6.3.2008 | 12:17
VONLAUST VERK.
Skolun Miklagljúfurs á þann hátt sem reynt hefur verið með nokkurra ára millibili er vonlaust verk. Þetta þori ég að fullyrða eftir að hafa skoðað gljúfrið og siglt eftir Coloradoánni neðan við Clen Canyon stífluna, auk þess að kynna mér bækur og rannsóknir á ánni og gljúfrunum.
Áður en þessi virkjun, sem líkist Kárahnjúkavirkjun meira en flestar aðrar, var gerð, sáu aurug vorflóð árinnar um að hreinsa farveginn, viðhalda Miklagljúfri með því að sverfa það með aurnum og síðast, en ekki síst, að koma í veg fyrir að aurug vorflóð þveránna breyttu smám saman farveginum á þann hátt að fylla upp í hann með aurkeilum.
Aurinn skapaði líka og lyfti undir lífríki í ánni og ekki síður í hafinu við ósa árinnar, líkt og gerst hefur í Kína og einnig hér á landi áður en byrjað var að safna aurnum í miðlunarlón. Áin hreinsaði óshólmana og bar í þá aur, sem virkaði eins og áburður og kom í veg fyrir að hið sama gerðist og nú hefur gerst í San Joachim dalnum í Kaliforníu og víðar þar sem salt og kalsíum hefur drepið jarðveginn vegna þess að aurburðinn vantar.
Glögglega sést af myndum af þessari skolun í Glen Canyon að vatnið er ekki aurugt vegna þess að það tekið í gegnum svonefnda botnrás sem er nokkrum tugum metra fyrir ofan botninn eins og í Kárahnjúkastíflu. Ekki er hægt að hafa botnrásina í þessum stíflum við botninn vegna þess að hann fyllist hratt af aurseti sem hækkar botninn ár frá ári.
Þess vegna er eina gagnið af þessari skolun sú að hleypa vatni á land sem er að blása upp vegna vatnsskorts og skorts á hreinsun eins og í San Joachim-dalnum. En þetta vatn getur ekki sorfið neitt eða nært óshólma eins og aurvatnið úr vorflóðum fyrri tíma í Coloradó-fljótinu.
Ef menn vilja kynna sér betur þetta mál mæli ég með skemmtilegri og fræðandi bók sem heitir Cadillac desert eftir Mark Steiner og fjallar um ótrúlega líkt mál og Kárahnjúkavirkjun.
Í báðum tilfellum snerist deilan í upphafi um tvö svæði þar sem nafn annars svæðisins byrjaði á stafnum E. Náttúruverndarfólk í Bandaríkjunum átti í upphafi um það að velja að einbeita afli sínu gegn virkjun í Echo Park eða í Clen Canyon og valdi Echo Park, af því að það þekkti það svæði betur.
Því tókst að bjarga Echo Park en þegar David Brower forystumaður náttúruverndarbaráttunnar sá hvílík arfamistök þetta voru, vegna þess að Clen Canyon og áhrifin á lífríki og umhverfi allt til sjávar voru margfalt meiri, varð þetta svo mikið áfall fyrir hann að vinir hans urðu að bjarga honum frá því að fremja sjálfsmorð.
Hér heima byrjaði samsvarandi nafn líka á E, Eyjabakkar. Fleiri þekktu Eyjabakka en Hjalladal og Dimmugljúfur og Eyjabökkum varð bjargað, en þó ekki betur en svo, að stórfelld umhverfisspjöll teygja sig allt inn að þeim á tvo vegu.
Þegar upp var staðið fengu virkjanasinnarnir enn meira hér en í Bandarikjunum, því að báðar jökulsárnar plús þverár voru virkjaðar og miðlunarrými varð meira en orðið hefði í samræmi við upphaflegu áætlunina um gerð bæði Eyjabakkalóns og Hálslóns.
Allt frá árinu 2000 þegar málinu var stillt þannig upp að þyrma Eyjabökkum með því að stækka Hálslón hefur það verið mat mitt að skárra hefði verið að klára Fljótsdalsvirkjun og sökkva Eyjabökkum en þyrma Hjalladal, heldur en að fara út í þá lausn sem varð niðurstaðan.
Þetta mat byggist á eftirfarandi og er þá einkum haft í huga hvað er einstakt og hvað á sér hliðstæðu.
Fljótsdalsvirkjun:
Minni þensla.
Hæfilegri innspýting í þjóðlífið á Austurlandi.
Eyjabakkar næst stærsta fyrirbærið af þessu tagi á Íslandi. Þjórsárver eru stærri og enn merkilegri.
Sjónmengun aðeins af Snæfelli.
Mun minni minnkun á aurburði til sjávar en hjá Jökulsá á Dal.
Kárahnjúkavirkjun:
Of mikil þensla.
Kollsteypur í þjóðlífinu eystra og neikvæðari áhrif á jaðarbyggðir.
Margfalt stærra áhrifasvæði og það er nær miðju víðernisins fyrir norðan Vatnajökul.
Sjónmengun af öllum helstu fjöllum og útsýnisstöðum frá Herðubreið og Kverkfjöllum til Snæfells.
Nær algerlega tekið fyrir aurburð til Héraðsflóa.
Annarri jökulsánni veitt yfir í hina og hún máð algerlega af yfirborði jarðar.
Uppfoksvandamál af þurrum fjörum Hálslóns snemmsumars.
Miklu víðtækari eyðilegging gróðurlendis, sú mesta í einu vetfangi í sögu þjóðarinnar.
Hrikaleg eyðilegging á einstæðum sköpunarverkum Brúarjökuls, sem áttu engan sinn líka í heiminum:
Bjó með mesta skriðhraða heims til einstaka landslagsheild:
Krákustígshryggi.
Hrauka.
Hjallalandslagið í Hjalladal.
Töfrafoss og Stuðlagátt.
Rauðuflúð, Stapa, Rauðagólf og komandi Rauðagljúfur á botni dalsins.
Hafrahvammagljúfur. Það á smám saman eftir að fyllast af grjóti og skriðum sem áin hreinsar ekki lengur með tíu milljón tonnum árlega af sverfandi sandi. Hið eina af ofangreindum fyrirbærum, sem sleppur við eyðileggingu, eru Krákustígshryggirnir.
Í Bandaríkjunum var forystumaður náttúrverndarfólks á barmi sjálfsmorðs þegar hin hrikalegu mistök urðu honum ljós. Á Íslandi virðast samsvaranndi og verri mistök ekki valda mönnum slíku hugarangri.
Miklagljúfur skolað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú gefst ekki upp!
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.3.2008 kl. 17:56
ja, gódur Guntar TH .
Bernt Tove (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 18:18
Flott færsla, ennþá betri athugasemdir!
Villi Asgeirsson, 6.3.2008 kl. 19:27
Fyrir fjórum árum unnu tvær konur til verðlauna vegna lokaverkefnis sem þær gerðu í Tækniskólanum. Þær könnuðu arðsemi þess annars vegar að virkja jökulár í Skagafirði og hins vegar að byggja þar áfram upp ferðamannaiðnað með fljótasporti og tilheyrandi. Það kom í ljós að virkjunin yrði úrelt eftir 50 ár og stíflan full af leir, en ferðamannaiðnaðurinn myndi margborga sig. Jóhanna Jónsdóttir og Rósa vinkona hennar héldu til Ítalíu og tóku á móti verðlaunum fyrir ritgerðina sína en þetta vakti hverfandi litla athygli hér heima. Jóhanna vinnur nú sem vörustjóri hjá Bláa lóninu.
Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.