Á AÐ HALDA ÁFRAM.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til embættisins í öndverðu lét hann orð falla sem skilja mátti á þann veg að vísast yrði ekki um langan embættisferil að ræða enda slíkt ekki æskilegt. Staðan nú er hins vegar sú að mínu mati að ekki hefði verið heppilegt að hann drægi sig í hlé og því hið besta mál að hann haldi áfram.

Það duldist engum sem var samtíða Ólafi Ragnari í Menntaskólanum í Reykjavík að þar fór ungur ákafamaður sem ætlaði sér stóran hlut í að vinna fyrir þjóð sína. Hann kom eins og hvítur stormsveipur inn í skólann og minnstu munaði að honum tækist að kollvarpa því kerfi félagsmála nemenda sem ríkt hafði í skólanum frá öndverðu og byggðist á því að sjöttubekkingum voru tryggð mikil áhrif hverju sinni en busar hins vegar nokkuð afskiptir. Þetta fannst Ólafi Ragnari ekki ekki réttlátt og tókst næstum því að breyta því með því að vera í forystu fyrir uppreisn busa og neðribekkinga.

Sumir líta á Ólaf Ragnar í ljósi þess að hann var lengi í forystu Alþýðubandalagsins og formaður þess um skeið og tala um mikla vinstri slagsíðu á stjórnmálaferli hans. Ég tel þetta rangt mat á þeim grunngildum sem Ólafur Ragnar vildi berjast fyrir frá upphafi og sást best í því að í upphafi reyndi hann að hasla sér völl í miðjuflokki, Framsóknarflokknum, sem hins vegar reyndist of niðurnjörvaður í gömlu fari þröngra hagsmuna til þess að Ólafi tækist að hafa áhrif til þeirra umbóta sem hann taldi nauðsyn á.

Ólafi Jóhannessyni var ekki vel við það sem þessi umbótasinnaði ungi maður vildi gera og Ólafi Ragnari hefði aldrei tekist að komast fram fyrir erfðaprinsinn Steingrím Hermannsson í Framsóknarflokknum.

Kannski var það best eftir á að hyggja því að ekki hefði verið heppilegt að Steingrími hefði verið varnað að hasla sér völl með eftirminnilegum hætti.

Ég minnist augnabliks veturinn 1995-96 þegar ég ók rólega inn Hverfisgötu og sá biðröð við kvikmyndahúsið Regnbogann. Þar stóðu þau hjónin, Ólfur Ragnar Grímsson og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir og báru af að glæsileika svo að það sást langar leiðir og niður í huga minn laust þessari hugsun eins og eldingu: Auðvitað!
Þetta yrðu frábær forsetahjón!

Ég hef átt þess kost að vera samferða forsetanum bæði erlendis og innanlands og hrifist af því hve vel hann hefur rækt hlutverk sitt sem fulltrúi þjóðarinnar og gæti sagt af því nokkrar sögur. Læt aðeins eina fylgja hér:

Við styttu af Jóni Sigurðssyni í Winnipeg þurfti Ólafur að halda tækifærisræðu. Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki látið myndavélina ganga allan tímann sem hann hélt þessa afburða góðu ræðu, blaðalaust af munni fram á svo frábæran hátt að ætla hefði mátt að margra daga lærdómur og æfingar stæði að baki, svo vel var þessi ræða saman sett og flutt.

Í þeirri ferð og öðrum ferðum erlendis gat maður verið stoltur sem Íslendingur af því að eiga svo frábæran fulltrúa. Raunar höfum við Íslendingar verið einstaklega heppin með val okkar í þetta embætti, minnug glæsilegrar frammistöðu Vigdísar Finnbogadóttur í embættinu á sinni tíð sem ljómi mun leika um á meðan land byggist.

Fleiri dæmi gæti ég nefnt þar sem Ólafur nýtti sér frábærlega þá einstöku aðstöðu sem þjóðhöfðingjar landa hafa til að láta til sín taka á alþjóðavettvangi.

Svo margt gott hefur Ólafur gert í embætti og svo vel hefur hann sinnt því að það eina sem mér finnst að hann hefði átt að gera öðruvísi, þ. e.. að skjóta Kárahnjúkamálinu til þjóðarinnar, breytir í engu því áliti mínu að betri mann getum við Íslendingar ekki átt til að gegna þessu embætti nú.

Vandséð er annað en að Ólafur verði kjörinn úr því að hann gefur kost á því og ástæða er til að óska honum og Dorrit velfarnaðar á komandi árum.


mbl.is Býður sig fram til endurkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

AMEN

Auður (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband