27.1.2008 | 23:22
ÓÞARFA GALLAR Á KOSNINGALÖGUM.
Úrslit síðustu alþingiskosninga sýna að þörf er á umræðum og tillögum á Alþingi um lagfæringar á kosningalögunum. Vonandi verður tillaga Marðar Árnasonar um að sameina Reykjavíkurkjördæmin til þess að að minnsta kosti tvær lagfæringar fáist fram: 1. Reykjavík verði eitt kjördæmi. 2. Þröskuldur fyrir atkvæðamagn verði færður í svipað horf og er hjá næstu frændþjóðum okkar, úr 5% niður í 2,5%
Fróðlegt er að sjá hvað útreikningar, sem kunnáttumaður hefur gert fyrir mig í sambandi við tillögu Marðar, leiða í ljós að gerst hefði ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi í síðustu kosningum. Nefnum þrjú þeirra.
1. Jón Sigurðsson hefði komist á þing og væri því sennilega enn formaður Framsóknarflokksins því að hann sagði að ástæða þess að hann hætti formennsku í Framsóknarflokkum væri sú að hann teldi sér ekki fært að gegna því utan þings.
2. Íslandshreyfinguna skorti aðeins 61 atkvæði til að koma kjördæmakjörfnum manni á þing í Reykjavík.
Á þýðingarmiklu tímabili í kosningabaráttunni sýndu skoðanakannanir 0 þingmann þótt fylgið í Reykjavíkurkjördæmunum væri nægt til að koma einum manni á þing í sameinuðu kjördæmi. Það er mikill sálfræðilegur munur á að sjá töluna 1 eða töluna 0 og ekki er vafi á í mínum huga að að minnsta kosti í Reykjavík hefðu kjósendur ekki hræðst að kjósa I-listann vegna þess að hætta væri á að atkvæðin dygðu ekki til að koma manni á þing.
3. Þingmaður VG í Reykjavík hefði færst til Norðausturkjördæmis.
Það hefur verið upplýst að það hafi verið að kröfu landsbyggðarþingmanna að Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi. Það var auðvitað alveg á skjön við þau rök sem færð eru fyrir kjördæmaskiptingu að rétt sé að kjósendur sem eigi svipaða hagsmuni vegna landfræðilegrar legu og aðstæðna í kjördæminu eigi að vera saman í kjördæmi.
Ef samræmi hefði verið í þessu hefði verið nær að skipta Reykjavík í austur og vesturkjördæmi þar sem úthverfin hefðu þá verið talin eiga að einhverju leyti aðra hagsmuni en eldri hverfin.
Aldeilis fráleitt er að skipta Reykjavík eins og gert er. Íbúar í húsaröðinni við sunnanverða Hringbraut eiga enga aðra hagsmuni en íbúarnir í húsaröðinni hinum megin við götuna og því síður gengur það upp að skipta upp einu af austasta hverfi borgarinnar eftir því endilöngu.
Raunar er fráleitt að skipta Reykjavík, einu sveitarfélaga landsins, upp. Það er svona álíka fráleitt eins og að skipta Eyjafjarðarsvæðinu á milli Norðvestur- og Norðausturkjördæmis þannig að línan liggi eftir endilangri Akureyri.
Í skoðanakönnunum í kosningabaráttunni kom í ljós að það var forsenda þess að stjórnin félli að Íslandshreyfingin kæmi mönnum að í samræmi við fylgi sitt og það kom enn einu sinni í ljós í kosningunum sjálfum.
Af þessu ættu menn að læra, ekki vegna Íslandshreyfingarinnar, heldur vegna lýðræðisins og komandi kosninga og framboða til þeirra.
Athugasemdir
Það voru reyndar önnur rök notuð fyrir skiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Það voru þau að það væri pólitískt þroskandi að hafa öll kjördæmin álíka stór.
Hér áður fyrr, þegar Reykjavík var langstærst, var raunin nefnilega sú að þegar kom að stjórnmálaumræðum fyrir kosningar voru þættirnir í landsbyggðarkjördæmunum helgaðir lókal-málunum: vegagerð, stöðu sjávarútvegsins í tilteknu byggðalagi o.s.frv. Þegar farið var til Reykjavíkur var í fyrsta og eina sinn talað um málaflokka eins og utanríkismál, almenna efnahagsstjórnun o.þ.h. - Þessi tilhögun var ósanngjörn gagnvart báðum aðilum.
Hitt er svo annað mál hvort þessari breytingu hafi tekist að breyta þessu...
Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 00:12
Ómar, mér finnst það algjör tímaskekkja að þrasa um skiptingu kjördæma á Íslandi. Landið á að vera eitt kjördæmi svo ruglið og potið sem fylgir þessu skipulagi hverfi.
Við lifum enn við stórkostlegan hálfvitagang í stjórnkerfinu vegna kjördæmaskipunar. Ein af þeim síðustu heitir t.d. Héðinsfjarðargöng sem er vegagerð sem leggur sig á 8 milljónir á hvern einasta íbúa Siglufjarðar. Það þarf ekki stórkostlega vel gefið fólk til að sjá þessa dellu. Samt er ekki nokkur einasta leið að koma þessu bulli út úr kerfinu.
Það er hægt að setja landinu kjördæmaskipan sem leyfir allt í senn, val einstaklinga (sem má kalla ígildi einmenningskjördæma), flokka og innlimun prófkjörs í kosningar. Ef þú nennir að lesa þá er tillagan hér:
http://www.haukurn.blog.is/blog/haukurn/entry/98203/
Í ofangreindum tillögum er tryggt að öll atkvæði skila sér hvort sem um er að ræða einstaklinga, flokka og niðurröðun á flokkslista. Tryggt er að nákvæmlega þeir sem fólkið vill kjósa fara á þing en ekki eitthvert happa og glappa flakkararugl eins og nú er.
Ég sendi þessar tillögur á þingheim haustið 2006 og fékk reyndar jákvæðustu viðbröðgin frá Samfylkingunni þ.á.m. Merði Árnasyni sem gerði tillögu mína að sérstöku umtalsefni á vefsíðunni sinni.
Ég hef ekki séð ennþá betri tillögur í þá veru að fólk fái að kjósa nákvæmlega þá sem það vill, hvort sem það eru einstaklingar og flokkar, með prófkjörinu inniföldu til að eyða þeim vandræðum og kostnaði sem prófkjörum fylgir.
Haukur Nikulásson, 28.1.2008 kl. 00:26
Ómar ég er mikill aðdáandi þinn sem persónu og hef alltaf verið.
Mér finnst þessi grein hjá þér sem og það sem þú sagðir í Silfrinu ákaflega athyglisvert.
Um leið og þú skrifar þessa grein og veltir þessu fyrir þér, finnst þér þá um leið ekki rangt að fólk sem kemst í ákveðin sæti og stöður fyrir tilstilli þess stjórnmálaflokks sem það bauð sig fram fyrir geti á hvaða tíma sem er fært sig um flokk en samt sem áður haldið sæti sínu?
Halla Rut , 28.1.2008 kl. 00:47
Ómar, eins og oft áður kemur þú með athyglisverða punkta. Ég bloggaði um þetta frumvarp fyrir helgi og skil ekki frekar en flestir aðrir af hverju nágrannar í Reykjavík séu stundum í sitthvoru kjördæminu. Það er einkennilegt hvað kjördæmaskiptingin og úthlutun jöfnunarþingsæta ræður í raun miklu um það hverjir sitja á þingi og hverjir ekki.
Ég las hugmyndir Hauks og finnst þær spennandi. Bæði er löngu tímabært að gera landið að einu kjördæmi og einnig væri réttlátara að geta valið fólk fremur en flokka. Að vísu tel ég ósennilegt að flokkarnir styðji slíkar breytingar.
Halla Rut virðist vera á annarri línu því að henni finnst trúlega að "Frjálslyndi" flokkurinn eigi eitt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. Henni er a.m.k. mikið í mun að fólk haldi ekki að 5 efstu menn F-listans og óháðra tengist "Frjálslynda" flokknum á nokkurn hátt. Það er hins vegar alrangt sem hún heldur fram í athugasemd á bloggsíðu sinni: "Þetta er stjórn Íslandshreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokks.". Íslandshreyfingin var aldrei neinn þáttakandi í þessari meirihlutamyndun og margir meðlimir hennar veit ég að eru ósáttir við plottið.
Sigurður Hrellir, 28.1.2008 kl. 12:36
Ég kaus þig síðast og geri það líklega næst, en þá verður hreyfingin að endurnýja landbúnaðarstefnuna.
Enga frjálshyggju í landbúnaðarmálum takk!
Annars er ég sammála Hauki hér að ofan um að gera landið að einu kjördæmi.
Vilhelmina af Ugglas, 28.1.2008 kl. 16:49
Á sama tíma og önnur sveirarfélög voru að sameinast, var Reykjavík sundruð. Arfa vitlaus ráðstöfun það. Nær væri að hefja nú þegar ferli í að sameina Stór-Reykjavíkursvæðið í eitt sveitarfélag, svo markviss uppbygging geti átt sér stað.
Þessi fimm prósenta þröskuldur er nauðsynlegur til þess að lýðræðið lendi ekki í andhverfu sína, eins og þegar Stefáni Valgeirssyni tókst að halda Alþingi og þjóð í "gislingu" og hafði aðeins örfá prósent á bak við sig.
Ef menn falla á bíl- eða flugprófi, verða menn bara að bíta í það súra epli, - maður er ekki nógu góður. Sama gildir um pólitíkina.
Í ljósi síðustu hræringanna í borgarstjórn og hremminganna þar, tel ég miklu nær að talan verði átta prósent, og það einnig í bæjar og sveitastjórnarkosningum, til þess að hlífa venjulegu fólki við hrossakaupum, sem eru viðloðandi pólitíkina eftir kosningar.
Ef hægt er að ná málamiðlun um samstarf eftir kosningar og sveigja málefnin þannig að til samstarfs komi, er einnig hægt að gera það fyrir kosningar og bjóða fram kosningabandalög þannig að kjósandinn viti hvað hann er að kjósa, - eða a.m.k. sem næst því.
Ég legg því til 8% að lágmarki til Alþingis og það sama gildi um bæjar- og sveitastjórnarkosningar.
Benedikt V. Warén, 28.1.2008 kl. 18:28
Það er góðra gjalda vert að sníða agnúa af kosningalögunum. Það eru tvö atriði, sem mér finnst að eigi að skoða, 1) hvað þarf til svo endurtalning fari fram og 2) hvenær telst atkvæði ógilt. Í síðustu kosningum munaði oft mjög litlu til þess að talsverð breyting yrði á niðurstöðum. Þannig vantaði, t.d., Framsóknarflokkinn bara 11 atkvæði á landsvísu til að ná Jóni Sigurðssyni eða Samúel Erni Erlingssyni inn (fór eftir því hvernig önnur atkvæði féllu). Þetta eru innan við tvö atkvæði á hvert kjördæmi. Fréttir bárust af mismunandi túlkun manna á hvenær atkvæði teldist ógilt. Slík mismunandi túlkun hefur hugsanlega haft áhrif og jafnvel breytt niðurstöðum kosninganna.
En fyrst ég er byrjaður, þá er ég talsmaður rafrænna kosninga og vil sjá af þeim verða innan fögurra ára. Vissulega eru hættur samhliða notkun rafrænna aðferða og hugsanlega verða kosningakvöldin ekki eins löng, en við búum í nútíma samfélagi og rafrænar kosningar eru nútíminn.
Marinó G. Njálsson, 28.1.2008 kl. 20:50
Mér finnst frekar klént að taka umræupunktinn um breytingatillögu á kosningalögum, út frá hagsmunum Íslandshreyfingarinnar í síðustu kosningum. Hvað ef, hefði og mundi....
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2008 kl. 21:12
Ef nútíma Stefán Valgeirsson byði sig fram í Norðvesturkjördæmi og hlyti um 2000 atkvæði kæmist hann á þing þótt þessir 2000 væru aðeins rúmlega 1% af atkvæðum á landinu öllu. Dæmið með Stefán Valgeirsson sýnir hvað 5% reglan er óréttlát á landsvisu og stendur þar að auki ekki í vegi fyrir Stefánum Valgeirssonum framtíðarinnar með óbreyttri kjördæmaskipan.
Kjördæmaskipanin bitnaði á fleirum en Íslandshreyfingunni og hefði getað bitnað á Frjálslynda flokknum sem á tímabili fór niður fyrir 5% í skoðanakönnun.
Ef það hefði gerst hefðu 8% atkvæða dottið niður dauð. Af hverju skyldi 2,5% markið vera talið hæfilegt í nágrannalöndunum? Dæmið um Íslandshreyfinguna var tekið af því að það stendur næst.
Við næstu kosningar verður það kannski annað eða önnur framboð.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2008 kl. 21:54
Ef nútíma Stefán Valgeirsson byði sig fram í Norðvesturkjördæmi og hlyti um 2000 atkvæði kæmist hann á þing þótt þessir 2000 væru aðeins rúmlega 1% af atkvæðum á landinu öllu. Dæmið með Stefán Valgeirsson sýnir hvað 5% reglan er óréttlát á landsvisu og stendur þar að auki ekki í vegi fyrir Stefánum Valgeirssonum framtíðarinnar með óbreyttri kjördæmaskipan.
Kjördæmaskipanin bitnaði á fleirum en Íslandshreyfingunni og hefði getað bitnað á Frjálslynda flokknum sem á tímabili fór niður fyrir 5% í skoðanakönnun.
Ef það hefði gerst hefðu 8% atkvæða dottið niður dauð. Af hverju skyldi 2,5% markið vera talið hæfilegt í nágrannalöndunum? Dæmið um Íslandshreyfinguna var tekið af því að það stendur næst.
Greinilegt er að sumum hugnast vel að setja litla flokka á Íslandi á sama stall og nýnasista í Þýskalandi eða fylgismenn Kasparovs í Rússlandi, en lögin í Þýskalandi beinast að því að stja hindrun fyrir nýnasista.
Auðvitað væri betra að gana lengra í breytingum á gallaðri kjördæmaskipan og kosningalögum en fyrrnefndar tvær tillögur um breytingar miðast við eitthvað sem mögulegt er að ná fram. Pólitík er jú list hins mögulega.
Við næstu kosningar verður það kannski annað eða önnur framboð.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2008 kl. 21:59
Biðst velvirðingar á því að sami pistillinn fór tvisvar inn hjá mér vegna "tæknilegra mistaka" þegar ég ætlaði að lagfæra hinn fyrri og lengja aðeins.
Minnir mig á söguna um Breznév sem hélt venjulega þriggja klukkustunda ræðu við setningu flokksþings.
Ungur maður kom til hans og spurði hvort hann mætti gera tilraun til að skrifa styttri ræðu. Breznév samþykkti það og fékk ræðu í hendur sem hann las.
Eftir ræðuflutninginn, sem tók tvær stundir, kom Breznév til unga mannsins og þakkaði honum kærlega fyrir afburða góða ræðu.
"Ég vissi að hún var góð," sagði ungi maðurinn, "en hún var kannski ekki svo góð að þú þyrftir að lesa hana þrisvar."
Ómar Ragnarsson, 28.1.2008 kl. 22:40
Það þarf að finna kerfi, þar sem minnihlutanum verður gert erfitt að kúga meirihlutann og þjóðina alla. Þess vegne er mjög eðlilegt að hafa þröskuld, sem þarf að komast yfir, til þess að teljast "fullgildur".
Það falla alltaf einhver atkvæði "dauð" líka hjá flokkum sem hafa náð sínu fram og hafa ekki möguleika á uppbótarsæti. Það er aldrei hægt að girða fyrir allt og er partur af leikreglunum, enda eru kosningar fráleitt reiknisþraut í kjörklefanum, menn taka þar ákvörðun óháð allrti stærðfræði. Leikreglurnar verða einnig að vera þannig að það sé u.m.b. lýðræði, hversu erfitt sem það kann að vera þeim sem lenda í minnihluta.
Við erum sjálfstæð þjóð og búum á Ísland, þó oft sé erfitt að átta sig á því, og eigum því að skoða hvað okkur hentar best. Við á Austurlandi eigum til að mynda engan alvöru þingmann, vegna þess að það má ekki segja neitt né framkvæma í óþökk Eyfirðinga, sem er stærsti "markaðurinn" fyrir þingmennina, þó erum við meira en 8% kosningabærra íbúa kjördæmisins.
Það er erfitt að kyngja því.
Benedikt V. Warén, 28.1.2008 kl. 23:48
Ég er alveg sammála þér í þessu. Það er einnig óréttlátt að það þurfi 3 þingmenn inn til að fá einhvern, þ.e. að þröskuldur lágmarks prósentufjölda atkvæða sé þetta hár. Atkvæðahlutfall sem samsvarar 2 þingmönnum ætti að nægja því það má þá kalla tveggja manna þingflokk. Þetta tel ég eðlilegt til að gefa nýjum framboðum tækifæri á að byrja smátt og komast áfram. Gallinn er e.t.v. sá að stjórnarmyndanir geti oltið á oddaatkvæðum örflokka og þeir þannig fengið óeðlilega mikið vald líkt og "6527-maðurinn" fékk nú á dögunum. En kannski má nú koma í veg fyrir slíkt með einhverju öðrum skynsamlegum lögum.
Svanur Sigurbjörnsson, 29.1.2008 kl. 02:59
Það er einkennileg lýðræðisást að vilja setja 8% lágmarksþröskuld því að með því móti yrði nánast því útilokað fyrir nýja stjórnmálaflokka að ná árangri. Það myndi líka gera það að verkum að starfandi stjórnmálaflokkar mættu ekki undir neinum kringumstæðum klofna og yrðu að halda áfram sama hversu illa starfhæfir þeir væru og mörg hnífasett væru í notkun. Enn skrýtnara er að sjá svona hugmyndir frá manni sem býr og starfar í örsamfélagi sem hefur fengið mokað til sín hrikalegum fjármunum sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir. Væri ekki nær að tala þar um það sem kúgun minnihlutans á meirihlutanum?
Sigurður Hrellir, 29.1.2008 kl. 08:56
Rétt aðeins að minna á söguna fyrir Sigurð Hr. Bróðurpartinn af Marshall-hjálpinni var notaður í það til að byggja Sogsvirkjanir. Þar stóðum við "örsamfélagið" og fleiri slík, þétt saman til stuðnings borginni. Reykjavík hefur aldrei greitt þennan hluta til baka til þjóðarinnar heldur þvert á móti notaði borgin þennan hluta til að leggja inn í Landsvirkjun. Samfylkingin ætlaði að nýta sér þann hlut borgarinnar og atkvæðavægi í Landsvirkjun til að beita sér gegn framkvæmdir fyrir austan.
Minni einnig á að allt virtist í lagi með ferlið um virkjun við Eyjabakka stóð yfir og all þar til einbeittur vilji íbúa svæðisins og sveitarstjórna kom í ljós, að aflið færi ekki úr fjórðungnum, heldur nýttur hér eystra. Þá fyrist varð fjandinn laus hjá náttúruverndarfólki syðra.
Sigurður Hr. verður einnig að fara að gera það upp við sig hvort "örsamfélagið", var að fá samfélagslega hjálp að hans mati, eða hvort verið var að fórna gríðarlegum verðmætum, sem ítrekað skín í gegn um skrif hans annarsstaðar.
Í lokin vil ég ítreka það, að lýðræðið kemst í andhverfu sína, þegar minnihlutanum tekst að kúga meirihluta þings og þjóðar. Það sama á við í borgarstjórn. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa nokkra þröskulda þegar nýir "spámenn" kveða sér hljóða og vilja komast til metorða, - það sannar sagan.
Benedikt V. Warén, 29.1.2008 kl. 10:48
"..... frá manni sem býr og starfar í örsamfélagi sem hefur fengið mokað til sín hrikalegum fjármunum sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir".
Þetta er ljótt að sjá frá Sigurði Hrelli. Í fyrsta lagi Sigurður minn, þá eru þeir fjármunir sem farið hafa í verkefnin fyrir austan, þ.e. Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa í Reyðarfirði, ekki tekknir af einhverju öðru. Þetta eru ekki peningar af fjárlögum og það eru engin önnur verkefni sem peningarnir eru teknir frá. Ríkisábyrgðin vegna virkjunarinnar var eðlileg í ljósi laga um Landsvirkjun og miklum meirihlutavilja alþingismanna. Arðsemi framkvæmdanna er mjög mikil og hagnaðurinn er allrar þjóðarinnar.
Framkvæmdirnar fyrir austan eru gott dæmi um velheppnaðar opinberar aðgerðir í byggðamáli, atvinnumáli og þjóðhagslega hagkvæmu máli.
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.1.2008 kl. 13:55
Ég er þakklátur Benedikt fyrir að rifja upp sögulegar upplýsingar. Ómar hefur margsinnis á bloggi sínu vísað til sögulegs samhengis og bendir þannig gjarnan á hluti sem fólk hefur ekki tekið með í reikninginn. Hér á Íslandi er það nú svo að mörgum hættir til að taka stórar ákvarðanir án þess að líta til reynslu þjóðarinnar og annarra þjóða sömuleiðis. Einnig skortir oft á tíðum framtíðarsýn stjórnmálamanna lengur en næsta kjörtímabil, því miður.
Talandi um lágmarkskjörfylgi væri ef til vill rétt að minna Benedikt á að einungis þarf um 10% greiddra atkvæða í NA-kjördæmi til að fá inn kjördæmakjörinn þingmann. Í kosningunum 2007 hefði það sem sagt dugað fyrir hinn nýja "Austfjarðalista" (sem dæmi) að fá 2.365 atkvæði til að ná inn manni. Þatta samsvarar um 1,28% af öllum greiddum atkvæðum á landsvísu. Á sama tíma finnst Benedikt það sjálfsagt að setja 8% lágmark fyrir allt landið í heild (jöfnunarþingsæti) ef ég hef skilið hann rétt. Ekkert land í Evrópu er með svo miklar takmarkanir svo að mér sé kunnugt, nema Tyrkland sem ég tel ólíklegt að Benedikt vilji taka sér til fyrirmyndar hvað varðar stjórnarfyrirkomulag.
Í umræðunni um "örflokka" og atburði síðustu daga gleymist iðulega að það er stærsti stjórnmálaflokkur landsins með heila 7 borgarfulltrúa af 15 sem kaus að leggja út í þessa meirihlutamyndun. Þeirra er ábyrgðin. Það er að mínu mati varla hægt að áfellast Ólaf með rúmlega 10% greiddra atkvæða á bak við sig fyrir að taka þessu tilboði sjömenninganna.
Sigurður Hrellir, 29.1.2008 kl. 14:41
Gunnar vinur minn, einn ötulasti talsmaður Kárahnjúkavirkjunar, finnst ljótt að sjá og heyra. Það er nú bara svo að á meðan öll spil eru ekki uppi á borðinu er tómt mál að tala um þjóðhagslegan hagnað af framkvæmdunum fyrir austan. Eins og margir aðrir lít ég svo á að allt of miklu hafi verið fórnað til að bæta hag hinna fáu.
Pukurpólitík, bókhald sem ekki þolir dagsins ljós og óeðlilegar fyrirgreiðslur eru ekki mér að skapi. Hins vegar vona ég innilega að sem flestir Austfirðingar verði sáttir og dettur ekki annað í hug en að óska þeim velfarnaðar í álverinu sínu.
Sigurður Hrellir, 29.1.2008 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.