29.1.2008 | 14:48
FJÖLMIÐLAR - SJÁLFHVERFUR SPEGILL?
Þegar menn gagnrýna að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk fjalli um það sem er að gerast í þeim og þar með fjölmiðlafólkið og séu því alltof sjálfhverfir er fyrri helmingnum af ákveðnu ferli sleppt en hann er sá að langoftast eiga aðrir upptökin að því að umræða fer inn á ákveðið plan, - oftast fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu. Frá því eru komin orð eins og "hnífsstunga", "hnífasett", "óheilindi", "trúnaðarbrestur" o. s. frv. Þessi orð falla eðli málsins samkvæmt í fjölmiðlum og eru þar með orðin efniviður í fjölmiðlaumfjöllun.
Sú fjölmiðlaumfjöllun getur síðan orðið tilefni til umræðna og skiptra skoðana, sem fjölmiðlar verða að sinna.
Orð og atburðir skapa mikla umræðu í þjóðfélaginu og áhuga fólksi. Hún fer fram í fjölmiðlum sem oft henda á lofti það sem sagt er og gert. Að þessu leyti eru fjölmiðlarnir spegill þjóðfélagsins þótt þeir séu líka gerendur við að miðla vitneskju um málin.
Það er hins vegar krafa sem á fullan rétt á sér að mínum dómi að fjölmiðlar reyni að gera eitthvað meira en að fiska á yfirborðinu. Þeir eiga að kafa ofan í málin og leitast við að "lyfta málinu á örlítið hærra plan" svo að vitna sé í fleyg orð Nóbelskáldsins.
Það er hins vegar mikil einföldun að mínum dómi að skrifa á fjölmiðlana allt sem mönnum finnst fara aflaga í umræðunni. Þá er verið að skjóta sendiboðann sem á að sinna þeirri skyldu sinni að miðla upplýsingum og mismunandi skoðunum.
Athugasemdir
Er paródían nokkuð grimmari í dag en þegar þú speglaðir þjóðfélagið í gríni?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 16:44
Ég hef á tæpra 50 ára ferli dansað æði oft við línuna og myndi ekki segja sumt í dag sem ég sagði á fyrstu árunum. Er afar heppinn að hafa sloppið við vandræði á öllum þessum langa tíma. Ef farið er yfir strikið er það verst fyrir skemmtikraftinn sjálfan.
Ómar Ragnarsson, 31.1.2008 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.