MEIRA AÐ SEGJA FRAMSÓKN !

Í dag hefur komið í ljós að meira að segja Framsóknarflokkurinn, höfuðvígi "besta fiskveiðistjórnunarkerfis í heimi" er farinn að efast um gæði þessa kerfis. Ólíklegt er að Halldór Ásgrímsson hefði fært fram sjónarmið Guðna Ágústssonar í Kastljósinu í kvöld ef hann hefði enn verið formaður flokksins. Reyndar sló Guðni úr og í og kom ekki fram með neitt sem hægt væri að festa hönd á nema að skoða málið í ljósi álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Í góðu viðtali í Silfri Egils við Magnús Thoroddsen tók þessi virti lögspekingur undir það að borgaraleg réttindi væru brotin í núverandi kerfi. Íslandshreyfingin tók tillögu Magnúsar um breytingar á kerfinu upp á sína arma í kosningabaráttunni en í henni voru augljósir agnúar núverandi kerfis sniðnir af.

Í Silfrinu benti Magnús á að yfir 70% þjóðarinnar væru andvíg núverandi kerfi en hætti samt ekki að kjósa kvótaflokkana. Hann taldi það forsendu fyrir breytingum að fólk kysi þá flokka sem væru andvígir kerfinu.

Samfylkingin virðist nú vilja lítið gera með fyrningarleiðina svonefndu sem hún hélt fram í kosningunum 2003 og virðist nú komin upp að hlið Sjálfstæðisflokksins í því að fara ekki einu sinni vandlega yfir það hvernig hægt sé að koma til móts við álit Mannréttindanefndarinnar.

Íslandshreyfingin lagði fram vel ígrundaðar tillögur í þessum efnum í kosningunum, hugsaðar til bráðar og lengdar í ljósi þess að útlilokað væri að opna ekki kvótakerfið og breyta því. Á stjórnarfundi hreyfingarinnar í dag var þessi stefna rædd og ítrekuð.

Ef Framsóknarflokkurinn slæst í för með þeim flokkum sem vilja breytingar er aldrei að vita nema Magnúsi Thoroddsen verði að þeirri ósk sinni að 70% prósent þjóðarinnar kjósi næst þau framboð sem hanga ekki á núverandi kerfi eins og hundar á roði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Arnbjörg Sveinsdóttir var reið og kallaði þetta "árás á sjávarútveginn!"

Árni Gunnarsson, 5.2.2008 kl. 21:12

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég er ekki viss um að Arnbjörg þessi sé bara alveg með á nótunum Árni...?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 5.2.2008 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband