10.3.2008 | 02:08
SVIPAÐ OG HEIMA?
Á þriggja daga ferð um "Íslendingabyggðir" í Florida þessa dagana sést svipuð tilhneiging hjá löndum vorum hér og er hjá innflytjendum frá öðrum þjóðum heima. Hér búa margir landarnir nokkrir jafnvel allmargir saman í sömu götunni eða sama hverfinu. Þegar við undrum okkur yfir því að fólk af erlendum uppruna hópist á svipaðan hátt saman heima ætti það ekki að vera svo óskiljanlegt. Þetta virðumst við gera sjálf þegar við flytjum til útlanda.
Hér í Ameríku virðist hins vegar ekki vera hætta á því að Íslendingarnir hópist svo rækilega saman að úr verði íslenskar nýlendur. Bandaríkjamenn hafa langa reynslu af innflytjendum og allt þjóðfélagið byggðist þannig upp og byggist enn þannig upp.
Mjög fróðlegt var að heyra viðtal við Jón Óttar Ragnarsson nýlega þar sem hann ræddi þessi mál og um það hvernig við eigum að læra af þjóðum eins og Bandaríkjamönnum um það hvernig best verði siglt fram hjá kynþáttavandamálum.
Við hjónin erum nú í heimsókn hjá vinafólki í "Íslendinganýlendu" við Virginíustræti í Duneden á vesturströnd Florida og sjáum ekki annað en að landarnir falli vel inn í hverfið og hafi daglegt samneyti við annað fólk hér í götunni á eðlilegan og vinsamlegan hátt. Kannski hjálpar til að þetta fólk er álíka stætt og nágrannarnir en ekki ódýrt erlend vinnuafl sem skapar hættu á gjá milli stétta.
Þorrablótið í gærkvöldi á Melbourne beach var eitt hið besta sem ég hef lengi verið á og byggi ég þann dóm minn á 45 ára gammalli reynslu. Það vera og þeim, sem að því stóðu, til mikils sóma.
Athyglisvert er að sjá hvernig golfunnendur flykkjast hingað en það mun stafa af því að mun ódýrara er að stunda golf hér en í Evrópu.
Ég hef margsagt að fyrir andlega og líkamlega heilsu væri það gott ef við Íslendingar hefðum efni á því að "loka sjoppunni" Íslandi frá þrettándanum fram á góu og byrja þorrablótin heima þá.
Fyrir aðeins nokkrum árum þýddi ekkert fyrir skemmtikrafta að fjalla um pólitíkina og nýjustu atburðina heima á þorrablótum erlendis, - langflest fólkið fylgdist ekkert með því.
Með tilkomu netsins er þetta gjörbreytt. Þegar ég gerði smá könnun á þorrablótinu í gærkvöldi með því að spyrja hvort þorrablótsgestir þekktu nokkur umtöluðustu nöfnin úr nýjustu fréttunum heima réttu nær allir upp höndina. Já, heimurinn verður sífellt minni.
Athugasemdir
Þetta er ein birtingarmynd hnattvæðingarinnar. Ég öfnda þig að vera þarna í "Sólar ríkinu", er nokkurnveginn að fá upp í kok af þessum vetri sem hefur verið með þeim verri í áraraðir hér eystra. Skíðamenn geta þó ekki kvartað (loksins)
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.3.2008 kl. 10:20
Ég þekki þetta, enda hef ég verið búsettur erlendis í 15 ár. Ég hef að vísu aldrei sóst í íslendinga, en það gæti breyst með komu barnsins. Hann er nú ársgamall og hefði gott af að umgangast íslenskumælandi fólk meira en hann gerir.
Netið hefur gjörbreytt heiminum. Ég man að á Lundúnarárunum, 1993-1995 hafði ég ekki hugmynd um hvað var að gerast heima. Núna fylgist ég með þegar tími gefst. Allt sem ég þarf að gera er að opna ferðatölvuna og íslenskar fréttir blasa við mér.
Njóttu svo Florida. Ég hef verið þarna á flestum árstímum og það er yndislegt. Kunningjafólk okkar býr í Sarasota og við förum oft þangað með viðkomu á Íslandi. Eitt það besta sem við gerum er að fara fyrir sólarupprás niður á Casey Key í Venice, þar sem hann veiðir fisk. Það er yndislegt að finna hvernig loftið hitnar við sólarupprás og fylgjast með fiskinum í tærum sjónum. Svo eru góðar likur á að maður sjái höfrunga og sækýr. Það myndi sannarlega gera íslendingum gott að fara þarna niður eftir í versta skammdeginu.
Villi Asgeirsson, 10.3.2008 kl. 10:30
Takk fyrir góðar óskir. Ekki veitir af þeim því að á leiðinni hingað fór að grafa heiftarlega í gömlu kýli á bakinu á mér og þetta er því hálfgert sjúkrastand á mér. En þá sést líka hvað það getur verið dýrmætt að landinn sé ekki einn á báti því að hér í Duneden er íslenskur hjúkrunarfræðingur, Kristbjörg Stefánsdóttir, sem tók til sinnar ráða í gær með melalakúr og meðferð svo að ég er ekki alveg bakk þótt skakkur sé.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2008 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.