5.2.2008 | 08:57
REYKHERBERGI NÚ OG ÞÁ.
Krafan um að allir eigi kröfu á því að anda að sér hreinu lofti er augljóst umhverfismál. Athyglisvert var að heyra Siv Friðleifsdóttur upplýsa á Stöð tvö í gær að kráareigendur hefðu sjálfir ekki viljað heimild um sérstök reykherbergi í aðdraganda setningar laga um bann við reykingum á opinberum stöðum. Ef þetta er rétt eiga þeir sjálfir að þessu leyti hlut í því ástandi sem hefur orðið þeim tilefni til þess að brjóta þessi sömu lög og kenna löggjafanum um ósveigjanleika.
Manni kann að koma í hug að andstaðan við reykherbergin hafi á sínum tíma verið til þess að skapa ástand sem réttlætti það að brjóta lögin. Ég held að vangaveltur séu óþarfar heldur að ráða fram úr málinu eins og það lítur út í dag, burtséð frá því hverjum kann að vera hvað um að kenna.
En krafan um 100% hollustuhætti gagnvart gestum, gangandi og starfsfólki hlýtur að vera sanngirnismál, hvernig svo sem hún er uppfyllt. Siv upplýsti að eitt af því sem gerði kröfuna um reykherbergi snúna sneri að því að starfsfólk ætti rétt á því að þurfa ekki að fara þar inn til þrifa.
Kannski endar þetta með því að sett verði á laggirnar fyrirtækið "Reykherbergjaþjónustan" þar sem starfsfólk með grímur eða fólk sem reykir sjálft tekur að sér slík þrif líkt og þeir sem taka að sér að losa stífluð klósett.
Athugasemdir
Ætli svifrykið í henni Reykjavík sé ekki miklu hættulegra heldur en askan í bökkunum?
Ef þetta er rétt að veitingamenn hafi laggst gegn því að hafa val um hvort þeir gætu haft reykherbergi, þá er það ótrúleg heimska af hálfu forssvarsmanna þeirra. Það er alltaf gott að hafa val.
Sjálfur er ég á móti reykingum, en mér ofbýður mannfyrirlitningin sem fram kemur hjá fólki, sem telur sig umkomið að fótum troða mannréttindi annars fólks. Varð hreinlega flökurt að hlusta á Ástu R. Jóhannesdóttir í Kastljósinu í gær. Svona fólk verðum við að losna við af Alþingi Íslendinga.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:05
Heyrði ekki í Ástu í Kastljósinu.
Ef svona reykherbergi verða raunin með alls konar útfærslum er varla hægt að segja að staðir séu reyklausir. Þessi lög eru líklega til að verða verulega útþynnt.
Kolbrún Baldursdóttir, 5.2.2008 kl. 11:44
Ég held að menn eins og Sigurður séu komnir aðeins fram úr sjálfum sér ef þeir telja að reykingar í almannarýmum séu MANNRÉTTINDI!
Hildur (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 12:03
Mannréttindi eru einföld. Gefum fólki möguleika á að velja, svo lengi sem það bitnar ekki á öðrum. Þessi lög virðast vera klúður. Af hverju ekki að gleyma þessum reykherbergjum og leyfa stöðunum að ráða hvort þeir eru reyklausir eða ekki. Þannig yrði það fólki í sjálfs vald sett hvort það færi inn á viðkomandi stað, ynni þar eða kæmi fram.
Segjum sem svo að ég vilji opna kaffihúsið Möltufálkann, í stíl Bogart og Film Noir. Reykingar tilheyra þeim stíl. Ég þyrfti auðvitað að taka það skýrt fram við inngang að reykingar væru leyfðar á staðnum og fólk sem vill ekki anda að sér eitrinu færi bara eitthvað annað. Það fær ekki krabba og ef ég missi af viðskiptum var það mér að kenna. Sæki fólk um vinnu tek ég það fram í samningnum að reykingar eru leyfðar. Vilji fólk ekki vinna við það, getur það sótt um á staðnum við hliðina, sem er reyklaus og tekur það fram við inngang og í ráðningarsamningum. Skemmtikraftar geta komið fram ef þeir vilja, en þurfa líklega að sætta sig við reykinn. Vilji staðurinn umræddan skemmtikraft en hann vill ekki reyk er það minnsta málið að fara fram á að umrætt kvöl verði reyklaust. það er þá líka tekið fram við inngang.
Ég sé ekki vandamálið við þetta.
Villi Asgeirsson, 5.2.2008 kl. 13:19
Mannréttindi eru réttindi á borð málfrelsi, réttinn til sanngjarnra réttarhalda, að sæta ekki pyntingum og þar fram eftir götunum. Alveg er það óþolandi þegar hugtakið mannréttindi er misnotað á þennan hátt og talað um það sem mannréttindi að mega leyfa reykingar á skemmtistöðum.
Einhverjum kann að þykja það ósanngjarnt að það megi ekki leyfa reykingar á skemmtistöðum og vilja rökstyðja það með sínum rökum. Það er alveg skiljanlegt sjónarmið, en í guðanna bænum, kallið hlutina réttum nöfnum. Mannréttindi eru allt annar hlutur.
Hildur (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 14:11
Sorglegt hve sjálfhverfir reykingarmenn virðast vera. Fíkninn í "líkistunaglana" eins og móðir mín var vön að kalla retturnar, er með ólíkindum.
"Það eru "okkar" mannréttindi að reykja, og það er verið að brjóta á frelsi okkar til þess"!
Gjörðið svo vel, segi ég. Komið ykkur upp ykkar eigin "reykmettuðu" skemmtistöðum, veitingahúsum, kaffihúsum og pöbbum. Aldrei mun ég stíga fæti inn á slíka staði. Er mitt "frelsi" að velja mér "reyklausa" staði. En næsta er víst að "reykmettuðu" staðirnir munu fyllast af unga fólkinu okkar, sem er að "prófa", ögra og vera með. Og svo 15 -30 árum seinna situr heilbrigðiskerfið uppi með lugnaþembusjúklinga, lugnakrabbameinssjúklinga, astmasjúklinga og hálskrabbameinssjúklinga á besta aldri, í stórum stíl. Og já, veit ég vel að ekki fá allir reykingamenn krabbamein, en þú ert að auka líkurnar um 50% á þessum sjúkdómum, sért þú reykingamaður. En þetta vita auðvitað alllir, og er auðvitað bara nöldur og tuð í hjúkkuræflinum, sem hefur fylgt mörgum ungum krabbameinssjúklingnum síðustu sporin yfir í "hina víkina"! En það hefur oft hvarflaðað mér, að ef reykingarmaður fyndi "(ó)lyktina" af sjálfum sér, hvort rettan heillaði eins mikið?
Góður pistill hjá þér, Ómar!
Sigríður Sigurðardóttir, 5.2.2008 kl. 14:12
Sigríður, ekki stimpla alla sem eru ekki á sama máli "reykingamenn". Ég er hvorki með eða á móti reykingum, eins og færslan að ofan ætti að bera með sér. Mér er bara meinilla við það þegar lög eru sett sem ekki virka, margir eru á móti og Alþingi sjálft er ekki tilbúið til að fara eftir.
Séu reykingar allstaðar leyfðar er að sjálfsögðu verið að ganga á réttindi reyklausra og það er ekkert athugavert við að breyta því. Að banna reykingar allsstaðar er að ganga á réttindi þeirra sem reykja og er því ekkert betra. Við búum ekki við alræði, allir eiga sinn rétt. Eins og Guðmundur góði sagði, einhversstaðar verða vondir að vera.
Villi Asgeirsson, 5.2.2008 kl. 14:20
Þetta reykingabann er ekki nógu vel unnið. Það er t.d. búið að klastra upp einhverjum búrum eða útiskýlum við skemmtistaði þar sem menn mega reykja í ......en það má ekki fara með glasið sitt útí búrið og þarf þá annað hvort að klára glasið eða skilja það eftir. Það er verið að samsama þetta bann við Noreg, var reyndar að koma þaðan og þar eru sett upp snotur "útikaffihús" þar sem vindar í gegn en þar er hægt að sitja með teppi og gaslampa og panta sér drykki. Nossararnir aðeins meira siviliseraðir. Finnst reyndar að þeir sem tjái sig mest með bannið, séu þér sem hvorki stunda krárnar né barina og þekkja því málið ekki nógu vel. Það verður að vera glóra í banninu til þess að almenningur fari eftir því. Tóbak er leyft á Íslandi hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Berglind (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 14:45
Ef að Félag veitingahúsaeigenda var einn aðalhvataaðilinn að þessum lögum (eins og kom fram í Kastljósinu í gær) af hverju í ósköpunum voru þá ekki fleiri reyklausir staðir ? Ef mig langar ekki að láta reykja heima hjá mér þarf ekkert að setja lög um það. Ég bara ákveð það sjálf. Mér finnst að veitingamenn megi aðeins skoða á sér naflann ef þetta er rétt. Þurfa þeir að ,,láta banna sér" eins og litlir krakkar ... skil engan veginn svona vitleysu.
Er reyklaus og á móti reykingum á veitingahúsum og fagna því að geta sest á veitingahús án þess að kvíða reykjarmekki og þurfa að setja fötin mín út á svalir þegar ég kom heim. En óbilgirni og öfgar ber að forðast og EF hægt er að útbúa rými/herbergi fyrir reykingarmenn þar sem reykurinn laumast ekki til reyklausra eða í fötin er mér auðvitað nokk sama.
Svo má bara ráða reykingafólk til að þrífa reykingarherbergin - málið leyst!
Manneskja óskast til þrifa, verður að reykja! .. þar kveður að vísu við nýjan tón...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 5.2.2008 kl. 14:55
Gallinn við hugmyndina um að gefa það frjálst að veitingarstaðir séu með eða án reyks hefur því miður hvorki gengið upp hér á landi né erlendis. Fyrir gildistöku núverandi banns máttu veitingahús auglýsa sig sem reyklaus en gerðu það samt ekki.
Lítum sem dæmi á einhverja ótiltekna borg eða bæ þar sem eitt samkomu- og veitingahúsið er langstærst. Án laga um reykingabann myndi slíkt hús aldrei úthýsa reykingamönnum heldur leyfa reykingar vitandi það að hinir reyklausu neyddust til að koma þangað vegna þess að þar færu öll helstu samkvæmin fram.
Ómar Ragnarsson, 5.2.2008 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.