31.12.2007 | 22:07
SJÁLFBÆRNI ALLS STAÐAR ?
Ávarp Geirs H. Haarde var gott og vel flutt. Geir er vænn maður og meinar vel þegar hann talar um kröfur um sjálfbærni. En þá verður hann að vita betur hvað hann er að tala um, - sjálfbærnin þarf að vera alls staðar, ekki bara sums staðar og ekki má guma af sjálfbærni þar sem hún er sannanlega ekki fyrir hendi. Sem gamall fjölmiðlamaður ber ég fram þá ósk til ráðamanna þjóðarinnar að þeir kynni sér grundvöllinn undir fullyrðingum sínum.
Íslensku hitaveiturnar til húsaupphitunar eru nær alls staðar sannanlega sjálfbærar og hreinar. En það á ekki við um þá nýtingu jarðvarmans sem nú er stefnt að á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu. Ég veit ekki í hvaða skipti ég neyðist til að taka þetta mál upp í þeirri von að röngum fullyrðingum sé ekki endalaust flaggað um alla nýtingu jarðvarma og vatnsorku hér á landi.
Fyrir liggur að ætlunin er að kreista 600 megavatta orku út úr fyrrnefndu svæði og að það sé ca tvöfalt meiri orka en svæðið geti afkastað til langframa svo að það teljist sjálfbær nýting. Eftir u.þ.b. 40 ár verður orkan uppurin og afkomendur okkar munu standa frammi fyrir því að missa hana eða finna 600 megavött annars staðar.
Nýtingin er mjög léleg eins og er, 88% orkunnar fer út í loftið.
Hreinleikinn er ekki fullkominn, - nú þegar fer lyktarmengun í Reykjavík 40 daga á ári yfir mörkin í Kaliforníu og útblástur brennisteinsvetnis á þessu virkjanasvæði verður meiri en allra álvera á Íslandi til samans.
Með virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun er stefnt að því að fylla miðlunarlónið um síðir upp með aurseti svo að bæði virkjun og aðrir möguleikar til landnýtingar verða eyðilagðir.
Til samanburðar er óvirkjuð í Noregi vatnsorka, sem er samtals meiri en óvirkjuð vatnsorka á Íslandi og er fullkomlega sjálfbær, án aursets í miðlunarlónum, líkt og Sogsvirkjanirnar og virkjanir hreinna vatnsfalla á Íslandi eru.
Við lifum á upplýsingaöld og öld orku- og umhverfismála og verðum að gera betur á þessum sviðum hér á landi.
Ég ætlaði ekki að blogga neitt meira á gamla árinu og hélt ég væri búinn að klára árið með áramótablogginu hér á undan.
En það er ekki hægt að horfa aðgerðarlaus á minn góða og bláeyga forsætisráðherra, ekki mín vegna, heldur hans vegna. Geir H. Haarde á betra skilið en að vita ekki um óyggjandi vísindaleg sannindi þegar hann reynir sitt besta til að veita þjóð okkar góða og hreinskipta forystu.
Ég skrifa þetta í þeirri von að honum og ríkisstjórn hans muni vel farnast á nýju ári þjóðinni allri til heilla.
Enn og aftur: Gleðilegt ár og þökk fyrir það gamla.
Náttúran lífsgrundvöllur okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gleðilegt ár. Umhverfisbaráttan heldur áfram. Hún er maraþonhlaup en ekki spretthlaup. Með kærri kveðju, Ingibjörg.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 1.1.2008 kl. 01:35
Held með og er alveg viss um að vísindaleg fagmennska þeirra sem að vinna með upplýsingaráðgjöf til forsætisráðherra sé til fyrirmyndar eða gæti svo verið að ég sé hérmeð í byrjun nýs árs að ala með mér dágóða blekkingu.
Þar sem að auðæfi landsins eru sérstök er mikilvægt að forystufólk þjóðarinnar gangi það skref að vera frumherji fyrir umhverfisvernd á þann hátt að varðveita og verja þessi auðæfi frá spillingu og mengun.
Skál í íslensku vatni beint úr krananum. Hve lengi endist sú framtíð?
Þær eru ekki margar fyrirmyndarþjóðirnar hvað varðar umhverfisumsjón. Ennþá hefur Ísland möguleika að verða forustuland í þeim málum. Vonandi er fagmennska upplýsingaráðgjafa ráðuneytum tilhanda byggð á hugsjón um virðingu fyrir því sem við höfum til láns af framtíðinni. Umhverfissérfræðingar Íslands þ.e.a.s. þeir raunverulegu sem bera hag lands og lífs í brjósti sér, fá þeir að heyrast? tala þeir fyrir daufum eyrum? eða kannski eru þeir bara ekki í tísku?
Gleðilegt ár og aftur: skál í vatni úr krananum. Þetta glæra gersemi þjóðarinnar.
ee (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 01:44
Já, skál í vatni úr krananum. Hér í Reykjavík er vatninu dælt beint úr borholunum til neytenda. Það er einstakt að svo stórt samfélag geti látið það fyrirkomulag duga vegna gæða vatnsins.
Pétur Þorleifsson , 1.1.2008 kl. 13:50
Vonandi okkur takist ad virkja brennisteinsvetnið sem núorðið flæðir yfir oss sem versti fretnykur. þó er gott að hafa komist úr moldarkofunum og á þann stað er við erum þó á. 12% nýting er þó betri en engin. eigðu gott og farsælt ár.
Brjánn Guðjónsson, 1.1.2008 kl. 14:16
Ég hef hvergi séð þessu haldið á lofti nema af þér Ómar, að orkan verði uppurin af Hengilssvæðinu eftir 40 ár. Er þetta óyggjandi eða er þetta ágiskun?
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.1.2008 kl. 17:01
Vísindamenn hafa margítrekað þetta. Þetta kom fyrst fram í útvarpsþættinum Speglinum í viðtali við Sveinbjörn Björnsson fyrrverandi háskólarektor og einn helsta vísindamann Orkustofnunar.
Til þess að sannreyna þetta talaði ég sérstaklega við Sveinbjörn og einnig Grím Björnsson, sem nú vinnur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og aðalsérfræðingur hennar og mjög áhugasamur um bætta nýtingu orkunnar og minni umhverfisbreytingar af völdum mannvirkja.
Grímur staðfesti það sem Sveinbjörn sagði. Raunar sá ég þetta fyrst í Morgunblaðsgrein Jóhannesar Zoega fyrrum hitaveitustjórna sem lýsti yfir áhyggjum sínum af því hve harkalega væri gengið fram.
Ég hef greint alloft frá þessu, meðal annars í Morgunblaðsgrein í sambandi við orkuöflun til Alcans og einnig í umræðum í kosningabaráttunni og hefur enginn kunnáttumaður borið brigður á þetta.
Ómar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 00:04
Það væri gaman að heyra ef einhver vísindamaður er ósammála þessu. Þeir eru nú ekki alltaf sammála blessaðir. En þeir vilja kannski ekki tjá sig opinberlega um þetta af ótta við að harkaleg og óvægin viðbrögð einhverskonar réttrúnaðar, líkt og þeir vísindamenn sem bent hafa á ýmsar villur í kenningunni um hnattræna hlýnun af mannavöldum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2008 kl. 02:08
...hafa orðið fyrir
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.1.2008 kl. 02:09
Jæja, Gunnar minn, haltu bara í vonina um að vísindamenn séu kúgaðir til að finna út niðurstöður sem henta ekki þeim sem hafa öll ráð þeirra í hendi sér.
Heldurðu að það væri ekki miklu betra fyrir þá vísindamenn sem þiggja laun úr lófa orkufyrirtækjanna að komast að niðurstöðum sem eru þóknanlegar vinnuveitandanum?
Veröldin sem þú býrð til í þessum efnum er órökrétt. Hvers vegna ættu þeir að vera hræddir við "harkaleg og óvægin viðbrögð" fólks sem ekki hefur minnstu áhrif á það hvort þeir fá vinnu eða verkefni?
Væri ekki líklegra að þeir væru hræddir við að missa verkefni hjá orkufyrirtækjunum. Þessu hefur verið líkt við það að hundurinn bíti síst í höndina á húsbóndanum sem fæðir hann.
Ómar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 00:55
Það er staðreynd að pólitík getur litað afstöðu vísindamanna sem annarra. Ef ákveðnar líkur eru á tiltekinni niðurstöðu, þá er þeirri niðurstöðu hampað ef það þjónar skoðunum viðkomandi. Þeir túlka vafann sér í vil. Þannig er þetta bara og hefur margoft komið í ljós, m.a. í umræðunni um náttúruvernd. Ég er samt ekki að segja að þeir vísindamenn sem þú nefnir hafi óhreint mjöl í pokahorninu og ég hef ekki hugmynd um hvort einhver er ósammála þeim eða ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2008 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.