1.1.2008 | 17:09
KENNEDY - BHUTTO
Ýmislegt er líkt með morðunum á Bhutto og John F. Kennedy, svo sem það að fleiri en einn hafi hleypt af skotum. Í Sarajevo 1914 virðist ekkert hafa farið á milli mála að skotmaðurinn var einn á ferð og var þó ekki komin til skjala myndatökutækni okkar tíma. Nú er liðin næstum öld og fram koma misvísandi skýringar á dánarorsök Bhuttos, - framfarirnar hafa nú ekki orðið meiri en það.
Hins vegar ætti engum að koma á óvart þótt skotmenn Bhuttos og Kennedys hafi verið fleiri en einn. Þegar farið er út í aðgerð á borð við þessar reyna þeir sem að þeim standa að sjálfsögðu að tryggja árangur. Öruggast er að öfga- og vandræðamaður á borð við Lee Harvey Oswald beini allri athyglinni að sér eða þá að svipuð týpa sem er fyrirfram reiðubúin að taka eigið líf sé að verki á þann hátt að rannsóknin fari í ákveðinn farveg.
Það voru fleiri en hryðjuverka- og öfgamenn sem höfðu hag af því að ryðja Bhutto úr vegi, rétt eins og það voru fleiri en Lee Harvey Oswald sem gátu hugsað sér að Kennedy hyrfi af sjónarsviðinu.
Líklega situr heimurinn uppi með morð sem aldrei verður hægt að upplýsa um til fulls.
Útskýringar á dauða Bhutto dregnar til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
segir nokkuð
Brjánn Guðjónsson, 1.1.2008 kl. 19:04
Hún dó fyrir málstaðinn, lýðræði. Blessuð sé minning hennar. Búttó var gjörspillt og kallinn hennar líka. En samt var hún flokkuð sem bjartasta von Pakistans og vinur Vesturlanda. Algjört djók séð frá mínum sveitabæ. Hún var flækt í stærsta skandal UN(Olía fyrir mat handa Saddam) og síðan þáði hún mútur frá Svissneskum fyrirtækjum.
Í viðtali sem hún veitti David Frost fyrir stuttu síðan nefnir hún manninn sem drap Osama Bin Laden! Ha, Bhuttó sem núna er dauð nefnir að Osama Bin Laden sé dauður. Halló, hvað er í gangi.
Björn Heiðdal, 1.1.2008 kl. 22:45
Sæll, minn ágæti. Af hverju að troða samsæriskenningum inn í alla umræðu. Veröldin í Pakistan er e-ð sem við skiljum ekki, sem betur fer. L.H. OsWald, meintur morðingi Kennedy´s tók ekki sitt eigið líf, það gerði Jack Ruby, eins og þú mannst vel, og Oswald varð mjög hissa þegar Jack skaut á hann af stuttu færi.
Samsæriskenningar eru reyndar mjög skemmtilegt fyrirbrigði, þær auðga lífið, verja mann jafnvel svefni. Sjáðu, var það Þórólfur, bróðir Egils Skallagrímssonar sem hvatti Brák til að stöðva leikinn og horfði svo eftir henni í dauðann ? Leið honum vel með það ? Við vitum það aldrei en Þórólfur vissi auðvitað að harður nagli eins og Egill yrði góður meðreiðarsveinn. Var dauði Þórólfs Agli að kenna. Auðvitað ! Það er svo margt sem ekki er talað um en enn fleira sem bullað er um. Ekki taka þátt þar ! Mitt mottó !
Kveðja- Örn
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 23:54
Það lifa ekki englar á jörðinni heldur menn. Til eru þeir sem benda á kvensemi, tvöfeldni og hentistefnu spillts og dekraðs Kennedys og að það hefði engu breytt í Vietnam þótt hann hefði verið áfram við völd.
Er þá vitnað í fræg ummæli hans í innsetningarræðu sinni, "we will bear any burden and meet any hardship for freedom". Bent er á að Johnson hafi fengið í gegn mun meiri umbætur í réttindamálum blökkumanna en Kennedy hefði nokkru sinni getað.
Það breytir ekki því mati mínu að morðið á Kennedy hafi verið hin versti gerningur og fráfall hans mikill missir. Ég lít morðið á Bhutto svipuðum augum.
Ómar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 00:01
Heill og sæll, Ómar. Sumarið 1988 var ég í Sarajevó á ferð til Grikklands. Það var vitanlega áður en átökin brutust þar út og áttu eftir að leggja borgina í rúst. Þetta var afar falleg borg og vonandi hefur hún endurheimt fyrri reisn að einhverju leyti. Ég hafði aðeins örfáar klukkustundir til þess að svipast um í borginni. Engu að síður gaf ég mér tíma til að skoða safn sem tileinkað var árásinni á Franz Ferdínand sem gerð var í Sarajevó 1914 og kom af stað fyrri heimstyrjöld. Í safninu er því lýst að tilræðsmaðurinn hafi ekki verið einn heldur nokkrir. Þeirra er allra getið í safninu og hampað sem þjóðhetjum. Þeir dreifðu sér í mannþrönginni á akstursleið austurríska prinsins og sá hleypti af sem fékk besta færið. Það var því tilviljun hver þeirra framdi morðið. Kringumstæður við tilræðið á Bhutto sýnast mér æði líkar þeim sem voru í Sarajevó. Það veit enginn hvenær hún stingur höfði upp úr brynvörðum bílnum og því þarf að raða tilræðismönnum sem víðast til þess að koma á hana skoti. Það er því ekki ótrúlegt að tilræðismennirnir hafi verið nokkrir sem sátu um líf Bhuttos og að tilviljun hafi ráðið því hver framdi voðaverkið, kannski einn, kannski tveir.
Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður
Gunnsteinn Ólafsson (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 09:52
Þetta er góður punktur, Gunnsteinn. Vegna þess að ég er bílaáhugamaður hefur mér verið kunnugt um að bíllinn sem hjónin voru í sé geymdur eins og gersemi á safninu. Bíllinn var að vísu góður út af fyrir sig en mig grunar að aðalástæðan sé önnur.
Hér sjáum við hvernig þjóðum tekst oft að réttlæta hryðjuverk með því að kúgarar eða ofríkismenn hafi verið drepnir. Hér heima drápum við Lénharð fógeta og Jón Gerreksson.
Hermdarverk franskra andspyrnumanna í heimsstyrjöldinni voru "góð" af því að þeir sem voru drepnir voru álitnir fulltrúar verstu villimennsku sem nútíminn hefur kynnst. Oft á tíðum beindust þessi hermdarverk þó gegn hermönnum sem voru hvorki betri né verri en aðrir hermenn.
Ég kom til bæjarins Demyansk milli Moskvu og Pétursborgar í hitteðfyrravetur og hitti þar gamla konu sem upplifði það þegar 110 þúsund manna lið Þjóðverja var þar innilokað í fjóra mánuði á útmánuðum 1942.
"Hvernig voru Þjóðverjarnir?, spurði ég. "Þeir voru eins og búast mátti við af hvaða herliði sem var. Innan um voru illmenni og glæpamenn en mest voru þetta ósköp venjulegir ungir menn sem vissu varla af hverju þeir voru sendir á ókunna slóð til að berjast fyrir föðurland sitt.
"Voruð þið samt ekkert hrædd við þá?" spurði ég.
"Auðvitað vorum við smeyk en þó ekkert í líkingu við það hvað voru hrædd við Finnana því að þeir voru hræðilegir og margfalt verri en Þjóðverjarnir."
Mig rak í rogastans og var nokkurn tíma að átta mig á því hvers vegna norrænir menn gætu sýnt á sér slíka hlið. Síðan áttaði ég mig á því að Finnarnir voru að hefna fyrir vetrarstríðið árið áður þegar Rússar réðust á þá. Jafnfram áttaði ég mig á því að hefndarhugurinn er hræðilegasti eiginleiki mannsins.
Hann hefur valdið því að menn eru enn að hefna atburða í Kosovo fyrir mörg hundruð árum og að baki atburða í Palestínu liggur hefndarhugur beggja aðila, sem nær meira en tvö þúsund ár aftur í tímann.
Enn berast Gyðingar og Filistear á banapjót og eiga sína Davíða og Golíata.
Fyrsta raunverulega upplifum mín af stríði var af stríðinu í Palestínu 1948. Þegar ég blaða í stórri bók sem heitir "20th century, day by day," stinga í augun hryðjuverkin sem Gyðingar frömdu á árunum 1946-1948. Þeim tókst meira að segja að drepa eina háttsettan fulltrúa SÞ sem drepinn hefur verið þar í landi.
Síðustu áratugi hefur þetta snúist við eins og við vitum öll.
Það er hefndarhugurinn á báða bóga sem gerir erfiðustu deilumálin svo óleysanleg og viðurstyggileg. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Því miður.
Ómar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 23:53
Svona smá viðbót. Á árunum 1907 til 1938 framleiddu Austurríkismenn lúxusbíla af gerðinni Graf und Stift sem þeir kölluðu "Rolls-Royce" Austurríkis. Þeir voru með 5,8 lítra vélar og kepptu við þýsku bílana Mercedes og Horch. Það er bíll af Graf und Stift gerð sem er á safninu í Sarajevo.
Ómar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.