FAÐERNI, - GRUNDVALLAR MANNRÉTTINDI.

Það kunna að vera skiptar skoðanir um þetta mál en mér finnst það vera grundvallarmannréttindi að hver maður geti fengið að vita um kynföður sinn ef þess er óskað. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál og gagnvart kynfeðrunum þurfa að vera ákvæði sem koma í veg fyrir að þeir beri af því skaða þegar og ef að því kemur að börn þeirra vilja fá að vita hverjir þeir eru. Þótt þessir kynfeður kæri sig kannski ekki um að vita um afkomendur sína þegar gjöfin á sér stað er aldrei að vita nema að þeim snúist hugur síðar.

Hins vegar verða þeir að gera sér grein fyrir því að þeir geti ekki ruðst inn í líf óviðkomandi fólks hvenær sem er. Barninu verður að vera tryggt öruggt, friðsælt og gott uppeldi hjá fósturföður, einstæðri móður eða fósturmóður ef um lesbíska sambúð er að ræða.

Annars hef ég ekki pælt eins mikið í þessu flókna máli og ef til vill þarf til að komast að óyggjandi niðurstöðu. Set þetta því fram með þeim fyrirvara að áskilja mér rétt til að skipta um skoðun í þessu máli ef ný sjónahorn eða upplýsingar koma fram.


mbl.is Eftirspurn eftir dönsku sæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er það svo að grundvallar mannréttindi hafa verið skilgreind og það að vita hverjir kynforeldrar séu eða að fá að pissa í friði á austurstræti eru ekki þar á meðal.  Jafnvel þó einhverjir telji að svo ætti að vera.

Sæðisgjöfum mundi sennilega fækka eitthvað ef menn gætu átt von á endalausum heimsóknum, kröfum og jafnvel árásum frá afkvæmunum. Eins hljóta mannréttindin að gilda í báðar áttir og því væru e.t.v. færri sem vildu þiggja ef möguleiki væri á að faðirinn heimtaði sinn umgengnisrétt með góðu eða illu. Eina leiðin til að tryggja að enginn verði fyrir skaða er nafnleynd.

sigkja (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 02:18

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef sæðisþyggjandinn hefur skrifað undir samning þess eðlis að gjafinn fái nafnleynd, þá ber að virða þann samning. Vissulega skilur maður tilfinningar þeirra sem vilja vita um uppruna sinn en ef sæðisþyggjandinn gengst undir samninginn af fúsum og frjálsum vilja, þá er lítið við því að segja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2008 kl. 05:19

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það er auðvitað langbest fyrir barnið að vita sem mest um sjálft sig.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.1.2008 kl. 11:51

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Einstaklingur A gefur sæði til stofnunar X gegn því skilyrði að ekki sé hægt að rekja það til hans.

Einstaklingur B kemur á stofnun X og biður um sæði sem er ekki hægt að rekja til föður (eða öfugt, að faðir geti ekki rakið sæði sitt til einstaklings B).

Einstaklingur C, þriðji aðili (ríkið), kemur nú aðvífandi í nafni heilagleika og mannréttinda og skipar stofnun X að brjóta á skilmálum sínum gagnvart bæði einstakling A og B.

Nú veit ég ekki hvaða tilfinningar fólk hefur gagnvart afskiptum þriðja aðila af frjálsum og óþvinguðum samskiptum og viðskiptum, en persónulega hryllir mér við þeim! 

Geir Ágústsson, 27.1.2008 kl. 12:13

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þakka fyrir þær athugasemdir sem þegar eru að koma inn og varpa ljósi á þetta frá mismunandi sjónarhornum. Við vitum að ævinlega hafa verið til tilfelli þar sem rétt faðerni hefur verið á huldu af ýmsum ástæðum. Þessu verður auðvitað aldrei hægt að breyta að neinu ráði öðruvísi en með því að efla tillitssemi aðila við þá sem tengjast hverju máli um sig.

Ómar Ragnarsson, 27.1.2008 kl. 12:59

6 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir


Í dæmi Geirs hér fyrir ofan gerir hann ráði fyrir því að einstaklingur A geti sett skilyrði. Mér finnst einfaldlega að hann ætti ekki að geta það. Ef menn kjósa að gefa sæði sitt þá verða þeir að vera tilbúnir að gangast við því. Þetta er stórmál það er eins og menn fatti það ekki, miklu meira en að gefa blóð.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að allir eiga rétt á því að vita og þekkja uppruna sinn.

Við vitum fjölmörg dæmi um að  þegar fólk veit hann ekki af einhverjum ástæðum  þá eyðir það bæði ómældum tíma og peningum til þess að komast að sannleikanum og skiptir þá engu hvor það hafi átt ánægjulega æsku eða ekki. Þetta virðist bara vera einhver innbyggð þörf.

Hers vegna þá að búa til fleiri vandamál. 

Það ætti hins vegar að vera hægt að ganga þannig frá málum að þeir þ.e. gjafarar þyrftu ekki að bera fjárhagslegan kostnað af gjörningnum. 

Ég skrifaði einmitt um þetta mál 24.okt.2007

Þóra Guðmundsdóttir, 27.1.2008 kl. 13:08

7 identicon

Ég á erfitt með að skilja hvers vegna sæðisgjafar vilja ekki að afkomendur þeirra "leiti þá uppi". Sjálfur vildi ég gjarnan gefa sæði og það myndi engan veginn koma í veg fyrir sæðisgjöf þó hugsanlegur afkomandi gæti notað þann sjálfsagða rétt að leita faðernis síns, ef hann kýs að gera svo. Þvert á móti, þá myndi það ekki trufla mig þó að einhver bankaði uppá hjá mér löngu síðar og heilsaði: "Halló pabbi!"

Þorfinnur (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 14:52

8 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Það er talað mikið um rétt þessa og hins í þessu dæmi er aðeins einn réttur sem ætti að virða það er réttur persónunar sem fæðist vegna þessa gjörnings. Hefur verið gerð könnun á líðan fólks sem ekki þekkir upruna sinn það biður enginn um að lifa lífinu sem hálf persóna og það á ekki að veita fólki afslátt á þeirri ábyrgð sem fylgir því að valda komu einstaklings í þennan heim. Sá einstaklingur er persóna sem þarf að lifa lífi sem hann bað aldrei um hann er ekki hlutur til að filla upp í tómarúm annara.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 27.1.2008 kl. 15:23

9 Smámynd: Tiger

Í mínum huga og að mínu mati á sæðisgjafi á engan hátt að geta "tengst" þeim einstakling sem út frá gjafasæðinu vex.

Ef ég væri einstaklingur sem getinn hefði verið út frá gjafasæði - væri ekkert annað í myndinni í mínum huga annað en að konan sem ól mig í heiminn er móðir mín - og maðurinn hennar, maðurinn sem elur mig upp - er faðir minn. Ef móðir mín væri einstæð þá bara væri ég föðurlaus frekar en að leita uppi einstakling sem sprautaði mér bara frá sér án minnsta áhuga á mér yfir höfuð.

Ég myndi aldrei leita af einstakling sem bara skaut sæði í glas og gaf það frá sér en hafði engan áhuga á að vita hvað eða hvernig þessu glasi gengi í framtíðinni. Ég myndi ekki kæra mig um að geta bent á einhvern mann með orðunum - þetta er sá sem skellti mér í glas og gaf mig síðan án áhuga á mér - burt frá sér - en ætti að kallast "faðir minn". Nei takk.

Aftur á móti, ef ég hefði verið ættleiddur - þá myndu hlutirnir verða allt öðruvísi í mínum augum. Ég myndi vilja fá að vita hver og hvaðan ég væri. Hverjir væru kynforeldrar mínir og hvers vegna gáfu þau mig til ættleiðinga.

Ég myndi vilja fá að vita eitthvað - án þess að trufla þeirra líf á nokkurn hátt, nema ég sæi fram á það á einhvern hátt að þau yfir höfuð kærðu sig eitthvað um samband við mig. Framfyrir allt myndi ég gera allt í höfðu samráði og með fullu samþykki uppalenda minna en ekki með einhverju pukri og svo bara stökkva fram á sjónarsviðið með látum og kalla "hæ pabbi og mamma, þetta er ég - munið þið ekki eftir mér?" ...

Tiger, 27.1.2008 kl. 17:26

10 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Tigercropper þú vilt ekki leita að einstaklingi sem bara skaut sæði í glas en hvað um manneskjuna sem bara skaut í sig sæði úr glasi ? Getur verið að sæðisgjafin hafi í raun verið að gera þetta af góðvilja til að hjálpa við skulum ekki álita einn eða annan betri eða verri . En ég get sagt þér að mikill meirihluti þeirra sem að þekkja ekki annað kynforeldri sitt lita á það sem nauðsyn að leita það uppi einfaldlega vegna þess að það vantar hluta af lífi þeirra . Fólk finnur sig ekki heilt fyrr en það veit það.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 27.1.2008 kl. 18:29

11 identicon

Fjöldinn allur af fólki er haldinn óstjórnlegri forvitni. Það eru ekki mannréttindi að fá þeirri forvitni svalað. Hvort sem hún beinist að kynforeldrum eða veikindum stjórnmálamanna. Ímyndaður réttur eins til að komast að persónulegum upplýsingum um annan er sjúklegt ástand sem ætti að meðhöndlast af sálfræðingum. Ef fólk telur að eitthvað vanti í líf þess ef það fær ekki þessar upplýsingar þá er það bilað. Það getur aldrei orðið mannréttindabrot að neita einum um persónulegar uppýsingar um annan. Og þetta eru persónulegar upplýsingar jafnvel þó einhverjir telji að svo ætti ekki að vera.

sigkja (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 20:00

12 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég er alveg sammála Ómari, þetta eru grundvallarmannréttindi hvers einstaklings að vita uppruna sinn.  Langar að benda á 7.gr Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna

7. gr.
1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
http://www.abotinn.is/barnaheill/barnasattmali1.html

Ég held  að þjóðir sem fela alfarið hver faðir er t.d. þegar barn er getið með sæðisgjöf, séu í raun að brjóta 7.gr Barnasáttmálans. 

Sum lönd hafa farið þá leið að barn getið með sæðisgjöf á rétt á að vita hver faðirinn er þegar það er orðið lögráða en hefur engar aðrar kröfur á viðkomandi en að vita t.d. hvort ættgengur sjúkdómur sé.

Gísli Gíslason, 27.1.2008 kl. 21:14

13 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Sammála Þóru Guðmundsdóttur hér að ofan: "Í dæmi Geirs hér fyrir ofan gerir hann ráði fyrir því að einstaklingur A geti sett skilyrði. Mér finnst einfaldlega að hann ætti ekki að geta það. Ef menn kjósa að gefa sæði sitt þá verða þeir að vera tilbúnir að gangast við því."

Ef einhverjir karlar hætta við að gefa sæði vegna þess, þá segi ég nú bara að farið hefur fé betra.

Vilhelmina af Ugglas, 27.1.2008 kl. 21:26

14 identicon

Gísli, þá eru öll ríki að brjóta sáttmálan. Því ekkert ríki krefst þess heldur að kynforeldrar annist börnin. Foreldrar og kynforeldrar eru ekki endilega sami hluturinn.

En skoðum greinina í samhengi;

7. gr.
1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
2. Aðildarríki skulu tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.

Síðan geturðu skoðað hver grundvallar mannréttindin eru samkvæmt Sameinuðuþjóðunum. Svona forvitni kemst þar hvergi á blað.

sigkja (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 21:41

15 Smámynd: Gísli Gíslason

Kynforeldrar eru alltaf órjúfanlegur hluti af einstakling, þar sem einstaklingar mótast af erfðum og umhverfi.  Einstaklingar fá oftast áhuga  á að vita sinn líffræðilega uppruna á einhverjum tímapunkti á ævinni.  Þann rétt á hver einstaklingur að hafa. Því ber hverju ríki  að tryggja það að einstaklingur getur vitað um uppruna sinn, enda tel ég það í samræmi við 7.gr barnasáttmálans

Barnasáttmálinn segir "eftir því sem unnt er "  en ekki "krefst" þess.   Það eru trúlega mörg ríki sem eru dags daglega að brjóta barnasáttmálann. 

Gísli Gíslason, 28.1.2008 kl. 07:43

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef það hefur ekki neikvæð áhrif á framboði eftir sæði, þá er kannski allt í lagi að setja í lög rétt barnsins til þess að þekkja uppruna sinn en það verður þá að vera upplýst samþykki gjafans.

Þetta sem Gísli vitnar í: "Barnasáttmálinn segir "eftir því sem unnt er "  en ekki "krefst" þess",

Þarna liggur hundurinn grafinn, óskýr lagatexti sem auðvelt er að sniðganga án þess beinlínis að brjóta lög.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2008 kl. 11:55

17 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég er heimilislæknir og hef látið mig þessi mál varða. Þessi mál eru nokkuð flókin en meginlínurnar eru skýrar finnst mér, að varasamt sé með skipurlögðum hætti að gera börn föðurlaus. Þetta er samt partur af stórri alþjóðlegri mynd,  breyttum lífsháttum, heimtufrekju, tillitsleysi því miður. Þetta eru mál sem fara að skipta meira máli nú þegar okkur hefur tekist að gera hjónaband og fjölskyldu að einhvers konar annars flokks fyrirbæri. Ég bendi á bók sem nýlega var gefin út um þetta efni. Mjög vönduð og balanseruð: THE BABY BUSINESS. How mony, science and politics drife the commerce og conseption. Höf.: Debora L. Spar. ISBN-1-59139-620-4. Nauðsynleg, afhjúpandi

Guðmundur Pálsson, 28.1.2008 kl. 13:02

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Geturðu útskýrt frekar Guðmundur Pálsson, hér í athugasemdakerfinu hjá Ómari, hvað þú átt við með? : "...okkur hefur tekist að gera hjónaband og fjölskyldu að einhvers konar annars flokks fyrirbæri".

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2008 kl. 19:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband