4.3.2008 | 01:04
HVAÐ VAR SVONA MERKILEGT 10.MAÍ 1940?
Ég tók mér smá tíma í kvöld eftir langt hlé til að skoða ýmislegt varðandi myndina "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland", sem hefur verið í salti hjá mér í nokkra mánuði. Nokkrar staðreyndir: Hernám Íslands 10.maí 1940 var framkvæmt af 746 illa útbúnum hermönnum. Tugir þeirra höfðu aldrei hleypt úr byssum áður. Samt trylltist Hitler af bræði í búðum sínum í Eifel-fjallendinu þegar hann frétti þetta og skipaði Raeder yfirmanni sjóhersins að gera innrásaráætlun.
Fram að því höfðu Þjóðverjar ekki leitt hugann að Íslandi í neinni alvöru. Sú ætlun Breta að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gerðu það hafði hins vegar þau áhrif að innrásaráætlunin Ikarus var gerð.
Fram til 10. maí 1940 höfðu Þjóðverjar ætíð haft frumkvæði í hernaðaraðgerðum með innrásum sínum í Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku og Noreg. Bandamenn gerðu ekkert annað en að bregðast við og áttu til dæmis enga sóknaráætlun tilbúna til að ráðast inn í Þýskaland. Þess vegna gat Hitler sent nær allar bryndrekasveitir sínar inn í Pólland án þess að þurfa að óttast sókn úr vestri inn í Þýskaland.
Sá sem ræður bardagavellinum og atburðarásinni hefur ævinlega forskot á andstæðinginn. Á því byggðist velgengni Þjóðverja meðal annars.
Þegar Bretar hernámu Ísland var það í fyrsta sinn sem frumkvæðið kom frá bandamönnum og kallaði á viðbrögð Þjóðverja. Það ærði Hitler að verða í fyrsta sinn að bregðast við frumkvæði andstæðingsins.
Áætlunin Ikarus gerði ráð fyrir að nota tvö af hraðskreiðustu herskipum Þjóðverja og tvö hraðskreiðustu farþegaskip þeirra. Sem dæmi um það hve hraði skipa hafði mikið að segja má nefna að Bretar töldu óhætt að láta Queen Mary sigla óvarða fram og til baka yfir Atlantshafið vegna þess að hún átti að geta sloppið undan árás hvaða skips sem var.
Í bók Þórs Whiteheads er því lýst hve auðveldlega Þjóðverjar hefðu getað tekið Íslands alveg fram á haust 1940.
Það var fyrst í ágúst sem níu flugvélar af gerðinni Fairy Battle voru komnar á Melgerðismela, en í Belgíu um vorið höfðu Þjóðverjar skotið slíkar vélar svo miskunnarlaust niður að þær fengu viðurnefnið "fljúgandi líkkisturnar."
Áætlunin Ikarus varð ekki að veruleika vegna þess að Þjóðverjar vissu ekki um neitt flugvallarstæði á íslandi sem hægt yrði að nota á sama hátt og þeir gerðu í innrásinni í Noreg þar sem yfirráð í lofti réðu úrslitum. Án yfirráða í lofti yfir Íslandi gætu þeir ekki haldið landinu.
Myndin "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" mun einmitt taka það fyrir, að í raun var þetta flugvallarstæði fyrir hendi án þess að útsendurum Þjóðverja hefði tekist að koma um það skilaboðum til Þýskalands.
Rannsóknarvinna vegna þessa er langt frá því að vera lokið. Hún hefur kostað ferðir til Bretlands, Noregs, Frakklands og vetrarferð til Demyansk í Rússlandi, sem er 500 km fyrir norðvestan Moskvu.
Það var gæfa Íslands, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, að kreppan stóð svo lengi hér á landi, að við vorum flugvallalaus í upphafi stríðs. Og þó. Já, það er nú einmitt það.
Athugasemdir
Mjög áhugavert, takk f. þessa greinargerð, hlakka til að sjá útkomuna. Mun vonandi auka vitneskju almennings um þetta.
Ari (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 01:33
Svo halda sumir, að Rússar geti ekki tekið óvarið Ísland herskildi, ef þeir telja sér ávinning í því !
En þakka þér, Ómar, fyrir pistil um áhugavert mál.
