5.3.2008 | 12:50
TIL SKAMMAR FYRIR OKKUR.
Hafi þeir, sem stóðu að því að rjúfa friðhelgi sendiráðs Dana með því að mála hnýfilyrði gegn þessari vinaþjóð okkar, haldið að með því gerðu þeir Dönum skömm, skjátlast þeim hrapallega. Íslenska þjóðin verður í staðinn að lifa við þá skömm að hér á landi skuli svona viðgangast. Þetta er hneisa og tímaskekkja að auki. Þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst lögðust menn aldrei svona lágt í hita þess leiks.
Mig minnir að ég hafi áður rökstutt það í bloggpistli að það hafi verið ein mesta gæfa Íslendinga að Danir réðu hér á öldum áður en ekki einhver önnur þjóð. Ekki var um það að ræða að Íslendingar gætu verið sjálfstæðir á þeim tímum vegna þess að þá var það ekki spurning hvort þjóðir í okkar aðstöðu gætu verið sjálfstæðar, heldur hvaða einvaldskonungur réði yfir þeim.
Einokunarverslunin illræmda hefði verið hér hvort sem Danir eða aðrir hefðu ráðið. Bretar lyftu ekki litla fingri þegar írar hrundu niður tugþúsundum saman í hungursneyð en Danir stóðu fyrir söfnun handa Íslendingum eftir Móðuharðindin.
Vitanlega færði einveldið okkur ýmsa kúgun en hún hefði líklegast verið mun meiri ef annar einvaldskonungur hefði ráðið hér. Ólíklegt er að önnur þjóð en Danir hefðu haldið helstu sjálfstæðishetju nýlendunnar uppi á sama hátt og Danir héldu Jóni Sigurðssyni uppi. Vafasamt er að við værum sjálfstæðir í dag, hvað þá að hér væru töluð íslenska.
Í Danmörku naut aðallinn þeirra fríðinda að aðalsmannasynir áttu aðgang að Kaupmannahafnarháskóla. Á móti kom skylda aðalsmannanna til að láta synina í té til herskyldu til varnar landinu.
Íslenski aðallinn samanstóð af embættismönnum, prestum og stórbændum, sem áttu 90 prósent allra landareigna í landinu. Synir þessara manna fengu sömu fríðindi í Kaupmannahafnarháskóla og aðalsmannasynirnir í Danmörku en þurftu ekki að hlíta herskyldu.
Enn í dag njóta börn þeirra Íslendinga, sem voru einhvern tíma þegnar Danakonungs, fríðinda í dönskum háskólum! Sonur minn komst að þessu þegar hann var við nám í skólanum í Horsens!
Í fróðlegri doktorsritgerð sænska prófessorsins Hans Gustafsson kemur fram að hvergi í Evópu réði einvaldskonungur jafn litlu og á Íslandi. Íslensku landeigendurnir gerðu allt sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir að þéttbýli myndaðist við sjóinn eins og í nágrannalöndunum.
Tillögur Danakonungs og landsnefndar hans til úrbóta 1771 voru nær allar hundsaðar af íslenska aðlinum. Hæstiréttur í Kaupmannahöfn kom í veg fyrir að ýmis dómsmorð væru framin á Íslandi.
Sjálfstæðisbarátta okkar var hörð en líklegast er einsdæmi að slík barátta skyldi ekki kosta eitt einasta mannslíf eins og hér.
Þrátt fyrir allt varðveittu Danir fyrir okkur handritin og engin þjóð hefur gert það sama og þeir, að afhenda slíkar þjóðargersemar tveimur öldum síðar.
Þarf ekki annað en litast um í frægustu söfnum Frakka og Breta til að sjá hve einstakt þetta drenglyndi Dana var.
Ég er ekki hrifinn af þeim viðhorfum gagnvart útrás okkar á fjármálasviðinu sem komið hafa fram hjá ýmsum aðilum í Danmörku. En við því er ekkert að segja. Þar í landi eins og á okkar landi ríkir skoðanafrelsi innan hæfilegra marka og ekkert við því að segja þótt einhverjir sjái þar ofsjónum yfir því sem við erum að gera í þeirra landi.
Fráleitt er að alhæfa vegna þessa um Dani almennt og enn fráleitara að grípa til lágkúrulegra og siðlausra aðgerða.
Nú hafa siðleysingjar sett blett á málstað okkar í tvennum skilningi með athæfi sínu á friðhelgri sendráðslóð Dana.
Ég skammast mín sem Íslendingur fyrir það.
Athugasemdir
flottur pistill
Brjánn Guðjónsson, 5.3.2008 kl. 13:00
100% sammála!!
Benedikt V. Warén, 5.3.2008 kl. 13:23
Þetta er að nokkru ný sýn á Íslandssöguna en virkilega góð samantekt hjá þér. Ég er sammála þér að það hafi verið gæfa að við heyrðum undir Dani en ekki Breta. Við nutum þess að vera langt frá nýlenduveldinu og þess vegna lentum við ekki í meiri harðræðum en raun ber vitni. Þá verður að segja að Danir hafa komið fram við okkur með miklum sóma eftir að landið fékk sjálfstæði. Við eigum að sjálfsögðu að rækta samband okkar við Dani við eigum ekki aðrar vinaþjóðir jafngóðar og Dani og Norðmenn.
Jón Magnússon, 5.3.2008 kl. 13:45
Hverju ætli hinir enskumælandi veggjakrotarar hafi eiginlega verið mótmæla?
Er ekki eitt atriði sem þú gleymir í annars góðri yfirferð, spyr einn sem búið hefur lengi í Danaveldi og skrifað um þá og rannskakað.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.3.2008 kl. 14:24
Ég þekki málið ekki, veit ekki hvað var krotað, svo ég get ekki dæmt um það. Færslan var þó vel skrifuð og sýndi mér nýja, og augljósa, hlið á nýlendumálunum. Það er ekki spurning að danir eru fínt fólk upp til hópa. Ég hef hitt þá marga og þeir eru undantekningalaust vel að sér í málefnum Íslands.
En um móðuharðindasöfnunina. Komst það fé einhvern tíma til skila? Minnir mig ekki að einhver (íslendingur) hafi notað það í frekar slæma fjárfestingu eða eitthvað álíka?
Villi Asgeirsson, 5.3.2008 kl. 15:59
Ég má til með að gera smáathugasemd! Þeir sem krotuðu á sendiráð Dana verða sjálfir að bera ábyrgð á skemmdarverkum sínum, ekki íslenska þjóðin. Sem Íslendingur skammast ég mín ekki fyrir hegðun manna sem eru mér óviðkomandi og ég ber ekki ábyrgð á. Aftur á móti þá þykir mér mjög leiðinlegt til þess að vita að hér á landi séu aumingjar sem virða ekki vinskap Dana og Íslendinga.
Helga (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 16:09
Sammála Helgu þó ég vilji taka aðeins sterkar til orða og segja að mér finnist Ómar vera með dálítið uppskrúfaða þjóðernisrembu og fortíðarhyggju í pistlinum. Verð sennilega að bæta við að það er mín túlkun á pistlinum svona rétt til að forðast málfrelsi dómstólanna.
Fyrst að Jonni Sig er uppá borðinu ekki gleyma að danskar kerlur hjálpuðu mikið til við að styðja hann og þá aðallega neðan mittis.Mér finnst það ágætis lýsing sem maður heyrði í algeru gáleysi á göngum Árnastofnunar fyrir mörgum árum að íslendingar gerðu við dani það sem íslendingar eru bestir í en það er að svindla á leikreglunum og komast upp með það :)
Magnús (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 18:55
Mjög fín skrif hjá þér Ómar, eins og þér var líkt og hægt að taka undir hvert orð.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 5.3.2008 kl. 19:41
Takk Ómar fyrir þín mjög svo þarflegu orð. Held að landinn ætti að skammast sín fyrir svona háttarlag og reyna að halda frá að gera sig að atlægi í alþjóðlegu diplómatisku sambandi. Við eigum gott eitt að þakka Dönum. Held að kominn sé tími til að endurskrifa sjálstæðisbaráttusögu Íslands.
Bestu kveðjur til Íslands og þakkir mestar og bestar fyrir orðin þín.
Baldur Baldursson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 21:23
Íslands sagan Jónasar frá Hriflu var skrifuð þegar við vorum enn að brjótast undan veldi Dana. Í henni er ekki minnst einu orði á Landsnefndina 1771 og þegar sagan er lesin er hún svolítið sett upp sem glíma góðu og kjarkmiklu Íslendinganna, svo sem Skúla fógeta, við vonda Dani.
Fráleitt er að það hafi verið þannig og þetta kemur vel fram í greiningu síðari tíma fræðimanna á þessum tímum. Þvert á móti voru það framfarasinnaðir og umbótasinnaðir Danir sem stóðu í stappi við afturhald þess tíma í Danmörku, og það voru þessir umbótamenn sem stóðu að baki Skúla og öðrum þeim Íslendingum, sem vildu umbætur og breytingar.
En afturhaldið í Danmörku átti öfluga bandamenn á Íslandi sem ekki máttu heyra að hér yrði til dæmis komið á fót öflugri útgerð stærri skipa með tilheyrandi hafnarbótum og þéttbýlismyndun. Þannig var Páll í Selárdal langt á undan samtíð sinni og eins og hrópandi í eyðimörkinni með sínar byltingarkenndu umbótahugmyndir.
Ómar Ragnarsson, 5.3.2008 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.