22.2.2008 | 23:24
HÚSGRUNNUR, ÆVINTÝARALAND ÆSKUNNAR.
Þegar ég var á aldrinum 6-8 ára og verið var að grafa fyrstu grunnana fyrir húsunum við Stangarholt voru þeir undralönd með öllu landslagi sínu, hæðum, hólum, tjörnum, bröttum bökkum og "fellum" sem barnið sá rísa á milli vatnanna. Þessa minntist ég í kvöld þegar ég var með Bergi Sigurðssyni á skrifstofu Landverndar að undirbúa ferð á málþing á Vestfjörðum um olíuhreinsistöðvar og sá hvernig risastór húsgrunnur milli Skúlagötu og Borgartúns var rammgirtur svo að engin börn kæmust þar inn.
Nú er það svo að djúpar tjarnir í húsgrunnum geta verið hættulegar fyrir börn en samt þakka ég fyrir það að engir húsgrunnar voru girtir af þegar ég var ungur og hugsa að hægt sé að fara milliveg í þessu efni.
Hann fælist í því að verktakar og eigendur húsgrunnanna gengju þannig frá þeim að um helgar að aðeins væru þar grunnar tjarnir og hættulausar og börnum leyft að fara þar inn.
Fyrir aldarfjórðungi var grafinn skurður í gegnum svæðið við Álftamýraskólann og undravert var að horfa á hvernig börnin voru að leik í uppgreftrinum eins og mý á mykjuskán, þyrptust þangað úr öllum nálægum hverfum.
Mín börn áttu dásamlegt svæði til að leika sér á meðan ekki var búið að ryðja niður og slétta allt við Fjölbrautarskólann við Ármúla og þar voru enn "hamrar" og landslag malargryfja sem þar voru áður.
Sem betur fór er þar enn brekka sem verður krökk af börnum og fullorðnum þegar snjóar en ég held að allt of mikið sé gert af því að koma öllu í reglustikuhorf í umhverfi okkar í stað þess að láta eitthvað af upprunalegu umhverfi halda sér.
Athugasemdir
Nú rifjast það upp fyrir mér að þú áttir þína æsku hér í grenndinni þar sem ég bý núna. Og hefur mjög líklega þekkt hann Sigga Árna móðurbróður minn sem bjó hér ofar í götunni og var giftur henni Rúnu og pabbi þeirra Betu og Jódísar heitinnar uppáhalds frænku minnar eftir að við kynntust og við öll misstum svo óþarflega fljótt.
Nú nötrar hér allt vegna sprenginga alla daga og maður telur dagana þar til þessi 60 ára gömlu hús byrja að springa utan sem innan.
Árni Gunnarsson, 22.2.2008 kl. 23:57
Ekki vildi ég vera að alast upp inni í Kleppsholti í dag, svo gott sem fullbyggt, þar sem áður voru móar og fjara, með fótboltavöllum og togurunum Íslendingi og Særúnu, húsagrunnar og byggingar við Sævðiarsund og Kleppsveg, en er nú víggyrt með Sæbraut og fjaran orðin innflutningshöfn móarnir orðnir malbikaðir og steyptir í "hólf og gólf" Bergiðjan að loka aðeins Kleppur eftir en er ekki lengur svipur hjá sjón að sjá engin börn í kring að leik.
Ég skil vel hvað þú ert að fara Ómar, mín börn ólust svo í frelsinu í Hveragerði.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.2.2008 kl. 10:58
gæti verið að það sé eitthvað lengra en aldarfjórðungur frá skurðunum við Álftó. fyrir aldarfjórðungi var ég í Álftó og man eftir torfærubrautunum í við grunn Borgarleikhússins, þar sem gaman var að hjóla.
húsgrunnar og nýbyggingar þóttu góðir til leikja og sem betur fer gerðust engin alvarleg slys, í mínum félagahópi allavega. kannski einstaka naglaspýtur sem stigið var á.
kannski vegna þeirrar staðreyndar að svæðin voru ekki lokuð af, eins og í dag, vorum við krakkarnir vöruð við hættunum reglulega minnt á þær. kannski þess vegna við höfum verið meðvitaðri um að fara varlega?
Brjánn Guðjónsson, 23.2.2008 kl. 11:27
Mikill bjartsýnismaður ertu Ómar. Sem er auðvitað hið besta mál.
En málið með þennan stóra grunn, sem þú nefnir, er að hann er galopinn þessa stundina -- Höfðatúnsmegin. En hraðinn í framkvæmdunum er slíkur að ég er hræddur um að börn fengju fá tækifæri til að leika sér, það var kannski hægt þegar menn stóðu lengi í framkvæmdum. En nú eru þegar komnar tvær hæðir neðanjarðar og opið víða á milli og stórhætta af þessu álpist börn inn í grunninn. Og áður en maður veit af verða hæðirnar 19 risnar og turninn farinn að líta niður á Höfða og hlæja að þessu litla aumingjalega hvíta húsi fortíðarinnar.
En lengi vel var þarna opið svæði eftir að Sögin var rifin, ég sá engin börn að leik þar. Ætli þessi tími komi nokkuð aftur. Því miður.
G. Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 12:49
Þeir krakkar sem ólust upp í Vogunum í Reykjavík léku sér gjarnan við og í yfirgefinni glerverkssmiðju. Mikill glerhaugur var fyrir utan húsið og var það mikið aðdráttarafl. Mömmunum stóð dálítill stuggur af þessum glerhaug einkum þegar krakkarnir komu heim æpandi að hafa skeint sig á fjallgöngunni á glerfjallið mikla.
Svo gerist það að um 1970 fundust miklar arsenikbirgðir í þessari yfirgefnu stassjón þar sem átti að græða á tá og fingri. En þetta komast aldrei lengra. Eiturbirgðirnar dugðu að drepa alla þjóðina svona 500 sinnum og auðvitað var blessaður maðurinn sem stóð fyrir þessu spurður hvernig í ósköpunum honum hafði dottið í hug að flytja þessa miklu birgðir. „Arsenikkið var svo ódýrt“. Arsenik var notað í örlitlu magni við gleriðnað á þessum tíma.
Svona var nú það! Minningar bernskunnar eru alltaf og verða ætíð minnisstæðar.
Gangi þér vel á Vestfjörðum Ómar. Sumarið 1963 dvaldi eg sumarlangt hjá ágætu fólki í Arnarfirði. Það væri miður ef þarna yrði reist eitthvað eiturspúandi iðjuver og svo væri allt yfirgefið einn góðan veðurdag eins og glerhaugurinn og arsenikkið ef eitthvað gengur ekki upp, olíuslys eða e-ð þannig.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 23.2.2008 kl. 16:56
Samkvæmt tölfræðinni ætti maður náttúrulega að vera dauður fyrir löngu. Allavega stórslasaður.
Miðað við þær reglur sem nú eru í gildi hefði ég aldrei lifað æskuna af. Hjólandi út um allar koppagrundir hjálmlaus og hlífðarfatalaus. Fyrst á reiðhjóli og síðan á skellinöðru (þá að vísu alltaf með hjálm.) Klifrandi í klettum, farandi um landið þvert og endilangt og aldrei í belti. Forvitinn um öll hús í byggingu og vegaframkvæmdir. Farinn að vinna fullan vinnudag 11 ára í sumarfríinu frá skólanum. Verandi í fótbolta í lausum mörkum sem hægt var að velta. Brotanaði að vísu tvisvar á hendi en það var líka lífreynsla út af fyrir sig.
Það verður að vísu að segjast að umferðin var nú önnur í þá daga og sjálfsagt að nota þann örygisbúnað sem til er. Mér finnst bara allt of langt gengi í ofverndun barna í dag. Þau meiga mest lítið gera og alls ekki vinna. Þegar ég var í baranskóla var kanski 1-2 strákar sem ekki gátu klifrað upp kaðlana í leikfimi. Mér skilst að þetta hafi snúist við og nú séu 1-2 sem geta það. Það eru allskonar ofnæmi og asmin að hrjá fólk í dag sem ekki var eins algengt áður og er helst rakið til of mikils hreinlætis að því er mér skilst.
Það virðst vandratað meðalhófið.
Landfari, 23.2.2008 kl. 17:36
Já, svo mikið er víst að í minni barnæsku voru húsgrunnar tívolí þess tíma. Stærstu húsgrunnarnir og skemmtilegustu voru þegar Kjarvalsstaðir voru í byggingu og svo húsnæði Landleiða við gamla Hafnarfjarðarveginn rétt við Valsheimilið, sem nú heitir Skógarhlíð. Þar var mikið um að vera. Við stunduðum það líka að stökkva á milli bílskúrsþaka, við vorum í hnífaparís á róló á kvöldin og allt hverfið var einn leikvöllur. Öskjuhlíð var vinsælt svæði, gömlu malarnámurnar og göngin. Einnig Nauthólsvíkin. Hún var ævintýri út af fyrir sig. Það eru margar góðar minningar sem ég á við leik á þessum svæðum.
Sigurlaug B. Gröndal, 24.2.2008 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.