Jón Valur Jensson, 4.3.2008 kl. 02:09
Ómar reyndu að hafa staðreydir réttar.Engin flugvöllur á Íslandi annar en
Melgerðis melar. 3. sempt. 1919 hóf flugvél sig á loft frá flugvellinum í Reykjavík.
sem hafði verið lagður í Vatnsmýrinni með sterkum tréflegum yfir framræsin,
við litla hrifningu Reykjavíkur bænda sem töldu sig missa slægjur.Þessi
flugvöllur var í stöðugri notkun þangað til Bretin kom og púkkaði undir og
malbikaði brautirnar ásmt fleirri framkvæmdum. Vagga flugsins á Íslandi
stóð ekki á Akureyri hvað sem norðan menn vilja halda fram.
Það er mjög fróðlegt að lesa skírslu Verkfr. Gústafs E. Pálssonar frá 25. jan.1939
um flugvöllin í Reykjavík og möguleika á öðru flugvallar stæði. Það er ekkert nýtt
undir sólinni.
Leifur Þorsteinsson, 4.3.2008 kl. 10:33
Samkvæmt þýsku korti og gögnum um Ikarus áætlunina felldi skortur á nothæfum flugvöllum hana. Melgerðismelar eru ekki á Akureyri svo að óþarfi er að rugla því saman. Það er ennfremur staðreynd að fyrstu herflugvélarnar, sem Bretar gátu notað, flugu frá Melgerðismelum og Kaldaðarnesi. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni eins og hann var þegar Bretarnir komu, var aðeins nothæfur fyrir mjög litlar flugvélar og það tók ár að koma honum í almennilegt horf.
Ég hef aldrei haldið því fram að vagga flugs á Íslandi hafi staðið á Akureyri heldur ævinlega að hún hafi verið í Reykjavík.
Ómar Ragnarsson, 4.3.2008 kl. 12:02
Það er greinilegt Jón Valur að þú ert enn í miðju Kalda stríðinu. Því er lokið vinur, jafnvel Mogginn er að átta sig á því.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 4.3.2008 kl. 12:10
Það er svo margt sorglegt við upphaf stríðsins. Innrásin í Austurríki gekk ekki vel vegna þess að vélbúnaður var síbilandi. Þeir lærðu lexíuna og voru betri í Póllandi. Þar gekk þeim þó ekkert allt of vel, en aftur lærðu þeir lexíuna. Þegar bandamenn loksins liftu fingri voru þjóðverjar búnir að strauja út byrjunarvandamálin. Það er ekki ólíklegt að hefðu bandamenn tekið við sér strax í byrjun, hefði stríðið orðið mikið minna og styttra. Í maí 1940 var herinn búinn að æfa sig um alla Evrópu í mörg ár.
En um það sem Jón Valur segir. Það getur hvaða þjóð sem er hertekið okkur. Við erum ekki með her.
Villi Asgeirsson, 4.3.2008 kl. 13:18
Villi Ásgeirsson,
Hvað þyrfti herinn okkar að vera stór og öflugur til að hindra það?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 4.3.2008 kl. 14:49
Of stór til að borga sig. Við vonum að vinátta vesturlanda haldi og þá erum við í nokkuð góðum málum. Við gætum sennilega flengt Færeyjar og Lichtenstein, en hættan kæmi ekki úr þeirri átt.
Villi Asgeirsson, 4.3.2008 kl. 20:25
Ég er í meginatriðum sammála Villa hér gegn fullyrðingum Axels Jóhanns. Sá síðarnefndi heldur í "svari" sínu til mín, að það sé nóg að henda klisjur á lofti, en það svarar ekki þeim raunveruleika, sem ég var að benda á, og skiptir engu máli hvaða orðaleppa menn vilja nota um það ástand: hættan er samt fyrir hendi. En það er alltaf hægt að haga sér eins og strúturinn og stinga bara hausnum í sandinn til þess að sjá ekkert illt!
Jón Valur Jensson, 4.3.2008 kl. 22:45
Ég man ekki eftir að hafa heyrt um "innrás" í Austurríki heldur var það sameinað Þýskalandi á pólitíska vígvellinum, ékki átakalaust kannski, en m eiginlegt stríð var ekki að ræða eins og í Póllandi.
Það verður spennandi að sjá þennan þátt Ómar, hlakka til!
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.3.2008 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.