27.12.2007 | 10:12
"ÞAÐ ERU BARA STELPUR SEM..."
Eitt af barnabörnum mínum á unglingsaldri sá feðga í búð þar sem brúðuleikhús var á boðstólum. "Mig langar í svona" sagði ungi drengurinn." "Nei, það eru bara stelpur sem fá svona" svaraði faðirinn. Málið afgreitt. Ein dótturdóttir mín hefur haft mikinn áhuga á bílum frá því að hún var smástelpa. Ég hef lánað henni stórar bílabækur í stað þess að segja við hana: "Það eru bara strákar sem hafa áhuga á bílum."
Konur hönnuðu að mestu aðra kynslóð Opel Corsa bílanna og það mun hafa verið kona framkvæmdastjóra Fiat-verksmiðjanna sem átti hugmyndina að nýjum Fiat 500 og fékk sínu framgengt, en þessi bíll hefur algerlega slegið í gegn.
Brúðuleikhúsið sem ungi drengurinn heillaðist af var ekki það sama og dúkkur eða dúkkulísur. Hugsanlega blunda í drengnum hæfileikar til leikhúsvinnu eða teiknimyndagerðar sem hefðu átt skilið að fá að þroskast. Og jafnvel þótt hann hefði sýnt áhuga á dúkkum eða dúkkulísum hefði það ekki verið til góðs að berja þann áhuga niður með harðri hendi.
Hugmyndir fólks um kynjahlutverk mega ekki standa í vegi fyrir því að hver persóna fái að þroska hæfileika sína. Þegar fólk sem berst fyrir jafnrétti vill þvinga öll börn til þess að vera eins er baráttan komin út á hálan ís að mínum dómi, ekki síst vegna þess að ekki veitir af að berjast af öllu afli gegn þeirri mismunun í launamálum sem enn viðgengst og byggist að miklu leyti á því að umönnunarstörf eru vanmetin.
Það verður ekki hægt að breyta því að það verði áfram mismunur á áhugamálum og hegðun drengja og stúlkna og það getur varla verið neinum til góðs að lemja niður áskapaðar hneigðir, hvort sem þær eru í samræmi við staðalímyndir eða ekki.
"Bragð er að þá barnið finnur" segir máltækið. Barnabarn mitt sagði móður sinni frá feðgunum og velti greinilega mikið fyrir sér orðaskiptum þeirra. Ný kynslóð er að vaxa upp sem nálgast þessi mál fyrr og með opnari huga en áður hefur tíðkast. Það gefur von um meiri sanngirni, skilning, víðsýni og réttlæti í þessum málum í framtíðinni.
Í Afríku kom ég í þorp þar sem karlarnir flatmöguðu í stærsta strákofanum með vopnum sínum og voru viðbúnir að grípa til vopnanna ef sams konar karlar úr næsta ættbálki kæmu með ófriði. Annað hlutverk höfðu þessir karlar ekki en að móka þarna daginn út og daginn inn, en konur og unglingar sáu um allt stritið sem fátækt þriðja heimsins útheimtir til að fólk komist af.
Ég spurði íslensku trúboðana hvers vegna þeir gerðu ekki gangskör í að uppræta þetta hróplega misrétti með valdi.
Þeir svöruðu því til að það væri ekki framkvæmanlegt heldur tæki það ein til tvenn kynslóðaskipti. Reynslan hefði sýnt að eina leiðin til úrbóta væri að mennta uppvaxandi kynslóð svo að hún lærði þær undirstöður nútíma samfélags sem væru forsenda fyrir framförum og breytti þessu þegar hennar tími kæmi.
Þetta hljómar ekki bjartsýnislega og ætti að vera fljótlegra að bæta þjóðfélag okkar en hið afríska. En líklega er samt mikið til í íslenska máltækinu að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.
Athugasemdir
Góður pistill og sannur
Jónína Dúadóttir, 27.12.2007 kl. 10:21
góð ábending. En hér er ekki dormað með vopn í hendi heldur vald í huga. hér er það nú að konur mega horfa en ekki snerta.
kv. Helgi B
Helgi B Hjaltested (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 10:27
Þarfur pistill og áhugaverð umræða. Það er undir okkur, fullorðna fólkinu, komið hvernig viðhorf börnin okkar hafa til kynjahlutverkanna þegar þau verða stærri. Ég veit að dótturdóttir þín fær engar háðsglósur fyrir það að hafa áhuga á bílum en strákur, sem hefur áhuga á brúðum, eða öðru hefðbundnu stelpudóti, fær aldeilis að heyra það, sbr. ummæli mannsins í búðinni.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 27.12.2007 kl. 12:35
Góður og þarfur pistill Ómar.
Mér verður hugsað til hins mikla frumkvöðuls í brúðuleikhúslist á Íslandi, Jóns E. Guðmundssonar. Ósköp væri menning okkar fátækari ef hans hefði ekki notið við.
Helsti brúðuleikhúslistamaður landsins í dag er karlmaður, Bernd Ogrodnik, og er hann víðfrægur fyrir list sína.
Þá eru ógleymanlegar brúður eins og Konni (Baldur & Konni), Páll Vilhjálmsson og Glámur og Skrámur. Allt brúður sem nutu fulltyngis fullorðinna karlmanna!
sorglegt að svona forpokaður faðir eins og minnst var á, sé treyst fyrir uppeldi verðandi listamanna :)
Annars bestu hátíðarkveðjur til þín og þinna.
Viðar Eggertsson, 27.12.2007 kl. 13:14
Sæll Ómar
Núna berst ég fyrir jafnrétti kynjanna. Ég myndi aldrei vilja neyða öll börn til þess að vera eins. Og heldur ekki alla stráka til að vera eins og allar stelpur til að vera eins. Eins og kemur skýrt fram í þessum pistil þínum geta stelpur verið með samskonar áhugamál og strákar og öfugt. Hver og einn einstaklingur ætti því að fá að þroskast í samræmi við það sem hentar honum best, ekki í samræmi við það hvaða kyn hann er. Mér finnst alveg fáránlegt að neita strák um dúkku bara af því að hann er strákur.
En það sem mér finnst merkilegast er það að strákum er oftar neitað um að gera kvenlægt en stúlkur eru flottar ef þær hafa áhuga á einhverju strákalegu. Afhverju ætli þetta sé? Þarf þetta ekki að breytast? Afhverju eru kvenlægir hlutir minna metnir en karllægir hlutir?
Sonja (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 14:20
Bíddu nú við! Skil ég það rétt að þú hafir viljað að íslenskir trúboðar breyttu þessu afríska þorpi með valdi? Þú hlýtur nú að vita að íslenskir trúboðar hafa aldrei farið þá leið, enda er það andstætt þeim markmiðum að breytingar verði af frjálsum vilja fólksins.
Annars er ég alveg sammála því hjá þér að þetta hafi verið óþarfa fordómar hjá föðurnum.
Kristján Magnús Arason, 27.12.2007 kl. 14:24
Það er misskilningur að ég hafi viljað að trúboðarnir gerðust byltingarmenn í þorpum í Eþíópíu. Ég spurði aðeins hvort nokkur von væri til þess að breyting yrði á því skipulagi sem ríkti þarna og fékk svar sem byggðist á raunsæi þess sem hefur svipaða hugsun og felst í æðruleysibæn AA-manna, - að breyta því sem hægt væri að breyta en sætta sig við það sem ekki væri hægt að breyta.
Það að fá fólkið til að læra að lesa og fræðast um heiminn er gríðarlegt framfararspor að ekki sé minnst á það að fá það til að varpa gömlum og grónum trúarbrögðum sínum og taka upp kristna trú.
Það tókst Helga Hróbjartssyni til dæmis í mjög afskekktu þorpi, sem við komum til, ekki með valdboði og offorsi heldur með því að sýna með verkum sínum gagnsemi breyttrar trúar.
Fram að því hafði verið mikil djöflatrú í þessum afskekkta dal, sem heitir Gúrra. Fólkið varð sífellt að vera að blíðka djöflana með fórnum og með því að stjana við og vera sífellt að blíðka nokkra gamla trúarhöfðingja sem héldu samfélaginu í heljargreipum ótta við sig og djöflana.
Smám saman gekk fólkið sjálfviljugt í lið með Helga og umbreytti trúarlífinu í Gúrra.
Með kærleika sínum og góðverkum vann Helgi kraftaverk í svo afskekktu samfélagi, að þangað þurfti að ganga í þrjá sólarhringa yfir þrjá fjallagarða. Það var ógleymanlegt að koma til þessa staðar með honum í flugvél sem hann hafði þá undir höndum til ferðalaga sinna.
Í öðrum þorpum notaði Helgi sömu aðferð, ekki með þvingunum og áreiti heldur góðverkum, kennslu og hjálp. Á ferð sem ég fór með honum um Eþíópíu var hann hvarvetna í hávegum hafður, líka í þorpum þar sem yfirgnæfandi íbúa voru múslimar.
Hann réðist ekki á þetta fólk með skömmum og ádeilu heldur með jákvæðri boðun sem skilaði sér smám saman.
Ég ferðaðist með honum um landið 2003 og þegar ég fór í aðra ferð 2006 hittum við embættismenn í þorpunum sem hann hafði á sínum tíma bjargað úr fátækt og örbirgð og menntað þá og stutt til sjálfshjálpar.
Þeir voru nú hver af öðrum að komast til áhrifa og halda áfram á framfarabraut.
Ómar Ragnarsson, 27.12.2007 kl. 19:36
Frábær færsla hjá þér, Ómar og alveg sönn. Þetta er svo mikið undir okkur foreldrunum komið. Enn eru þó gefnar út prinsessubækur fyrir stilltu og góðu prinsessurnar og hressar og óþekkar sjóræningjabækur fyrir strákana. Ég gaf frænku minni sjóræningjabókina góðu í jólagjöf en efast um að ég hefði gefið frænda mínum prinsessubókina ... Arggg!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.12.2007 kl. 21:00
já ég held að við höfum mikið meira fyrir börnunum, en við viljum viðurkenna, (það er sko ekki allt meðfætt eins og margir halda fram) ég er úr sveit og vann við hlið foreldra minna frá því ég gat hjálpað eitthvað til, og það "gleymdist" alveg að segja mér að þetta og hitt væri annaðhvort fyrir stráka eða stelpur. Uppáhaldsleikfangið mitt var vörubíll, stór og mikill , sem amma mín lét smíða fyrir mig! eina barbí dúkku átti ég, en hún var mjög vanrækt af eigandanum :) . Svona setningar eins og faðirinn sagði í blogginu þínu: ".þetta er bara fyrir stelpur" eða "þetta er bara fyrir stráka" heyrir maður því miður mjög oft, og ég held að foreldrar geri sér almennt ekki grein fyrir hversu mótandi þetta er , auðvitað man strákurinn þetta næst þegar hann sér brúðuleikhús eða eitthvað annað , sem ekki er nógu "strákalegt" fyrir pabba hans, og minnist ekki á svona meir. Foreldrar gáið að ykkur , þið viljið örugglega að börnin ykkar hafi sömu möguleika í lífinu, hvort sem þau eru strákar eða stelpur, (ábyggilega enginn pabbi sem horfir á litlu stelpuna sína og hugsar: æ mikið er hún sæt, og svo fær hún líklega helmingi minni laun en strákur, þegar hún stækkar) :) en þessar setningar eru bara byrjunin á einmitt þessu ferli, aðgreining vegna kyns.
Þórdís þ.
þórdís Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 21:28
Mjög þarfur pistill og góður. Í fyrsta skipti sem ég eignaðist peninga keypti ég mér plastrútu. Seinna í barnaskóla bað ég um að fá að fara í smíðatíma en það gekk ekki upp fyrir stelpu. Bræður mínir léku sér oft að brúðunum mínum og ég að bílunum þeirra. Önnur dóttir mín hafði aldrei áhuga á brúðum á meðan hinni þóttu þær undurskemmtilegt. Við verðum að leyfa börnunum að fina sínn áhugamál sjálf.
Hólmdís Hjartardóttir, 28.12.2007 kl. 02:07
Góður pistill Ómar. En ég er reyndar þeirrar skoðunnar að launamunur kynjana sé ofmetinn. En launamunur starfsstétta er of mikill og þar eru umönnunarstéttirnar skammarlega vanmetnar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2007 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.