6.1.2008 | 13:54
GRÓÐAFORMÚLA TRASSANNA.
Athyglisverð er greining íbúa við Baldursgötu á áformum um nýbyggingar við götuna. Út úr henni kemur eftirfarandi formúla: Ef þú ferð vel með húsin og kostar til þess peningum er þér ekki umbunað í einu eða neinu. Ef þú skerð þig hins vegar nógu vel úr sem húseigandi og lætur hús þín drabbast niður svo að þau verða að lýti í hverfinu umbuna borgaryfirvöld þér með því að leyfa þér að rífa þau og reisa svo mikið stærri hús í staðinn að þú græðir vel á öllu saman. Gömul og gróin skotheld formúla.
Gagnrýna skipulagsáform við Baldursgötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Óþolandi ástand og því ríkari sem þessir gróðapúkar eru því stórtækari eru þeir.
Sturla Snorrason, 6.1.2008 kl. 14:58
Þetta er því miður ekkert einsdæmi og er alveg sorglegt að Reykjavíkurborg skuli ekki sjá í gegnum þetta. Þetta sýnir líka að það vantar að vernda götumyndir og ásýnd gatan.
Marinó G. Njálsson, 6.1.2008 kl. 15:59
Hvernig væri að fá menntamálaráðherra til að skrifa upp á skyndifriðun...þá er hægt að viðhalda sóðaskapnum og ónýtum húsum áfram á svona svæðum...það er svo flott ;-)
Jón Ingi Cæsarsson, 6.1.2008 kl. 21:29
Eitt erlent fyrirbæri sem nefnist á lögfræði latínu „Servitut“ hefur eiginlega aldrei verið innleitt hérlendis nema að örlitlu leyti. Það var í Seljahverfinu í Breiðholti í Reykjavík. Þá var lögð sú kvöð á húsbyggjendur að hanna og byggja húsin á þann hátt að hverfið líktist einna helst útsprungnu blómi séð úr háloftunum!
Þessi tegund kvaða „servitut“ er víða þekkt um allan hinn siðmenntaða heim. Meginmarkmiðið er að gæta samræmis og að tryggja verðgildi allra fasteigna á viðkomandi svæði þannig að enginn einn gæti komið sér upp meiri og verðmætari hagsmunum en hinir. Húseigendur mega t.d. aðeins mála þökin í sama lit, eða að þau séu nánast eins, að gerð og útliti.
Víða eru kvaðir um hámarkshæð að finna í okkar samfélagi og þessar kvaðir eru smaámsaman að komast inn í deiliskipulag t.d. frístundabyggða. Þannig eru settar kvaðir um sérstakan byggingareit sem er afmarkaður á lóð (fasteign), lágmarksfjarlægð frá vatnsbakka eða árbakka með umhverfissjónarmið í huga, hámarksstærð byggingar, hæð frá sökkli og upp í mæni skilgreind, stefnu bygginga í landslagi o.s.frv.
Því miður er ekki alltaf farið eftir þessu og auðvitað eru þeir sem eiga nóg af peningunum sem komast upp með að byggja stærra og öðruvísi en ætlast er til. Er þar ekki komið þetta gamla smákóngasjónarmið: að vilja vera öðrum fremri, stærri og voldugri sem þarf að vera mjög áberandi.
Svona kvaðir þyrftu að setja t.d. á gamla miðbæinn í Reykjavík. Ekki væri heimilt að byggja stærra hús en fyrir er nema með mjög ströngum kvöðum. Að öllum líkindum gæti svona kvöð leyst fjölmörg deilumál í eitt skipti fyrir öll. Mjög mörg eldri hús voru byggð af miklum vanefnum oft vegna erfiðs efnahags og takmarkaðs framboðs af góðum og vönduðum byggingaefnum. Þannig eru dæmi um að hús hafi verið byggð þannig að útveggir þeirra húsa sem fyrir voru, nýttust þannig að aðeins var framhlið og afturhlið húss byggt. Þegar Mosi var í laganámi fyrir meira en 3 áratugum þá minnist hann Hæstaréttardóms þar sem fjallað var um þennan ágalla. Kaupandi fór í mál vegna sprungu í horni hússins og sama var hvernig hafði verið gert við hana, alltaf opnaðist hún aftur og var kjörinn staður fúa og ýmissrar óhollustu. Þar reyndi á hvort um leyndan galla væri um að ræða. Svona illa byggð hús mættu hverfa sem fyrst og önnur byggð í þeirra stað en þó ekki hærri en nærliggjandi hús.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 7.1.2008 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.