6.1.2008 | 14:18
SVANDÍS, ÓSKABORGARSTJÓRI MOGGANS.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er haldið áfram þar sem frá var horfið í fyrrasumar um það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að mynda stjórn með VG. Það myndi þjóna langtímahagsmunum flokksins best "að opna ekki helsta keppinautnum leið til valda." Nú hvetur bréfshöfundur til samstarfs Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í borginni vegna þess að ekki sé samstaða í nýja meirihlutanum þar. Í bréfinu eru tíndtil ýmis "strategisk" rök fyrir samstarfi við VG og talað um "myndun slíks meirihluta með Svandísi Svavarsdóttur sem borgarstjóra..."
Athyglisvert er að höfundur bréfsins sem átelur forsætisráðherra fyrir að setja ekki langtímahagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar öllu í íslenskri pólitík gerir ekki þá kröfu að borgarstjóri í óskasamastarfinu komi úr röðum Sjálfstæðismanna sem hafa þó 7 af 15 borgarfulltrúum. Þetta minnir á SMS-skilaboðin frægu, "með eða án Villa."
Ég hvet fólk til að lesa Reykjavíkurbréfið í dag því að það er mjög áhugavert fyrir þá sök að það sýnir okkur inn í hugarheim manna sem hafa ólíka sýn á siðfræði og aðferðir í íslenskri pólitík, - annars vegar viðhorf forsætisráðherrans og hins vegar höfundar bréfsins.
Athugasemdir
Já þetta Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins hefði einhvern tíma verið „saga til næsta bæjar“. Bollaleggingar af þessu tagi má túlka á ýmsar lundir: eru Sjálfstæðismenn að ígrunda alvarlega hvernig þeir geti náð aftur völdum í Reykjavík og fá til þess þann borgarfulltrúa í lið með sér sem einna skelleggastur var í þessu dæmalausa REI máli, - draug sem einn fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins átti nú þátt í að vekja upp? Guðlaugur Þór átti einn mestan þáttinn í að efna til REI, hann er guðfaðir þessa fyrirtækis og er nokkuð skondið að það er eins og hver annar munaðarleysingi milli fyrrum meirihluta og núverandi. En svona er pólitíkin, hún er gjörsamlega óútreiknanleg: það sem þykir líklegt í dag er arfavitlaus hugmynd að morgni!
Bestu kveðjur
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.1.2008 kl. 23:10
REI var reyndar mjög góð hugmynd sem klúðraðist á klaufalegan hátt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.1.2008 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.