19.1.2008 | 17:08
AÐ MÖRGU AÐ HYGGJA.
Bloggpistill minn um Sundabraut hefur vakið umræður, meðal annars í þættinum "Í vikulokin" í morgun. Ég hefði kannski átt að skrifa lengri pistil því að ósk mín um víðtækari útreikninga og upplýsingar átti ekki aðeins við um það svæði sem hugsanlega þyrfti að leggja undir innri leiðina umfram það svæði sem færi undir gangaleiðina heldur einnig um ýmis önnur svið sem sumer erfitt að meta til fjár.
Það er rétt sem G. Pétur Matthíasson segir í blaðagrein í dag að aðalumferðaræð framtíðarinnar, þjóðleiðin frá Kjalarnesi suður fyrir Hafnarfjörð verður styttri ef innri leiðin er farin heldur en ef gangaleiðin er farin. En um mismun er að ræða á fleiri leiðum en henni einni og allt þetta þarf að vera uppi á borðinu.
Samgöngur á landi hafa þann kost að hægt er að hafa þær upp að vissu margi neðanjarðar. Það er hins vegar hvorki hægt varðandi hafnir eða fluvelli. Ef hægt væri að hafa Reykjavíkurflugvöll neðanjarðar þyrfti varla að ræða það mál frekar en þannig er það því miður ekki.
Flugvöllurinn verður að vera ofanjarðar og þar er líka annar munur miðað við göng. Ef á annað borð er tækniega hægt að leggja göng verða aksturskilyrði í þeim ævinlega hin sömu. Hins vegar geta aðstæður á mismunandi flugvallarsvæðum verið það ólík að skipti sköpum um notagildi hans.
Ég hef í fyrri bloggpistli mínum um flugvallarmálið reynt að varpa upp fleiri sjónarmiðum en áður hefur verið gert og kallað eftir notkun á réttum og viðeigandi tölum en á því finnst mér hafa verið misbrestur. Ég vísa í þennan pistil ef menn vilja skoða það nánar.
Eitt af því sem þarf að athuga í sambandi við samgöngumannvirki er útsýni. Eitt versta dæmið sem ég man eftir um það að útsýni hafi verið einskis metið var hvernig útsýnið til norðurs yfir Sundahöfn af Kleppsvegi var að mestu eyðilagt með samfelldri húsaröð sem byrgir sýn yfir stað, sem fyrr á tíð var eftirsótt myndefni málara þess tíma.
Þegar ég spurði talsmann borgarskipulagsins að þessu á sínum tíma var svarið: Bílstjórar eiga ekkert að vera að glápa til hliðar á útsýnið. Ég benti honum á að á þessari leið væru líka farþegar í bílum, jafnvel allt að 55 manns.
Þegar ég kom til Chicago í fyrsta sinn óku Vestur-Íslendingarnir með okkur hjónin eftir Lake Shore Drive sem er hraðbraut á bakka Michican-vatnsins og mærðu mjög hið frábæra útsýni yfir vatnið. Var þó ekkert að sjá annað en vatnið sjálft, því að bakkinn hinum megin er svo lágur að hann sést ekki af Lake Shore Drive.
Af Kleppsvegi er útsýn yfir eyjar og sund, með Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall í baksýn.
Í Álaborg er hægt að fara á tvennan hátt yfir Limafjörð, á brú eða um göng. Sem ferðamaður ók ég að sjálfsögðu yfir brúna útsýnisins vegna þótt það væri mun seinlegra.
Mér finnst útsýnið í akstri eftir nýju Hringbrautinni í austurátt mun betra til Öskjuhlíðar og Perlu en var á gömlu Hringbraut, raunar all tilkomumikið. Kannski verður einhvern tíma gert svipað þar og í Álaborg, að bjóða upp á akstur bæði um göng og á yfirborðinu. Þá yrði hægt að mjókka Hringbrautina á yfirborðinu um helming en halda samt fyrirferðarlítilli akstursleið ofanjarðar fyrir ferðamenn og aðra sem hafa gaman af góðu útsýni í akstri.
Enginn Frakki myndi láta sér til hugar koma að leggja breiðgöturnar í áttina að Etoile-torginu með sínum Sigurboga niður og setja alla umferðina í jarðgöng.
Útsýni úr bíl er að mínum dómi ekkert síður einhvers virði en annað útsýni. Efstu hæðir í blokkunum við Skúlagötu eru metnar til tugum milljóna króna hærra verðs en alveg eins, jafnstórar íbúðir í Túnunum rétt hjá þar sem er ekkert útsýni.
Það, að Kveldúlfshúsin og Völundur voru rifin niður er svo efni í annan bloggpistil.
Athugasemdir
Já því miður er oft litið einungis örstutt fram á veginn. Öll norðurströnd Seltjarnarness allt inn í Elliðavog er samfelld hörmungarsaga - með örfáum undantekningum þó. Áður fyrr þegar kolarykið blasti alls staðar við, þykkt mengunarský var yfir allri Reykjavík hefur að öllum líkindum ekki verið til að hvetja reykvísk yfirvöld að líta á að fagurt útsýni væri upp á marga fiska. Ef við skoðum hvar eftirsóttustu byggingarlóðir fyrir íbúðahúsnæði var fyrir hálfri öld þá var það sunnanvert Kleppsholtið, Laugarásvegur og Vesturbærinn, Melarnir og Ægissíðan. Önnur byggingarsvæði voru nýtt fyrir iðnað og þjónustu. Þannig var reist umdeild glerverksmiðja inni í Vogum og þar var flutt inn svo mikið arsenik að dugði fyrir hámarksafköstum þeirrar fabrikku í um hálft þúsund ár! Þarna voru alls konar ruslahaugar, stórt svæði var þarna fyrir pípugerð og neðar og austar niður undir sjó var einhver dýrlegast leikvöllur æsku minnar. Bílflök af öllum gerðum og stærðum. Einn daginn var komið meira að segja amerískan skriðdreka sem óðum var helsta aðdráttarafl strákanna í Vogunum. Þar komst Mosi í málningardollu og málaði sín fyrstu klessuútilistarverk á dreka þennan en hlaut að launum rassskellingu því ekki urðu foreldranir par hrifnir að skemma nýju buxurnar sínar. Svona eru viðbrögð heimsins þegar æskan tekur sín fyrstu spor við iðkun lista og menningar!
Við horfum upp á eyðileggingingu miðbæjarins, hverju hússkriflinu á fætur öðru er hrúgað í miðbæinn við hlið húsa allt frá 18. öld. Hvar gerist svona annars staðar í heiminum? Eitt ráðið til að hámarka gróða braskaranna var að stofna til Árbæjarsafns fyrir meira en hálfri öld. En hvað annað hefði verið unnt að gera? Dæmi er um að brennuvargar hafi fengið að gaunga lausir og eru jafnvel byggingabraskarar mjög fyrir því að kveikja í húsum. Þetta sannaðist á Bernhöftstorfunni en hún á sennilega íslandsmet sem vettvangur íkveikjutilrauna og enn stendur Torfan, hnarreist að vísu ekki upprunaleg en útlitið nokkurn veginn það sama og verið hefur frá því um miðja 19. öld, elsta götumynd höfuðborgarinnar.
Rífa gamla húskofa, rífa niður söguna, breyta og bramla eru því miður krafa braskarahugsunarháttarins. Braskarinn vill helst byggja 50 hæða hús, hið minnsta í miðbæ Reykjavíkur til að hámarka væntanlegan gróða sinn.
Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hvatti einu sinni til að rífa vöruskemmurnar neðan við Kleppsveginn. Þær eru byggðar á mjög verðmætu grjóti sem verður að flytja um langan veg. Það myndi marg borga sig að rífa þessi hús, nema á brott grjótið og byggja vöruskemmurnar að nýju og þess vegna 1-2 hæðum hærri.
Svona má lengi halda áfram en nú er mál að linni.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 20.1.2008 kl. 17:58
Það hefði nú aldeilis verið skemmtilegur bragur á höfuðborg okkar, ef hugsjónir Mosa fengju að njóta sín í botn og ekki mætti vera upprof í sögu byggðarinnar.
Hugsið ykkur alla hermannabraggana í Reykjavík!!!
Þeir voru tengdir umbrotasögu lands okkar og sögu fólksins sem þar bjó. Var ekki verið að gera lítið úr sögunni og lífshlaupi þessa fólks, - þegar hýbíli þeirra voru rifin??
Benedikt V. Warén, 21.1.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.