér þótt því vænt um ekkifréttatíma gærdagsins og mín vegna hefði vel mátt fella alla fréttatímana niður.

Það er reynsla fréttamanna að annar í jólum, páskum og hvítasunnu geta oft orðið erfiðustu vinnudagarnir vegna fréttaleysis. Svo virðist hins vegar sem dagurinn í dag sé ekki fréttalaus og því miður er fréttin af hrundu brúnni í Nepal ekki góð frétt. Það er engu að treysta þegar fréttir eru annars vegar.

Frétt sem sýnist verða fyrsta frétt að morgni getur orðið að þeirri síðustu um kvöldið eða jafnvel verið sleppt. Alvarlegar og stórar fréttir geta gerst á jóladag og páskadag, alveg eins og aðra daga og því er og verður það útilokað að sleppa fréttatímum nokkurn dag ársins.

En mikið finnst mér það gott þegar engar fréttir gerast á helstu hátíðisdögum ársins. Það gæti jafnvel orðið frétt í sjálfu sér að hafa bara þá einu frétt í fréttatímanum að aldrei þessu vant sé ekkert í fréttum. Það væri hægt að "selja" þá frétt með því að slíkt hafi aldrei gerst áður og sé því frétt, nyhed.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Í Noregi var gerð tilraun með eina jákvæða frétt í lok hvers fréttatíma og sjónvarpið kom líka með sólskinssögu í lok fréttatímans, þá kannski að lamb hafði fæðst á miðjum vetri, að giftingahringur hafi fundist í kálgarði eftir 20 ár og svoleiðis. En alltaf jákvæðar fréttir  og til þess gert að koma fólki í gott skap. Þetta hafði alveg ótrúleg áhrif. Fólk sagði öðrum brosandi frá þessari frétt og var hægt að merkja við þá daga sem sérstaklega jákvæðar fréttir voru sagðar. það þarf lítið til að lyfta upp mannssálinni, sama hvort það er frétt eða ekkifrétt.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 26.12.2007 kl. 17:17

2 identicon

Þetta er bara í stuttumáli sagt hjá þér. Engar fréttir eru góðar fréttir. Einfalt.

spritti (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 18:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt hjá þér, spritti. Enska skammstöfunin KISS, Keep It Simple, Stupid!.

Ómar Ragnarsson, 26.12.2007 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband