6.2.2008 | 00:09
HVAR ER STÓRIÐJUHLÉ SAMFYLKINGARINNAR ?
Ekki var annað að sjá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en að stóriðjuhraðlestin muni bruna stanslaust áfram þvert á loforð Samfylkingarinnar um að láta lestina hægja á sér. Virkjanaframkvæmdum fyrir austan lýkur ekki fyrr en næsta haust en þá verða nokkrir mánuðir síðan vinna hófst í Helguvík ef marka má þessar fréttir. Hraðlestin mun samkvæmt þessu ekki einu sinni stoppa á biðstöð. Aðferðin sem beitt er kunnug: Aðilar vinnumarkaðarins, sem eiga ítök í báðum stjórnarflokkunum, grátbiðja um álver og nota kjarasamninga sem vopn.
Þetta er sama aðferð var notuð var í undanfara Kárahnjúkavirkjunar þegar ASÍ-þing á Egilsstöðum grátbað um álver og virkjun og vildi meira að segja að virkjað yrði meira en fyrir álverið eitt, svo mikil var virkjanafíknin.
Össur Skarphéðinsson og meirihluti þingflokks Samfylkingarinnar snerust eins og vindhanar úr andstöðu við virkjunina í það að fylgja henni, enda reið á fyrir kosningarnar 2003 að sýna fram á að Samfylkingin væri stjórntæk.
Ef þetta fer svona sést skýringin á því hvers vegna Steingrímur J. Sigfússon lýsti því í viðtali eftir kosningarnar að hans flokkur myndi ekki standa í vegi fyrir því að staðið yrði við þá samninga sem gerðir hefðu verið ef VG kæmist í stjórn, væntanlega með Sjálfstæðismönnum.
Þessi orð lýstu bæði örvæntingu yfir því að lenda utan stjórnar og einnig vonleysi með árangur af andófi VG gegn stóriðjustefnunni.
Um leið og framkvæmdir hefjast í Helguvík mun þrýstingurinn frá Húsavík aukast og það koma fram, sem taldar voru ýkjuspár mínar fyrir kosningarnar í fyrra, að öll virkjanleg orka á Íslandi yrði sett í álver og ekkert afgangs fyrir skaplegri notendur sem borguðu hærra orkuverð, sköpuðu betri og hærra launuð störf, eyddu minni orku og menguðu ekki.
Vestfirðingar verða síðan að fá sitt í tveimur olíuhreinsistöðvum og Ísland verður þá komið fram úr leyfilegum útblásturskvóta. Ekkert mál að fá þetta í gegn í þeim kjaraviðræðum sem þá verða í gangi.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var ekki annað að heyra en að allt væri að smella saman um leyfi sveitarfélaganna um kraðak háspennulína og virkjana til að reyra Reykjanesskagann niður með álverunum.
Draumsýnin er að hinn erlendi gestur aki úr Leifsstöð með útsýni yfir álver og línur og haldi áfram um samfellt kerfi af álverum, háspennulínum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og síðar stíflum, miðlunarlónum og virkjunum austur um Suðurland og áfram upp með Þjórsá alla leið inn í Vonarskarð að vatnaskilum.
Til að uppfylla kröfur álveranna um orku er kreist tvöfalt meiri orka út úr jarðvarmavirkjanasvæðunum en þau afkasta til langframa og gumað af endurnýjanlegri orku og sjálfbærri þróun, þótt orkan verði með núverandi tækni uppurin eftir 40 ár.
Þetta er afsakað með því að ný tækni muni koma síðar sem leysi þetta vandamál. Gallinn er bara sá að ekkert er enn fast í hendi um að þessi tækni gangi upp. En það skiptir ekki máli, - aðalatriðið virðist vera að stóriðjuhraðlestin þurfi ekki að koma við í biðstöð heldur bruna áfram á sama hraða og fyrr, ef ekki hraðar.
Ef svo sem fram sem horfir, hvað segja þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem hafa kosið hana í trausti þess að hún meinti eitthvað með tali sínu um stóriðjuhlé ? Ætla þeir ekki að læra af reynslunni?
Athugasemdir
Það er rétt hjá þér, það mun ekkert stöðva það að Íslendingar nýti sér orkuauðlindir sínar, enda engin skynsemi í því. Þetta er okkar helsti styrkleiki og sennilega sá eini til raunverulegs vaxtar, sem kannski blasir betur við en áður núna þegar bankabólan er sprungin. Þegar afleiðingarnar hrunsins í fjármálaiðnaðinum fara að skella á almenningi, verður þetta enn meira knýjandi, jafnvel svo að kverúlantar eins og Steingrímur J. fara að heimta nýjar virkjanir.
Ég skil ekkert í þessari spéhræðslu þinni gagnvart útlendingum sem keyra í bæinn frá Leifsstöð. Í langflestum borgum heims keyrir þú í gegnum iðnhverfi á leiðinni frá flugvelli inn í borg, t.d. þegar þú keyrir frá flugvellinum við Vín inn í borgina, sem er ein sú fallegasta í heiminum, ferðu framhjá einni af stærstu olíuhreinsistöðvum Evrópu. Þarna býr fólk!
Ég hef keyrt ófáa útlendinga frá Leifsstöð og þeir fáu sem hafa gert athugasemdir við umhverfið, eru undrandi á auðninni, enda er hún ansi æpandi og ekki beint falleg heldur.
Auðvitað er fleiri möguleikar fyrir okkur til að spyrna við kreppunni sem er að skella á. Eitt væri að taka til í ríkisrekstrunum, sem hefur þanist út í þenslunni, sem skv. lögmálum ríkisrekstrar virðist óafturkræft, sem kemur okkur svo um koll þegar þrengir að. Vöxtur í atvinnulífinu ætti ávallt að vera að hinu góða, svo lengi sem það er ekki ríkisbákninu. Góð grein um gríðarleg tækifæri hvað þetta varðar, eftir Viggó H. Viggósson, má finna hér.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 00:45
Samkvæmt Sigurði er allt í lagi að svíkja kosningaloforð vegna þess að annars förum við öll á hausinn í þessu ljóta landi. Eða er ég að misskilja hann?
Villi Asgeirsson, 6.2.2008 kl. 15:18
Sæll, Sigurður,
hvers vegna heldur þú að ferðamenn koma til Íslands? Borga okurverð í flug, gístingu og mat? Örugglega ekki til þess að sjá það sama og í heimalandinu sínu. Ferðamenn koma flestir hingað til þess að upplifa viðerni, óskemmda náttúru og einstakt landslag. Ég hef starfað sem leiðsögumaður í langan tíma og get sagt þér það að fólkið er stórhneykslað yfir að finna mengandi stóriðjuver í því landi sem var selt þeim sem ferðaland með óspilltri náttúru.
Úrsúla Jünemann, 6.2.2008 kl. 15:22
Villi; hvar kemur það fram hjá mér að í lagi sé að svíkja kosningaloforð? Þú átt greinilega mjög auðvelt með að misskilja hluti, hver sem ástæðan fyrir því er nú.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 15:25
Úrsula; Ferðamenn koma að sjálfsögðu af mörgum ástæðum til Íslands, sumir eins og þú segir til að sjá náttúruna okkar. Lang flestir skilja þeir að hér býr fólk sem þarf atvinnu til að hafa í sig og á og finnst þ.a.l. eðlilegt að hér sé ekki bara endalaust víðerni, heldur líka þéttbýliskjarnar, þar sem stór og smár iðnaður er m.a. stundaður eins og alls staðar í hinum vestræna heimi.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 15:33
Úrsula, hefur þú bent þessum stórhneyksluðu útlendingum á hversu mikið þoturnar sem þeir nota til að komast hingað menga mikið? Hefur bent þeim á hversu umhverfisvænt það er að framleiða álið í þoturnar með grænni orku Íslands, m.v. að gera það með jarðeldsneyti?
Annars hef ég starfað lítilega við ferðaþjónustu og átt mikil samskipti við erlenda ferðamenn og hef aldrei orðið var við þessa hneykslun sem þú nefnir. Þetta hljóta að vera eitthvað skrítnir ferðamenn sem þú hefur lent á. Annað; eitt af því sem mjög mörgum ferðamönnum finnst einna áhugaverðast að skoða hérlendis eru jarðavarma og vatnsaflsvirkjanirnar okkar. Þetta er eitthvað sem þeir finna yfirleitt ekki í sínu heimalandi, auk þess sem þeim þykir þetta merkilegt með hliðsjón af stöðu orku- og loftslagsmála í heiminum í dag.
Eins og Sigurður bendir á, þá væri það algjör fíflska ef við nýttum okkur ekki náttúruauðlindir okkar og allt í lagi þó að nokkrir skrítnir útlendir bakpokaferðamenn hneykslist yfir því - það er þeirra vandamál.
Bjarni M (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 15:53
Siguður. Ómar var að tala um kosningaloforð sem eru, virðist vera, lítils virði. Þú ert fylgjandi stóriðju vegna þess að annars fer þjóðarskútan á kaf, skilst mér. Hvað útlendingum sem borga uppsprengd verð fyrir flug og gistingu finnst virðist ekki skipta máli. Þú talar um tiltekt í ríkisrekstrinum, en ert meðfylgjandi áframhaldandi stóriðju sem ríkið er beinn þáttakandi í.
Svo er það þetta með álið, orkuna og flugvélarnar. Megninu af notuðu áli er hent þrátt fyrir að það kosti 10% orkunnar sem fer í nýframleiðslu að endurvinna það. Ekki á Íslandi, heldur í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Ef ameríkanar myndu slökkva á sjónvarpinu þegar ekki er horft, í staðinn fyrir að pota í rauða takkann á fjarstýringunni, myndu sparast 400GW á ári, eða um 20x öll möguleg orkuframleiðsla íslendinga. Þotuframleiðsla hefur notað mikið af áli hingað til, en það mun breytast á næstu 3-4 árum þar sem aðrir málmar og plastefni eru léttari og sterkari.
Villi Asgeirsson, 6.2.2008 kl. 16:15
Villi, þú ert skrítinn fýr. Það fer þér mjög illa úr hendi að túlka það sem ég skrifaði. Ég hélt reyndar að það væri nokkuð skýrt og þ.a.l. ekki þörf á sérstakri túlkun af þinni hálfu:
Það sem ég skrifaði og þú rangtúlkar var eftirfarandi:
Ég ætla að vona að þetta sé nógu skýrt fyrir þig núna og að þú rangtúlkir ekki frekar orð mín.
PS: Varðandi álið, ef þú fylgist sæmilega með á þeim vettvangi, þá veist þú væntanlega að allar spár benda til mikillar aukningar á notkun þess næstu áratugina.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 17:32
"Ég hef starfað sem leiðsögumaður í langan tíma og get sagt þér það að fólkið er stórhneykslað yfir að finna mengandi stóriðjuver í því landi sem var selt þeim sem ferðaland með óspilltri náttúru", Segir Úrsula.
Ég tek algjörlega undir orð Bjarna M. um þetta atriði. Ég hef líka farið með ófáa útlendinga um landið þó ekki sé ég atvinnu leiðsögumaður og enginn þeirra hefur hneikslast í mín eyru. Flestir hafa einmitt haft mikinn áhuga á t.d. jarðvarmavirkjunum okkar og vilja ólmir heimsækja slíka staði. Þeir hinir sömu hafa líka áhuga á hreinni og óspilltri náttúru og það hefur ekki verið vandamál að fara með þá í slíkt... og mun ekki verða í ókominni framtíð, þrátt fyrir þær áætlanir í virkjunamálum sem nú eru uppi á borðinu.
Villi: Um 90% alls áls sem framleitt hefur verið í heiminum frá upphafi er enn í notkunn og enginn málmur er endurnýttur eins mikið og ál. Og þetta með 400GW stundir á ári er hlægilegt bull. Og spádómur þinn um að flugvélaframleiðendur ætli að hætta álnotkunn er hæpinn og þó hann væri réttur þá skiptir það tiltölulega litlu því flugvélar nota innan við 5% þess áls sem framleitt er í heiminum.
Það er skelfilegt að sjá svona steypu notaða sem innlegg í rökræður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.2.2008 kl. 17:40
Það er búið að velta þessu stóriðju- og virkjanamáli fram of til baka. Fólk getur verið sammála um að vera ósammála og fátt annað. Það má vel vera að 90% áls sé endurunnið, en það er hvorki gert í Hollandi né í Florida. Ég þekki málið ekki annars staðar persónulega. Ég er kannski skrítinn fýr og allt í lagi með það. Ég vil það frekar en að vera skynsamur landi án náttúru með milljarða í bakreikninga vegna vanþekkingar. Það má líka vel vera að eftirspurn eftir áli eigi eftir að aukast, en af hverju erum við þá að keppast við að selja orkuna núna? Það hlýtur að fást meira fyrir hana ef eftirspurn er meiri, og hún á aðeins eftir að aukast.
Það er bara eitt í stöðunni. Rökræður eru bara það og hafa ekkert gildi. Látum þjóðina kjósa um málið. Ef meirihluti þjóðarinnar vill fórna náttúrunni, þá var það a.m.k. ákvörðun þjóðarinnar en ekki fámenns hóps manna sem hugsa sér gott til glóðarinnar. Hafni þjóðin frekari stóriðju, þá ber að virða það.
Villi Asgeirsson, 6.2.2008 kl. 21:01
Það er afskaplega falleg hugmynd að kjósa um alla skapaða hluti en til þess þarf almenningur að vera upplýstur um það sem kjósa á um. Það er hins vegar illt ef atkvæði fólks grundvallast á ranghugmyndum eins og þeim sem andstæðingar virkjana og stóriðju bera stundum fram. Það er ekkert að því að vera í hjarta sínu á móti slíkri atvinnustefnu en það er mikið að því þegar þeir sem það eru, reyna að fá aðra á sitt band með skrumskælingu á veruleikanum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2008 kl. 00:37
Veruleikinn er að landið (okkar allra) er stórskemmt og nú á að skemma meira. Þetta er ekki spurning um hvort fólk skilji álframleiðslu, endurvinnslu, rafmagnsnotkun sjónvarpa eða skattalög. Þetta er einfaldlega spurning um það hvort við viljum setja meira land undir stórframkvæmdir. Ég er viss um að flestir skilji þá spurningu og hafi álit á málinu.
Villi Asgeirsson, 7.2.2008 kl. 07:57
Úrsúla, þetta blasir auðvitað við. Næst þegar þú færð eitt af þessum erlendu skoðanasystkynum þínum í heimsókn, þá geturðu bara beðið viðkomandi um að teikna upp hvernig við eigum að stýra þessu landi og búa í því. Þið getið svo farið upp á fjöll, keyrt þangað eftir línuvegi Landsvirkjunar og fengið að stoppa til að pissa í Búrfelli. Nú, eða bara farið í hestatúr inn í Ölkelduháls og fengið að pissa og jafnvel gera númer tvö í Hellisheiðarvirkjun. Eða hvað, æ alveg rétt, þið náttúruelskandi leiðsögumennirnir eruð bara með frátekna brekku í það þarna á svæðinu ekki satt, þar sem hinn lífræni áburður og pappírinn þekur svæðið? Þessi tegund ferðaþjónustu virðist bara geta verið í hlutverki þiggjanda. Það eiga allir aðrir að sjá um allar fjárfestingar ykkur til handa, og svo á að byggja ráðstefnuhöll fyrir 15 milljarða en ríki og borg eiga að borga með henni 700 millur á ári um ókomin ár. Og hvert á nú að sækja þessa peninga? Í vasa fólksins sem vinnur í álverunum, til dæmis.
Fossvoxari (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.