11.1.2008 | 10:54
"AF ÞVÍ HANN ER ÞARNA..."
Hve margir Íslendingar hafa séð Everest? Innan við tíu? Setjum sem svo að til stæði mikið umrót í hlíðum fjallsins vegna efnistöku. Þá myndu margir Íslendingar nota sömu rök og notuð eru um Gjástykki og fossaraðirnar í Þjórsá og Jökulsá í Fljótsdal og notuð voru um Eyjabakka og Hjalladal, að vegna þess hve fáir hefðu komið þangað væri í góðu lagi að stúta þessum fyrirbærum. Davíð Oddsson og fleiri notaði þessi rök.
Everest er gott dæmi um það að erlendis eru það viðurkennd rök að aðeins vitundin um tilvist merkilegra fyrirbæra sé nóg til þess að þau séu varðveitt. Þar er því hafnað að eina leiðin til að gera náttúrufyrirbæri aðgengileg sé að umturna þeim fyrst.
Þegar fyrstu Bandaríkjamennirnir komu í Yellowstone friðuðu þeir svæðið einmitt vegna þess hve fáir hefðu komið þangað því að þeir vildu koma í veg fyrir að með auknum ferðaalögum þangað yrðu unnin þar spjöll. Hér á landi hefðu ráðamenn talað um að einmitt vegna þess hve fáir hefðu séð Yellowstone væri nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í virkjanir af öllu tagi áður en svæðið yrði þekkt. Virkjanirnar myndu um leið gera aðgang að svæðinu greiðari.
Everest og Yellowstone mun standa ósnert eftir því sem kostur er. Er þó Yellowstone ekki á lista yfir undur veraldar eins og hinn eldvirki hluti Íslands.
Vesturlandabúar fóru á límingunum af hneykslan þegar Talibanarnir í Afganistan létu sprengja frægar Búddastyttur þar í fjöllunum. Enginn Íslendingar hafði séð þær og örfáir útlendingar.
Ég minnist þess enn hve ótrúlegt mér þótti að Everest hefði verið klifinn, nýbúinn að lesa um fjallið í bók sem hét "Undur veraldar."
Get kannski heldst tjáð mig um málið með þessum texta við samnefnt lag, sem gerður var á sínum tíma fyrir ferð upp á Hvannadalshnjúk:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
(Fyrir fjallgönguna)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hamrahlið þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir.
Inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann,
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann,
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu, góði, að gera þig digran?
Gættu þín, vinur. Skortir þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann rís þarna, bara af því.
(Um nóttina við rætur hans)
Á tunglskinsnóttu öllu´af sér kastar.
Í bláum skugga hann berar sig hér.
Yfir þig hvelfist. Á þig hann hastar:
Ertu´orðinn vitlaus, hvað ætlarðu þér?
(Daginn eftir)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hríslast um makka hans óveðursský.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður. Áfram vill ögra.
Á þá hann skorar sem líta hans mynd.
Þolraun enn bíður þeirra sem skjögra
þreyttir á Ísalands hæsta tind.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama?
Af því hann er þarna, bara af því.
Af því hann er þarna, bara af því.
Edmund Hillary látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
heyr heyr
andrea marta vigfúsdóttir, 11.1.2008 kl. 11:50
Sæll félagi,
Þetta eru ágætar vísur eins og þín var von og vísa.
Var þetta ort þegar jeppanum var dröslað upp á Hvannadalshnjúk ?
Eiður (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 12:50
Það var rétt. Staðirnir eru ekki ómerkilegri þó að erfitt sé að komast þangað!!! og ekki verða þeir merkilegri þegar búið er að gera fært fyrir hvaða fólksbílatík sem er upp að þeim.
Valdimar Reynisson (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 16:34
Ég er ekki að troða neinu sem ég held upp á fólk og sé eitthvað missagt skalt ég fyrstur manna leiðrétta það. Hafi 600 manns séð Everest í mikilli fjarlægð skal rétt vera rétt. Ég áskil mér rétt til að hafa rangt fyrir mér og líka til að skipta um skoðun eins og annað fólk og leiðrétta ef ég fer rangt með eitthvað.
En þótt segjum að þúsund Íslendingar hafi séð Everest, mismunandi langt frá fjallinu, eru það samt færri en höfðu séð þau íslensku svæði sem ég nefndi og íslenskir ráðamenn sögðu að svo fáir hefðu séð.
Í bókinni sem ég vitna í og geymir hundrað undur veraldar eru tugir náttúruundra, þeirra á meðal hinn eldvirki hluti Íslands og norsku firðirnir.
Í USA eru til dæmis Yosemete, Zion og fleiri slíkir staðir í hópi undranna. Það er því ekki rétt að einungis manngerð undur séu talin þau merkustu í veröldinni.
Ómar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 23:58
Ég held þó að manngerðu undrin laði til sín fleira fólk en þau náttúrulegu
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2008 kl. 01:02
Það skiptir ekki máli hvort undrin eru manngerð eða ekki og ekki eru náttúru undrin tískufyrirbrigði, menn hafa í alla tíð ferðast einmitt til að sjá einstök náttúrufyrirbrigði og gera enn. Og hvað sagði Gunnar á Hlíðarenda? Og öll manngerð fyrirbrigðin eru gerð úr náttúruefni, mundu það.
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 12.1.2008 kl. 02:21
Ég verð nú bara að segja það Ómar minn að mér finnst það alveg synd að þú skulir ekki hafa haft textana á prenti með DVD disknum þínum hérna um árið.
Þetta er alveg meiriháttar góður diskur, góðir flytjendur, fínir textar og lög, mydirnar fínar þó stundum vanti aðeins upp á myndgæðin en stór galli að hafa ekki textana með. Sá galli er þeim mun stærri af því textarnir eru fínir.
Datt þetta svona í hug þegar ég sá textann hér að ofan við eitt lagið á disknum .
Landfari, 12.1.2008 kl. 02:36
Bloggarar...
Ég hef aldrei séð þessi öfl sem talað er um með eigin augum. En mér finnst öll umræðan um minnimáttar vera áhugaverð.
Hvað gerir auglýsingarafl banka- og hlutabréfahruns fyrir samningsstöðu verkalýðshreyfingarinnar?
Bara að spá og vona að lítil orð vegi á móti aflinu.
KátaLína (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 07:30
Ómar hélt því aldrei fram í pistli sínum að það væru innan við 10 Íslendingar sem hefðu séð Everest.
"Innan við 10?" er ekki fullyrðing.
Rétt skal vera rétt.
Árni Richard (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.