29.12.2007 | 15:33
"SKAGFIRSK MENNING, MÆT OG FÖGUR..."
Við hjónin, Helga og ég, skruppum í gærkvöldi í Árgarð í Skagafirði til að taka boði Karlakórsins Heimis um að samfagna þeim vegna 80 ára afmælis kórsins. Þetta var samkoma eins og þær gerast bestar út á landsbyggðinnni, með söng og lífsgleði. Karlakórinn æfir nú dagskrá í tilefni af því að öld er liðin frá fæðingu Stefáns Íslandi. Ég er orðinn nógu gamall til að muna þá tíð þegar nöfn framúrskarandi Íslendinga vörpuðu ljóma á landið sem hafði nýlega orðið lýðveldi og þjóðin þarfnaðist þess að sanna sig fyrir umheiminum.
Stefán Íslandi, María Markan, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Vilhjálmur Stefánsson, Albert Guðmundsson, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Clausensbræður, Vilhjálmur Einarsson, - allt eru þetta nöfn afreksfólks, hvers á sínu sviði, sem lögðu ómetanlegan skerf til þess að Íslandi væri tekið sem jafningja í hópi annarra þjóða.
Fyrir 12 árum orti Pálmi Stefánsson bóndi þessa hringhendu:
Ýmsir nenna að yrkja bögur.
Aldnir kenna fræðin ströng.
Skagfirsk menning, mæt og fögur,
mótast enn af gleði og söng.
Ég kynntist þessari menningu þegar ég var fimm sumur í sveit í Langadal, en þar hafði karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps verið stofnaður í byrjun síðustu aldar og söngmenning Skagfirðinga og þeirra byggða Austur-Húnavatnssýslu, sem áttu upprekstrarland sem tengdist upprekstrarlandi Skagfirðinga, var samofin og tengd á marga vegu, ekki hvað síst þegar smalað var á haustin.
Úr jarðvegi þessarar söngmenningar var Stefán Íslandi sprottinn og á okkar dögum held ég að okkur sé þarft að huga að varðveislu hennar og endurnýjun. Stefán söng jöfnum höndum óperutónlist í óperuhúsum erlendis og íslenska tónlist hér heima og víðar.
Heimsþekkt er kóramenning kennd við kósakkana og í ríkjum sunnanverðrar Afríku ríkir einnig heimsfræg kóramenning sem við hjónin höfum verið svo lánsöm að kynnast.
Eftirminnilegur var þessi afríski söngur sem hluti af myndinni um uppreisnarmanninn Biko svo að dæmi sé tekið um það hve mikilvæg sérstæð menning, sprottinn úr landslagi og þjóðlífi, getur verið fyrir hverja þjóð og fyrir listsköpun af ýmsu tagi.
Það er misskilningur að unga fólkið í þéttbýlinu á suðvesturhorninu mun ekki geta metið þessa grónu, íslensku menningu. Sjálfur þekki ég það af reynslu hvernig ein Kerlingarfjallaferð gat gerbreytt tónlistarmati þriggja dætra minna á táningsaldri á sinni tíð, sem fyrir þá vist í Kerlingarfjöllum virtust aðeins kunna að meta tónlist Duran Duran eins og tíska var á mölinni meðal jafnaldra þeirra.
Umhverfið, söngurinn og lífið í Kerlingarfjöllum víkkaði sjóndeildarhring þeirra.
Skagfirsk menning er meira en söngurinn. Með þekktasta heimkynni íslenska hestsins leggja Skagfirðingarog bændur um allt land grunninn að skilningi á gildi umhverfisins í mótun menningar . Þúsundir ungs fólks um allt land kynnist íslenska hestinum og í gegnum hann fær þetta fólk tækifæri til að fara um landið á hestum, koma á hestamót og samlagast og kynnast því sem Pálmi Stefánsson lýsir með orðunum "Skagfirsk menning, mæt og fögur..."
Sú menning er auðvitað ekkert einkamál Skagfirðinga heldur sú hin sama og viðhaldið er úti á landsbyggðinni af reisn og trúmennsku sem allir Íslendingar ættu að tileinka sér jafnframt því sem leitað er fanga í því besta sem alþjóðleg menning getur fært okkur.
Ef tengslin rofna milli þeirra sérstæðru og grónu menningar, sem ég fjalla hér um, og alþjóðlegra strauma og aðeins situr eftir aðflutt menning, verður illa komið fyrir íslenskri þjóð, sjálfsímynd hennar og hlutverki í menningarlífi heimsins. Vonandi gerist það aldrei.
Athugasemdir
Ekki átti maður von á því að sjálfur Ómar Ragnarsson, íslenskastur Íslendinga, myndi falla í þá gryfju að trúa því að sá ágæti kór Heimir ásamt fleirum væri að minnast 100 ára ártíðar Stefáns Guðmundssonar Íslandi. Það er nú ekki svo langt síðan hann lést. Hitt er annað mál að kórinn minnist þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Stefáns. Ártíð er dánarafmæli - eins og Ómar veit manna best -; þessi villa er greinilega ættuð úr illa orðaðri auglýsingu í svokölluðu "Sjónhorni", sem er auglýsingaritlingur gefinn út vikulega í heimahéraði Heimis og er ekki nógu vel eða ekki prófarkalesinn af fólki með lágmarks íslenskukunnáttu.
Ellismellurinn (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 20:52
http://www.heimir.is/is/node/2
ellismellurinn (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 21:38
Púff, hér fór hugsunarlaus kópíering á textanum skagfirska illa með mig þegar orðið ártíð, sem notað var í kynningu Heimismanna fór alla leið inn í texta minn.
Þetta óhugnanlega fyrirbæri kannast ég vel við úr fréttamennskunni og eru til um það ótrúlega mörg dæmi þar sem villa hefur farið í gegnum allar síur allt til þess er hún birtist í munni þular eða á prenti.
Ég kann að segja frá skemmtilegu dæmi frá fréttamannsferlinum. Í síðasta fréttatíma Sjónvarpsins fyrir sumarfrí 1980 las ég frétt sem ég hafði skrifað sjálfur um hinn nýkjörna forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttir.
Ég hafði komið mér upp þeim vana fyrir áeggjan fréttastjórans, Emils Björnssonar, að hvenær sem greint væri frá hjúskaparstöðu fólks ætti að segja giftur, ef það væri hún, en kvæntur ef það væri hann.
Ég hlýddi Emil skilyrðislaust og æfði þetta og praktiseraði þangað til það var orðið mér fullkomlega tamt. Þegar ég var að ljúka við að lesa eigin pistil um Vigdísi mundi ég allt í einu eftir því að mér hafði láðst að greina frá hjúskaparstöðu Vigdísar og bætti því við í lokin einni örstuttri setningu: "Hinn nýi forseti er ókvæntur." Í undirmeðvitundinni hljómaði raust Emils: "Hann (forsetinn) er kvæntur."
Það glóðu allir símar á fréttastofunni eftir fréttatímann og engin leið að leiðrétta þessi leiðu mistök fyrr en eftir meira en mánuð!
Þegar ég hafði svarað ótal símtölum með hugarfari sem þekkt var hjá kínverskum kommúnistum sem þurftu að játa á sig sakir kom loks að því að ég var orðinn leiður á því og snerist því til varnar þegar reið og ókurteis kona hellti sér yfir mig með skömmum og bölbænum:
"Hvernig vogarðu þér að segja að Vigdís sé ókvænt?" hvein í kerlingunni. "Skammastu þín að tala svona um þessa elsku."
"En ég sagði ekkert rangt," svaraði ég. "Ekkert rangt?" hvein í kerlu. "Ertu svo ósvífinn í þokkabót?"
"Nei, svaraði ég. Ég stend við það að Vigdís sé ókvænt. Ef þú getur hins vegar fært sönnur á að hún hafi bundist böndum við konu skal ég leiðrétta það sem ég sagði."
Kerlingin skellti bálreið á.
Líkast til var ég 25 árum á undan samtíð minni þegar ég velti upp möguleika sambúðar samkynhneigðra.
Gagnstætt því sem var uppi á teningnum 1980 get ég leiðrétt innsláttarvillu mína núna í frumtextanum og mun gera það hér með.
Ómar Ragnarsson, 29.12.2007 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.