HINDRUN UPPLÝSINGA VESTRA OG HÉR.

Fróðlegur var pistillinn í 60 minutes nú síðdegis um það hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið til að breyta skýrslum vísindamanna um hlýnun jarðar og þagga niður í þeim, en búa til niðurstöður sem hentaði óbreyttu ástandi í orkumálum heimsins. Þetta kom fram í viðtal sem tekið var á Þingvöllum við James Hansen, einn af þremur fremstu vísindamönnum á þessu sviði i heiminum, og lýsingar hans og kollega hans, Piltz á kúgun þeirri sem beitt var, var mér kunnugleg.

Þeim var bannað að tjá sig opinberlega og skýrslur þeirra voru ritskoðaðar ótrúlega gróflega. Í Hvíta húsinu stóð Phil nokkur Cooney, yfirmaður umhverfisgæðaráðs, fyrir breytingum, útstrikunum og viðbótum. Cooney lét sig ekki mun um það þótt hann væri lögfræðingur að mennt að endurskoða vísindalegar skýrslur.

Áður en hann réð sig í þjónustu Hvíta hússins hafði hann unnið fyrir olíufyrirtæki og hefur nú aftur tekið upp sömu iðju fyrir Exxon.

Þegar ég var að gera myndina "Á meðan land byggist" var andrúmsloftið þannig hér heima að aðeins einn af þeim kunnáttumönnum, sem ég leitaði til um að ræða um upplýsingar og niðurstöður sínar, þorði að koma fram.

Þessi 100 mínútna mynd var líklega viðtalasnauðasta heimildarmynd af þessari lengd sem um getur og aðeins tveir aðilar treystu sér til að styrkja kvikmyndagerðina, alls um 600 þúsund krónur í mynd, sem hvaða kvikmyndagerðarmaður, sem væri, myndi áætla að myndi kosta tugi milljóna.

Kannski á 60 minutes eftir að fá að finna fyrir svipuðu að gera þennan pistil. Ég kannast við það fyrirbæri frá árunum 1999 til 2003 að setja af stað herferð gegn gerð sjónvarpsmynda sem sýndu á faglegan hátt hvað ætti að fara að gera hér á landi í virkjanamálum.

Yfirvöldum tókst ekki að stöðva sýningu myndanna, þáttanna og fréttanna, en gerðu allt sem þau gátu til að koma í veg fyrir gerð þeirra.

James Hansen taldi sig knúinn til að segja starfi sínu lausu til að losna undan kúgun yfirvalda. Ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Heyrði þetta viðtal við Hansen á BBC fyrir nokkrum mánuðum.

Pétur Þorleifsson , 3.2.2008 kl. 18:23

2 Smámynd: Jón Magnússon

Pólitíska veðurfræðin lætur ekki að sér hæða hvort heldur á þennan veginn eða hinn. En í augnablikinu væri ég  sáttur við meiri gróðurhúsaáhrif og hlýnun þar sem það er um 8 stiga frost hér í Selásnum. 

Jón Magnússon, 3.2.2008 kl. 21:56

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Þetta fékk ég nú að vita 1994 eftir að hafa ritað smá pistil í Moggann um Lífrænan landbúnað, en þá fékk ég þakkarbréf frá prófessor Ólafi Dýrmundssyni og upplýsingar um Vísindaráðstefnu manna um þau hin sömu mál þar sem ákall vísindasamfélagsins var að finna í því efni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.2.2008 kl. 02:17

4 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Sæll Ómar,

Það eru frekar fáir vísindamenn sem þora að tjá sig um veruleika loftslagsbreytinga jafnvel enn þann dag í dag. Þeir eru hræddir um að missa stöðu sína eða trúverðugleika einkum innan háskólasamfélagsins.  

Landsvirkjun trúir samt á loftslagsbreytingar vegna þess að hún er búin að láta Veðurstofuna reikna út fyrir sig hvað gerist með jöklana og rennsli til virkjana ef loftslagsbreytingar halda áfram með líkum hætti og frá 1990.  Niðurstöðurnar hafa verið kynntar á fundi í Jarðfræðifélaginu. 

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.2.2008 kl. 02:44

5 identicon

Sæll Ómar.

Fyrir mér er þetta ekki ný frétt.Það er í svo mörgu sem að Bandaríkjastjórn og aðrar verða að hafa lygina,falsanir og hvað þetta allt heitir á HRAÐBERGI.Ómar minn við Lifum í Fallvöltum heimi SVIKA og SPILLINGA.Svo vil ég þakka þér sérlega og einstaklega heilnæm störf í þágu ÞJÓÐAR OKKAR.

Góður Guð fylgi Þér og Þinni fjölskyldu.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 05:20

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Ómar

Hvaða starfi sagði James Hansen lausu?  Er hann ekki enni í sínu gamla starfi? Sjá hér

Hann er reyndar fæddur árið 1941 og er því 65 ára og fer líklega á eftirlaun innan skamms.  

Ágúst H Bjarnason, 4.2.2008 kl. 09:11

7 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það kvað hafa komið skipun úr Hvíta húsinu með þessum árangri.  Nei, það getur ekki verið er það ?

Pétur Þorleifsson , 4.2.2008 kl. 16:41

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jæja, það er best að henda sér út í foraðið. Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að vísindamenn þori ekki að tjá sig um loftslagsmál þegar meirihluti þeirr talar einni röddu um málið? Hvaða áhrif hafa bandarísk stjórnvöld haft á skýrslu Sameinuðu þjóðanna, sem undirlögð er hrakspám um gríðarlega hlýnun af mannavöldum? Það eru eru einmitt hinir, þeir sem hafa efast um að hlýnunin sé af mannanna völdum, sem orðið hafa fyrir aðkasti vegna skoðanna sinna, bæði af sanntrúuðum almenningi og af vísindasamfélaginu.  Efasemdarmennirnir eru utangarðsmenn í þessu máli.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir segir: "Það eru frekar fáir vísindamenn sem þora að tjá sig um veruleika loftslagsbreytinga jafnvel enn þann dag í dag. Þeir eru hræddir um að missa stöðu sína eða trúverðugleika einkum innan háskólasamfélagsins".  Þessi ummæli eru beinlínis sprenghlægileg, öllu er snúið á haus!

Pétur Þorleifsson er við sama heigarðshornið, vitnar í hitt og þetta og slítur allt úr samhengi. Nú er það Bandaríkjaforseti sem lagði virkjunarsinnum lið í Kárahnjúkamálinu! Pétur vísar í grein á mbL.is frá janúar 2002. Þar segir að National Geographics hafi hætt við birtingu greinar um Kárahnjúkavirkjun og áhrif hennar á umhverfið sem birtast átti í aprílhefti tímaritsins þetta ár. John Swan, blaðamaðurinn sem skrifaði greinina sagði af þessu tilefni,

 „Greinin er algjörlega tilbúin með myndum, kortum og texta en hún mun því miður ekki birtast. Afstaða ritstjórnar tímaritsins er sú að úrskurður ráðherra (Sifjar Friðleifsdóttur um að leyfa virkjunina að uppfylltum skilyrðum)  setji málið allt í loft upp og staðan sé of flókin nú um stundir og of margir óvissuþættir til þess að borgi sig að birta viðamikla úttekt á Kárahnjúkavirkjun,“

National Geographics er vandað blað og afar erfitt er að fá greinar birtar í því nema allt sé 100% rétt. Viðtöl voru tekin við forráðamenn Landsvirkjunar og Reyðaráls (Norsk Hydro), en einnig umhverfisverndarfólk, og með því lögð áhersla á að fá hlutlausa úttekt á stöðu mála og þeim framkvæmdum sem væru fyrirhugaðar. Í ljósi alls þessa var ákveðið að blása birtinguna af.

Ómar, þú segir "Yfirvöldum tókst ekki að stöðva sýningu myndanna, þáttanna og fréttanna, en gerðu allt sem þau gátu til að koma í veg fyrir gerð þeirra".

Finnst þér ekki rétt Ómar minn, sem reyndur fréttamaður, að koma með haldbær dæmi um þessar ásakanir, en ekki ekki slengja þessu svona fram í véfréttastíl?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2008 kl. 18:36

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég slengi þessu ekki fram í neinum véfréttastíl heldur rakti þetta í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem ég kynnti 21. september 2006. Viðtalið við James Hansen í 60 mínútum var heldur ekki í neinum véfréttastíl.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig National Geographic fjallar um nú um síðir um Kárahnjúkavirkjun, sex árum eftir að grein John Swan var blásin af. Allan þennan tíma hefur tímaritið velkst með þetta mál.

Í fyrrahaust kom blaðakona á vegum tímaritsins með ljósmyndara og notuð var þyrla, í fyrrasumar kom siðan norskættaður blaðamaður á vegum tímaritsins og enn og aftur byrjaði blaðakonan að garfa í málinu.

Mér finnst með ólíkindum að blað á borð við þetta skuli þurfa öll þessi ár til þess að fjalla um eitt einstakt mál en nú er það kannski óhætt þegar framkvæmdin er komin nógu langt.

Vonandi tekst sagnfræðingum síðar meir að kafa ofan í þá ótrúlegu þræði sem spunnir hafa verið í þessu máli, allt frá einkavinafundum Davíðs og Halldórs með Berlusconi og Bush til ítaka sem Alcoa hefur í umhverfissamtökum í Bandaríkjunum og tímaritum þar.

Það stingur í augun hve miklu betur norsk umhverfissamtök sinntu þessu máli en bandarísk og alþjóðleg samtök og gæti verið verðugt rannsóknarefni.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2008 kl. 10:42

10 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum Ómar og takk fyrir að skrifa um þetta.

Georg P Sveinbjörnsson, 6.2.2008 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband