SÖNN UMHYGGJUSTÖRF.

Nokkurra daga dvöl mín á Borgarspítalanum í Reykjavík hefur skerpt á vitund minni fyrir íslenska heilbrigðiskerfinu og stolti mínu yfir því fólki sem vinnur þar sönn hugsjónastörf með hugarfarinu "fyrir lífið sjálft" eins og Happdrætti SÍBS orðar það. Hér hefur þetta fólk unnið nákvæm vísindastörf í tvísýnum dansi til að bjarga því sem bjargað varð eftir heiftarlega sýkingu í kýli í baki mínu, sem ég var svo óheppinn að fá fyrir átta dögum á leiðinni út til Bandaríkjanna til að skemmta þar.

Íslenskir sóttvarnarlæknar hafa áorkað því að koma í veg fyrir að nýjustu og skæðustu bakteríurnar erlendis hafi borist til landsins og því búum við í besta landi heims hvað það snerti, sem að mér sneri. Og það er þannig sjálfsagt á fleiri sviðum, - þarf ekki annað en að nefna hreina kranavatnið í Reykjavík sem dæmi.  

Þar dróst í tvo sólarhringa að ég fengi sýklalyf í Bandaríkjunum og þau reyndust ekki ráða við sýkinguna, voru einfaldlega ekki réttu lyfin. Ef ég hefði freistast til að leita á náðir læknis í heilbrigðiskerfi voldugustu þjóðar heims, bara til að láta stinga eina nálarstungu, hefði ekki verið hægt að skera mig upp hér heima fyrr en þremur til fjórum dögum eftir að ég kom heim, vegna þess að fyrst hefði orðið ganga tryggilega úr skugga um það að í mér leyndust ekki hinar nýju, skæðu bakteríur.

Sýkingin óx gríðarlega hratt á leiðinni hingað heim á miðvikudagsmorgun og var á mörkum þess að fara út í allt æðakerfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En fyrir rétt, nákævm og markviss viðbrögð lækna og hjúkrunarliðfs hér var sýkingin stöðvuð með svæfingu og skurðaðgerð strax á fimmtudagskvöld, daginn eftir að ég kom heim að vestan. 

Ótal dæmi eru um það hve lítið þarf út af að bera á fjölmörgum sviðum lækninga. Mér var til dæmis kunnugt um afleiðingar þess fyrir mörgum árum að ekki var farið nógu nákvæmlega að við meðferð nálar við dælingu lyfja í æð.

Fagmennska, alúð og hugsjónir fólksins sem hér vinnur hefur fyllt mig þökk og stolti af því að vera Íslendingur eins og það, - stolti yfir því að búa í besta landi heims.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jahérna Ómar, þetta er svakalegt að lesa, þú hefur ekki verið feigur, sem betur fer. Ég óska þér skjóts bata og vona innilega að þetta hafi engin eftirköst í för með sér..

Mér þykir leiðinlegt hvernig einhverjir sem skrifa í athugasemdarkerfi þitt eru að misnota það, eins og í færslu þinni hér á undan. Ég hef þegar haft samband við mbl og kvartað yfir þessu og mun hafa samband við lögregluna strax eftir helgi. Ég fæ eiginlega samviskubit yfir því að ég skuli draga svona óþveraskap á eftir mér inn á síðuna þína.

Batakveðjur,

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2008 kl. 23:16

2 Smámynd: Ragnheiður

Við eigum afbragðslækna hér og hjúkrunarfólk, það er alveg satt. Góðan bata !

Ragnheiður , 15.3.2008 kl. 23:19

3 Smámynd: Áddni

Það er fyrst þegar að maður starir önnur heilbrigðiskerfi í augun og sér fyrstu hendi þjóðfélagsaðstæður að maður áttar sig á því hvað við höfum það ótrúlega gott hér á landi. Svo sannarlega er ísland best í heimi! Gangi þér vel með batann!

Áddni, 16.3.2008 kl. 09:30

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Láttu þér batna sem fyrst Ómar!

Júlíus Valsson, 16.3.2008 kl. 15:04

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég óska þér góðan bata. Vonandi hefur þú góða páskadaga fram undan.

Úrsúla Jünemann, 16.3.2008 kl. 17:09

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Óska þér góðs bata.

Ég var í tíu daga á Borgarspítalanum nýlega og er orðavant yfir færni og hæfileikum þessa fólks.

P.s.

Er ekki íslenksara að segja að sýklar valdi sýkingum en "bakteríur"?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.3.2008 kl. 19:35

7 identicon

Óska þér góðs bata Ómar minn.

Gunnar (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 19:47

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Gunnar, fyrir umhyggju fyrir siðlegri umræðu. Ég hef vegna lasleika ekki haft tíma til að fara yfir allar athugasemdir og þessi fór fram hjá mér. Ætla að skoða hana.

Og ég biðst afsökunar á að nota orðið baktería þegar hið frábæra íslenska orð sýkill er fyrir hendi og hefur yfirburði yfir hið erlenda, - sérstaklega þó þann nauðsynlega kost að vera með færri atkvæði.

Ómar Ragnarsson, 16.3.2008 kl. 20:10

9 identicon

Óska þér góðs bata Ómar.

Ég gleðst yfir því að menn sjái að sér með skrifum sínum. Það er fátt verra en skot úr launsátri og það gleður mig sérstaklega að GUntar TH hefur orð á þessu.

Hafið góðar stundir.

kv. Bernt Tove

Bernt Tove (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 21:08

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Netstjóri Mbl fjarlægði þessa ósmekklegu athugasemd skrifaða í mínu nafni en þetta mun fara sína leið til lögreglunnar á morgunn. Annars bloggaði ég um þessa óskemmtilegu reynslu og sjá má  HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2008 kl. 22:21

11 identicon

Voðalegt væl er þetta í þér Gunnar Th. Varst þú ekki sjálfur að gefa bæði mér og Bernt Tove nöfn , sem við könnums ekkert við, maður ætti bara að fara beint í lögguna ! Svo sá ég þessa athugsemd sem þú talar um og hef séð margar eftir hann, hann notar nafnið Gunnar TG. en ekki Gunnar Th. , hver segir að hann hafi verið að þykjast vera þú ??

Og svo kemur vorið !

Já og Ómar. óska þér góðs bata ! 

Bjartur (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 09:36

12 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Ég eins og margir margir óska þér góðs bata,hef saknað skemmtilegra skrifa þinna.Ég var þarna í janúar og að finna að maður sé eitthvað í höndum þessa fólks og það sé að vinna í okkar þágu það er góð tilfinning.Störf á sjúkrahúsum er að stórum parti hugsjónarstörf en hvernig verður það þegar búið verður að einkavæða má þá vera hugsjón.

Guðjón H Finnbogason, 18.3.2008 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband