JÖKLAFERÐ EKKI SAMA OG JÖKLAFERÐ.

Jöklaferð er ekki sama og jöklaferð. Þetta má segja um þær fréttir dagsins að þurft hefði björgunarsveitarútkall til að bjarga ellefu manns af Langjökli. Vönustu jöklafarar landsins geta vel farið í ferðir um jöklana í verstu veðrum ef þeir eru rétt útbúnir. Ég minnist átta daga ferðar á Hvannadalshnjúk vorið 1991, sem ég fór í ásamt fleirum,  þegar leiðangursmenn höfðust við þar uppi í tveimur illviðrum sem dundu yfir. Menn höfðust við í jeppunum á meðan þessi veður gengu yfir og héldu siðan leiðangrinum áfram. Þá var ég ekki byrjaður að aka sjálfur eigin jeppum um jökla og lærði mikið af því að kynnast vinnubrögðum leiðangursmanna. 

Síðara illviðrið í þessari ferð var svipað og veðrið nú, með hátt í 100 metra vindi á sekúndu í hviðunum.

Á sínum tíma fóru Arngrímur Hermannsson, Valdi rakari og fleiri í langa ferð yfir jöklana þrjá og þurftu að bíða af sér veður margsinnis á þeirri leið án þess að þyrfti að kalla út björgunarleiðangra. 

Ferðin á Langjökul nú var hins vegar greinilega ekki í þessum gæðaflokki fyrst það þurfti að kalla út björgunarsveitir og lýsa því yfir í lok erfiðs björgunarleiðangurs að fólkið væri því mjög fegið að hafa verið bjargað. Mér skilst að meðal fólksins hafi meira að segja verið börn.

Fyrirsjáanlegt var að þessir jeppar kæmust ekki niður af jöklinum í því veðri sem spáð var á þeim tíma sem þeir voru á ferð. Í útvarpi glumdu fréttir af því að almannavarnarnefndir yrðu kallaðar saman og nákvæmlega var búið að greina frá því í fjölmiðlum hvenær veðrið skylli á og hve slæmt það yrði.

Um allt land næst útsending RUV frá Gufuskálum og því er erfitt að skilja hvers vegna fólkið fór ekki í tíma niður af jöklinum úr því að það var ekki við því búið að vera þar áfram.

En allt fór vel að lokum og þessi pistill er ekki skrifaður til að ráðast að einum eða neinum heldur til að brýna okkur öll, sem höfum yndi af jöklaferðum, að undirbúa ferðirnar sem best og læra af þeim sem best kunna til verka.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Þessir kappar hafa greinilega látið viðvaranir um yfirvofandi óveður eins og vind um eyrun þjóta.

Turetta Stefanía Tuborg, 30.12.2007 kl. 21:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bendi á athugasemd mína við pistilinn hér að ofan þar sem ég segi að ekkert hefði verið við það að athuga að fólkið á Langjökli hefði planlagt það fyrirfram að dvelja á jöklinum þar til veðrið var afstaðið, - haft nægar vistir og eldsneyti til þess.

Ómar Ragnarsson, 30.12.2007 kl. 22:56

3 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Maður hefur marg oft lent í því að þurfa að bíða af sér vont veður, fyrir held ég tveimur árum vorum við félagar veðurteptir á vatnajökli og slóum um kanaspili í einum jeppana,  kertaljós, heitt kakó og gamlar samlokur. flottara verður það ekki.

S. Lúther Gestsson, 31.12.2007 kl. 02:36

4 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Svo verð ég að bæta við að maður snýr ekki afturendanum á bílnum upp í vindinn þ.e.a.s ef mikill skafrenningur er, ástæðan jú þá fyllist húddið af snjó. Snjórinn sem skellur á húddið heldur að mestu áfram undir bílinn og safnast fyrir aftan hann.

Enn þetta var nú bara smá fróðleiksmoli í tilefni dagsins.

Gleðilegt ferðaár strákar.

S. Lúther Gestsson, 31.12.2007 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband