22.2.2008 | 10:38
VONIN DVÍNAR.
"Er þetta nokkurt vit?" spurði maður mig í gær um leitina að flugvélinni sem fór í sjóinn suðaustur af landinu. Svarið er: Vonin dvínar en flugvél af sömu gerð og þessi, sem fór í sjóinn suðvestur af Reykjanesi fyrir rúmlega aldarfjórðungi, flaut svo lengi, að henni var náð upp í bát og farið með hana í land.
Sú flugvél varð eldsneytislaus og það hjálpaði til því að tómir geymarnir virkuðu eins og flotholt. Þessar vélar eru lágþekjur og skrokkurinn stendur því lengi upp úr sjónum, gagnstætt því sem er hjá háþekjum. Hins vegar hefur vélin sem nú fór í sjóinn verið með mikið eldsneyti og því flotið verr en Piper-vélin hér um árið.
Ég hef flogið á eins hreyfils vél yfir til Grænlands og gerð er krafa um að HF-sendir sé um borð og uppblásanlegur gúmbátur. Við lendingu á sjó reynir flugmaðurinn að lenda þvert eftir öldunni til að stingast síður inn í hana. Ef flugmaðurinn er auk þess vel klæddur og í léttum flotbúningi á hann nokkra möguleika.
Þótt flugvélin sé sokkin er því enn von um að finna gúmbátinn á reki þótt flugmaðurinn sé ekki á lífi. Svona leit er ekki hætt fyrr en öll von er úti um að finna það sem leitað er að, svo einfalt er það.
Leit haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.