5.3.2008 | 19:04
RAGNAR REYKÁS BLÓMSTRAR.
Um fátt talar Íslendingurinn meira núna en kreppuna sem sé skollin yfir, til dæmis með svo hroðalegu háu bensínverði að allt sé að fara til fjandans. Viðbrögð Íslendinga við þessu ofurháa bensínverði eru hins vegar þau að fluttir inn og keyptir miklu fleiri og stærri bílar en nokkru sinni fyrr og fleiri Íslendingar eru á ferð í útlöndum en nokkru sinni fyrr á þessum árstíma. Kortanotkun stórvex og annað er eftir því.
Þetta er Ragnar Reykás eins og hann gerist bestur og þetta er svipað fyrirbæri og 1967 þegar kreppa var að skella á og aldrei voru farnar fleiri og dýrari utanferðir, meira að segja á þremur stórum erlendum skemmtiferðaskipum og hefur það aldrei síðan verið leikið eftir.
Hugsunarháttur okkar virðist vera sá að stórauka eyðsluna áður en kreppan er skollin á meðan peningarnir eru til. Síðan treysta menn á það að daglegt tal forsætisráðherrans um nauðsyn á áframhaldandi stóriðju- og virkjanaframkvæmdum verði að veruleika.
Þá verður hægt að endurtaka leikinn frá 2002 þegar þenslan skall á ári áður en framkvæmdirnar hófust og sérfræðingur í Seðlabankanum fann út meira en 80 prósent hennar fólst í auknum yfirdráttarlánum.
Athugasemdir
Nema að menn kaupi meira og meira til þess að "friðþægja" sjálfan sig, minnir að það sé einkenni á kaupóðu fólki sem er að komast í þrot
DoctorE (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 19:43
þad er alltaf sama sagan med þig og þína fjølskildu Ómar þarna Ragnarsson. Mar mar bara áttar sig ekki å þessu!
Gulli litli, 5.3.2008 kl. 22:10
þetta er "íslenski lífsstíllinn", við bökkum ekkert með hann. Spara hvað er það? Eyðum, eyðum meira! Kaupum fullt af drasli til að auka lífsánægju okkar. Ekki vilja menn að við dettum í þunglyndi og volæði?!
Ari (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 00:36
Já það er eins og fyrirhyggjan hjá mörgum sé jafnfjarri og keisarans hallir í Kína.
Í minnnigargrein eftir Braga Kristjónsson bóksala, meistara minningargreinanna, segir hann um alkunnan athafnamann sem auðgaðist mjög af þeim veikleika Íslendingsins að lifa um aldur fram:
„Peningur í kistu græðir ekki og eins vissi hann, að allt er myntinni mögulegt. Svo íheldinn gat þessi fjölkynngisfulli maður verið, að tómlæti hans líktist stundum ömurlegum ofstopa. Tækju menn á sig skuldbindingu, yrðu þeir líka að standa við hana. Ella beitti hann þeim ráðum, sem honum einum henta. Af því eru sprottnar þjóðsögur. Samt hafa langflestir komist vel af við hann, hafi þeir ekki fallið í þann drekkingarhyl, að beita því eina vopni, sem bitrast lagði þá sjálfa og hinu eina, sem næsta fráleitt var gagnvart S.: blekkingunni.“
Af ávöxtunum skulum við þekkja þá - eigum við ekki að forðast þá súru og beisku?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.3.2008 kl. 12:20
Sent aftur vegna leiðréttingar á einu orði:
Já það er eins og fyrirhyggjan hjá mörgum sé jafnfjarri og keisarans hallir í Kína.
Í minnnigargrein eftir Braga Kristjónsson bóksala, meistara minningargreinanna, segir hann um alkunnan athafnamann sem auðgaðist mjög af þeim veikleika Íslendingsins að lifa um efni fram:
„Peningur í kistu græðir ekki og eins vissi hann, að allt er myntinni mögulegt. Svo íheldinn gat þessi fjölkynngisfulli maður verið, að tómlæti hans líktist stundum ömurlegum ofstopa. Tækju menn á sig skuldbindingu, yrðu þeir líka að standa við hana. Ella beitti hann þeim ráðum, sem honum einum henta. Af því eru sprottnar þjóðsögur. Samt hafa langflestir komist vel af við hann, hafi þeir ekki fallið í þann drekkingarhyl, að beita því eina vopni, sem bitrast lagði þá sjálfa og hinu eina, sem næsta fráleitt var gagnvart S.: blekkingunni.“
Af ávöxtunum skulum við þekkja þá - eigum við ekki að forðast þá súru og beisku?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.3.2008 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.