Á ERINDI VÍÐAR.

Í meira en hálfa öld hef ég dundað mér við að teikna bíla á borð við þann sem getur bylt samgöngum á Indlandi. Ég hef allan þennan tíma verið þeirrar skoðunar að ekki þurfi 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti um göturnar í okkar heimshluta, en að meðaltali eru bílar þetta þungir og 1,1 maður að jafnaði í hverjum bíl. Svona bílar leysa ekki vandamál skorts á orku eða útblástur gróðurhúsalofttegunda nema að hluta en það er til dæmis mikill munur sem fæst með því að létta bílana og minnka eyðslu og útblástur um helming og spara jafnframt dýrt rými á dýrum samgöngumannvirkjum.

Það er meira að segja tæknilega mögulegt að framleiða tveggja manna bíl sem er þrefalt léttari og fjórfalt sparneytnari en meðalbíllinn í dag og gæti þar að auki ekið samhliða öðrum jafnstórum á hverri akrein og hægt yrði að leggja fjórum í stæði þar sem einn kemst fyrir nú.

Sjálfur hef ég ekið minnsta mögulega bíl sem völ hefur verið á í bráðum 50 ár og fyrir utan blokkina sem ég bý í kem ég fyrir fjórum slíkum í stæðinu fyrir framan bílskúrinn þar sem aðeins einn venjulegur bíll kemst fyrir.

Það tekur langan tíma að þróa nýja orkunotkunartækni og skipta henni inn í stað þeirrar sem nú er og smækkun bílaflotans, sem notaður er í snatt í þéttbýli er fljótlegasta leiðin til þess að byrja á umbótum og lengja þann umþóttunartíma sem þarf á meðan skipt er um orkugjafa.


mbl.is Ódýrasti bíll í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Já- nei-kannski Ómar. Svona bíla er bara hægt að nota innanbæjar og það er sennilega það sem þú meinar. Hér úti er allt morandi í smáum bílum og svona farartækjum sem ég á engin orð yfir, með 3 eða 4 hjól og fara reglulega í klessu í umferðinni. En hvað um það, þú ert á réttri leið með þennan létta bil, nema þú farir ekki lengra en upp í Kollafjörð, takir mynd af rollunum naga síðustu stráin úr Esjunni og snúir svo við og keyrir í gegnum Hafnafjörð og tekur mynd af síðustu molum hraunsins sem einu sinni var svo fallegt. Þetta eru ágætis langferðir fyrir smáa smábíla. Ég er lengi búinn að tala fyrir sporvögnum á höfuðborgarsvæðinu og lestum á milli landshluta. 1980 hafði ég komplett sporvagnakerfi til sölu. Með öllum vögnum, rafmagnsstaurum, umferðaljósum, stjórnstöð með sjálfvirkum fjarstýringum og öllu sem tilheyrir þvý, næstum  nýtt. Það var enginn áhugi fyrir á Íslandi.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 10.1.2008 kl. 13:53

2 identicon

Þetta er farartækið sem ég ætla fá mér strax og það er komið á markað.

http://www.flytheroad.com/

Farartækið hefur verið þróað af Hollenska fyrirtækinu Carver Engineering  í meira en áratug og er verkfræðilegt undratæki.  Fer tæpa 500 kílómetra á tanknum hy-brid, eða tæpa 200 km á rafmagns útgáfunni.

Fer í hundrað á innan við 7 sekúndum, kemst í 190 km/klst (hy-brid útgáfan) og eyðir undir 3 lítrum á hundrað km.

Er 3,6 m á lengd og 1,2 á breidd, en er öruggur á við aðra smábíla.  Tveir komast í eitt stæði!  Tekur ökumann og 1 farþega.

Skoðið myndböndin og ummæli Jerremy Clarksson hjá sjónvarpsþættinum TopGear á BBC: "The most fun you can have". Eða ummæli Jensen Button Formúlu eitt ökuþór.  

Ég get ekki beðið eftir að leggja Yarisinum mínum og fara að spara eldsneyti og skemmta mér á Venture One eða Carver.

Ómar þú sagðir fyrir nokkrum árum í blaðaviðtali að þig dreymdi um að hanna lítinn jeppa fyrir íslenskar aðstæður og þú vildir fá Iðntæknistofnun í lið með þér.  Núna er búið að breyta Iðntæknistofnun í Nýsköpunarmiðstöð og við erum enn að bíða eftir að þú komir til okkar.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 14:34

3 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sko! nú er bara fyrir þig að drífa þig upp í Nýsköpunarmiðstöð með allt draslið og sjá hvað skeður. Er hugmyndin góð verður hún seld til BNA og læst í skúffu niðri í kjallara þangað sem enginn kemur, nema Ingólfur Bárðarson.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 10.1.2008 kl. 15:17

4 Smámynd: Ingimar Björn Davíðsson

Ég hef keyrt um lengi á Smart Fortwo dísel, sem ég fullyrði að sé einn minnsti og umhverfisvænasti bíll í heimi. Er reyndar að spá í að skipta í Fiat 500 (svona upp á að fá fjögur sæti) þegar hann kemur til landsins, en ég deili með þér Ómar ást á litlum og umhverfisvænum bílum! Það skal tekið fram að ég er að eyða um 3-4 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri og útblástur undir 100g. Fer milli Akureyrar og Reykjavíkur á innan við 2000 kr í olíu.

