JÚ, 30 PRÓSENT, EN EKKI ÉG.

Mér skilst að rannsókn hafi leitt í ljós að óviðráðanlegt þunglyndi herji á 30 prósent fólks einhvern tíma á ævinni. Þar sem tíu manns koma saman ættu því að meðatali þrír að geta stigið fram og sagt: Ég er einn af þeim. En það gerist ekki. Hver og einn getur svo sem fallist á að þetta séu 30 prósent, - en, - ekki ég. Enda einkamál.

Ég er einn af þeim sem hef haft það sem einkamál mitt og minna nánustu að ég fékk þunglyndisköst sem gátu enst í allt að 1-2 daga á aldrinum 9-21 árs. Þá hvarf þetta, ég fékk síðasta kastið 1962 og síðan ekki söguna meir.

Lýsingin á þessum krankleika er einföld í mínum huga. Í tilfelli svipuðu mínu er viðkomandi sem lamaður, getur ekkert gert- horfir á sjálfan sig þjást í einrúmi líkt og aðra persónu og veit af reynslunni að vegna þess að kastið muni hvort eð er líða hjá væri best að stytta það strax en að láta það halda áfram. En það er ekki hægt frekar en að maður geti ákveðið að láta flensu eða lungnabólgu á hverfa á stundinni, bara rétt si svona.

Þetta er ótrúlegt fyrir þá sem ekki hafa reynt það. Þetta er sjúkdómur sem getur staðið mislengi alveg eins og aðrir sjúkdómar. Líka komið í mislöngum köstum eins og bakveiki, flogaveiki eða mígreni. Þetta gerðist misjafnlega oft hjá mér og stundum var langt á milli, margir mánuðir. 

Enginn utanaðkomandi hefði getað trúað því að ég glímdi við þetta á fyrstu árunum sem ég fór um allar byggðir landsins sem skemmtikraftur með grín og glens. Allir hefðu hins vegar getað trúað því að ég fengi bakveikisköst eða hálsbólguköst.  Fólki er hættara við þessum einkennum á unglingsárum og síðan eldist það af því. Ég reikna með því að vegna þess hve ég var bráðþroska hafi þetta komið svona snemma fram hjá mér. Ég ólst upp á heimili áfengisvandamála foreldra minna og stormasamrar sambúðar þeirra, ég var elstur systkinanna og tók þessi vandamál inn á mig.

Sjúkdómar há okkur öllum í mismiklum mæli. Sjúkdómar geta hamlað getu okkar tímabundið til lengri eða skemmri tíma. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort sjúkdómurinn herjar á höfuð, herðar, hné eða tær, tennur, heila eða innyfli.

Ég gat ekki um þennan kvilla minn í bók sem ég skrifaði á sínum tíma um bernskuminningar mínar en sagði hins vegar frá því í bókinni því að ég lagðist alvarlega veikur með óráð og háan hita sex ára gamall og lá rúmfastur í nokkrar vikur.

Mér fannst þessi þunglyndisköst mín svo fá og tiltölulega stutt að ég sleppti því að segja frá þeim í bókinni þótt ég liti nákvæmlega sömu augum á þau og hin veikindin, sem lögðu mig í rúmið svo að ég var lengi að jafna mig.

Nú greini ég frá hvoru tveggja til að leggja mitt af mörkum til raunsærrar umræðu um sjúkdóma og heilsu sem við ættum öll að geta lært af og miðlað hvort til annars.

Heilsufarið skiptir auðvitað máli fyrir líf, starfsþrek og traust hvers manns. Það hefur verið gert óspart grín að því að Guðni Ágústsson henti á lofti þau ummæli þekkts manns að það væri betra að hafa góðar hægðir en góðar gáfur. Ég hef sjálfur fengið ristil- og meltingarfærakrampa sem hefur gert mig óvinnufæran í allt að sólarhing og á meðan slíkt gengur yfir afkastar maður ekki miklu í vinnu. Þetta er oft viðkvæmt, - benda má á nýlegar áhyggjur verkalýðssamtaka vegna heilsufarsupplýsinga um fólk sem gætu ratað inn í fyrirtæki og stofnanir. Ég held að það sé hollt fyrir okkur öll að íhuga þessi mál og ýmsar hliðar þess af yfirvegun og fordómalaust. Skyldi sá dagur koma að stofnuð verði samtök fyrrverandi og núverandi þunglyndissjúklinga svipuð samtökum um áfengissýki, sykursýki og Parkinsonveiki?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Góð færsla Ómar. Þunglyndi spyr ekki um stétt eða stöðu, aldur eða fyrri störf. Það geta allir lent í þessu. Mér er alltaf minnistætt viðtal við Gunnar Kvaran sellóleikara þegar hann í viðtali í sjónvarpi greindi frá reynslu sinni að fá alvarlegan verkkvíða og þunglyndi sem  tók hann tíma að ná sér upp úr. Það var á þeim tíma þegar var verið að sveipa hulunni og um leið vinna á fordómum gegn geðsjúkdómum. Viðtalið hafði mjög jákvæð áhrif og fordómar tóku að minnka, en ennþá eru þeir til staðar og lifa góðu lífi eins og komið hefur berlega í ljós í ummælum fólks og fjölmiðla um Ólaf F. Magnússon og hans veikindi. Ég hafði það tilfinningunni að það væri hreinlega verið að ýta yndir fordóma og dæma manninn fyrir veikindi sín. Vonandi linnir slíkum skrípalátum hjá fólki og fjölmiðlum.

Sigurlaug B. Gröndal, 29.1.2008 kl. 21:28

2 identicon

Svo mælti Sigurður Þór Guðjónsson:

http://blogg.gattin.net/blog.php?action=post&id=qf6jwogld7 

Rómverji (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 21:39

3 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Góður pistill hjá þér og þarfur. Ég vildi óska þess að borgarstjóri hefði verið jafn tæpitungulaus varðandi sín veikindi, en því miður virðist hann sjálfur haldinn sömu fordómum og margir hafa sýnt í umræðunni um hans mál. Þ.e. að það þurfi að tala um andleg veikindi með einhverjum skrauthvörfum og helst að segja sem minnst.

Svala Jónsdóttir, 29.1.2008 kl. 22:45

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Takk fyrir þennan pistil Ómar. Ég held að umræðan um sjúkdóma verður að vera opin, því flest okkar ráða ekki við hvaða sjúkdóma þeir fá.

Ég las einu sinni viðtal við danskan prest Jóhannes Møllehave, hann hafði barist við þunglyndi og sagði að það væri eins og að vera inni í brennandi húsi og engin önnur útleið en að stökkva, þar lísti hann hugsun sinni fyrir því að falla fyrir eigin hendi.

Ég er viss um að það er mikið af fólki með úmsa andlega sjúkdóma sem þorir ekki að tala um þá eins og Ólafur F. Við hættum ekki að fordæma fyrr en við getum öll talað opið um veikindi sem að hrjá allt mannkynið.

Ég veiktist sjálf sem barn hef þurft að sprauta mig oft á dag í 40 ár, Fyrstu árin þorði ég ekki að segja neinum, því þar sem sjúkdómurinn hét sykursýki, héldu svo margir að ég væri sjúk í sykur. Einu sinni kom ég í hús þar sem að fólkið faldi sykurkarið fyrir mér.

Sem betur fer hefur margt breyst á þessum 40 árum gagnvart þeim sjúkdómi.

Það sama þarf að gerast með geðhvörf.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 29.1.2008 kl. 22:46

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gott innlegg og þarft. Þessi umræða á ekki að vera neitt tabú, frekar en um flensu eða bakverk.

Halldór Egill Guðnason, 29.1.2008 kl. 23:45

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Þessi færsla öll ber merki um þor, þroska og yfirvegun.

Ívar Pálsson, 29.1.2008 kl. 23:56

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mjög góð og heilbrigð orð sem þú lætur falla um þetta Ómar. Það væri óskandi að borgarstjóri hefði jafn litla fordóma gagnvart veikindum sínum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 00:38

8 Smámynd: Halla Rut

Góður og einlægur pistill.

Halla Rut , 30.1.2008 kl. 00:50

9 identicon

Takk Ómar, það er svo gott þegar maður finnur að einhver segir réttu orðin varðandi þunglyndi. Mér finnst þú frábær. Takk

hm (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 08:07

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er merkilegt hvað margir skemmtikraftar og grínistar þjást af þunglyndi. Það er auðvitað mikið meira um þennan sjúkdóm en margir halda. Frábær pistill. Ómar vex með hverju árinu.

Villi Asgeirsson, 30.1.2008 kl. 08:47

11 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka einlægan og góðan pistil.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.1.2008 kl. 09:14

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Ómar. Vonandi verður hann til að opna umræðuna um þennan sjúkdóm.

Ágúst H Bjarnason, 30.1.2008 kl. 09:35

13 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Góð skrif hjá þér Ómar...enda flottur karakter hér á ferðinni!! Ómar við erum stolt af þér og þínum verkum...

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.1.2008 kl. 10:36

14 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég klippti út viðtalið við Johannes Möllehave og er með það uppi á vegg inni í eldhúsi þar sem það hefur hangið í tvö ár. Djúpur karakter og snart mig mjög. Dagsett 25. mars 2006 í Fréttablaðinu og fyrirsögnin er 'Þú getur sagt allt í ljóði', ef einhvern langar að gúggla.

Annars er þessi umræða um geðsjúkdóma alveg frábær. Fjöldi manns út um allan bæ þarf að spyrja sjálfan sig hvort það sé í lagi eða ekki að hafa geðsjúkdóm, þetta heitir að svipta hulunni af fordómunum. Rykið er fljótt að setjast, það þarf sífellt að halda umræðunni við.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 30.1.2008 kl. 17:10

15 identicon

Sæll Ómar!

Þunglyndi er ákaflega erfiður þeim sem hann fá og ekki síður þeim sem eru í kringum þann sjúkling.  Eitt af aðaleinkennum sjúkdómsástandins er dómgreindarbrestur á meðan sjúkdómurinn grasserar.  Sjálfsmat fólks nánast hverfur, það rífur sig sjálft niður, fyrir getuleysi sitt, geta til þess að verja sig fyrir minnsta áreiti hverfur - allt særir - og auðvelt að verða fórnarlamb.  Þetta ástand gerir það að verkum að annað fólk veigrar sér við að benda á leiðir, því það óttast að særa viðkomandi.

Aðstandendum finnst oft að það vanti dug í þann sem veikist til þess að rífa sig upp.  Þegar fólk er orðið sjúkt, fær það aðhlynningu lækna, svo sem lyf sem örva boðefnaflæði til heila, sjúkraþjálfun o.fl.  Þá er þaðþannig með þennan sjúkdóm að öllum sem hann fá er ráðlagt að fara rólega af stað, bæta matarræði og hreyfingu og fækka álagspunktum í kringum sig og aðstæðum sem auka á stress.  Aðstandendur fengnir með í það átak.

Sjúkdómur þessi er að sjálfsögðu líkamlegur - vegna hægra boðefnaflutninga, þar sem einkenni vera bæði andleg og líkamleg. 

Til þess að ná bata á þessum sjúkdómi verður hver og einn að axla þá ábyrgð að viðurkenna hvað sé að, svo hægt sé að hefja viðeigandi lækningu.   En það er auðvitað á valdi hvers og eins.

Heilsufar ákveðins stjórnmálamanns hefur mikið verið til umræðu.  Hafa skal í huga að fáar þjóðir eru eins öflugar í því að sýna samkennd og slá varðborg um hvern þann sem verður fyrir áföllum eins og við Íslendingar.  Þrátt fyrir það hefur fólk ekki breytt skoðunum sínum, eða látið þær til hliðar - Það hefur einfaldlega haft þann þroska að bera að hugmyndafræði og persóna er ekki eitt og hið sama.

Nefni hér dæmi:  Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Margrét Frímannsdóttir - en öll veiktust þau og komu um það tilkynningar í öllum fjölmiðlum, enda skylda þeirra að láta vita af fjarveru sinni.  Fólk virkilega sýndi stuðning á allan máta, þótt hugsjónir þess breyttust ekki - t.d. varðandi fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar, sem mjög margir voru mótfallnir.  Þá er ég ekki viss um að t.d. Davíð eða nokkur annar stjórnmálamaður, vildi hafa þann háttinn á að fólk hætti að gagnrýna  forgangsröð, hugmyndafræði eða hvað annað, þótt viðkomandi hafi veikst og þurft að vera frá.

Það nefnilega tengist beint sjálfsvirðingu hvers og eins - að hafa skoðanir og viðra þær.

Stjórnmálamaður, hvað þá slíkur í einni af þremur valdamestu embættum landsins má ekki frábiðja sér pólitískrar gagnrýni á þeim forsendum að þjóðin hafi verið rætin og vond í hans garð.

Ég skal aldrei trúa því að það fólk um 1000 manns sem saman komu í Ráðhúsinu hafi mætt þar í þeim tilgangi að níða niður persónu einstaklings - heldur að mótmæla aðferðum, tíðum skiptum stjórnenda og þeirri tæpu stöðu núverandi meirihluta að ekki þyrfti annað að koma til en veikindi - sem hvert mannsbarn veit að getur hent hvern sem er, til þess að enn einn meirihlutinn falli. 

Mér hefur helst sýnst í gegnum tíðina að það hafi helst verið í einræðisríkjum og einhverjum gömlum kommúnistaríkjum, að farið var með það eins og mannsmorð ef viðk. einræðisrherra eða þjóðhöfðingi veiktist, reynt að breiða yfir það og ýmislegt fleira, þótt viðkomandi hafi verið frá um all-langan tíma.  Þess þarf ekki í lýðræðisríkjum vegna þess að alls staðar koma inn varamenn - nema þar sem forystumaður flokks nýtur ekki stuðnings næstu manna á lista. 

Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 17:12

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Allt er gott í hófi. Það er kannski gott að hafa góðar hægðir og miklu betra en hafa góðar gáfur því of góðar gáfur geta hæglega breyst í munnræpu. Of góðar hægðir geta hins vegar hæg(ð)lega breyst í bullandi niðurgang. Meðalhófið er því vandratað.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.1.2008 kl. 17:23

17 identicon

Einlægur og hugvekjandi pistill um verulega þarft málefni. Það ríkja of miklir forómar í garð geðsjúkdóma eins og þunglyndi og depurð vegna vanþekkingar. Vanþekkingin stafar líklega í flestum tilfellum af dræmu upplýsingaflæði. Umræðuna þarf efla. Eigðu bestu þakkir fyrir þitt innlegg.

Olga Björt Þórðardóttir (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 19:05

18 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Takk fyrir góðan pistil Ómar.

Ég held að það sé mikið nauðsynjamál að stofna sem fyrst samtök fyrrverandi og núverandi þunglyndissjúklinga. Slík samtök yrðu áreiðanlega mikill styrkur fyrir þá sem hafa þurft og eða eru að glíma við þennan slæma, og í sumum tilfellum lífshættulega sjúkdóm. Fordómar gagnvart þunglyndi og öðrum geðrænum sjúkdómum er útbreidd, en fordómar eru eins og flestir vita ævinlega byggðir á fáfræði og skilningsskorti. Því verður að breyta.

En svona til upplífgunar frá þunglyndinu bendi ég fólki á að líta við á http://www.joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/

Jóhannes Ragnarsson, 30.1.2008 kl. 19:24

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lýsing Ölmu Guðmundsdóttir segir mér að þunglyndi geti verið af mismunandi toga og lýst sér á mismunandi hátt eftir aðstæðum og karakter sjúklingsins. Ég er ekki viss um að þetta sé alltaf eingöngu af líkamlegum orsökum heldur geti flóknara ferli verið í gangi.

Á meðan að fordómar ríkja gagnavart þessum kvilla er skiljanlegt að fólk veigri sér við að gera hann opinberan. Ég á auðveldara með að gera það nú vegna þess hve langt er síðan ég læknaðist.

Ómar Ragnarsson, 30.1.2008 kl. 23:14

20 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Samtök fólks með þunglyndi eru til. Þau heita Geðhjálp og rúma alla þá sem hafa átt við geðræn vandamál að stríða, þunglyndi sem og annað.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 31.1.2008 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband