2.1.2008 | 14:48
ÖRUGGARI BÍLAR OG AKSTURSFRAMFÖR.
Þetta tvennt ræður mestu um það að hægt sé að segja þær góðu fréttir að banaslysum fækki í umferðinni þótt fréttir af banaslysum séu ævinlega dapurlegar. Með orðunum "framför í akstri" er átt við hæfilegri hraða og betri aðgæslu og einbeitingu ökumanna. Öruggari bílar vega ef til vill þyngst en betri öryggisbúnaður verður þó gagnslaus ef menn nota ekki bílbelti og skortur á notkun þeirra veldur sífellt 4-6 banaslysum á ári auk tuga alvarlegra slysa, sem hægt væri að komast hjá.
Því miður er erfitt að komast hjá alvarlegum slysum á meðan nógu margir aka ölvaðir eða sýna vítavert gáleysi sem jaðrar við það að ganga með byssu um götur og skjóta í allar áttir.
Akstursfærni margra er ábótavant og þeir því vanbúnir til réttra viðbragða þegar óvæntar aðstæður koma upp. Almenn aðstaða til æfinga við erfið skilyrði á erfiðum vegum vantar enn og illitsleysi og sofandaháttur vaða enn uppi. Það væri gott áramótaheit hjá okkur öllum að taka okkur á í þessum efnum.
15 létust í umferðarslysum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig grunar þetta sé tímabundið - eða til komið af völdum miklu meira umferðaröngþveitis en áður. Eitthvað er ekki rétt.
Til dæmis hafa nokkrir menn flautað á mig á árinu fyrir að gefa beygja eftir að hafa gefið stefnuljós, og þar af tveir sem voru næstum búnir að keyra á mig þar sem ég var að skifta um akrein - á meðan ég viðhafði rétta notkun stefnuljósa, svona til að prófa.
Það gerist ALLTAF þegar ég álpast til að nota þessi fjárans ljós, að einhver asni flautar á mig og hótar ákeyrzlu. Sama hvaða bíl ég ek. Ja... þeir flýja ekki undan fyrirtækisbílnum. Veit ekki af hverju.
Einn vinnufélaginn varð fyrir því að það ók einhver á hann. Bara fór yfir á rauðu, og beint í hliðina á stóra bens-trukknum hans. Flúði svo af vetvangi með kryppu á húddinu. Okkar maður hlær enn að honum.
Hvað sem það er, þá er það ekki tyrannísk löggjöf sem er að bjarga fólki. Heppni kannski?
Ásgrímur (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 15:17
Taka okkur á varðandi umferðina? Já ég held nú það. Eins og annar bloggari benti á þá er útlit fyrir fjölgun á alvarlegum slösuðum í umferðinni miðað við í fyrra og önnur ár.
Auðvitað ber að fanga að færri hafa dáið en í fyrra, enda ekki annað hægt. En auk aukins eftirlits, held ég að skýringin geti verið tölfræðilegar sveiflur. Því miður. Það þýðir ekkert að slaka á. Ekki síst þegar horft er til fjölda þeirra sem slasast alvarlega í umferðinni, og önnur neikvæð áhrif ofvaxinnar umferðar á heilsu og umhverfi.
Ég held nú að það dugi ekki að hver sé hvattur til að lita í eigin barm
Mín drög að tillögum gætu verið ( sumum finnst örugglega nóg um en eftir setu í umferðarráði og í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna í nokkur ár, hef ég haft tækifæri til að ígrunda málið og hef rök fyri þessu) :
Bílslysin eru engin slys segja FIA og WHO. Verkefnið THE PEP hjá WHO undirstríkar hið breiða samhengi á milli "Transport, health and environment" Það er nefnilega ekki þannig að bíl"slysin" er sviðið þar sem umferðin drepur flesta, heldur er það mengun og hreyfingarleysi sem tekur mesta tollinn.
Morten Lange, 2.1.2008 kl. 18:40
Fínn póstur. Morten.
Á öllum landsbyggðarferðum á Íslandi lendi ég í einhverju "atviki" þar sem mér þykir menn aka heldur betur ógætilega og glannalega eða hreinlega eins og algerir bjánar. Margir eru keyrandi á móti manni með dekkin yfir á minni akrein í umferð sá 90lm/h. Þeir á stórum jeppa, ég á venjulegum fóksbíl... Auðvitað er eitthvað að aksturslagi og hugarfari ökumanna á Íslandi. Svona atvikum finn ég ekki eins mikið fyrir hér í USA og ég held ég geti fullyrt að akstursmáti og hugarfar spila stórt inn í slysin. Ekki síst hraðinn sem er of mikill á vegi með einni akrein í sitt hvora áttina.
Því er ekki hægt að sífellt benda á vegina, heldur hvernig akstursreglurnar eru og hvernig þeim er framfylgt. "Defensive driving" er eitthvað sem ég lærði í bílprófi í BNA. Áherslur þurfa að breytast.
Ólafur Þórðarson, 2.1.2008 kl. 22:14
Eitt séríslenskasta atriðið í umferðinni hér er hvernig menn haga sér gagnvart þeim sem eru á undan þeim eða aðeins framar á annarri akrein og þurfa að skipta um akrein. Nær undantekningarlaust gefa menn í og reyna hvað þeir geta að koma í veg fyrir akreinaskiptingar sem þykja hið sjálfsagðasta mál erlendis.
Þar sem tvær akreinar þrengjast í eina er þetta sérstaklega bagalegt. Í stað þess að nota "tannhjólsaðferðina" þar sem annar hver bíll á aðalakreininni hleypir bíl af hinni inn í röðina eru alltaf nógu margir frekjuhundar sem reyna að koma í veg fyrir þetta og valda því að umferðin verður skrykkjótt og hættuleg.
Þetta er orðinn svo mikill vani að um daginn þegar ég var á þriggja akreina vegi og var á akrein lengst til vinstri sá ég hvar bíll lengst til hægri sem var bíllengd framar en bíllinn á miðakreininni vildi reyna að komast inn á hana.
Viðbrögð ökumannsins á miðakreininni voru þau að gefa í og flauta ákaflega til þess að hrekja bílinn hægra megin við hann í burtu. Það tókst.
Ég átti þess kost að ræða síðar við ökumanninn á bílnum á miðakreininni sem reyndist vera góður vinur minn og hann játaði og iðraðist stórlega en bætti við: "Æ, maður er orðinn svo vanur þessu að maður gleymir sér. Ég myndi aldrei gera þetta erlendis."
Ómar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.