Ingimar Björn Davíðsson, 10.1.2008 kl. 16:29

5 Smámynd: Adda bloggar

góð grein

Adda bloggar, 10.1.2008 kl. 17:24

6 identicon

Mér finnst þessar athugasemdir um að svona bílar eigi bara við í innanbæjarakstri alveg stórskondnar þegar tekið er tillit til þess að flestir Íslendinga stunda nær allan sinn akstur innanbæjar.  Það er eitthvað svo dæmigerður hugsunarháttur að finnast maður neyðast til að keyra um á stórum bíl, ef ske kynni að mann langaði að skella sér hringinn.  Hvað er að því að spara tugþúsundir króna í bensín í innanbæjarakstrinum á sama tíma og maður stuðlar að minnkandi mengun og leigja sér svo bara utanbæjarkagga til þess að skreppa til Akureyrar? 

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 17:34

7 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

 Erla, sjáðu til

fólk skreppur ekki til Akureyrar. Maður skreppur upp í sveit eins og Þingvelli, Tebæ hjá Sigfríði í Selvogi eða til að skoða Fyssinga. En bara í logni að sumri til, þá eru þeir utandyra.  Enginn skreppur á svona fáránlega staði eins og Akureyri og Grindavík. Það væri nú fínt að hafa svona eins og 50 þúsund 33" jeppa standandi við Elliðaárnar til að svissa í þegar  sveita  taugin  togar í mann. Og rjómapönnukökurnar hennar Sigfríðar eru gantalega góðar!!!

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 10.1.2008 kl. 18:37

8 Smámynd: Landfari

"Það er meira að segja tæknilega mögulegt að framleiða tveggja manna bíl sem er þrefalt léttari og fjórfalt sparneytnari "

Ómar minn þetta gengur ekki upp. Bíllinn getur aldrei orðið þrefalt léttari og fjórfalt sparneitnari. Hitt er mögulegt að hann verði einn þriðji af þingd hins og eyði fjórðungi af því sem hinn eyðir.

Hitt er annað þetta er bara snilld en svona farartki er fáanleg því flestir keyra mest innanbæjar. Eini gallinn við svona létta bíla er kanski veðráttan sem er orðin ríkjandi hérna. Maður þyrfti að binda hann niður á kvöldin.

Landfari, 10.1.2008 kl. 19:07

9 identicon

Ég er ekki að kaupa þetta enn hjá þér Wolfgang. Ertu að segja að það sé of mikil fórn fyrir umhverfið að keyra um á léttum bíl dagsdaglega, bara svo þú getir skroppið á Selfoss á lygnum sumarnóttum? Mér finnst það afarslök rök. Svona: Já, ég er til í að taka ábyrgð á umhverfinu, en bara ef ég þarf ekki að fórna neinu til þess. Og ég er nokkuð viss um að skreppa 50 km leið til Selfoss eða Þingvalla er vel innan marka þess sem annars staðar kallast "innanbæjar".

Mig langar að benda á stórmerkilega heimildarmynd frá árinu 2006 sem kallast "Who killed the electric car" þar sem fram kemur að það er tækni til staðar til þess að framleiða rafmagnsbíla sem henta í svona dæmigert amerískt "commute". Þ.e. bílarnir komast vel yfir 100 mílur á einu batteríi. En svo ég vitni í Wolfgang, þessar nýjungar voru lokaðar í skúffu oní kjallara og bílarnir skemmdir, þegar olíuiðnaðurinn fékk pata af þessu.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 19:50

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Messershcmitt Tiger Tg 5000 var 350 kíló, var með fjögur hjól, bar tvo menn og komst upp í 130 km hraða á aðeins 20 hestafla vél. Ástæðan var fyrst og fremst hvað hann klauf loftið vel. 

Nútíma öryggisbúnaður myndi þyngja svipaðan bíl úr 350 kílóum upp í 500. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í sparneytni fjórgengisvéla og aðalsérfræðingar Fiat-verksmiðjanna spáir vélum eftir fimm ár sem ná 100 hestöflum út úr hverjum lítra slagrýmis eða þrefalt meira en fyrir nokkrum áratugum.

Nú þegar er framleiddur Smart-bíll sem eyðir að meðaltali 3,4 lítrum á hundraðið. Sá bíll er um 800 kíló. 500 kílóa bíll myndi geta komist niður í 2,5 á hundraðið sem er fjórum sinnum minna en hjá meðalstórum bíl, sem við kaldar íslenskar aðstæður eyðir vel yfir tíu á hundraðið í innanbæjarkeyrslu.  

Það þýðir að aðeins 400 cc vél afkastaði 40 hestöflum og gæti komið svona bíl upp í 160 km hraða ef menn vildu. 

Þau rök að stækka þurfi bílana til þess að þeir séu duglegri í árekstrum standast ekki. Það kallar á stækkunarkapphlaup sem endar með því að allir verða á þungum bílum sem lenda í stærri árekstrum en litlir.

Þegar menn segja að litlu bílarnir fari illa í árekstrum við stóra og það sé því að kenna hve smábílarnir eru litlir þá er orsakasamheningu snúið við. Það er þeröfugt, það eru stóru bílarnir sem leika litlu bílana illa og ef við fækkum stóru bílunum fækkar þessum tilfellum.

Ef nær allir eru komnir á litla bíla verður jafnræði. Þýska tímaritið Auto motor und sport lét minnsta bíl Benz-samsteypunnar, Smart, lenda í árekstri beint framan á stærsta bíl samsteypunnar og álíka mikið sá á þeim litla og þeim stóra.  

Ómar Ragnarsson, 10.1.2008 kl. 20:14

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get bætt því við að ég hef farið óteljandi langferðir um allt land á minnstu bílum landsins og hef hvorki verið lengur á leiðinni né liðið neitt verr en þótt ég væri í stórum bíl.

Ómar Ragnarsson, 10.1.2008 kl. 20:15

12 Smámynd: Landfari

Athugasemdin mín var nú svo full af stafestnigar og innsláttarvillum að það hálfa væri nóg. 

Ég var nú bara að benda á að ef bíllinn minn eyðir 10 l og þinn 2,5 l á sömu vegalengd þá eyðir þinn fjórðungi af því sem minn eyðir en ekki fjórum sinnum minna. Minn eyðir hinsvegar fjórum sinnum því sem þinn eyðir.

Ef þinn eyddi fjórum sinnum minna eyddi hann 400% minna og framleiddi því 30 l af eldsneyti á þessari tiltekunu vegarlengd. Gott ef satt væri en því miður, ekki hægt. (Ennþá allavega :) )

Er annars að flestu leiti sammála þér. Svona bílar eru snilld.

Landfari, 10.1.2008 kl. 21:31

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirgefðu, Landfari, að ég misskildi í hverju athugasemd þín fólst. Ég ætla að leita til málspekinga um þessa athyglisverðu ábendingu þína sem varðar málvenju, sem hugsanlega er hugsanavilla. Gaman að þessu. Takk fyrir.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 00:08

14 identicon

Sæll Ómar.

Allt sem þú setur fram í þessu bloggi og viðbótum er kórrétt og ætti svo sannarlega að vekja fólk til umhugsunar.

Þó svo að mikil þróun sé í gangi með að virkja nýja orkugjafa þá er ekkert sem kemur í stað þess að aka um á minni og léttari bílum, slíkt er bara einföld eðlisfræði nú eða rökhugsun ef út í það er farið.

Ég verð samt að taka undir orð Wolfgang hér að ofan, litlir bílar henta ekki öllum alltaf.

Set hér inn afrit af gömlu bloggi sem ég skrifaði fyrir nokkrum mánuðum til frekari skýringar,

"Afnám bifreiðagjalda

Einn er sá skattur af mörgum sem engrar sanngirni veldur. Bifreiðagjöld leggjast á alla bílaeign nema fornbíla. Sama er hvort ökutæki er ekið mikið eða lítið, skattlagt er ef krafti. Að mínu mati hvetur þetta kerfi, ásamt ábyrgðartryggingu sem bundin er við bíl en ekki ökumann, til þess að stórir jeppar eru hér fleiri og meiri í daglegri umferð en í nokkru öðru landi. Skýringin á þessu er sú að fáar fjölskyldur hafa efni á að eiga fleiri en 2 bíla vegna þessa „fastakostnaðar". Meðal bílaeignin í dag eitthvað nálægt því að vera einn snattbíl (sem konan venjulega notar ) og svo jeppinn sem karlinn fer á til vinnu. Stórar fjölskyldur þurfa stóra bíla, svo einfalt er það. Það eru hins vegar ekki margar ferðir innanbæjar sem krefjast 3 tonna jeppa. En ferðir í útileguna, sumarbústað, til ættingja úti á landi osfr. krefjast slíks ökutækis. Sem sagt, ef fastakostnaður við að eiga bíl væri lægri, enginn bifreiðaskattur, bíllinn bara í kaskó (ef með þarf) en ökumaður með ábyrgðartryggingu þá væru fleiri karlar á leið í vinnu á eyðslugrönnum smábílum og jeppinn sæti heima."

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 00:32

15 identicon

Úff hvað ég er sammála þér Ómar með kílóafjölda af mannakjöti versus magnið af stálumbúðum sem er verið að nota til að komast á milli staða. Það er svo merkilegt þegar svona umræða fer í gang, þá eru allir að pæla í þeim þægindum sem þeir hafa núna, og vilja engu sleppa, þetta hentar MÉR ekki þegar ég þarf að...., þá get ég ekki komist... og svo framvegis. Ég gaf mig einhverntíma á spjall við sjómann, þar sem ég hafði orð á því að mér finndist að það ætti breyta kvóta þannig að handfærabátar mættu veiða eins og þeir gætu, og svo upp eftir, togarar fengu rest. Þá fór hann að tala um aðbúnaðinn um borð, það væri sko ekkert grín að vera á þessum litlu jullum í hvaða veðri sem er... svoem alveg rétt hjá honum, og ekkert víst að mín hugmynd hafi verið raunsæ endilega. Ekki að ég ætli að skipta um umræðuefni, en þetta er bara svona dæmi um hvað fólki er tamt að horfa í sín persónulegu þægindi, og loka augunum fyrir stærri markmiðum. Talandi um stærri markmið, þá er það martröð okkar jarðarbúa að þessi plá-hneta þolir ekkert að allir jarðarbúar aki um á bílum, eigi ískáp eða bara noti klósettpappír daglega. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér þann dag sem við manneskjurnar náum að komast í jafnvægi við móður náttúru. Góð byrjun er breyting á hugsunarhættinum, þú ert að gera góða hluti við að hjálpa fólki með það Ómar! Farðu nú upp í nýsköpunarmiðstöð í spjall, það er alltaf skortur á fólki með góðar hugmyndir.

Gunnar H. Konráðsson (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 09:49

16 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ég er alltaf að færast nær þeirri skoðun að vilja eiga smábíl til að koma mér á milli staða. Sniðugasti bíll sem ég hef átt var Daewoo Matiz, kostaði lítið, eyddi sama og engu og ég komst vel fyrir í honum ásamt öllu mínu. Núna langar mig mikið í þennan nýja Fíat sem ég man aldrei hvort heitir 500 eða 600. Hann er fallega nostalgískur í útliti og ábyggilega frábær keyrslubíll ef ég þekki Fíat menn rétt.

Markús frá Djúpalæk, 11.1.2008 kl. 12:23

17 identicon

Tek undir orð Jóhanns F. Ef það væru minni gjöld á bílum myndi stórum bílum fækka í umferðinni. Ég á tvö bíla, fólksbíl sem konan er oftast á og við notum mest í allt snatt og skreppitúra þar sem ekki er þörf á jeppa, síðan 38"-44" breytann jeppa, helst vildi ég geta geymt jeppann heima á milli ferða en vegna þess hve dýrt það er að tryggja og borga gjöld af bílum að þá er það betra fyrir mig að nota jeppan innanbæjar heldur en að eiga þriðja bílinn til að fara í og úr vinnu. Það myndi vera sniðugt ef fólki byðust sérstök kjör ef það væri á litlum bílum sem menguðu lítið. En það eru kannski tryggingarnar sem eru dýrastar og efast ég um að tryggingafélögin gefi neinn afslátt þó svo að maður mengi minna.

Hilmar (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 21:42

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef stungið upp á því að fólki væri gefinn kostur á að hafa innsiglaða mæla í bílum sem það ekur lítið og borga í hlutfalli við aksturinn og útblásturinn.

Ómar Ragnarsson, 12.1.2008 kl. 23:58

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hinn nýi Fiat 500 var nýlega valinn bíll ársins í Evrópu og telst vera einstaklega vel heppnaður. Hann fékk 5 stjörnur í árekstraprófi NCAP og þar með var það afsannað að svo lítill bíll gæti ekki boðið upp á fyllsta öryggi.

Sami maður hannaði þennan bíl og nýja Mini bílinn sem selst eins og heitar lummur.

Fiatinn telst enn betur heppnaður, bæði hvað snertir útlit, rými, léttleika og sparneytni.

Það mun hafa verið kona forstjóra Fiat sem átti hugmyndina að þessum bíl sem því eina sem gæti bjargað Fiat frá því að halda áfram á leið niður á við.  

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband