ÓVÆNTUR VANDI VIÐ JÓLATRÉÐ.

Í fjölskyldu okkar hjóna er orðinn fastur siður að við og afkomendur okkar njótum heimboðs Jónínu, elsta barns okkar og Óskars Olgeirssonar manns hennar á annan dag jóla. Fastur liður hefur verið að ganga í kringum jólatréð og hefur oftast verið notuð jólalagasyrpa af einum Gáttaþefsdiska minna en líka einstaka sinnum svipuð syrpa af diski Hemma Gunn og Dengsa. Í þetta sinn fannst Gáttaþefsdiskurinn ekki strax og var því spiluð syrpan af diski Hemma.

Allt gekk vel um hríð en skyndilega kom upp vandamál þegar lagið "Tíu litlir negrastrákar" hljómaði skyndilega. Aldrei fyrr höfðum við verið neitt verið að velta vöngum yfir þessu lagi og textanum sem allir kunnu og þaðan af síður vissum við í öll þessi ár um vafasaman bakgrunn upphaflegrar notkunar hans erlendis.

Skyndilega var komin upp knýjandi spurning: Var við hæfi að við gerðum það sama og við höfðum gert í sakleysi okkar í áratugi, sem sé að syngja þennan texta og það við jólatréð á hátíð friðar og kærleika? Er kannski ástæða til að láta ekki nægja að gera nýútkomna bók með myndum Muggs útlæga heldur líka gömlu skemmtilegu jólaplötuna þeirra Hemma og Dengsa?

Hvað átti að gera? Lagið var byrjað að hljóma og áttum við að stöðva börnin og byrja síðan að útskýra vandræðalega af hverju við gerðum það? Börnin tóku reyndar ákvörðunina fyrir okkur og byrjuðu sjálf, sakleysið uppmálað. Lagið hljómaði til enda og í lok göngunnar var eins og ekkert hefði gerst umfram það sem gerst hafði í áratugi við þetta jólatré.

Við gengum sem sé í kringum jólatréð nákvæmlega eins og alltaf hafði verið gert án þess að nokkurt barna okkar né barnabarana virtust hafa beðið skaða af.

Nú höfum við heilt ár til að velta fyrir okkur hvað við gerum næst. Einfaldast er að spila hér eftir bara syrpuna af Gáttaþefsdiskinum og finna hann í tíma. Það er víst runnið upp annað ástand í þjóðlífi okkar en við áttum von á að við verðum að laga okkur að því.

En ég spyr sjálfan mig: Er þetta nú samt drengilegt gagnvart mínum nánu vinum, Hemma og Dengsa? Hvers eiga þeir að gjalda? Hvernig áttu þeir að geta séð fyrir að þetta meinleysilega lag yrði svona umdeilt?

Gaman væri að heyra hvað fólk myndi gera í okkar sporum. Góð ráð eru alltaf vel þegin, þótt þau kunni að vera misvísandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hmm skil reyndar ekki afhverju fólk er að velta þessu fyrir sér með 10 litla negrastráka. svona hefur textinn verið lengi og enginn ástæða fyrir að vera eitthvað að velta þessu fyrri sér.. svipað og með jólasveininn. börn svo til hætta að trúa á hann þegar aldurinn færist yfir þau.

gísli.r

www.aflafrettir.com

Gísli .R (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Látið sem ekkert C og haldið ykkar_________

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.12.2007 kl. 21:11

3 Smámynd: Sævar Helgason

Það er orðið vandlifað --þetta sívinsæla barnalag og texti um 70 ára skeið eða meir orðið nánast bannvara - halda bókabrennu kannski ?

Hvað með jólasveinana er allt löglegt sem þeir eru gerendur í eins og textinn segir ? Hvað með hann Bjúgnakrækir-- er hann ekki strangt tiltekið ótýndur þjófur og er ekki svo með þá fleiri ?   Þarf ekki að fara betur yfir þetta alltsaman ?

Kannski er maður stórskaðaður af þessu öllu saman án þess að gera sér nokkra grein fyrir því - að hafa haft af þessu hið mesta gaman í bernsku.

Legg til að við höldum okkar vinsælu söngvum og jólasveinasögum alveg óspilltum eins og verið hefur bæði í aldanna rás og allavega síðasta mannsaldur... 

Sævar Helgason, 29.12.2007 kl. 21:35

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Ég tel að þið hefðuð átt að gera hið eina rétta !

Einfaldlega það sem þið gerðuð, syngja og dansa í kringum jólatréið.  Það er rétt sem Sævar segir "það er orðið vandlifað" í þessum heimi.  Ég hef sjálfur sungið þetta lag fyrir dætur mínar án þess að vera með kynþáttafordóma - þetta er einfaldlega skemmtilegt lag, einfaldur texti sem allir geta sungið....... meira að segja ég.

Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Óttarr Makuch, 29.12.2007 kl. 22:38

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Annars virðast mörg lög, ekki síst jólalög, eða öllu heldur textar þurft að ganga í gegnum einhverskonar hreinsunareld, af að því er virðist af sjálfskipuðum spekingum. Nefni sem dæmi "Jólasveinar ganga um gólf" og "Nú er Gunna á nýju skónum". Textar sem greiptir eru í þjóðina. Skraut og gilt glingur var ekki fundið upp á seinni tímum og það var jafn eftirsóknarvert í árdaga. Þes vegna er ekkert að því þó fólk sjái fyrir sér jólasveina með gilta stafi. Og hverjum datt eiginlega í hug að breyta "pabbi segir" í "babbi segir" ?

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.12.2007 kl. 23:45

6 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Jah, Ómar, það er nú þannig í minni fjölskyldu að aldrei hefur þetta lag truflað einn eða neinn. Mér finnst svolítið hafa verið blásið upp vandamál varðandi þetta lag og þessa bók. Ég man eftir öllum látunum á sínum tíma í sambandi við teikningmyndasyrpuna með Tomma og Jenna í sjónvarpinu. Það átti að banna þá, þetta voru ofbeldisfullar myndir og áttu að trufla börni í meira lagi. Mín börn skynjuðu ekki þetta ofbeldi, þau horfðu á myndirnar með allt öðru auga en hinn fullorðni gerði. Ég held að það sama gildi um þetta lag sem og bókina. Börn sjá ekki þá mynd sem hinn fullorðni les úr textanum. Þar liggur munurinn. Haldið ykkar striki áfram og syngið af hjartans list.

Sigurlaug B. Gröndal, 29.12.2007 kl. 23:51

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einn skemmtilegasti misskilningurinn í jólatextum er þegar börnin beygja sig fram með hendurnar og syngja um Adam: "Hann sáði, hann sáði..."

Danir skilja hvorki upp né niður því að í danska frumtextanum segir: "Alle gjorde som Adam / som saa, som saa..." , en þarna þýðir "som saa" si svona eða einhvern veginn svona og í framhaldinu er síðan klappað og stappað, rétt si svona eins og danski textinn hafði gefið til kynna að gert yrði.

Ómar Ragnarsson, 30.12.2007 kl. 01:12

8 identicon

Sæll Ómar.það er rétt að aldrey hef maður pælt í þessum texta á niðrandi hátt. En það er mismunda hvaða skilning fólk hefur á þessu.

                                      jobbi

jobbi (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 02:19

9 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, það er engin leið að láta einhverja sjálfskipaða postula sem sjá fjandann í hverju horni segja sér hvað má og hvað ekki.

Þetta lið virðist ekki þekkja neitt til barna eða hugsanagangs þeirra, þau er ekki að velta fyrir sér einhverjum ímynduðum boðskap,og eru mikið nær jörðinni en fullorðnir í svona efnum.

Megi nýtt ár færa þér og þínum gæfu og gleði..Kveðja 

Ari Guðmar Hallgrímsson, 30.12.2007 kl. 08:01

10 identicon

Þetta lag hefur svo sem verið sungið í mörg ár, en ekki hef ég orðið vör við að fólki þætti sérstaklega gaman að þessu eða þyki eitthvað vænt um þessi ósköp. Þetta er eitt af því sem maður hefur þurft að lifa með, mér hefur nú bara alltaf fundist þetta hundleiðinlegt lag og þetta er nú ekki það sem hefur kveikt hjá manni jólaandann, hvorki þegar maður var barn og kannski enn síður í dag. Það þótti nú líka sjálfsagt hér áður fyrr að bjóða uppá áfengi og sígarettur í fermingarveislum, en sem betur fer erum við í stöðugri endurskoðun með siði og venjur og ættum að geta losað okkur við þennan ósið ef við höfum áhuga á. 

Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 12:20

11 identicon

Ég verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei hugsað um þetta lag sem eitthvað "rasista" lag og ég hef í gegnum tíðinna sungið það á jólaböllum eins og flest allir Íslendingar. Þannig að mér finnst viðbrögð ykkar við þessu alveg hárrétt þ.e. að láta eins og ekkert sé og halda bara áfram. Langar í lokin að láta fljóta með RÉTTAN texta af jólasveinar ganga um gólf

jólasveinar ganga um gólf með gildan staf í hendi,

móðir þeirra sópar gólf og flengir þá með vendi,

Upp á hól stend ég og kanna

 því níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna

Ég á reyndar ekki von á því að þessu verði breytt í nánustu framtíð.

P.s Gáttaþefsdiskurinn þinn er algjörlega mitt uppáhald

Íris Valgeirsdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 23:17

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Íris: Hvaða heimildir hefur þú fyrir því að þetta sé rétti textinn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.12.2007 kl. 01:03

13 identicon

Ómar. Ef þú eignaðist blökkumann fyrir tengdason eða tengdadóttur, þá værir þú ekki í vafa um hvað skyldi gera.

Ísland hefur breyst frá því þessi þessi rasíski kveðskapur barst saklausum landanum.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 12:25

14 identicon

Þessi texti hefur aldrei truflað mig né mína og ég myndi bara halda mínu striki.

Mig langar að gera athugasemd við RÉTTAN texta Írisar um Jólasveinana.

Ég fletti þessu upp og til gamans læt ég fylgja með útskýringar af Vísindavefnum um þessa skemmtilegu jólasveinavísu og er einmitt sá texti sem ég þekki.

Þessi vísa birtist fyrst í seinna bindinu af þjóðsögum Jóns Árnasonar árið 1864:

Upp á stól
stendur mín kanna;
níu nóttum fyrir jól,
þá kem ég til manna.

 

Stóllinn sem kannan stendur á heitir könnustóll og var þekkt húsgagn á heimilum heldri manna á miðöldum. Á honum stóðu ýmis ílát með vínföngum. Vísan virðist vera úr samnorrænu danskvæði og á að líkindum ekkert skylt við jólasveina. Vísurnar um jólasveinana annars vegar og könnuna hins vegar standa heldur aldrei saman í handritum.

 Það er alltaf erfitt að sannprófa hvaða gerð þjóðvísu sé ‘rétt’. Yfirleitt voru vísurnar ekki skráðar á blað fyrr en þær voru orðnar aldagamlar og höfðu brenglast í minni kynslóðanna á ýmsa lund. Því er ekki víst að elsta uppskriftin sé endilega réttust.



Elsta skrásetta gerð vísunnar sem spurt er um er frá Hornströndum á miðri 19. öld:

Jólasveinar ganga um gólf
og hafa staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og strýkir þá með vendi.
Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.

 

Ekki er hægt annað en að verða svolítið veikur fyrir þessari gerð, einmitt vegna þess hvað rím og stuðlasetning eru óregluleg og sumt í henni torráðið. Enginn virðist hafa reynt að laga hana til. Hún birtist í dönsku tímariti árið 1851 og kom því ekki fyrir sjónir almennings á Íslandi.

Rúmum hundrað árum seinna kunni þó kona frá Hornströndum f. 1902 vísuna svona:

 

Jólasveinar ganga um gólf
og hafa staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi
en í því skreppur skjóðan undan hendi

 Kringum 1990 var farið að kenna börnum í sumum leikskólum upphaf seinni vísunnar með þessu afbrigði:Upp á hól

stend ég og kanna.
  • Þessi texti á sér enga forsendu. Auk þess er það hugsanavilla að einhver standi upp á hól og kanni – án þess að tilgreina hvað það sé sem kannað er. Enginn vill nú gangast við að eiga upptökin að þessari útgáfu vísunnar. Hún hefur samt illu heilli komist á geisladisk með söng hins ágæta barnakórs Kársnesskóla og gerir það líklega erfiðara um vik að kveða villuna niður.


tilvísun.

Árni Björnsson. „Í jólalaginu 'Jólasveinar ganga um gólf', hvort stend ég upp á hól eða kannan upp á stól?“. Vísindavefurinn 1.12.2006. http://visindavefur.is/?id=6418.

 

Heiða Lára (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 13:55

15 identicon

Fólk er að ég held búið að missa sig gjörsamlega í þessum málum sem lúta að hörundslit.'I dag má ekki segja negri því að mussuliðið er búið að fá það í gegn að það sé niðrandi orð og skiftir engu máli þó að orðið sé greypt í íslenskt málfar.Hvað með bækur eins og litla svarta smbó og Tinna í Congo,það hlýtur að vera glæpur að eiga þannig undirróðurs bókmenntir,ég er búinn að fá nóg af þessari helgislepju og undirlægjuhætti og vil að notuð sé gömul og gild íslenska til að lýsa því sem þarf að lýsa. 

BRYNJÓLFUR T BENEDIKTSSON (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 14:08

16 identicon

Í dönsku verðlaunamyndinni Festen er sena sem lýsir því hvernig lag sem sungið var í Danmörku um skeið verður að svæsnu níði um einn gestinn, svertingjann í fjölskyldunni. Mjög fróðlegt - að minnsta kosti fyrir þá sem eru í standi til þess að ræða þetta mál á sæmilega yfirvegaðan hátt.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 17:05

17 identicon

Sæll,

fyrir mína parta þá vil ég ekki að við notum þessa syrpu aftur. Þrátt fyrir að við höfum ekki verið  meðvituð um hvað textinn fjallaði í tugi ára og þrátt fyrir að okkur hafi staðið á sama um það allan þann tíma þá þýðir það ekki að við eigum áfram að láta sem svo sé og þykjast vera fáfróð. Hið rétta er að textinn VAR saminn sem níð um afríkuættaða einstaklina og þegar maður þekkir sögu vísunnar getur maður ekki litið framhjá henni og þóst ekki vita.

Því vil ég ekki að börnin mín syngi þetta lag eða lesi þessa bók. Ekki frekar en ég er tilbúin til að lesa bókina um hana Margréti sem var alltaf svo dugleg að hjálpa mömmu sinni í eldhúsinu, (ef ekki þá var hún svoldið vitlaus, greyið) í fína sæta kjólnum sínum með slaufur í hárinu. Bók sem á baksíðu var sögð frábær undirbúningur fyrir líf ungra stúlkna.

Einfaldlega ekki sá boðskapur sem ég hef fyrir mínum börnum. 

Lára (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband