21.2.2008 | 00:21
SKÝJABORGIR HRAFNS.
Hrafn Gunnlaugsson dreymir um byggð í Vatnsmýrinni sem líkasta skýjakljúfahverfi í Dubai. Eins og fleiri stendur hann í þeirri trú að Reykjavík sé miklu dreifbýlli en sambærilegar borgir. Því fer viðs fjarri eins og ég hef áður rakið með tilvitnun í vandaða skýrslu um 16 norrænar borgir þar sem sést að Reykjavík er nákvæmlega jafn dreifbýl og borgir af svipaðri stærð á Norðurlöndum.
Flestar þessar borgir og fleiri álíka borgir skoðaði ég í hitteðfyrra af forvitni um þetta mál.
Í Dubai skín sólin nær lóðrétt niður en í Reykjavík er hún svo lágt á lofti að mestallt árið yrðu göturnar í skýjakljúfabyggð Hrafns í köldum skugga.
Nú þegar hefur risið háhýsabyggð á rústum timburhúsanna fyrir neðan Lindargötu en ekki verður séð að barnafólkið, sem heldur þessu þjóðfélagi gangandi öðrum fremur, hafi flust þangað, enda íbúðaverðið hátt og barnafólkið vill frekar búa í nágrannabæjunum og úthverfunum en í steinsteypuveröld Hrafns og skoðanasystkina hans.
Ef Hrafn tryði því fyrir sjálfan sig sem hann heldur fram að sé best fyrir alla ætti hann heima í einhverjum af háu blokkunum sem risu við Skúlagötu. Í staðinn valdi Hrafn sér stað fyrir lágreist hús í Laugarnesi þar sem eins langt er til næstu húsa og mögulegt er í Reykjavík.
Allt framansagt breytir ekki því að hagkvæmara er að byggð sé þétt en dreifð og að keppa beri að því eftir föngum. Sjálfur átti ég heima á tólftu hæð í smáíbúðablokk fyrstu búskaparárin og bý nú í blokk. En rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" eins og það var kallað með því að flýja landið, þar sem menn töldu sér trú um að endanleg kerfislausn væri fundin á öllum þjóðfélagsmálum, eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðskast með fólk og raða því eins og tindátum inn í háhýsablokkir.
Frjálshyggjumaðurinn góði og vinur minn, Hrafn Gunnlaugsson, ætti að skilja það og það má hann eiga að hafa oft hrist rækilega upp í samfélaginu með ferskri og óbundinni hugsun og gert með því gott gagn.
Athugasemdir
Þú átt kollgátuna Ómar, að í láréttu birtunni á Íslandi verður drungalegt ef mörg háreist hús eru saman í þyrpingu.
Það er samt óhætt að þétta byggð með því að byggja örlítið hærra en nú, 3-4-5 hæðir í stað 1-2 hæða), og þéttara (hús við hús en ekki langar grasflatir í allar áttir frá hverjum útvegg)
Það er heldur enginn skaði af því þó stöku turn sé hér og þar til að skapa kennileiti í byggðinni. Það hefur kannski verið gengið fulllangt í turnavæðingunni eftir norðurhlið miðbæjarins, eins og þú nefnir, og svæðið ekki eins vistlegt og það gæti verið.
Sjálfur skrifaði ég pistil svipaðs efnis http://hnodri.blog.is/blog/hnodri/entry/294248/
Promotor Fidei, 21.2.2008 kl. 02:42
Hárrétt hjá þér, Ómar. Háhýsi eiga ekkert erindi á Íslandi m.a. vegna veðurfars og að auki er til nóg landrými til byggingar minni húsa með stórum görðum. Háhýsi hér á landi valda sjónmengun, auk þess að sólar nýtur ekki á svæðum umhverfis háhýsin. Að auki eri sviftivindasamt í næsta nágrenni við háhýsin þegar hvasst er.
Margir virðast standa í þeirri trú að Ísland fái meira "international look" með því að hafa nokkur háhýsi, en sérstaða okkar felst í lágreistum fallegum byggingum sem auk þess eru miklu hagkvæmari.
Stefán Grettir Þórólfsson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 08:42
Hrafn virðist vera að segja; hafðu hérna heilræði mín, ég nota þau ekkert sjálfur.
Ég tók saman svoítinn pistil á bloggi mínu vegna Vatnsmýrarinnar, en það er skoðun mín að við eigum að taka Lundúnarbúa okkur til fyrirmyndar. Sjá Reykjavíkurflugvöllur og þétting byggðar.
Kveðja,
Sigurður Ingi Jónsson, 21.2.2008 kl. 11:46
ég hef alla vega ekki séð jafn dreifða byggð og í Reykjavík, og hef komið hingað og þangað innan Norðurlandanna.
Annars finnst mér að það megi hvorki byggja þarna of hátt né of lágt. Einstaka stórt háhýsi set ég mig ekki uppi á móti en háhýsabyggð finnst mér ekki góð hugmynd.
Svo má byggja stór bílastæðahús hér og þar með þessu. Mér finnst leiðinlegt hvað Reykjavík er mikil bílastæðaborg.
Ari (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 03:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.